Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 216/2012

Fimmtudaginn 27. nóvember 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. nóvember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 20. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. janúar 2013. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 28. febrúar 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 4. mars 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1976 og 1984. Þau eru í skráðri sambúð og búa ásamt barni sínu í eigin 156 fermetra raðhúsi að C götu nr. 28 sveitarfélaginu D. Kærandi B er eigandi eignarinnar.

Kærandi B starfar hjá V og nema útborguð laun hennar að jafnaði 202.558 krónum á mánuði. Kærandi A fær greiddan endurhæfingarlífeyri frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og nema greiðslur til hans að jafnaði 111.293 krónum á mánuði. Að auki fá kærendur barnalífeyri, barnabætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda 412.189 krónum.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til áranna 2007 og 2008. Fyrrum vinnuveitandi kæranda A hafi orðið gjaldþrota 2007 og hafi kærandi ekki fengið greidd laun í nokkra mánuði. Hann hafi stofnað verktakafyrirtækið X ehf. árið 2007 en félagið hafi orðið gjaldþrota í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Árið 2009 hafi hann lent í vinnuslysi og glími enn við afleiðingar þess. Hann hafi verið óvinnufær frá mars 2010. Þá hafi kærandi B ekki snúið til starfa eftir fæðingarorlof og hafi hún verið launalaus frá árslokum 2006 til júní 2007.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 74.254.431 króna og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) utan kröfu að fjárhæð 621.250 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2009.

Kærandi A hefur gengist í sjálfskuldarábyrgðir og nemur fjárhæð þeirra 22.512.549 krónum.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. nóvember 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að þau fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kærendur hafi leitað til umboðsmanns skuldara þar sem kærandi A hafi lent í vinnuslysi árið 2009 og fengið vægt heilablóðfall 2010. Þar með hafi hann þurft að fara af vinnumarkaði en á þessum tíma hafi hann haft góða atvinnu og öruggar tekjur. Áður hafi kærendur ekki verið í vandræðum með að láta enda ná saman.

Kærandi A kveðst lengi hafa stundað mikil viðskipti með bíla en hann hafi lent í því að eiga allt of marga bíla þegar efnahagshrunið varð 2008. Bílana sé hægt að selja fyrir virði þeirra og rúmlega það.

Kærendur kveða mun fleiri atriði hafa verið lögð til grundvallar synjun umboðsmanns skuldara en þau sem komi fram í því bréfi embættisins sem þeim hafi verið gefinn kostur á að andmæla. Í bréfinu hafi aðeins verið beðið um gögn vegna tveggja bílasamninga, kaupa á einni bifreið og tveggja skuldabréfa. Kærendur hafi reynt að koma til umboðsmanns öllum gögnum sem óskað hafi verið eftir. Synjun hafi þó byggst á fleiri atriðum svo sem ábygðarskuldbindingum kæranda A, ógreiddum reikningum, sakarkostnaði og fleiru. Þetta geti ekki talist eðlileg málsmeðferð en kærendur telji að í bréfinu hafi umboðsmanni borið að tiltaka allt sem talið hafi verið óskýrt eða leitt gæti til synjunar á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun samkvæmt andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga. Einnig telji þau að umboðsmaður hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaganna, sbr. 5. gr. lge., en það sé í verkahring umboðsmanns að kynna sér málið.

Kærendur kveða rétt að þau hafi verið tvísaga um ástæður þess að þau hafi þurft aukinn frest til að svara fyrrgreindu bréfi umboðsmanns skuldara. Kærandi A hafi verið í fangelsi á þessum tíma og hafi ekki verið í aðstöðu til að svara umboðsmanni þar sem hann hafi ekki verið með nein gögn eða tölvu. Telji hann að honum hafi ekki borið að upplýsa að hann væri í fangelsi samkvæmt 8. mgr. 2. gr. laga um persónuvernd nr. 77/2000. Í ljósi mjög sérstakra aðstæðna hafi kærendur reynt allt sem þau hafi getað til að upplýsa um þau atriði er umboðsmaður skuldara hafi óskað svara við.

Kærendur séu greiðendur samkvæmt sjö bílasamningum sem allir séu með ólögmætri gengistryggingu. Sterk rök séu fyrir því að fjárhæðir samninganna muni lækka umtalsvert. Hið sama gildi um ábyrgðir sem kærandi A hafi gengist í fyrir X ehf. og Z ehf. en umboðsmaður hafi ekki lagt mat á það hvaða áhrif ábyrgðirnar hafi haft á niðurstöðuna og hverjar þær verði eftir að endurútreikningi ljúki. Ábyrgðirnar séu vegna atvinnurekstrar og miðað við dóma Hæstaréttar um afturvirka vexti á gengislánum muni þær lækka verulega.

Umboðsmaður tilgreini ekki rétta fjárhæð á veðláni Sparisjóðs Skagafjarðar. Geri umboðsmaður ráð fyrir að fjárhæð skuldarinnar sé 4.709.393 krónur en hið rétta sé að lánið standi í 1.193.731 krónu. Sé það vegna þess að kærendur hafi unnið mál fyrir úrkurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Hafi sparisjóðurinn því þurft að lækka kröfuna. Í kjölfarið hafi kærendur farið svokallaða 110% leið og þá hafi veðlán á húsi þeirra lækkað. Einnig sé fasteign þeirra metin á um 2.500.000 krónum hærra verði en segi í gögnum umboðsmanns. Sé það verðmat byggt á gögnum frá fasteignasala sem gert hafi verið í tengslum við 110% leiðina. Svona mætti lengi telja en umboðsmaður hafi aðeins óskað eftir gögnum frá árinu 2008.

Umboðsmaður skuldara greini ekki rétt frá tekjum kæranda A en tekjurnar séu um 200.000 krónur á mánuði. Líklegt sé að hann fari aftur út á vinnumarkaðinn. Þá strax fái hann um 500.000 krónur á mánuði í laun en það muni gerbreyta stöðunni. Kærendur hefðu aldrei þurft að leita til umboðmanns skuldara ef kærandi A hefði ekki lent í vinnuslysi og veikindum. Hann hafi verið kominn með gott tilboð um starf í Noregi en það hefði leitt til góðra tekna.

Löng bið eftir endanlegri lausn vegna gengistryggðra lána hafi komið illa við kærendur. Þau hefðu viljað selja alla bíla í þeirra vörslu nema einn og öll tæki en það hafi ekki verið mögulegt á meðan óvissan hafi verið svona mikil. Þau telji miklar líkur á því að þau eigi einhverja peninga í bílunum en þeim sé hægt að ráðstafa til að greiða niður aðrar skuldir.

Kærendur geti útvegað þær upplýsingar sem óskað sé eftir, svo sem upplýsingar um leigu á fellihýsi, greiðslur vegna leigu á bíl og upplýsingar um innlegg þriðja aðila á reikning kæranda B vegna bílaláns. Í bréfi sínu til umboðsmanns skuldara vegna andmæla þeirra hafi þau bent á að embættið skyldi hafa samband við þau ef frekari gögn skorti. Því finnist kærendum það skjóta skökku við þegar umboðsmaður skuldara telji gögn skorta um framangreind atriði. Þau hafi ekki afhent embættinu gögn þar að lútandi þar sem ekki hafi verið beðið um gögn eða skýringar varðandi þau. Einnig hefði umboðsmaður getað kallað kærendur á sinn fund til að afla frekari upplýsinga en það hafi hann ekki gert.

Kærendur gera athugasemd við langan málsmeðferðartíma, en mál þeirra hafi verið 16 til 18 mánuði í vinnslu. Sé það sérstaklega bagalegt þar sem umsókn þeirra hafi verið synjað en stjórnsýslulög geri ráð fyrir meðalhófi við töku stjórnvaldsákvarðana. Sé ákvörðunin mjög íþyngjandi og fyrir henni verði að vera málefnaleg rök. Enn fremur telji kærendur að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem segi að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé og þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því. Skuli þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Segi þar að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt gögnum málsins hafi skuldasöfnun kærenda verið mikil árin 2005 til 2008.  

Eiginfjárstaða kærenda hafi verið eftirfarandi árin 2005 til 2008 í krónum:

 

Tekjuár 2005 2006 2007 2008
Skuldir kærenda 33.623.838 54.332.204 54.133.643 78.982.411
Eiginfjárstaða kærenda -9.042.211 -24.499.177 -24.900.394 -32.414.633

 

Á árinu 2008 hafi kærendur stofnað til tveggja nýrra fjármögnunarsamninga samtals að fjárhæð 7.340.204 krónur og þriggja lána samtals að fjárhæð 4.316.416 krónur. Á tímabilinu 12. mars til 30. maí 2008 hafi kærandi A enn fremur gengist í ábyrgðir fyrir sjö fjármögnunarsamningum fyrir félög honum tengd, alls að fjárhæð 92.953.051 króna.

Kærendum hafi verið sent bréf 1. ágúst 2012 þar sem þeim hafi verið veitt tækifæri til að gefa skýringar og leggja fram gögn sem sýndu fram á að þau hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu með því að takast á hendur nefndar skuldbindingar árið 2008. Kærendur hafi ítrekað þær skýringar sem þegar hafi verið komnar fram, þ.e. að ástæður greiðsluerfiðleika þeirra mætti rekja til tekjuleysis kæranda A á tímabili. Þá hafi kærandi A stofnað sitt eigið verktakafyrirtæki og í upphafi hafi þau sjálf þurft að fjármagna kaup á bifreið félagsins en félagið hafi staðið undir afborgunum og rekstrarkostnaði bifreiðarinnar. Þá hafi kærendur tekið bifhjól upp í skuld sem hefði annars ekki fengist greidd og jafnframt hafi þau yfirtekið áhvílandi lán. Þriðji aðili hafi fengið hjólið til afnota og greitt af láninu. Einnig hafi kærendur leigt út fellihýsi sem þau hafi keypt 2007 og haft um 450.000 krónur í leigutekjur af því á ári. Varðandi þrjú lán sem kærendur hafi stofnað til 2008 kveða kærendur eitt þeirra til komið vegna ábyrgðar á yfirdrætti sem fallið hafi á kæranda B en hún hafi ekki þurft að standa undir afborgunum af láninu þar sem upphaflegur skuldari hafi lagt inn á reikning hennar mánaðarlega. Annað lánið hafi verið skuldbreyting en skýringar hafi ekki verið gefnar á þriðja láninu.

Engin gögn hafi fylgt skýringum kærenda sem sýni fram á að þau hafi ekki sjálf greitt af láni vegna bifhjóls, bifreiðar fyrrgreinds félags eða láns sem stafi af ábyrgð á yfirdrætti. Leigutekjur vegna fellihýsis séu ekki taldar fram á skattframtölum og því liggi ekki fyrir nein gögn er sýni fram á leigutekjur.

Komið hafi í ljós að ráðstöfunartekjur kærenda hafi ekki farið minnkandi eins og kærendur hafi greint frá. Þvert á móti hafi þær aukist ár frá ári á tímabilinu 2005 til 2009 en það ár hafi tekjur lækkað lítillega. Tekjur kærenda hafi verið hæstar á árinu 2010 en þá hafi sameiginlegar ráðstöfunartekjur þeirra að jafnaði verið 1.082.330 krónur á mánuði. Um hafi verið að ræða launatekjur, úttekt séreignarsparnaðar, lífeyrisgreiðslur til kæranda A og skattfrjálsar tekjur kæranda B. Þetta megi sjá af skattframtali vegna ársins 2010.

Þegar horft sé til tekna kærenda liggi fyrir að þau hefðu átt að vera í aðstöðu til að minnka skuldsetningu sína og þá sér í lagi meðan kærandi A var enn launþegi en þess í stað hafi þau aukið við skuldbindingar sínar. Mest hafi skuldaaukningin verið árin 2007 og 2008. Þá hafi kærendur gefið þær skýringar á tilurð tveggja fjármögnunarsamninga frá 2007 og 2009 að þeir hafi verið fyrir hönd þriðja aðila. Verði slíkt að teljast áhættusamt þar sem líklegt megi telja að viðkomandi aðili hafi ekki uppfyllt skilyrði lánveitenda.

Kærendur telja ranga upphæð tilgreinda á veðláni hjá Sparisjóði Skagafjarðar. Umboðsmaður miði við þá upphæð sem fengist hafi hjá sjóðnum 17. október 2011. Ekki hafi þótt ástæða til að kalla eftir nýjum upplýsingum á síðari stigum þar sem kærendur hafi þá þegar verið komin í greiðsluskjól og hafi ekki haft heimild til að greiða af láninu. Hafi því aðeins verið um óverulegar breytingar á kröfufjárhæð að ræða. Þá hafi kærendur ekki stutt fullyrðingu sína þeim gögnum er geti hrundið því er fram komi í skuldayfirliti.

Kærendur hafi óskað skýringa á afgreiðslutíma umsóknar þeirra en mál þeirra hafi verið 17 mánuði í vinnslu. Embætti umboðsmanns skuldara harmi langan afgreiðslutíma umsóknar en taki þó fram að hann sé ekki óvenjulegur sé tekið mið af sambærilegum málum og með hliðsjón af fjölda þeirra umsókna sem embættið hafi haft til meðferðar. Geti slíkur dráttur þó aldrei leitt til þess að umsókn verði samþykkt séu önnur skilyrði lge. ekki til staðar. Einnig hafi kærendur fengið rúma fresti við vinnslu málsins og skýri það að einhverju leyti drátt á málsmeðferð. Kærendur hafi fengið bréf 10. ágúst 2012 þar sem þeim hafi verið gefið tækifæri til að nýta andmælarétt sinn. Hafi þau óskað eftir tæplega tveggja mánaða fresti á grundvelli ástæðna sem þau hafi síðan orðið tvísaga um. Fallist hafi verið á frestbeiðni kærenda og hafi andmæli þeirra borist 7. október 2012. Eftir það hafi málið verið tekið til skoðunar á ný og í kjölfarið tekin ákvörðun um synjun 1. nóvember 2012.

Kærendur hafi gert athugasemdir við að í ákvörðun sé þess getið að ekki hafi fylgt gögn til stuðnings staðhæfingum um að þau hafi ekki þurft að greiða af tilteknu láni og að þau hafi fengið leigutekjur af fellihýsi. Í fyrrnefndu bréfi embættisins til kærenda segi orðrétt: „Því er óskað eftir upplýsingum sem sýna fram á að þið hafið ekki tekið fjárhagslega áhættu á árinu 2008 með umræddum skuldbindingum. Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er þér veittur 15 daga frestur frá móttöku þessa bréfs, til að tjá þig skriflega um efni málsins og styðja það með gögnum.“ Kærendum hafi því mátt vera ljóst að nauðsynlegt væri fyrir þau að skýra mál sitt á fullnægjandi hátt. Einnig hafi þau verið í reglulegum samskiptum við starfsmenn embættisins og hafi athygli þeirra verið vakin á þeim möguleika að boðið væri upp á aðstoð við ritun greinargerðar og almenna ráðgjöf í tengslum við umsókn.

Að mati umboðsmanns skuldara megi fyrst og fremst rekja fjárhagsvanda kærenda til óhóflegrar skuldsetningar á árunum fram til 2008 og óvinnufærni kæranda A árið 2010. Ekki verði dregið í efa að efnahagsástand síðustu ára hafi haft mikil og neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu kærenda en vandinn hafi þó hafist mun fyrr. Í greinargerð með frumvarpi til lge. segi að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Umboðsmaður skuldara telji að kærendur hafi stofnað til óhóflegra skuldbindinga og ábyrgðarskuldbindinga og sé þá bæði litið til skuldaaukningar hvers árs fyrir sig og eðlis skuldanna en einnig greiðslugetu og eignastöðu kærenda þegar til skuldanna hafi verið stofnað. Ekki verði talið að um nauðsynlega skuldsetningu hafi verið að ræða, svo sem til að tryggja húsnæði eða framfærslu. Fjöldi fjármögnunarsamninga, miklar ábyrgðar­skuldbindingar vegna félaga og vaxandi skammtímaskuldir þrátt fyrir ágæta greiðslu­getu gefi til kynna að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Því sé ekki viðeigandi að kærendur eigi kost á greiðsluaðlögun. Þyki skýringar kærenda ekki breyta því mati.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að þau fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðslu­aðlögunar­umleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Kærendur telja að við meðferð málsins hafi umboðsmaður skuldara látið hjá líða að virða andmælarétt þeirra og enn fremur brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 1. ágúst 2012 var óskað eftir upplýsingum frá kærendum. Í bréfinu voru tilteknar tekjur kærenda, eignir þeirra og skuldir árin 2005 til 2008. Þar kom einnig fram að kærendur hefðu aukið við skuldir sínar og eiginfjárstaða þeirra hefði versnað. Í bréfinu voru síðan tilteknar skuldir frá árinu 2008 vegna þriggja bílalána og tveggja skuldabréfa. Gerð var grein fyrir framfærsluviðmiði Ráðgjafarstofu heimilanna í janúar 2008. Því næst kemur fram að nettótekjur kærenda á mánuði hafi verið samtals 825.922 krónur. Greiðslubyrði kærenda er þar talin vera 827.833 krónur á mánuði. Kærunefndin telur að tvö síðastnefndu atriðin verði ekki skilin á annan hátt en þann að nettótekjur og greiðslubyrði séu miðuð við árið 2008. Tekjurnar eru þó samkvæmt gögnum málsins ranglega tilgreindar í bréfinu en árið 2008 voru nettótekjur kærenda 885.077 krónur. Tekjurnar voru á hinn bóginn 825.922 krónur á mánuði árið 2009. Ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er rakið í bréfinu og einnig voru kærendur upplýst um að það væri mat umboðsmanns skuldara að líklegt væri að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu í skilningi þess ákvæðis. Óskað var eftir upplýsingum sem sýndu fram á að kærendur hefðu ekki tekið fjárhagslega áhættu á árinu 2008. Var kærendum boðið að tjá sig um efni málsins innan frests.

Að mati kærunefndarinnar var nefnt bréf umboðsmanns skuldara nokkuð óljóst á köflum. Þó er skýrt að í bréfinu var kærendum einungis boðið að sýna fram á að þau hefðu ekki tekið fjárhagslega áhættu með því að takast á hendur umræddar fimm skuldbindingar á árinu 2008. Andmælaréttur þeirra hjá umboðsmanni skuldara var því takmarkaður við þessar skuldbindingar. Ákvörðun umboðsmanns er á hinn bóginn bæði byggð á þeim skuldum og ábyrgðarskuldbindingum sem kærendur tókust á hendur árið 2008 og því verður að telja að við meðferð málsins hafi andmælareglu stjórnsýslulaga ekki verið gætt að þessu leyti.

Í þeim tilvikum er lægra sett stjórnvald brýtur andmælaregluna og aðili kærir ákvörðun til æðra stjórnvalds, fer um áhrif brotsins eftir málsmeðferð æðra stjórnvaldsins. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni var aðilum veitt færi á að gera athugasemdir, sbr. bréf kærunefndarinnar 6. febrúar 2013. Í svari kærenda var kvartað yfir því að umboðsmaður skuldara hefði tekið ákvörðun sem meðal annars væri byggð á ábyrgðarskuldbindingum þeirra frá árinu 2008. Kærendur gerðu þó enga tilraun til að sýna fram á fyrir kærunefndinni að fjárhagsleg framganga þeirra, þar með taldar þær ábyrgðarskuldbindingar sem þau tókust á hendur, heyrði ekki undir ákvæði c-liðar 2. mgr. lge. Þegar æðra stjórnvaldið veitir málsaðila andmælarétt um alla þætti málsins hefur verið bætt úr þeim annmarka sem varð á meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara. Brotið telst því ekki verulegt og varðar ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Í ljósi þess er það mat kærunefndarinnar að andmælaréttur kærenda hafi verið virtur fyrir nefndinni og því sé ekki efni til að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Samkvæmt 5. gr. lge. getur umboðsmaður skuldara krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingar með skriflegum gögnum. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Í rannsóknarreglunni felst ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga. Stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge. verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara lögðu kærendur ekki fram nein gögn til stuðnings fullyrðingum sínum þó að embættið hafi boðið þeim að gera það með bréfi 1. ágúst 2012 en hér var um að ræða gögn sem ekki var á færi annarra en kærenda að afla. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur því hvorki sýnt þá viðleitni né samstarfsvilja sem ætlast verður til af þeim við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun. Í ofangreindu ljósi er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns skuldara hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kærenda séu eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Lýsing 2005 Bílasamningur 4.310.660 2.506.620  
Landsbankinn 2005 Skuldabréf 1.500.000 864.894 2011
Arion banki 2005 Veðskuldabréf 19.920.000 30.493.697 2010
Arion banki 2005 Veðskuldabréf 2.580.000 1.440.823 2010
Arion banki 2006 Skuldabréf 1.606.416 1.042.474 2010
Arion banki 2006 Skuldabréf 1.330.000 768.966 2011
Sparisjóður Skagafjarðar 2006 Veðskuldabréf 3.500.000 4.709.393 2011
Landsbankinn 2006 Bílasamningur 2.762.397 2.923.910 2011
Landsbankinn 2007 Bílasamningur 2.596.571 2.208.700 2011
Landsbankinn 2007 Bílasamningur 1.139.896 878.777 2011
Landsbankinn 2007 Bílasamningur 5.015.385 4.916.007 2011
Arion banki 2007 Skuldabréf 830.000 441.037 2011
Landsbankinn 2008 Bílasamningur 2.797.927 3.597.797 2011
Íslandsbanki 2008 Bílasamningur 3.710.513 3.745.941 2011
Arion banki 2008 Skuldabréf 1.450.000 1.106.981 2011
Íslandsbanki 2008 Skuldabréf 1.260.000 803.143 2010
Íslandsbanki 2008 Yfirdráttur   1.655.398 2008
Arion banki 2010 Yfirdráttur   1.027.990 2010
Tollstjóri 2010 Sakarkostnaður 1.635.070 1.635.070 2010
Borgun 2010 Lán 264.983 159.400 2011
Sveitarfélagið Árborg 2010-2011 Fasteignagjöld o.fl. 165.282 178.450 2010-2011
Arion banki 2010-2011 Greiðslukort   890.008 2010-2011
Arion banki 2011 Yfirdráttur   967.924 2011
Sparisjóður Skagafjarðar 2011 Yfirdráttarskuldir   1.692.453 2011
Sparisjóður 2011 Greiðslukort   1.220.584 2011
Arion banki 2011 Greiðslukort   408.249 2011
Kreditkort 2011 Greiðslukort   1.153.714 2011
Tollstjóri 2012 Endurkrafa 600.000 621.250 2012
Aðrir 2011 Reikningar 163.570 194.781 2011
    Alls 59.138.670 74.254.431  

 

Á því tímabili, sem hér er til skoðunar, voru ábyrgðarskuldbindingar kærenda að höfuðstól, tekjur þeirra, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mán. (nettó) 737.182 596.382 885.077 825.922 1.082.330 589.087
Eignir 29.833.027 29.233.249 46.567.778 42.886.806 38.940.171 40.655.745
· Fasteignir 22.110.000 24.530.000 25.750.000 26.750.000 23.600.000 24.000.000
· Ökutæki o.fl. 7.180.000 4.662.000 19.796.880 15.121.009 14.801.966 16.479.509
· Hlutir í félögum     1.000.000 1.000.000 500.000  
· Bankainnistæður ofl. 543.027 41.249 20.898 15.797 38.205 176.236
Skuldir 54.332.204 54.169.276 78.982.411 82.750.106 68.355.871 70.937.190
Nettó eignastaða -24.499.177 -24.936.027 -32.414.633 -39.863.300 -29.415.700 -30.281.445
 





Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 0 0 92.953.050 92.953.050 92.953.050 92.953.050

 

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda samkvæmt gögnum málsins eru þessar í krónum:

Kröfuhafi Útgefið Skuldari Tegund Upphafleg Fjárhæð
        fjárhæð 2011
SP fjármögnun 2008 Z ehf. Bílasamningur 8.123.077 5.777.916
Avant 2008 X ehf. Kaupleigusamningur 17.810.000 5.277.473
Avant 2008 X ehf. Kaupleigusamningur 17.460.000 5.263.036
Avant 2008 X ehf. Kaupleigusamningur 5.211.788 2.154.394
Avant 2008 X ehf. Kaupleigusamningur 5.211.788 2.056.194
Avant 2008 Xehf. Kaupleigusamningur 18.682.782 1.575.376
Avant 2008 Xehf. Kaupleigusamningur 20.453.615 408.160
    Alls   92.953.050 22.512.549

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í lagaákvæðinu eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara snýr að þeim skuldum og ábyrgðarskuldbindingu sem kærendur tókust á hendur árið 2008. Tekjur kærenda voru 885.077 krónur á mánuði að meðaltali það ár. Í lok árs 2007 var eignastaða kærenda neikvæð um tæpar 25.000.000 króna. Í lok árs 2008 var eignastaða kærenda neikvæð um rúmar 32.400.000 krónur. Eignastaða þeirra versnaði því um tæpar 7.500.000 króna milli áranna 2007 og 2008. Heildarskuldir kærenda í lok árs 2007 voru tæplega 54.200.000 króna en tæplega 79.000.000 króna í lok árs 2008. Tókust kærendur þannig á hendur skuldir að fjárhæð 24.800.000 krónur á árinu 2008 en stór hluti skulda þeirra voru bílasamningar með mikilli greiðslubyrði. Telur kærunefndin að með skuldsettum bílaviðskiptum sínum hafi kærendur tekið umtalsverða fjárhagslega áhættu.

Því til viðbótar gengust kærendur í sjálfskuldarábyrgðir fyrir tæplega 93.000.000 króna á árinu 2008. Voru ábyrgðirnar að mestu leyti fyrir einkahlutafélag kærenda, X ehf. Félagið var stofnað í október árið 2007 og úrskurðað gjaldþrota í desember 2009. Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að félagið hafi verið fjárhagslega veikburða frá upphafi.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðar­skuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærendur tókust á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu á árinu 2008. Eignastaða kærenda gaf þeim heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar eins og rakið hefur verið. Verður þannig vart séð að kærendur hafi bæði getað framfleytt sér og haldið eigin skuldbindingum í skilum hvað þá tekið á sig greiðslu ábyrgðarskuldbindinganna ef á reyndi.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærendur ábyrgðust árið 2008 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan.

Þegar allt framanritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að allar ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og Bhafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta