Hoppa yfir valmynd

Nr. 503/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 503/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110058

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.         Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 354/2022, dags. 14. september 2022, var kæru kæranda vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að kæran hefði borist nefndinni að liðnum kærufresti. Þá var ekki talið að afsakanlegt hefði verið að kæran hefði borist of seint eða að um slíkt fordæmisgefandi mál væri að ræða eða að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefðust þess að taka bæri kæruna til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda 19. september 2022.

Hinn 21. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að kærandi hafi glímt við þunglyndi og kvíða í kjölfar birtingar ákvörðunar Útlendingastofnunar og hafi því ekki haft samband við lögmann sinn fyrr en of seint.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 354/2022, dags. 14. september 2022, var kæru kæranda vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að kæran hefði borist nefndinni að liðnum kærufresti. Þá taldi nefndin ekki afsakanlegt að kæran hefði borist of seint eða að um slíkt fordæmisgefandi mál væri að ræða eða að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefðust þess að taka bæri kæruna til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að kærandi hafi á þeim tíma sem ákvörðun Útlendingastofnunar var birt honum glímt við þunglyndi og kvíða og hafi af þeim sökum ekki haft samband við lögmann sinn fyrr en eftir að kærufrestur í máli hans hefði verið liðinn. Samhliða beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram læknisvottorð, dags. 4. ágúst 2022, þar sem fram kemur að kærandi hafi glímt við þunglyndi og fengið uppáskrifuð lyf.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd var kæranda veittur frestur til 5. september 2022 til að gera grein fyrir ástæðum þess að kæran barst of seint. Það er ljóst að umrætt læknisvottorð lá fyrir á þeim tíma og hefði kæranda verið í lófa lagið að leggja vottorðið fram innan þess frests. Þá verður ekki séð af vottorðinu að kærandi hafi glímt við svo mikil eða alvarleg veikindi að afsakanlegt hefði talist að kæran barst of seint. 

Að mati kærunefndar hafa atvik málsins því ekki breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli kæranda. Þá er ekki að sjá að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Gunnar Páll Baldvinsson


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta