Hoppa yfir valmynd

Nr. 252/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 252/2019

Miðvikudaginn 21. ágúst 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 18. júní 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. mars 2019 um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. mars 2019, var kæranda synjað um bætur samkvæmt 8. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga þar sem ósannað þótti með öllu að einkenni kæranda mætti rekja til slyssins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júní 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. júní 2019, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust frá eiginmanni kæranda með tölvubréfi 2. júlí 2019. Með tölvubréfi úrskurðarnefndar velferðarmála 17. júlí 2019 var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn sem staðfestu skýringar hennar. Frekari skýringar bárust með tölvubréfi 22. júlí 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn hennar um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn hennar.

Í tölvubréfi frá eiginmanni kæranda 2. júlí 2019 segir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi borist kæranda 19. mars 2019 og að í ákvörðuninni hafi komið fram að kærufrestur væri þrír mánuðir frá móttöku bréfsins. Þá hafi ákvörðunin verið kærð rafrænt til úrskurðarnefndar velferðarmála 18. júní 2019.

Í tölvubréfi frá eiginmanni kæranda 22. júlí kemur fram að kærandi noti engin nettengd tæki. Sonur kæranda hafi skráð hana á „gmail“ og líti á tölvupóstinn með löngu millibili. Eiginmaður kæranda fari ekki inn á tölvupóstinn nema hún óski eftir því.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er mælt fyrir um að ákvæði laga um sjúkratryggingar gildi um stjórnsýslukærur. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins er hin kærða ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands dagsett 14. mars 2019 og kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júní 2019. Kærufrestur byrjar að líða þegar aðila máls er tilkynnt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um sjúkratryggingar. Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 39. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um rafræna málsmeðferð. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins telst stjórnvaldsákvörðun hafa verið birt aðila þegar hann á þess kost að kynna sér efni hennar. Ákvæði stjórnsýslulaga um rafræna málsmeðferð tóku gildi með breytingarlögum nr. 51/2003. Í athugasemdum við 39. gr. laganna segir meðal annars:

„Með hliðsjón af því að rafræn meðferð máls á sér ekki stað nema þess sé óskað, beint eða óbeint, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins, verður að gera þá kröfu til aðila stjórnsýslumáls að hann fylgist með þeim gögnum sem honum berast með rafrænum hætti svipað og á við um almennar póstsendingar á heimili hans eða pósthólf.“

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun hafi ekki borist henni fyrr en 19. mars 2019. Úrskurðarnefndin aflaði upplýsinga frá Sjúkratryggingum Íslands um hvernig og hvenær hin kærða ákvörðun hafi verið birt kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur kærandi veitt samþykki fyrir því að vera í rafrænum samskiptum við stofnunina. Ákvörðunin var birt kæranda rafrænt í réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands 14. mars 2019 og var bréfið lesið samdægurs samkvæmt upplýsingum og gögnum frá stofnuninni. Því er ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að hin kærða ákvörðun hafi ekki borist henni fyrr en 19. mars 2019. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af gögnum málsins að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda 14. mars 2019. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, var liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 18. júní 2019. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 14. mars 2019 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kærandi byggir á því að hún noti engin nettengd tæki en sonur hennar líti á tölvupóst hennar með löngu millibili og eiginmaður hennar ef hún óski eftir því. Eins og fram hefur komið veitti kærandi samþykki fyrir rafrænum samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands. Í því felst meðal annars að ákvarðanir stofnunarinnar eru birtar kæranda rafrænt. Ljóst er af upplýsingum og gögnum frá stofnuninni að ákvörðunin var birt kæranda í réttindagátt sem kærandi hefur aðgang að með notkun rafrænna skilríkja eða íslykils. Kærandi átti þess kost að kynna sér ákvörðunina þegar hún var birt henni rafrænt með réttum hætti 14. mars 2019. Auk þess sýna gögn frá Sjúkratryggingum Íslands að ákvörðunin hafi verið lesin samdægurs á aðgangi kæranda að réttindagáttinni. Kærandi getur ekki firrt sig ábyrgð með því að vísa til þess að aðrir í fjölskyldunni hafi aðgang að réttindagáttinni, enda er gáttin tengd við hennar kennitölu og gerð er krafa um að kærandi auðkenni sig þegar aðgangurinn er nýttur. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Hin kærða ákvörðun er vel rökstudd og ekkert bendir til þess að úrlausn málsins geti haft þýðingarmikið fordæmisgildi. Þá eru hagmunir kæranda af úrlausn málsins, að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, ekki það mikilsverðir að rétt sé að taka kæru til meðferðar einungis á þeim grundvelli.

Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.  


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta