Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 286/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 286/2021

Miðvikudaginn 13. október 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. júní 2021, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. mars 2021 um að synja beiðni kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 28. ágúst 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. september 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að móðir kæranda væri skráður meðeigandi að bifreiðinni. Með tölvubréfi 17. desember 2020 óskaði umboðsmaður kæranda eftir endurupptöku á framangreindri ákvörðun. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. mars 2021, var beiðninni synjað á ný á þeim forsendum að þar sem eignarhald bifreiðarinnar hefði ekki breyst uppfyllti kærandi enn ekki skilyrði greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júní 2021. Með bréfi, dags. 22. júní 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. mars 2021, um að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Kæranda hafi verið synjað um uppbótina sökum þess að móðir hans sé skráður meðeigandi að bifreiðinni. Móðir kæranda hafi á árinu 2006 fengið styrk frá Tryggingastofnun til að kaupa bifreiðina og hafi í kjölfarið tryggt hana og skráð. Tilurð ráðstöfunarinnar hafi verið sú að hún hafi þurft að sjá um að greiða af lánum og annast móttöku tilkynninga og annarra þess háttar hluta sem þáverandi lögráðandi hreyfihamlaðs og lögblinds einstaklings undir lögaldri, sem hafi alla tíð notað bifreiðina sem hjálpartæki til að komast ferða sinna, svo sem til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Aðrar leiðir hafi móður kæranda ekki verið færar þar sem kærandi hafi þá enn verið barn. Frá 18 eða 19 ára aldri hafi hann hins vegur verið skráður eigandi bifreiðarinnar, enda notandi hennar. Hann búi í dag hjá móður sinni og ekki sé fyrirhugað að það breytist í náinni framtíð. Þá virðist enn fremur sem mæðginunum hafi ekki verið leiðbeint um nauðsyn á annarri tilhögun með tilliti til þessa tiltekna réttar til bóta, þrátt fyrir að hafa þurft á sínum tíma vottun stofnunarinnar fyrir niðurfellingu bifreiðagjalda.

Um meðeiganda ökutækis gildi almennt sömu reglur og um aðaleiganda þar sem allir eigendur teljist jafnir að lögum, nema annað komi sérstaklega fram. Eignarhluturinn sé ekki hlutfallslegur heldur sé hann skráður eftir ábyrgðarröð. Það að kærandi sé skráður sem aðaleigandi bifreiðarinnar hafi þannig haft áhrif á niðurgreiðslu bifreiðagjalda samkvæmt a. lið 4. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjöld og að meginreglu njóti hann alls réttar sem eigandi bifreiðarinnar, auk þess að bera skyldur og ábyrgð á henni.

Í reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé ekki kveðið sérstaklega á um að það hafi takmarkandi áhrif á rétt hreyfihamlaðra eigenda bifreiða til uppbótarinnar að á henni sé skráður meðeigandi, enda fullkomlega óljóst hvaða takmarkandi áhrif það ætti að hafa á ábyrgð og rétt eiganda, hvað þá rekstur bifreiðarinnar. Það lækki ekki tryggingar, bensínkostnað, viðgerðir eða annan rekstarkostnað að á bifreiðinni sé skráður meðeigandi. Þannig segi í 4.mgr. 1. gr. reglugerðarinnar:

„Með bifreið í reglugerð þessari er átt við fólksbifreið eða sendibifreið sem ætluð er til daglegra nota (t.d. ekki húsbíll eða pallbíll sem skráður er sem vörubifreið). Bifreið sem er í rekstrarleigu hjá viðurkenndu fjármálafyrirtæki til langs tíma eða kaupleigu getur fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem gera að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans eða hún skráð á umsækjanda eða maka hans.“

Nánar sé kveðið á um skilyrði fyrir uppbótinni og hvað sé haft til hliðsjónar við mat á henni í 2. gr. reglugerðarinnar.

„Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta  kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega er nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt er að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Mánaðarleg fjárhæð uppbótarinnar skal nema 10.828 kr. og tekur hún breytingum með sama hætti og aðrar bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Áður en uppbótin er greidd skulu lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma.“

Umsókn kæranda uppfylli þau skilyrði sem tilgreind séu í 2. og. 4. mgr., þ.e. að móðir hans hafi ökuréttindi, honum sé nauðsynlegt að hafa bifreið til eigin afnota vegna hreyfihömlunar sinnar og hann sé skráður eigandi þessarar bifreiðar sem hann noti dagsdaglega til að lifa sjálfstæðu lífi og til að komast ferða sinna, svo sem til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Samkvæmt 3. mgr. skuli mat á umsókn fyrst og fremst líta til þess síðastnefnda, það er hvort kærandi þurfi og sé að nota bifreiðina til að komast ferða sinna dagsdaglega, enda ráði sú þörf væntanlega mestu um rekstur bifreiðarinnar.

Eins og sjá megi í báðum greinum sé einnig sérstaklega tilgreint þegar umsækjendur séu skráðir sem umráðendur bifreiðar sem sé í kaup- og rekstrarleigu. Þar geti vissulega verið um fleiri en einn umráðanda að ræða sem kunna, eftir atvikum, að bera minni ábyrgð og skyldur en eigendur bifreiða.

Af þeim sökum sé óljóst hvaða málefnalegu sjónarmið ráða því að kæranda sé synjað um uppbót til reksturs bifreiðar sökum þess að móðir hans sé skráður meðeigandi og áhyggjur séu uppi, að gefnu tilliti að hér sé um skyldubundið mat að ræða, hvort þess háttar viðmiðunarregla, sé hún til staðar, kunni að takmarka það hvernig rannsóknarskyldu á hverri umsókn fyrir sig sé sinnt í því efni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn um uppbót til reksturs bifreiðar samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Málsatvik séu þau að kærandi hafi sótt um uppbót samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 28. ágúst 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókninni hefði verið synjað. Óskað hafi verið eftir endurupptöku málsins og hafi erindinu verið svarað þann 11. mars 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð útfært frekar. Í 4. mgr. 2. gr. segi að áður en uppbótin sé greidd skuli lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma.

Í málinu sé ekki deilt um að kærandi sé hreyfihamlaður, en kærandi uppfylli hins vegar ekki önnur skilyrði reglugerðarinnar.

Uppbót vegna reksturs bifreiðar sé veitt samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar. Upptalning á mögulegum eigendum bifreiðarinnar sé tæmandi og geti aðrir ekki verið skráðir eigendur bifreiðarinnar. Þar sem móðir kæranda sé skráður eigandi bifreiðarinnar ásamt kæranda geti Tryggingastofnun ekki veitt honum uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Tryggingastofnun vilji taka fram að verði breyting á eignarhaldi bifreiðarinnar muni stofnunin geta tekið málið til nýrrar meðferðar eins og fram hafi komið í bréfi frá 11. mars 2021.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar og reglugerð nr. 170/2009.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiða er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Í 2. mgr. 2. gr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. setti ráðherra reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sem var í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur vegna reksturs bifreiða. Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að veita uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega er nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt er að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Þá segir að heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar. Skilyrði 4. mgr. 2. gr reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Áður en uppbótin er greidd skulu lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skil­yrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli fyrrgreint skilyrði um að vera skráður eigandi bifreiðarinnar til að eiga rétt á uppbót vegna reksturs hennar. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi skráður eigandi að umræddri bifreið ásamt móður sinni. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er sérstaklega kveðið á um að umsækjandi þurfi að uppfylla það skilyrði að vera skráður eigandi bifreiðarinnar eða maki hans. Í ákvæðinu er ekki tekið skýrt fram að umsækjandi eða maki hans þurfi að vera eini eigandi viðkomandi bifreiðar. Að mati úrskurðarnefndar gefur orðalagið í heild þó til kynna að ekki er gert ráð fyrir frekari afbrigðum af eignarhaldi bifreiðar en þar er lýst. Í máli þessu liggur aftur á móti fyrir að móðir kæranda, sem er einnig skráður eigandi að umræddri bifreið, er jafnframt heimilismaður og ökumaður kæranda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, enda hefur kærandi ekki sjálfur ökuréttindi. Eins og atvikum þessa máls er háttað telur úrskurðarnefndin ekki rétt að túlka ákvæði 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar svo þröngt að sú staðreynd að móðir kæranda sé jafnframt skráður eigandi bifreiðarinnar komi í veg fyrir að honum verði veitt uppbót vegna reksturs bifreiðar. Horfir úrskurðarnefndin þá jafnframt til þess að ekkert bendir til þess að bifreiðin sé ekki nýtt í þágu kæranda. Úrskurðarnefndin telur því að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar á þeim grundvelli að móðir hans sé einnig skráður eigandi að viðkomandi bifreið.

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót vegna reksturs bifreiðar, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta