Mál nr. 75/2011
Fimmtudaginn 31. október 2013
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 14. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 21. desember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. janúar 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. febrúar 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 29. febrúar 2012.
Með bréfi 14. mars 2012 voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara sem sendi framhaldsgreinargerð með bréfi 25. apríl 2012.
Framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 9. maí 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er giftur og býr ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum á unglingsaldri í leiguhúsnæði að B götu nr. 191 í sveitarfélaginu C. Hann á fasteign í sveitarfélaginu D en kveðst ekki hafa getað selt hana. Kærandi starfaði sem framkvæmdastjóri X ehf. Samkvæmt umsókn kæranda eru nettólaun hans 518.040 krónur á mánuði ef mið er tekið af meðaltali síðustu þriggja mánaða. Auk þess fær hann mánaðarlega 4.504 krónur í vaxtabætur og 5.100 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.
Heildarskuldir kæranda eru 54.085.162 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Til krafna utan samnings um greiðsluaðlögun teljast námslán að fjárhæð 3.385.262 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2000 til 2010.
Samkvæmt umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis, tekjulækkunar og veikinda tveggja barna hans. Kærandi hafi um árabil unnið verkamannavinnu á lágum launum. Árið 1996 hafi kærandi og fjölskylda hans flutt frá sveitarfélaginu C til sveitarfélagsins D vegna þess að þar hafi kærandi fengið starf sem var betur launað en fyrra starf. Í sveitarfélaginu D hafi kæranda gefist kostur á að afla sér menntunar. Eftir fjögurra ára búsetu í sveitarfélgaginu D hafi þau keypt þar fasteign. Hafi kaupin verið fjármögnuð með lánum. Haustið 2010 hafi kærandi verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra X ehf. Hafi fjölskyldan þá flutt aftur til sveitarfélagsins C. Ekki hafi tekist að selja fasteignina í sveitarfélaginu D þar sem hún hafi verið mikið veðsett. Þessu til viðbótar hafi veikindi tveggja barna kæranda haft áhrif á fjárhag hans.
Þann 19. nóvember 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Að mati kæranda ber að heimila honum samning um greiðsluaðlögun. Ástæða synjunar sé fyrst og fremst fjárhagur og skuldastaða vinnuveitanda hans, X ehf. Kærandi hafi starfað sem framkvæmdastjóri þess félags frá september 2010. Greiðslustaða félagsins gagnvart embætti tollstjóra vegna vörsluskatta hafi verið erfið á árinu 2010 og fyrri hluta árs 2011. Nú hafi tekist að koma böndum á þann vanda og hafi umræddar skuldir X ehf. verið greiddar mikið niður. Einnig hafi félagið gert greiðslusamkomulag við tollstjóra og staðið við það. Frá því að samkomulagið hafi verið gert hafi ný gjöld verið greidd jafnóðum en einnig hafi eldri skuld verið greidd niður. Kærandi telur að ábyrgð hans sem framkvæmdastjóri X ehf. muni ekki hafa áhrif á persónulegan fjárhag hans.
Að sögn kæranda mun hann á engan hátt víkja sér undan þeirri ábyrgð sem hvíli á honum sem framkvæmdastjóra X ehf. Fjárhagserfiðleikar hans hafi þó byrjað áður en hann réði sig til starfa hjá félaginu en á þeim tíma hafi hann búið í sveitarfélaginu D. Hann hafði verið atvinnulaus í fjóra mánuði þegar hann hafi ráðið sig til félagsins. Kærandi hafi fljótlega áttað sig á því að starfið yrði erfitt þar sem félagið, sem var stofnað árið 2010, hefði þá þegar verið í vanskilum með opinber gjöld. Reksturinn gangi nú betur og niðurgreiðsla skattskulda sé hafin. Uppi séu áform um að fjármagna skattskuldir félagsins með bankaláni til langs tíma.
Að mati kæranda hefði það verið fráleitt ef hann hefði íhugað að hafna starfinu hjá X ehf. Hann hefði verið atvinnulaus á þeim tíma sem honum hafi boðist þetta starf, en starfið hafi tryggt honum hærri tekjur en hann hafði haft áður. Kærandi telur þetta meginröksemdina fyrir því að líta beri framhjá skuldastöðu vinnuveitanda hans í máli þessu. Komist á samningur um greiðsluaðlögun geti kærandi greitt lánardrottnum sínum miðað við greiðslugetu í þrjú ár. Komist á samningur um greiðsluaðlögun en síðar falli á kæranda ábyrgðir vegna vörsluskatta X ehf. sé staðan sú að greiðsluaðlögunin falli úr gildi og þá eigi kærandi ekki annarra kosta völ en að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Sé samningi um greiðsluaðlögun synjað muni kærandi á endanum þurfa að óska eftir gjaldþrotaskiptum fari ekki einhver kröfuhafa fram á þau.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara er því mótmælt að umboðsmaður geti á síðari stigum málsins vísað til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem upphafleg ákvörðun umboðsmanns hafi byggst á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Málatilbúnaður umboðsmanns skuldara sé nú reistur á nýjum málsástæðum sem ekki hafi komið fram fyrr en við kærumeðferð. Slík málsmeðferð stangist á við góða stjórnsýslu, sbr. V. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og einkum 23. gr. laganna sem eigi að leiða til þess að fyrir kærunefndinni sé ekki byggt á nýjum málsástæðum.
Hvað varði beitingu 6. gr. lge. segir kærandi greinina fjalla um aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Mikilvægt sé að greina á milli 1. og 2. mgr. 6. gr. Þannig tilgreini 1. mgr. þau tilvik sem, að tilvikum sem falla undir e-lið undanskildum, leiði fortakslaust til þess að synjað verði um heimild til greiðsluaðlögunar. Niðurstaðan geti verið önnur sé um að ræða aðstæður sem lýst er í 2. mgr. 6. gr. lge. Hvað varðar þau tilvik sem undir 2. mgr. falla hafi löggjafinn talið eðlilegt að hvert mál yrði metið með hliðsjón af því hvort aðstæður væru þannig að ósanngjarnt væri að synja skuldara um greiðsluaðlögun. Þau tilvik sem 2. mgr. 6. gr. tilgreini leiði þannig ekki fortakslaust til synjunar um greiðsluaðlögun.
Að mati kæranda á tilvísun umboðsmanns skuldara til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 og túlkun embættisins á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ekki við í málinu. Í því dómsmáli hafi skuldari haft með höndum sjálfstæðan rekstur með ótakmarkaðri ábyrgð. Í málinu hafi legið fyrir að kröfum vegna vangreiddra opinberra gjalda hafði verið lýst á hendur skuldara. Hafi óumdeild skuld þannig legið fyrir. Með hliðsjón af tilurð skuldarinnar og eignaleysi skuldara hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að synja um greiðsluaðlögun.
Kærandi kveður aðstæður sínar vera allt aðrar en þær sem fram komi í tilgreindum dómi Hæstaréttar. Kærandi sé ekki hluthafi í X ehf. Ógreidd opinber gjöld X ehf. hafi verið tilkomin áður en kærandi hóf þar störf. Þessi vanskil hafi stafað af erfiðleikum í rekstri en hafi ekki verið til hagsbóta fyrir kæranda. Félagið hafi samið við tollstjóra um greiðslu skuldarinnar og hafi engar vanefndir orðið þar á. Litlar líkur séu þannig á því að ábyrgð kæranda sem framkvæmdastjóra félagsins verði virk. Fari svo að á hana reyni sé alls óvíst hver fjárhæðin yrði. Því sé ekki hægt að leggja mat á hana í samanburði við fjárhag kæranda. Þegar af þessari ástæðu hafi það verið rangt hjá umboðsmanni skuldara að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi umboðsmanni skuldara borið að meta vangreidd opinber gjöld vinnuveitanda kæranda í samræmi við 23. gr. lge. um ábyrgðarkröfur sem ekki hafi orðið virkar.
Að mati kæranda er tilgangur 2. mgr. 6. gr. lge. bæði að koma í veg fyrir að greiðsluaðlögun leiði til ósanngjarnar niðurstöðu og að koma í veg fyrir að skuldir sem stofnað sé til með ólögmætum hætti falli undir greiðsluaðlögun, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ljóst sé að vangreidd opinber gjöld sem viðkomandi beri persónulega ábyrgð á falli þar undir. Í ákvæðinu sé hins vegar veitt svigrúm til eftirgjafar sé skuldin lítill hluti heildarskulda viðkomandi skuldara. Löggjafarviljinn standi þannig til þess að jafnvel þótt skuldir séu að hluta tilkomnar vegna vangreiðslu opinberra gjalda séu ekki efni til að synja skuldara um greiðsluaðlögun af þeirri ástæðu eingöngu. Telur kærandi eðli málsins samkvæmt einnig rétt að líta til þess hvort skuldari hafi sjálfur hagnast sem nemi fjárhæð skuldarinnar. Þá sé útilokað annað en að krefjast þess að fyrir liggi hver skuldin raunverulega sé ef synja eigi skuldara um greiðsluaðlögun á þessari forsendu.
Að lokum bendir kærandi á að umboðsmaður skuldara hafi ekki rökstutt vísun sína til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. í greinargerð embættisins til kærunefndarinnar. Kærandi hafi staðið við samkomulag við skattyfirvöld vegna skuldbindinga X ehf. Skuldbinding félagsins gagnvart tollstjóra stafi ekki af vanskilum á innheimtum virðisaukaskatti heldur af tímabundnum rekstrarerfiðleikum. Þessi vanskil séu því ekki afleiðing af hegðun kæranda. Kærandi verði ekki sakaður um ámælisverða háttsemi að því er skuldbindingar hans varðar, hvorki vegna persónulegra skuldbindinga né þeirra skuldbindinga sem leiða megi af stöðu hans sem framkvæmdastjóra X ehf.
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hrundið og kæranda veitt heimild til þess að leita greiðsluaðlögunar við kröfuhafa sína.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Bendir umboðsmaður á að samkvæmt hlutafélagaskrá sé kærandi skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. en það félag var stofnað árið 2010. Hvíli því á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá skuli fyrirsvarsmaður félags hlutast til um að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að viðlögðum sektum eða refsingu, sbr. 1., 2., og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
Á yfirliti tollstjóra komi fram að X ehf. hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum, það er staðgreiðslu launagreiðanda á árinu 2011 og staðgreiðslu tryggingagjalds á árunum 2010 og 2011. Samanlögð fjárhæð hinna vangoldnu opinberu gjalda sé 48.047.430 krónur, þar af sé vangoldin staðgreiðsla launagreiðanda 31.732.633 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra sé um að ræða álagningu sem öll sé gjaldfallin og í vanskilum. Hér sé um að ræða 58,7% af heildarskuldum kæranda.
Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar á þessum grundvelli sé að áliti umboðsmanns skuldara nauðsynlegt að líta til eldri úrlausna dómstóla í sambærilegum málum. Í dómi Hæstaréttar frá 14. janúar 2010 í máli nr. 447/2009 hafi rétturinn tekið til umfjöllunar ábyrgð framkvæmdastjóra og prókúruhafa einkahlutafélags á skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda. Rétturinn hafi talið að þrátt fyrir að ákærði hefði ekki komið að bókhaldi félagsins og ekki haft vitneskju um vanskil vörsluskatta þess, hefði hann tekið á sig þær skyldur sem á framkvæmdastjóra hvíli samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög. Ein af þeim skyldum hafi verið að annast daglegan rekstur félagsins, þar með að sjá til þess að staðin væru skil á afdreginni staðgreiðslu. Í dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2010 í máli nr. 721/2009 hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d í lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Niðurstaðan hafi verið sú að synja hefði átt skuldara um greiðsluaðlögun í öndverðu þar sem hann hefði skapað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Virðisaukaskattskuld sem nam 8,3% af heildarskuldum skuldara hafi þótt allhá miðað við fjárhag hans. Því bæri að synja um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Hafi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. verið skilinn svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi skuldara verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar með tilvísun til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem hann hafi stöðu sinnar vegna borið refsiábyrgð á skattskilum einkahlutafélaga og vörsluskattskuldir félaganna þóttu einhverju nema miðað við fjárhag kæranda. Kærunefndin hafi fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi, sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélags, hafði ekki staðið skil á vörslusköttum sem námu um 44% af heildarskuldum. Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hafi í framkvæmd verið skilið svo „að skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“. Að mati umboðsmanns sé framangreind niðurstaða sambærileg við niðurstöðu umboðsmanns skuldara í þessu máli. Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hafi hvílt á kæranda sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa nefnds einkahlutafélags til að standa skil á opinberum gjöldum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil.
Umboðsmaður tekur fram að samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá hafi kærandi verið skráður framkvæmdastjóri X ehf. frá 23. febrúar 2011. Af yfirlitum tollstjóra verði ekki annað ráðið en að vanskil félagsins á staðgreiðslu launagreiðanda og að talsverðu leyti á staðgreiðslu tryggingagjalds hafi átt sér stað á síðari hluta ársins 2011. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila, sbr. IX. kafla laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og IV. kafla laga um tryggingagjald, nr. 113/1990. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa á þann hátt sem tilgreindur er í lögum. Þá verði ekki séð að greiðslusamkomulag við innheimtumenn ríkissjóðs leiði til brottfalls refsiábyrgðar framkvæmdastjóra enda þótt ekki sé útilokað að uppgjör skulda á vörslusköttum kunni í sumum tilvikum að hafa áhrif á þyngd refsingar, svo sem samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
Umboðsmaður bendir síðan á að samkvæmt því markmiði lge., sem komi fram í 1. mgr. 1. gr. lge., sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar þegar ráðist er í samningsumleitanir um greiðsluaðlögun. Telja verði að almennt sé nokkur óvissa ríkjandi um fjárhag þeirra manna sem hafa sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því vanskil hefjist og þar til sök er fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskilanna. Komi til þess að skuldari sem gert hefur samning um greiðsluaðlögun sé beittur sektum vegna vanskila einkahlutafélags á vörslusköttum, megi ljóst telja að forsendur fyrir samningi bresti í flestum tilfellum. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu.
Í greinargerð sinni vísar umboðsmaður einnig til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. en hann telji að þau sjónarmið sem lýst sé í f- og g-liðum ákvæðisins styðji niðurstöðu embættisins. Telja verði að sú háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs sé almennt ámælisverð enda sé um að ræða lögbrot sem varði refsingu. Ljóst verði að telja að sú háttsemi geti valdið viðkomandi háum sektum og verulegum fjárhagserfiðleikum. Að mati umboðsmanns séu bæði vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengjast þeim þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Vísar umboðsmaður til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 þessu til stuðnings. Þar komi fram að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi séu meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Varðandi tilvísun kæranda í 23. gr. lge. telur umboðsmaður að orðalag ákvæðisins taki ekki til þeirra tilvika þar sem skuldarar bera refsiábyrgð á vanskilum einkahlutafélaga á vörslusköttum.
Með hliðsjón af framangreindu, úrlausnum dómstóla og niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu, er varði refsingu eða skaðabótaskyldu, sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans. Að öllu framangreindu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi sem þar eru tíundaðar í fimm liðum. Í 2. mgr. sömu greinar er til viðbótar við skilyrði 1. mgr. kveðið á um heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til þeirra atriða sem talin eru upp í liðum a–g.
Á meðan 1. mgr. 6. gr. laganna kveður á um tiltekin skilyrði þess að heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt, er í 2. mgr. sömu greinar einungis um að ræða heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, þyki það óhæfilegt að veita slíka heimild. Þannig er 2. mgr. 6. gr. heimildarákvæði sem leggur þá skyldu á herðar umboðsmanni skuldara að meta sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig hvort aðstæður séu með þeim hætti að talið verði óhæfilegt að veita heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefndin hefur aflað hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var kærandi skráður prókúruhafi hjá X ehf. í október 2010 og framkvæmdastjóri frá 15. febrúar 2011 til 26. október 2012. Hvíldi þá á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Refsiábyrgð kæranda að því er varðaði hina ógreiddu vörsluskatta tók því til þessa tíma og gildir þar einu hvort kærandi átti hlut í félaginu eða ekki.
Undir rekstri málsins hefur kærunefndin aflað upplýsinga um skuldastöðu X ehf. hjá tollstjóra. Í ljós hefur komið að félagið skuldar ekki lengur vörsluskatta frá þeim tíma er kærandi hafði með höndum prókúru fyrir félagið og gegndi þar störfum sem framkvæmdastjóri. Óumdeilt er að ógreidd opinber gjöld voru tilkomin áður en kærandi hóf störf hjá X ehf., þó vanskil hafi haldið áfram um sinn eftir að kærandi hóf störf. Samkvæmt gögnum málsins stóð fyrirtækið hins vegar í skilum með virðisaukaskatt á þeim tíma er kærandi var þar í forsvari. Þá liggur einnig fyrir að undir stjórn kæranda samdi félagið við tollstjóra um greiðslu skuldarinnar og að það samkomulag var efnt.
Telur kærunefndin því að heildarmat á aðstæðum og háttsemi kæranda í starfi hans sem framkvæmdastjóri X ehf. leiði ekki til þess að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. felld úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir