Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 76/2011

Mánudaginn 28. október 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 21. desember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. janúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. febrúar 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 16. febrúar 2012.

Með bréfi kærunefndarinnar 22. febrúar 2012 var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kæranda. Framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni 13. apríl 2012.

Framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 26. apríl 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Nýjar athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 14. maí 2012.

Með bréfi kærunefndar til umboðsmanns skuldara 21. maí 2012 var óskað eftir afstöðu hans vegna athugasemda kæranda. Önnur framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni 29. maí 2012.

Önnur framhaldsgreinagerð umboðmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 15. ágúst 2012 og honum gefin kostur á að að koma að athugasemdum. Framhaldsgreinagerð kæranda barst frá kæranda með bréfi 29. ágúst 2012.

I. Málsatvik

Kærandi er 56 ára og býr ásamt sambýliskonu sinni í 137 fermetra eigin húsnæði á jörðinni C II við sveitarfélagið D. Kærandi hefur starfað sjálfstætt við jarðvinnuverktöku um árabil. Ábyrgð hans á skuldbindingum er ótakmörkuð vegna þessa.

Að sögn kæranda er stærsta skuld hans vegna kaupa á eyðijörðinni E en hann hugðist gera jörðina að lögbýli og nýta hluta hennar undir frístundabyggð. Kærandi kveðst hafa fjármagnað kaupin með erlendu láni frá Kaupþingi. Upphaflega hafi lánið verið 70.000.000 króna til fjögurra ára. Breyta hafi átt þeim hluta lánsins sem var vegna lögbýlisins í langtímalán en sala frístundalóða hafi átt að standa undir greiðslu lánsins að öðru leyti. Í hruninu hafi lánið þrefaldast og forsendur fyrir sölu frístundalóða hafi brostið. Hluti hans í jörðinni hafi síðan verið seldur til einkahlutafélags og unnið hafi verið að samningum um að félagið tæki yfir skuldbindingar kæranda við kröfuhafa. Ekki hafi náðst samkomulag um lyktir og hafi málið farið í biðstöðu eftir að kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun. Þá hafi lán frá Lýsingu vegna kaupa á jarðvinnutækjum hækkað á sama tíma og verulegur samdráttur hafi orðið í jarðvinnutöku. Tekjur hafi dregist verulega saman og því hafi kærandi ekki getað staðið í skilum. Óskað hafi verið eftir gjaldþrotaskiptum á búi kæranda og hafi hann því ekki haft annan kost en að leita til umboðsmanns skuldara.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 346.302.983 krónur og þar af falla 8.308.104 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun. Að sögn kæranda stafa 35% til 40% skuldbindinga frá atvinnurekstri, óháð því hvort skulbindingar í erlendri mynt verði taldar lögmætar eða ólögmætar. Til helstu skuldbindinga var stofnað 2007 til 2008.

Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda, það er reiknað endurgjald, að frádregnum skatti á árunum 2007 til 2011 voru eftirfarandi:

Ár Tekjur kr.
2007 150.426
2008 151.368
2009 157.455
2010 146.565
2011 159.889

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 22. nóvember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. nóvember 2011 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með tilliti til skattskulda, sbr. d. lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kæru að kærandi geri kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og honum verði heimilað að leita greiðsluaðlögunar. Kæran er byggð á þeim grundvelli að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á sjónarmiðum sem séu í ósamræmi við túlkun á ákvæði d- liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og byggist þannig á ólögmætum sjónarmiðum. Einnig byggist ákvörðunin á röngum forsendum auk þess sem rökstuðningi ákvörðunarinnar sé verulega áfátt.

Hafa verði í huga athugasemdir með ákvæði d- liðar 2. mgr. 6. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hæstiréttur hafi skýrt ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í dómi frá 20. janúar 2010, í máli 721/2009 en það ákvæði sé samhljóða d - lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hæstiréttur hafi þar komist að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafi sér skuldbindingu sem nam 8,3% af heildarskuldum með háttsemi sem varðaði refsingu, hafi skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðarsamnings til greiðsluaðlögunar. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem komi fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga verði ekki séð að ákvæðið eigi við í tilviki kæranda enda nemi skuldir kæranda töluvert lægra hlutfalli af heildarskuldum en í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009. Í athugasemdum með 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að ekki sé gert ráð fyrir að þetta matskennda ákvæði verði túlkað rýmra en efni standi til. Miða skuli við þá framkvæmd sem þegar sé komin á og dómvenju en jafnframt skuli hafa í huga að þegar skuldari glími við verulegan fjárhagsvanda hljóti eitt og annað að hafa farið úrskeiðis án þess þó að ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við.

Að mati kæranda girði það ekki eitt og sér fyrir að hann fái heimild til greiðsluaðlögunar að skuldir hans séu að einhverju leyti tilkomnar vegna vangreiðslu opinberra gjalda. Aðrar ástæður verði að vera til staðar svo sem að rót skuldanna sé þess eðlis að samfélagslega óásættanlegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Skuldir kæranda séu ekki af þeim toga.

Þá sé til þess að líta að kærandi hafi gert fjármögnunarleigusamninga vegna kaupa á tækjum til að nota í atvinnurekstri. Samningarnir séu í erlendri mynt og hafi leikið vafi á lögmæti þeirra. Þrátt fyrir það hafi kröfuhafi gengið hart fram í innheimtuaðgerðum á hendur kæranda. Til að takmarka það tjón sem hefði orðið ef tækin hefðu verið tekin úr vörslum hans, greiddi kærandi inn á umrædda samninga. Það hafði í för með sér að honum reyndist ekki unnt að standa í skilum með opinber gjöld og vörsluskatta. Kærandi hafi nú gengið frá samkomulagi við innheimtumann ríkissjóðs um greiðsluuppgjör á grundvelli laga nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri en samkvæmt ákvæðum þeirra laga er skuldurum gert kleift að greiða skuldir sína við hið opinbera með útgáfu skuldabréfs til þriggja ára. Vanskil séu ekki gerð refsiverð gangi skuldari frá skuld sinni með þessum hætti. Með hliðsjón af framansögðu verði ekki séð að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011 eigi við í tilviki kæranda.

Kærandi telur að hafa beri í huga greiðsluvilja sinn í þessu sambandi og telur að vanskil opinberra gjalda séu ekki refsiverð gangi skuldari með ofangreindum hætti frá skuld sinni. Með vísan til þessa eigi sjónarmið umboðsmanns skuldara ekki við í málinu enda muni kærandi hvorki sæta sektum né refsingu fyrir vanhöldin. Með vísan til þessa verði ekki séð að fordæmi úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011, er umboðsmaður skuldara nefni í ákvörðun sinni, eigi við í tilviki kæranda. Kærandi bendir á að samkvæmt yfirliti frá innheimtumanni ríkissjóðs nemi skuld hans 6.848.770 krónum en ekki 8.308.104 krónum eins og tilgreint sé í gögnum umboðsmanns skuldara. Lækkun skuldarinnar skýrist af því að samkomulag sem kærandi gerði á grundvelli laga nr. 24/2010 hafi verið þannig að vextir skyldu ekki falla á vanskilin. Hlutfall skulda kæranda sem falli utan samnings sé því enn lægra en fram komi í gögnum umboðsmanns skuldara. Ekki sé því unnt að fallast á að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi með háttsemi sem varði refsingu.

Að mati kæranda hefur umboðsmaður skuldara ekki metið mál hans heilstætt né tekið tillit til þess að megnið af skuldum hans megi rekja til atvinnurekstrar. Þá liggi ekki fyrir endurútreikningar vegna fjármögnunarleigusamninga í erlendri mynt. Í ljósi þessa sé skuldastaða kæranda óljós. Einnig verði að hafa í huga að kaup kæranda á jörðinni D hafi verið gerð í atvinnuskyni. Þrátt fyrir að eignin sé ekki skráð á nafn kæranda sé skuld vegna eignarinnar á nafni kæranda.

Einnig bendir kærandi á að hafa beri í huga orðalag d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sem kveði á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Umboðsmaður skuldara vísi til þess að í þessu samhengi sé litið til „tekna, eigna- og skuldastöðu“ og vísi meðal annars í því sambandi til lágra launatekna kæranda. Kærandi bendir á að skuldir hans á virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda og reiknuðu endurgjaldi megi allar rekja til atvinnurekstrar sem hann hafi rekið í eigin nafni. Með vísan til þess telji kærandi að tekjur af rekstri hans skuli standa undir þessum greiðslum en ekki launatekjur hans.

Að sögn kæranda hafi tilteknar forsendur sem lágu til grundvallar ákvörðun umboðsmanns 30. nóvember 2011 breyst. Arion banki hafi endurreiknað hluta lána kæranda auk þess sem nú liggi fyrir dómar um ólögmæti gengistryggðra lána sem leiði til þess að skuldastaða kæranda sé óljós. Ekki sé hægt að fallast á sjónarmið umboðsmanns þess efnis að ef skuldir lækki í endurútreikningi þá hækki hlutfall skulda vegna vörsluskatta miðað við heildarskuldir Kærandi hafi stundað atvinnurekstur í áratugi og ávallt leitast við að standa í skilum með greiðslur opinberra gjalda. Vegna aðstæðna hans á árinu 2009 hafi honum reynst það ókleift. Hann hafi nú gert samning við innheimtumann ríkissjóðs um greiðslur gjaldanna og muni það, eðli málsins samkvæmt, taka nokkurn tíma að greiða vangoldin gjöld að fullu. Mæli sanngirnisrök með því að kærandi verði ekki látinn gjalda fyrir það að vera að hluta í vanskilum með opinber gjöld.

Kærandi kveðst nú vinna að því að endurskipuleggja fjármál sín og rekstur. Það hyggist hann meðal annars gera með því að leita samþykkis lánadrottna til að stofna einkahlutafélag utan um rekstur sinn þannig að þeir þættir sem tengist rekstri kæranda, samningar, skuldir og tæki verði færð undir einkahlutafélag. Þar sem sú vinna standi yfir sé örðugt fyrir kæranda að sýna fram á með gögnum hvaða fjárhagslegu áhrif sú endurskipulagning muni á endanum hafa í för með sér. Að hans mati muni hann eftir endurskipulagninguna uppfylla skilyrði lge. um að geta sótt um greiðsluaðlögun enda staðan sú að kærandi sé og verði um ófyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa skil á fjárskuldbindingum sínum. Að mati kæranda sé  sú fullyrðing umboðsmanns skuldara röng að þær skuldir hans sem stafi frá atvinnurekstri séu svo háar að ekki sé hægt að mæla með því að honum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi gerir athugasemdir við það mat umboðsmanns skuldara að hann geti ekki staðið við samkomulag við innheimtumann ríkissjóðs sökum lágra tekna. Umboðsmaður virði algjörlega að vettugi skýringar kæranda um að hluti skulda stafi af rekstri hans í eigin nafni sem muni greiðast af áframhaldandi rekstrartekjum þeirrar starfsemi. Rekstrartekjur kæranda muni því standa straum af greiðslu skulda án tillits til reiknaðs endurgjalds. Hið reiknaða endurgjald séu laun kæranda og standi sem slík eingöngu undir persónulegum kostnaði.

Kærandi mótmælir vísun umboðsmanns skuldara til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. í tengslum við úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 13/2011 enda byggist ákvörðun umboðsmanns ekki á tilvitnuðu ákvæði laganna. Íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda verða að byggjast á skýrum lagagrundvelli og verði því tilvísun til réttarreglna að vera skýrar. Kærandi mótmælir einnig ályktun umboðsmanns þess efnis að möguleg lækkun fjármögnunarleigusamninga muni ekki hafa áhrif á skuldastöðu hans. Kærandi telji þessa ályktun umboðsmanns órökstudda, óupplýsta og úr lausu lofti gripina. Hún sé því í andstöðu við þær kröfur sem gerðar séu til efnis stjórnvaldsákvarðana.

Með vísan til þess sem rakið hafi verið telji kærandi að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé byggð á röngum forsendum og sjónarmiðum sem séu í ósamræmi við dómaframkvæmd og athugasemdir með frumvarpi því er varð að lge. Í ljósi þessa krefjist kærandi þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. sé þeim aðstæðum lýst að hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu sé heimilt að synja honum um heimild til greiðsluaðlögunar. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011.

Kærandi hafi um árabil staðið í eigin atvinnurekstri. Honum hafi borið að afhenda á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt eða borið að innheimta, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Einnig hafi honum sem launagreiðanda borið að halda eftir fé af launagreiðslum og inna þær greiðslur af hendi, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Samkvæmt yfirlitum tollstjóra hafi kærandi ekki staðið skil á vörslusköttum og öðrum opinberum gjöldum á árinu 2009 og nemi fjárhæð þeirra vanskila 9.544.941 krónu. Þar af sé staðgreiðsla launagreiðanda 6.412.937 krónur, staðgreiðsla vegna reiknaðra launa 277.951 króna og vangoldinn virðisaukaskattur 1.617.216 krónur. Samtals nemi þessar kröfur 8.308.104 krónum.

Við mat á því hvort umræddar skuldir verði taldar nema einhverju miðað við fjárhag kæranda verði að líta til tekna, eigna- og skuldastöðu hans. Af skuldayfirliti og gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að fjárhagur kæranda sé þröngur vegna lágra tekna og mikilla skulda. Mánaðarlega launatekjur kæranda hafi um árabil verið 180.000 krónur brúttó. Hluta skuldbindinga kæranda megi rekja til fjárfestinga sem hann hafi ráðist í vegna kaupa á jörðinni E. Að sögn kæranda séu skuldir að fjárhæð 136.230.618 krónur vegna eigin atvinnurekstrar. Eignir kæranda séu jörðin C 2 en fasteignamat jarðarinnar hafi verið 18.850.000 krónur í lok árs 2010. Eignir samkvæmt efnahagsreikningi kæranda séu samtals 102.747.228 krónur. Þá hafi viðskiptaskuldir kæranda samkvæmt sama efnahagsreikningi numið 321.526.469 krónum. Með vísan til alls þess verði að telja að eignir kæranda séu óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Með hliðsjón af framangreindu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Af þessum sökum hafi þótt óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara tekur fram að skýringar kæranda, þess efnis að vanskil á opinberum gjöldum séu vegna þess að hann hafi þurft að koma í veg fyrir vörslusviptingu tækja sem tengdust fjármögnunarsamningum við Lýsingu, breyti því ekki að umræddar skuldir séu fyrir hendi og í vanskilum. Miðað við þær afleiðingar sem vangreiðsla skatta hafi í för með sér verði að gera ráð fyrir að í ábyrgum rekstri sé greiðsla opinberra gjalda ávallt í forgangi. Umboðsmaður hafnar því að hið ívilnandi úrræði laga nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri komi í veg fyrir að d- liður 2. mgr. 6. gr. lge. geti átti við. Ekki verði séð að lögin geri ráð fyrir því að vanskil vörsluskatta verði refsilaus þó að úrræðið sé nýtt. Umræddar skuldir hvíli enn á kæranda og sé rétt að benda á að ekki sé hægt að gera ráð fyrir að samkomulagið muni halda verði kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Tollstjóri hafi tekið þá afstöðu að ekki verði samið um greiðsluuppgjör þegar einstaklingar eru í greiðsluaðlögun.

Umboðsmaður skuldara fellst ekki á skilning kæranda á dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009. Kærandi telji að þar sem hlutfall umræddra skulda hans sé ekki jafn hátt og um var að ræða í dóminum, beri að skoða skuldirnar með hliðsjón af umfangi atvinnurekstrar hans en ekki fjárhæð persónulegra tekna. Þó Hæstiréttur hafi í umræddum dómi tilgreint hlutfall skulda, sem féllu undir þágildandi 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., miðað við heildarskuldir verði ekki talið að það ráði úrslitum um það hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Umboðsmaður telur að með því að láta hjá líða að greiða umrædd opinber gjöld með tekjum úr rekstri, verði kærandi að standa undir vanskilunum með persónulegum tekjum sínum.

Umboðsmaður skuldara bendir á að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í úrskurði sínum í máli nr. 13/2010 vísað til þess að kröfur af þessu tagi séu þess eðlis að líta verði til þeirra sjónarmiða sem búi að baki g-lið 2. mgr. 6. gr. lge., það er að um sé að ræða opinber gjöld eða greiðslur sem ætlaðar séu til samneyslu eða samtryggingar. Þó ekki sé beinlínis byggt á g-lið 2. mgr. 6. gr. laganna, mæli þau sjónarmið sem kærunefndin hafi reifað í umræddum úrskurði með því að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Einnig bendir umboðsmaður skuldara á að fyrir setningu lge. hafi gilt sú takmörkun um greiðsluaðlögun samkvæmt X. kafla laga nr. 21/1991, að hún hafi ekki náð til einstaklinga sem undangengin þrjú hefðu borið ábyrgð á atvinnustarfsemi. Um forsendur þess að sú takmörkunin var ekki tekin upp í lge. segi í frumvarpi að það hafi ekki verið vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst ættu í vanda vegna atvinnurekstrar nýttu sér úrræðið. Þær skuldir kæranda sem tilgreint er að stafi frá atvinnurekstri séu það háar að ekki verði talið að það mæli með því að honum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Þá telur umboðsmaður að ekki verði séð að endurútreikningur á fjármögnunarsamningum geti haft áhrif niðurstöðu í málinu. Að því marki sem hlutfall skulda vegna vörsluskatta miðað við heildarskuldir kunni að skipta máli sé ljóst að hlutfallið myndi hækka ef endurútreikningur leiddi til lækkunar skulda.

Fram kemur það mat umboðsmanns að kærandi geti ekki staðið við samkomulag við innheimtumann ríkissjóðs jafnvel þó umsókn hans um greiðsluaðlögun yrði tekin til greina. Miðað við vísitölu neysluverðs í mars 2012 muni mánaðarlegar afborganir vegna samkomulagsins nema 118.196 krónum. Þegar sú fjárhæð sé borin saman við tekjur kæranda, sem nemi 159.889 krónum á mánuði, þyki ljóst að það verði verulegum vandkvæðum bundið fyrir kæranda að standa við samkomulagið þar sem greiðslugeta hans eftir nauðsynleg útgjöld sé aðeins 64.960 krónur á mánuði. Umrædd skuld myndi standa utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. f-lið 1. mgr. 3. gr. lge.

Umboðsmaður tekur fram að ákvörðun um að hafna kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar byggi á heildarmati á fjárhagsstöðu kæranda og hafi hlutfall umræddra skulda ekki ráðið þar úrslitum. Vísun kæranda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 geti því ekki leitt til þess að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Umboðsmaður skuldara bendir á að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi alloft tekið fram að líta beri til sjónarmiða, sem liggja að baki g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þegar um opinberar skuldir sé að ræða, við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Nefna megi úrskurð kærunefndarinnar frá 13. mars 2012 í máli nr. 25/2011 þar sem nefndin staðfesti ákvörðun umboðsmanns um synjun vegna vangoldinna opinberra gjalda. Í því sambandi hafi nefndin vísað til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. án þess að umboðsmaður skuldara hafi rökstutt þá stafliði sérstaklega í ákvörðun sinni eða greinargerð.

Umboðsmaður skuldara hafnar því að dómsúrlausnir vegna ágreinings um gengistryggða fjármögnunarleigusamninga geti haft áhrif á úrlausn málsins. Að mati umboðsmanns hafi ekki verið sýnt fram á eða leiddar að því líkur að lækkun skulda vegna umræddra fjármögnunarsamninga geti orðið svo verulegar að það hafi áhrif á forsendur hinnar kærðu ákvörðunar. Skuldir kæranda séu svo miklar að jafnvel þó að til komi veruleg hlutfallsleg lækkun verði ekki séð að möguleikar kæranda til að geta staðið undir þeim muni aukast. Til nánari skýringar á þessu atriði megi benda á að í hinni kærðu ákvörðun sé meðal annars byggt á því að eignir kæranda verði að teljast óverulegar að teknu tilliti til skulda. Verði að hafa í huga að umræddar skuldbindingar teljist háar, jafnvel þótt aðeins sé litið til höfuðstóls hinna upprunalegu skuldbindinga. Ekkert hafi komið fram í málinu sem breytt geti því mati umboðsmanns skuldara að eignir kæranda teljist óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Að því er varði viðleitni kæranda til að endurskipuleggja fjármál sín, virðist umboðsmanni að kærandi hafi afhent hluta eigna sinna til annarra á undanförnum misserum án þess að skuldir hafi lækkað á móti. Ekki verði séð að þetta hafi leitt til þess að fjárhagsstaða kæranda hafi batnað. Því geti þessar aðgerðir kæranda ekki verið grundvöllur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Með vísan til þess sem að framan greinir og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskyldu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldin opinber gjöld; virðisaukaskattur að fjárhæð 1.617.216 krónur, staðgreiðsla launagreiðanda að fjárhæð 6.412.937 krónur og staðgreiðsla vegna reiknaðra launa að fjárhæð 277.951 krónur. Samtals nemi þessar skuldir 8.308.104 krónum eða tæplega 2,5% af heildarskuldum kærenda. Kærandi gekk síðar frá samkomulagi við innheimtumann ríkissjóðs um greiðsluuppgjör á grundvelli 5. gr. laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010. Samkvæmt ákvæðum þeirra laga gaf kærandi út skuldabréf. Við útgáfu skuldabréfsins voru felldir niður dráttarvextir af skuldinni í samræmi við 3. gr. laganna. Fjárhæð skattskuldar var lækkuð sem því nam þannig að fjárhæð skuldabréfsins varð 6.848.770 krónur. Bréfið skyldi verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 377,6 stig. Nemur fjárhæð skuldabréfsins 1,8% af heildarskuldum kæranda.

Lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 féllu úr gildi 31. desember 2011. Lögin voru tímabundið ívilnandi úrræði fyrir þá aðila sem voru í vanskilum með tiltekin opinber gjöld sem gjaldfallið höfðu fyrir 1. janúar 2010. Þessir aðilar gátu samkvæmt lögunum sótt um frest á greiðslu þessara gjalda. Dráttarvextir féllu ekki á kröfur sem nutu frestsins. Að tilteknum skilyrðum uppfylltum hafði tollstjóri heimild til að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra gjalda sem voru á fresti samkvæmt 5. gr. laganna. Við útgáfu skuldabréfsins breytust kröfurnar úr skattkröfum í almennar kröfur.

Kærandi heldur því fram að vanskil opinberra gjalda séu ekki gerð refisverð greiði skuldari vanskilin með útgáfu skuldabréfs og fyrir liggi að kærandi muni hvorki sæta sektum né annarri refsingu vegna vanskilanna. Á þetta sjónarmið getur kærunefndin ekki fallist. Lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 breyta í engu viðurlögum við vanskilum á vörslusköttum samkvæmt ákvæðum 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Nefnd skattalagabrot teljast fullframin við vanskil í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., enda þótt skattskuld sé síðar greidd, eftir atvikum með útgáfu skuldabréfs.

Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðsluskyldu slíkra skuldbindinga eða ekki. Samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. stendur skuld vegna vangoldinna vörsluskatta utan við greiðsluaðlögun. Breytir þar engu um þó að skuldin hafi verið greidd með skuldabréfi á þann hátt sem kærandi hefur gert en í athugasemdum við frumvarp til lge. er áréttað að skuldabréf sem eru gefin út til að gera upp slík vanskil falli ekki undir greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvort aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Að mati kærunefndarinnar er skattskuld kæranda út af fyrir sig all há þó að hlutfall hennar af heildarskuldum sé tiltölulega lágt. Kærandi hefur um árabil greitt sér laun úr rekstri sínum sem reiknað endurgjald. Á árunum 2007 til 2011 voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans að meðaltali 146.565 krónur til 159.889 krónur. Árin 2005 til 2010 var rekstur kæranda erfiður. Tap var af rekstrinum á árunum 2006 til 2010. Eigið fé varð mest 6.638.760 á árinu 2005 en neikvætt frá 2008. Framlegð rekstrarins var lítil á þessum tíma. Í töflunni má sjá afkomu af rekstri kæranda 2005 til 2010:

Ár Rekstrartekjur af Hagnaður/ Eigið fé
  atv.starfsemi kr. tap (-) kr. rekstrar kr.
2005 78.179.302 4.870.255 6.638.760
2006 134.989.845 -2.669.678 3.969.081
2007 136.603.081 -7.123.332 3.154.249
2008 296.463.856 -111.442.650 -114.596.891
2009 152.139.747 -48.981.172 -163.578.093
2010 25.638.932 -55.201.148 -218.779.241

Kærunefndin fellst á það mat umboðsmanns skuldara að kærandi geti ekki staðið við það samkomulag sem hann hefur gert við innheimtumann ríkissjóðs jafnvel þó að umsókn hans um greiðsluaðlögun yrði tekin til greina og allar aðrar skuldir hans verði felldar niður. Er það í fyrsta lag vegna þess að laun kæranda hafa verið mjög lág og rekstur kæranda gefur að mati kærunefndarinnar ekki tilefni til að ætla að laun til hans geti hækkað. Í öðru lagi verður ekki séð að reksturinn sem slíkur batni við það eitt að flytja hann yfir á annan aðila, það er einkahlutafélag. Og í þriðja lagi hefur ekki verið sýnt fram á annað en að sömu skuldir muni hvíla áfram á kæranda þó að hann stofnaði félag utan um rekstur sinn.

Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð og hann er þar af leiðandi eignalaus. Á þeim tíma er hann stofnaði til skuldar á vörslusköttum var eignastaða hans sömuleiðis neikvæð. Verður skattskuld kæranda því ekki talin smávægileg með hliðsjón af því.

Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Eins og á stendur í máli þessu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 eru skuldir þessar verulegar miðað við fjárhag kærenda, sé litið til tekna kæranda og nettóeignastöðu. Í ljósi þess verður að telja að þær skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísa til alls þess sem rakið hefur verið er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta