Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 80/2011

Fimmtudaginn 31. október 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. desember 2011 þar sem umsókn um greiðsluaðlögum var hafnað.

Með bréfi 3. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. janúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. febrúar 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi er 52 ára og býr í leiguhúsnæði. Hún er atvinnulaus en starfaði áður sem verktaki hjá X.

Í greinargerð sem kærandi lagði fram með umsókn um greiðsluaðlögun kemur fram að hún hafi stundað nám í Kvikmyndaskóla Íslands árin 2005 og 2006. Námið hafi verið mjög dýrt og hún hafi fjármagnað það með námslánum og bankalánum. Hafi þessi lán bæst við hátt yfirdráttarlán kæranda. Eftir námið hafi hún starfað sem verktaki hjá X. Þrátt fyrir mikla vinnu hafi launin verið það lág að erfitt hafi verið að lifa af þeim. Kæranda hafi aldrei tekist að safna í orlofssjóð vegna sex vikna sumarlokunar ár hvert á vinnustaðnum. Hafi það tekið kæranda um þrjá mánuði að leiðrétta fjárhaginn eftir hvert sumarfrí. Árið 2010 hafi verkefnum fækkað svo kæranda hafi reynst erfitt að standa í skilum með skuldbindingar, þar með talinn virðisaukaskatt. Í september 2010 hafi verktakasamningi við kæranda verið sagt upp.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 14.732.001 króna og falla þar af 6.832.778 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun. Af þeirri fjárhæð eru 1.526.128 krónur vegna vangoldins virðisaukaskatts. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005 til 2007.

Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir greiðslu skatta, eignir og skuldir voru eftirfarandi árin 2007 til 2010:

Ár Tekjur kr. Eignir kr. Skuldir kr. Nettóeignir kr.
2007 143.412 648.153 7.358.270 -6.710.117
2008 226.515 641.179 9.050.946 -8.409.767
2009 221.307 804.010 11.226.062 -10.422.052
2010 151.045 277.444 12.606.904 -12.329.460

Kærandi sé nú atvinnulaus og nemi tekjur hennar 151.045 krónum á mánuði að frádregnum skatti.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 27. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. desember 2011 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með tilliti til skattskulda, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir ákvörðun umboðsmanns skuldara og tiltekur fjögur atriði máli sínu til stuðnings.

Í fyrsta lagi sé skuld vegna virðisaukaskatts umtalsvert hærri nú en þegar til hennar hafi verið stofnað.

Í öðru lagi sé skuld vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds tilkomin vegna þess að þessi gjöld hafi átt að greiða eftir á.

Í þriðja lagi sé fyrirséð að kærandi muni ekki verða fær um að greiða skattskuldir sínar. Fulltrúi innheimtudeildar hjá embætti sýslumannsins í Kópavogi hafi ráðlagt kæranda að greiða nýjustu gjöldin en láta eldri skuld fyrnast. Að mati fulltrúans væri ekki hægt að sjá hver væri tilgangur umboðsmanns skuldara með synjun þar sem kærandi myndi ekki geta greitt gjöldin. Einnig hafi fulltrúinn tjáð kæranda að hún yrði ekki sótt til saka vegna hinna vangoldnu opinberu gjalda.

Í fjórða lagi hafi kærandi ekki greitt virðisaukaskatt á sínum tíma því hún hafi aðstoðað ættingja sem hafi verið í fjárhagserfiðleikum. Kærandi kveðst aldrei mundu hafa tekið ákvörðun um þá aðstoð nema hún hefði haft trú á því að hún gæti greitt virðisaukaskattskuldina á þremur til fjórum mánuðum. Kærandi hafi síðan misst starfið áður en hún hafi getað greitt skuldina. Hún hafi ekki getað staðið í skilum með eftirágreidda skatta eftir þetta.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið sé samhljóða ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem nú er fallið brott. Í máli kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011 hafi reynt á hvort skattskuld teldist verulegur hluti skulda í skilningi ákvæðisins. Kærandi í því máli hafi borið ábyrgð á ógreiddum virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna einkahlutafélags þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra, stjórnarformanns og prókúruhafa, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þar hafi skattskuld félagsins numið 44% af heildarskuldum kæranda. Kærunefndin hafi staðfest ákvörðun umboðsmanns í því máli með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að skuldbinding sem stofnað sé til með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu samkvæmt ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. geti varðað synjun heimildar til að leita greiðsluaðlögunar sé umrædd skuldbinding tiltölulega há með tilliti til fjárhæðar og hlutfalls af heildarskuldbindingum skuldara samanborið við eignastöðu hans bæði á þeim tíma sem ákvörðun er tekin og á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar er stofnað. Í umræddu máli Hæstaréttar hafi fjárhæð skuldar vegna vangoldinna vörsluskatta numið 1.780.437 krónum og hafi rétturinn út af fyrir sig talið það allháa fjárhæð. Skuldin hafi verið 8,3% af heildarskuldbindingum skuldarans. Kærunefndin hafi staðfest synjun umboðsmanns skuldara í máli nr. 10/2011 með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar þar sem kærandi hafði bakað sér skuldbindingu sem varðað gat refsingu eða skaðabótaskyldu, sem einhverju nam miðað við fjárhag hans. Í úrskurði kærunefndarinnar segi að synjun á heimild til greiðsluaðlögunar sé óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.

Að mati umboðsmanns skuldara teljist virðisaukaskattskuld kæranda í máli þessu allhá. Skuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu 14.732.001 króna en þar af sé ógreiddur virðisaukaskattur 1.526.128 krónur. Umrædd skuld nemi því 10,4% af heildarskuldbindingum kæranda. Umboðsmaður skuldara telji að skuldbindingin geti ekki talist smávægileg miðað við fjárhag kæranda í lok ársins 2008. Samkvæmt skattframtali vegna þess árs hafi eignir kæranda verið að fjárhæð 491.400 krónur en skuldir 9.050.946 krónur. Eignastaða kæranda hafi því verið neikvæð um 8.559.546 krónur. Með hliðsjón af þessu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar það sem kærandi kveðst hafa eftir fulltrúa innheimtudeildar hjá embætti sýslumannsins í B umdæmi greinir umboðsmaður frá því að afstaða innheimtumanna ríkissjóðs við greiðsluaðlögunarumleitanir hafi í flestum tilvikum verið sú að þeir hafi ekki talið sér fært að semja um niðurfellingu eða lækkun skattskulda. Vegna þessarar afstöðu hafi í fæstum tilvikum verið hægt að koma á samningi um greiðsluaðlögun þegar skuldari hafi skuldað opinber gjöld. Afstaða umrædds fulltrúa, sé rétt eftir honum haft, sé því í ósamræmi við afstöðu innheimtumanna ríkissjóðs eins og hún hafi hingað til verið við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Umboðsmaður tekur fram að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið litið sérstaklega til þess hvaða líkur hafi þótt á því að samningar tækjust um skattskuldir kæranda við greiðsluaðlögunarumleitanir enda verði synjun um heimild til greiðsluaðlögunar ekki byggð á slíkum sjónarmiðum. Aftur á móti hafi verið litið til þess að til krafnanna hafi verið stofnað með refsiverðri háttsemi, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns sé í samræmi við framkvæmd umboðsmanns skuldara og kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Þá hafi umboðsmaður skuldara ekki getað gengið út frá því að tilteknar kröfur kæranda myndu fyrnast enda geti kröfuhafi rofið fyrningu samkvæmt almennum reglum. Loks telji umboðsmaður skuldara að fulltrúi sýslumanns hafi hvorki getað fullyrt né lofað kæranda að hún yrði ekki sótt til saka vegna brota á skattalögum. Ákvarðanir um saksókn séu ekki á hendi innheimtumanna ríkissjóðs. Það séu ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri ríkisins sem rannsaki slík mál og eftir atvikum gefi embætti sérstaks saksóknara út ákæru.

Með vísan til þess sem að framan greinir og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge. með sérstakri tilvísun til d-liðar en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Skuldin sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er vangoldinn virðisaukaskattur að fjárhæð 1.526.128 krónur sem er rúmlega 10% af heildarskuldum kæranda. Óumdeilt er að þessar skattskuldir hvíla á kæranda.

Framangreint ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins hafa tekjur kæranda verið mjög lágar frá 2007 og eignastaða neikvæð í vaxandi mæli frá sama tíma. Skuldir kæranda vegna vangreiddra vörsluskatta nema alls ríflega 10% af heildarskuldum hennar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er getur varðað refsingu. Eins og á stendur í máli þessu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 eru skuldir þessar verulegar miðað við fjárhag kæranda, sé litið til tekna hennar og nettóeignastöðu. Í ljósi þess verður að telja að þær skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar miðað við fjárhag hennar að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta