Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2011

Fimmtudaginn 31. október 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. desember 2011 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 5. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. febrúar 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 27. febrúar 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi 21. maí 2012.

Með bréfi 22. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kæranda. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 24. maí 2012.

I. Málsatvik

Kærandi er 24 ára námsmaður og býr í 267 fermetra eigin húsnæði ásamt tveggja ára syni sínum, foreldrum og tveimur yngri bræðrum. Kærandi fær námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Í október 2008 keypti kærandi fasteign sem að öllu leyti var fjármögnuð með lánsfé. Þessi lán hafa hækkað mikið og telur kærandi eignina ekki lengur standa undir áhvílandi veðskuldum. Einnig eigi kærandi við veikindi að stríða en hún sé haldin ólæknandi gigtarsjúkdómi sem hafi áhrif á getu hennar til að stunda vinnu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 45.910.024 krónur og falla þar af 1.312.423 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008.

Ráðstöfunartekjur kæranda, eignir og skuldir hafa samkvæmt gögnum málsins verið eftirfarandi:

  2006 2007 2008 2009
Ráðstöfunartekjur kr.* 298.295 101.589 189.386 124.330
Skuldir alls kr. 1.005.952 3.519.221 35.658.000 42.190.348
Inneignir kr. 0 0 50.417 306.845
Ökutæki kr. 900.000 3.510.000 7.459.000 5.787.000
Fasteignir kr.** 0 0 21.675.000 24.650.000
Eignir alls kr. 900.000 3.510.000 29.184.417 30.743.845
Nettóeignastaða kr. -105.952 -9.221 -6.473.583 -11.446.503

* Námslán eru tekin sem hluti ráðstöfunartekna á árinu 2008.

** Eignin er veðsett fyrir lífeyrissjóðsláni upphaflega að fjárhæð 9 m.kr. sem móðir kæranda tók.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 7. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. desember 2011 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru gerðar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns í þremur liðum. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við þá fullyrðingu umboðsmanns skuldara að hún hafi keypt fasteign sína eftir efnahagshrunið. Kærandi bendi á að kaupsamningur um eignina hafi verið undirritaður 30. október 2008 að undangengnu tilboðsferli og greiðslumati hjá Íbúðalánasjóði. Því sé fráleitt að halda því fram að kaupin hafi átt sér stað eftir hrunið. Samkvæmt lögum um fasteignakaup séu kaup komin á með undirritun beggja aðila á kauptilboð. Undarlegt sé að umboðsmaður skuldara byggi á þessum rökum þar sem annars staðar virðist miðað við 1. janúar 2009, svo sem í 110% leiðinni svokölluðu. Kærandi leggur áherslu á að hún hafi ekki séð fyrir hrunið frekar en aðrir.

Í öðru lagi mótmælir kærandi þeirri fullyrðingu umboðsmanns að hún hafi gefið upp rangar tekjur til að standast greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði. Kærandi hafi verið búin að fá vinnu á fasteignasölu um það leyti sem hún keypti fasteign sína sem var rétt fyrir hrunið. Hafi kærandi fengið yfirlýsingu þessa efnis en yfirlýsingin hafi verið hluti af gögnum vegna greiðslumats. Þegar hrunið hafi komið fram stuttu síðar hafi fasteignasalan ekki viljað bæta við sig fólki.

Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við að umboðsmaður vísi til þriggja bílasamninga. Einn samningurinn sé þegar uppgreiddur. Þá sé annar tveggja bílasamninga sem eftir standi færður til skuldar en bifreiðin sjálf ekki til eigna. Þetta valdi því að nettóskuldir kæranda séu taldar hærri en efni standi til.

Að lokum hafnar kærandi því að hún hafi ekki skýrt fasteignakaup sín með fullnægjandi hætti. Kærandi hafi svarað spurningum umboðsmanns skriflega en ætla mætti að svörin hafi ekki verið lesin. Hafi umboðsmaður ekki verið sáttur við svör kæranda hefði hann getað óskað eftir frekari skýringum.

Kærandi gerir athugasemd við það sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að stofnað hafi verið til helstu skuldbindinga á árunum 2007 til 2009. Þetta sé rangt, kærandi hafi ekki stofnað til skuldbindinga á árinu 2009.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara komi fram að ein ástæða synjunar sé að kærandi hafi keypt fasteign eftir efnahagshrunið þar sem kaupsamningur hafi verið undirritaður 30. október 2008. Í raun hafi kaupin á fasteigninni verið komin á með tilboði 17. september 2008 en það hafi verið fyrir efnahagshrun.

Kærandi mótmælir því einnig að beiðni hans hafi verið synjað á þeirri forsendu að kærandi hafi keypt bifreið án þess að vera búin að selja fyrri bifreið. Kærandi hafi keypt mjög seljanlega bifreið árið 2007. Henni hafi svo boðist að kaupa aðra bifreið á verulega hagstæðu verði snemma árs 2008. Kærandi hafi reiknað með að það yrði ekki erfitt að selja þessar bifreiðar. En þá hafi bílalán stökkbreyst þannig að hvorugan bílinn hafi verið hægt að selja árið 2008. Kærandi telur að bifreiðarnar muni standa undir þeim lánum sem á þeim hvíla þegar réttir útreikningar liggi loks fyrir.

Að því er varðar laun kæranda mótmælir hún því að umboðsmaður skuldara taki ekki tillit til þeirra launa sem kærandi hafði samið um þegar hún tókst á hendur skuldbindingar vegna kaupa á fasteign sinni.

Kærandi vekur athygli á því að umboðsmaður skuldara víki ekkert að þeim veikindum sem hún hafi þurft að glíma við frá barnsburði 2009 og séu vegna gigtarsjúkdóms. Verði ekki annað ráðið en að umboðsmaður skuldara taki skýringar kæranda hvað þetta atriði varðar ekki trúanlegar.

Að mati kæranda virðist ákvörðun umboðsmanns skuldara byggja á eftirfarandi: Í fyrsta lagi að kærandi hafi keypt fasteign eftir hrun. Þetta sé rangt eins og kærandi hafi rakið. Í öðru lagi að kærandi hafi keypt tvær bifreiðar. Þetta hafi kærandi skýrt og staða kæranda að þessu leyti sé bein afleiðing efnahagshrunsins og ólögmætra lána. Í þriðja lagi að kærandi reiknaði með launum af vinnu sem hún hafði þegar fengið. Í fjórða lagi að kærandi hafi ekki haft nægar tekjur til að borga af bifreiðunum og fasteign sökum þess að vinnan brást. Í fimmta lagi að greinast með gigtarsjúkdóm.

Kærandi hafnar framangreindum rökum umboðsmanns skuldara og krefst þess að ákvörðun hans um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við matið skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Einnig hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi fest kaup á eigin húsnæði 31. október 2008. Kaupverð hafi verið 21.000.000 króna en það hafi kærandi fjármagnað með láni frá Íbúðalánasjóði. Í greiðslumati hjá Íbúðalánasjóði hafi kærandi gefið upp mánaðarlegar heildartekjur að fjárhæð 400.000 krónur og eigið fé að fjárhæð 8.000.000 króna. Lánið sem kærandi hafi tekið hjá Íbúðalánasjóði hafi verið að fjárhæð 20.000.000 króna. Mánaðarleg greiðslubyrði af láninu á þeim tíma hafi verið 107.146 krónur. Af gögnum málsins verið ráðið að kærandi hafi á sama tíma stofnað til 4.000.000 króna yfirdráttarskuldar hjá Landsbankanum. Þá hafi móðir kæranda tekið lán hjá lífeyrissjóði að fjárhæð 9.000.000 króna sem tryggt hafi verið með veði í umræddri fasteign. Að sögn kæranda hafi bæði þessi lán verið notuð til að gera húsnæðið íbúðarhæft. Samkvæmt þessu hafi rúmlega 30.000.000 króna hafi farið í að kaupa fasteignina og gera hana íbúðarhæfa þótt fjármögnun hafi ekki öll farið fram í nafni kæranda.

Kærandi hafi verið búin að gera þrjá bílasamninga þegar hún keypti fasteignina. Í fyrsta lagi vegna bifreiðar A en í árslok 2008 hafi eftirstöðvar samningsins verið 1.064.765 krónur. Bifreiðin hafi verið í umráðum kæranda fram í janúar 2009. Ekki liggi fyrir upplýsingar um mánaðarlegar greiðslur vegna samningsins. Í öðru lagi vegna bifreiðarinnar B sem kærandi keypti í september 2007 en kaupverð hennar hafi verið 2.700.000 krónur. Í þriðja lagi vegna bifreiðarinnar C sem kærandi keypti árið 2008 en kaupverið hennar hafi verið 5.200.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi greitt 1.200.000 krónur við kaupin og hafi samningsfjárhæðin því verið 4.155.440 krónur. Greiðslubyrði vegna tveggja síðastnefndu samninganna hafi samkvæmt upphaflegri greiðsluáætlun verið samtals 99.624 krónur. Kærandi kveðst hafa ætlað að selja bifreið B en það hafi ekki tekist þar sem lán hafi stökkbreyst fljótlega eftir að kaup á bifreið C hafi farið fram.

Árið 2008 hafi mánaðarlegar meðaltekjur kæranda verið 94.386 krónur. Þá liggi fyrir upplýsingar um útborgun Lánasjóðs íslenskra námsmanna á framfærsluláni fyrir árið 2008 að fjárhæð 1.138.886 krónur. Nemi sú fjárhæð að meðaltali 95.000 krónum á mánuði og bætist við mánaðarlegar tekjur kæranda. Til ráðstöfunar hafi kærandi því haft 189.386 krónur á mánuði. Sé tekið tillit til fasteignakaupanna hafi mánaðarleg greiðslubyrði vegna skuldbindinga kæranda verið að lágmarki 206.770 krónur. Í þeirri fjárhæð sé ekki tekið tillit til persónulegrar framfærslu eða þeirra miklu gengishækkana sem orðið hafi nokkrum vikum fyrr og höfðu áhrif á bílasamninga kæranda. Að mati umboðsmanns hafi tekjur kæranda því nær einungis dugað fyrir framfærslukostnaði á árinu 2008 en ekki mánaðarlegum afborgunum af samningsskuldbindingum.

Samkvæmt skýringum kæranda hafi hún verið búin að fá starf hjá fasteignasölu um það leyti sem hún keypti fasteignina og hafi væntanleg laun hennar þar, 400.000 krónur nettó, verið notuð við gerð greiðslumats hjá Íbúðalánasjóði. Forsendur hafi brugðist og því hafi hún ekki fengið starfið hjá fasteignasölunni. Umboðsmaður telur vandséð hvernig hægt sé að leggja til grundvallar þær tekjur, sem kærandi tilgreini að henni hafi verið lofað hjá fasteignasölunni, við mat á fjárhagsstöðu hennar. Kærandi hafi aldrei fengið laun frá fasteignasölunni og verði að minnsta kosti að telja varhugavert hjá kæranda að tilgreina tekjur sem ekki voru í hendi við greiðslumat. Við mat á fjárhagsstöðu kæranda þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað sé því ekki hægt að leggja til grundvallar nettótekjur að fjárhæð 400.000 krónur.

Hvað varði tímasetningu fasteignakaupanna þá komi fram í greiðslumati Íbúðalánasjóðs að kauptilboð kæranda í fasteignina sé dagsett 8. október 2008. Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar verði að líta til þeirrar skuldbindingar sem kærandi stofnaði til með fasteignakaupunum og viðbótarskuldbindinga vegna framkvæmda á fasteigninni. Fjárhagsstaða kæranda á árinu 2008 hafi ekki gefið tilefni til að ætla að hún gæti staðið undir þeirri viðbótargreiðslubyrði. Að mati umboðsmanns skuldara séu skýringar kæranda um að eiginleg kaup hafi átt sér stað með samþykktu tilboði fyrir 30. október 2008 ekki fallnar til þess að hrófla við ákvörðun umboðsmanns.

Við vinnslu málsins hafi kærandi verið innt eftir upplýsingum um eignir sínar og skuldir þeim tengdum. Litlar sem engar upplýsingar hafi fengist frá kæranda varðandi ástæður fasteignar- og bílakaupanna. Hafi umboðsmaður skuldara því leitt líkur að því að kærandi hafi ætlað fasteignina og bifreiðarnar til eigin nota.

Það er mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt hafi verið að veita kæranda greiðsluaðlögun. Ástæður eru í fyrsta lagi eðli og umfang þeirra lána sem kærandi hafi tekið vegna fasteignar- og bifreiðakaupa á árinu 2008. Í öðru lagi vegna þess að kaupin á fasteign kæranda hafi farið fram eftir að efnahagshrunið var um garð gengið og áhrif þess á aðrar skuldbindingar kæranda hafi að mestu verið komin fram. Í þriðja lagi vegna þess að kærandi hafi gefið upp rangar tekjur til að standast greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði. Vísar umboðsmaður til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. þessu til stuðnings.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er kæranda synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Eins og rakið hefur verið stofnaði kærandi að mestu leyti til skulda sinna árið 2008. Um var að ræða lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 20.000.000 króna. Einnig fékk kærandi yfirdráttarlán í banka. Af gögnum málsins er hvorki unnt að sjá upphaflega fjárhæð yfirdráttarins né lánstíma. Einnig tók móðir kæranda lán hjá lífeyrissjóði að fjárhæð 9.000.000 króna sem tryggt var með veði í umræddri fasteign. Engin gögn liggja fyrir um að kærandi hafi átt að greiða af því láni og verður ekki byggt á því hér. Að sögn kæranda hafi tvö síðastnefndu lánin verið notuð til að gera húsnæðið íbúðarhæft. Á þessum tíma var greiðslubyrði kæranda vegna bílasamninga um 100.000 krónur á mánuði samkvæmt upphaflegri greiðsluáætlun. Mánaðarleg greiðslubyrði af láninu frá Íbúðalánasjóði mun hafa verið um 107.000 krónur. Heildargreiðslubyrði kæranda vegna þessara skuldbindinga var því um 207.000 krónur.

Ein af þeim forsendum sem lágu til grundvallar lánveitingu Íbúðalánasjóðs var að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda væru 400.000 krónur á mánuði. Að sögn kæranda var hún búin að ráða sig til starfa fyrir þau laun en þegar til kom var hætt við ráðninguna. Í málinu er ekki ágreiningur um að kærandi hafi átt von á þessum launum. Kærunefndin getur ekki fallist á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að rangt hafi verið að leggja þessar tekjur til grundvallar við mat á fjárhagsstöðu kæranda þótt tekjurnar væru ekki í hendi við greiðslumat.

Samkvæmt nefndu greiðslumati var greiðslugeta kæranda rúmlega 254.000 krónur á mánuði. Samkvæmt því hefði hún að öllum aðstæðum óbreyttum átt að geta staðið við þær skuldbindingar sem hún stofnaði til vegna fasteignar- og bifreiðakaupanna þótt lítið hafi mátt út af bregða. Kærunefndin fellst því ekki á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að kærandi hafi á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað verið greinilega ófær um að standa við þær.

Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Sé miðað við skattframtöl kæranda liggur fyrir að hún hefur ekki átt eignir umfram skuldir. Hún keypti tvær bifreiðar og fasteign að mestu með lánum. Að mati kærunefndarinnar verður að telja slíka framgöngu afar áhættusama sérstaklega þegar ekki eru til staðar eignir til að mæta greiðslu skulda ef aðstæður breytast og afborganir lána svo stór hluti af ráðstöfunartekjum. Telur kærunefndin því að kærandi hafi tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta