Hoppa yfir valmynd

Nr. 99/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 1. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 99/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120007

Kæra […]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. desember 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt eiginkonu sinni og börnum.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd fyrir sig hér á landi þann 12. nóvember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 23. ágúst 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. október 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála þann 5. desember 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 19. desember 2017. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 1. febrúar 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki. Viðbótargreinargerð barst frá kæranda þann 15. febrúar 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna þess að yfirvöld í […] telji að hann hafi barist gegn […] og að hann hafi myrt […] hermann.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið, að viðlagðri brottvísun og tveggja ára endurkomubanni, yfirgæfi hann ekki landið innan tilskilsins frests.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að aðalástæða flótta kæranda frá heimaríki sínu séu ofsóknir […] yfirvalda, einkum af hálfu æðstu öryggisyfirvalda […]. Ofsóknirnar megi rekja til stjórnmálaskoðana sem yfirvöld […] hafi ætlað kæranda. Vegna meintra stjórnmálaskoðana hafi […] yfirvöld svipt kæranda frelsi sínu, yfirheyrt hann og látið hann sæta pyndingum svo dögum skipti. Jafnframt hafi yfirvöld framkvæmt ólögmæta húsleit á heimili kæranda og foreldra hans. Hafi yfirvöld […] sakað kæranda um að hafa barist gegn […] auk þess sem […] telji að kærandi sé njósnari fyrir […]. Þá hafi […] jafnframt ranglega sakað kæranda um að hafa myrt […] hermann.

Í greinargerð kæranda kemur fram að í byrjun september 2016 hafi hann verið á leiðinni í jarðarför vinar síns í […] þegar hann hafi verið stoppaður við vegatálma. Þar hafi hann verið tekinn í gíslingu af hermönnum […]. Kærandi hafi verið yfirheyrður um ferðir sínar til borgarinnar […] og hafi hermennirnir pyndað hann m.a. með því að hengja kæranda upp með hendur fyrir ofan höfuð og gefa honum rafstuð. Hermennirnir hafi krafist þess að kærandi myndi berjast fyrir hönd […]. Kærandi hafi orðið vitni af því þegar tveir menn hafi verið myrtir af hermönnum […] og því hafi kæranda verið ljóst að hann myndi hljóta sömu örlög ef hann neitaði. Jafnframt hafi kæranda verið hótað með þeim hætti að byssu hafi verið stillt upp við höfuð hans. Þegar kærandi hafi verið í haldi […], í u.þ.b. tólf daga, hafi […] hermenn ráðist á vígi […] þar sem kæranda hafi verið haldið í gíslingu. Hafi […] hermaður tekið kæranda höndum og fært hann í burtu. Þá hafi kærandi náð að sleppa úr haldi hermannsins og þann [...] hafi kærandi komist að vegatálma við […]. Kærandi hafi síðan greitt vörubílstjóra fyrir að keyra sig frá […]. Þaðan hafi kærandi hringt í eiginkonu sína og hafi þau sammælst um að hittast í […]. Þegar kærandi, eiginkona hans og elsta dóttir þeirra hafi beðið á lestarstöðinni í […] eftir lestinni til […] hafi tveir lögreglumenn […] komið að kæranda og hafi þeir skipað honum að fylgja þeim til yfirheyrslu. Ekki hafi verið um annað að ræða fyrir kæranda en að hlýða mönnunum og hafi kæranda verið komið fyrir í dimmu yfirheyrsluherbergi á yfirlögreglustöð […]. Þegar þangað var komið hafi kærandi verið yfirheyrður af lögreglumanni […] og spurður út í ástæðu ferðar hans […]. Kærandi hafi greint lögreglumanninum frá því að hann hafi ætlað í jarðarför […] en hafi verið tekinn í gíslingu af hermönnum […]. Frásögn kæranda hafi ekki verið tekin trúanleg og hafi kærandi verið ásakaður um njósnir […]. Starfsmenn […] hafi talið að markmið ferðar kæranda […] hafi verið að berjast gegn […]. Þá hafi kærandi jafnframt verið ásakaður um að hafa banað […] hermanni. Kæranda hafi verið hótað því að ef hann gengist ekki við ásökunum […] myndi hann fara í fangelsi í langan tíma. Lögreglumenn […] hafi beitt kæranda ofbeldi sem teljist til pyndinga, en kærandi hafi verið barinn um allan líkamann. Þá hafi kæranda verið meinað um svefn þar sem hann hafi verið yfirheyrður á nóttunni. Í lokin hafi kærandi ekki getað gengið sjálfur á milli klefans sem hann hafi dvalið í og yfirheyrsluherbergisins vegna áverka eftir pyndingarnar. Hafi kæranda loks verið sleppt úr haldi með þeim fyrirmælum að hann mætti ekki yfirgefa […] og ef hann verði kallaður til þá þurfi hann að mæta strax á lögreglustöðina með vegabréf sitt.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi hringt í eiginkonu sína eftir að honum hafi verið sleppt úr haldi […]. Hafi eiginkona kæranda greint honum frá því að á meðan kærandi hafi verið í haldi […] hafi lögreglumenn ruðst inn á heimili þeirra í […]. Hafi þeir framkvæmt húsleit á heimili þeirra án þess að sýna heimild til þess. Hafi þeir m.a. tekið tölvu kæranda í sundur. Lögreglumennirnir hafi beðið eiginkonu kæranda að staðfesta pappíra um að kærandi hafi farið sjálfviljugur að berjast á móti […], en hún hafi neitað. Húsleit hafi jafnframt verið framkvæmd […] heima hjá foreldrum kæranda. Eftir símtalið við eiginkonu sína hafi kærandi þurft að leita á bráðadeild […] þar sem hann hafi misst meðvitund. Í áverkavottorði sem læknir á spítalanum hafi gefið út […] kemur fram að kærandi hafi verið með mjög stóra marbletti á öllum líkamanum eftir barsmíðar. Jafnframt kemur fram að kærandi hafi verið með heilahristing, hann hafi misst meðvitund og að honum hafi verið veitt bráðaaðstoð. […] hafi kærandi ekki viljað dvelja lengur á spítalanum af ótta við að menn […] gætu komið og sótt hann hvenær sem væri. Hann hafi keypt lestarmiða […] og þegar heim hafið verið komið hafi fjölskyldan ákveðið að flýja land vegna alls sem á undan hafi gengið. Hafi kærandi og fjölskylda hans tekið rútu […] þar sem þau hafi haldið sig innandyra í íbúð þar í borg. […] hafi fjölskyldan flúið land og í kjölfarið sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Í viðtali við Útlendingastofnun þann 23. ágúst 2017 hafi kærandi greint frá því að hann þjáist enn af eftirköstum eftir pyndingar […]. Kærandi sé oft með höfuðverk, svo mikinn að hann geti ekki farið úr rúminu. Þá sé hann stundum með verki í nýrum og þurfi að drekka mikið vatn. Ekki sé langt síðan honum hafi byrjað að líða betur í handleggnum auk þess sem hann glími við þunglyndi eftir atburðina.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann óttist […]. Þá óttist kærandi jafnframt þá sem hafi framkvæmt pyndingarnar og þær yfirheyrslur sem kærandi hafi þurft að þola í heimaríki hans. Auk þess óttist kærandi að verða fyrir pyndingum sem hann muni ekki lifa af jafnframt sem hann óttist þungan fangelsisdóm fyrir brot sem hann hafi ekki framið. Það að kæranda hafi verið sleppt úr yfirheyrslum […] þýði ekki að þarlend yfirvöld hafi gleymt honum. Mál kæranda geti verið tekið upp hvenær sem er og […] geti verið að fylgjast með honum.

Þá kemur fram í greinargerð að móðir kæranda hafi haft samband við þau og greint þeim frá því að […] hafi óeinkennisklæddir menn komið að heimili foreldra kæranda og spurt þau út í kæranda og fjölskyldu hans. Mennirnir hafi jafnframt gert aðra húsleit í húsi foreldra kæranda. Ennfremur hafi fyrrum samstarfsfélagi kæranda haft samband við hann og greint honum frá því að menn hafi leitað hans á vinnustað hans.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í […] og stöðu mannréttinda þar í landi. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í […] og skýrslna mannréttindasamtakanna Human Rights Watch og Amnesty International. […] Þá hafi margir þeirra lýst pyndingum af hálfu […] stjórnvalda við framangreindar aðgerðir. Pólitískar ofsóknir, þrýstingur og afskipti stjórnvalda af frjálsum félagasamtökum sé eitt af alvarlegustu mannréttindabrotum yfirvalda gegn borgurum sínum, auk mismununar stjórnvalda gagnvart minnihlutahópum. Meðal annarra alvarlegra mannréttindabrota séu pyndingar og óhófleg beiting lögregluvalds, en gífurleg spilling sé hjá hinu opinbera. Þá komi fram að meðal stærstu vandamála ríkisins sé skortur á sjálfstæði dómsvaldsins og þá sérstaklega vegna spillingar handhafa löggæslu- og dómsvalds. Samkvæmt heimildum þrífist spilling hjá stjórnvöldum m.a. hjá öryggislögreglunni, framkvæmdarvaldinu, dómstólum og á öllum stigum stjórnsýslunnar. […] Þá sé verið að skerða grundvallarmannréttindi íbúa […], sem viðurkennd séu samkvæmt alþjóðalögum. […] Pólitísk morð, sýndarréttarhöld og útlegð sé sá veruleiki sem bíði þeirra sem þori að gagnrýna stjórnvöld […].

Af öllu þessu virtu telur kærandi að hann falli undir skilgreiningu flóttamanns eins og hún kemur fyrir í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu […] yfirvalda vegna meintra stjórnmálaskoðana. Telji kærandi að hætta sé á áframhaldandi ofsóknum af hálfu stjórnvalda snúi hann aftur til heimaríkis. Þar sem kærandi sé að flýja […] vegna ofsókna af hálfu háttsettra stjórnvalda í landinu sé ekki raunhæft að hann geti leitað sér verndar yfirvalda þar í landi, auk þess sem heimildir benda til þess að spilling og refsileysi loði við yfirvöld […]. Kærandi teljist því vera flóttamaður í skilningi ákvæðanna og eigi rétt á alþjóðlegri vernd skv. 1. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Því til stuðnings vísar kærandi í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli JK o.fl. gegn Svíþjóð frá 23. ágúst 2016. Þar undirstriki dómstóllinn að ef umsækjandi hafi þegar orðið fyrir pyndingum liggi sönnunarbyrðin hjá aðildarríkinu, þ.e. að hrekja vafa á mögulegri hættu á endurtekinni illri meðferð sem fari gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt bendir kærandi á úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 611/2017 máli sínu til stuðnings þar sem nefndin fjallar um skyldur Útlendingastofnunar til að virkja tiltekna verkferla þegar grunur leiki á um að umsækjandi hafi orðið fyrir pyndingum. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun ekki með fullnægjandi hætti fært rök fyrir því að kærandi eigi ekki á hættu illa eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til […]. Sönnunarbyrðin hvíli hjá íslenskum stjórnvöldum og eigi kærandi að fá að njóta vafans. Með því að senda kæranda til […] sé verið að brjóta gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. útlendingalaga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og yfirvöld í heimaríki telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt, verði ekki fallist á aðalkröfu hans.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Því til stuðnings vísar kærandi til 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga sem kveði m.a. á um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess. Eldri dóttir kæranda mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 21. september 2016 og greindi hún m.a. frá því að hún sé hrædd við að fara aftur til […] vegna þeirra atburða sem hafi átt sér stað áður en fjölskyldan flýði.

Að lokum bendir kærandi á að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þá þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef einstaklingurinn sé enn þá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir með 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta lands sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá greinir í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að ákvörðun um það hvort viðkomandi einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis geti aðeins farið fram að loknu persónubundnu mati á aðstæðum og að í þeim tilvikum þar sem stjórnvöld séu völd að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta heimaríkis.Þann 15. febrúar 2018 barst kærunefnd viðbótargreinargerð í máli kæranda. Í viðbótargreinargerðinni bendir kærandi á að 15 mánuðir séu liðnir frá því að kærandi og fjölskylda hans sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi. Börn kæranda teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í málum sínum innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum um útlendinga nr. 81/2017. Þá telur kærandi ljóst af gögnum málsins að hann og börn hans uppfylli öll skilyrði í stafliðum a- til d-liðar í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi fer fram á að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. útlendingalaga þar sem í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 81/2017 segi um ákvæðið að það sé almennt eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barnsins, og eftir atvikum systkinum, dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga til að tryggja einingu fjölskyldunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[…]

Í ofangreindum gögnum kemur fram að staða mannréttinda í […] hafi versnað [...]. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi gögn til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi […].

Þá benda gögn málsins til þess að […] stjórnsýslukerfið einkennist að miklu leyti af óhagkvæmni og að þar viðgangist jafnframt geðþóttaákvarðanir og spilling. […]. Þessi víðtæka spilling grafi undan trausti almennings á stjórnkerfi landsins.

Starfandi sé umboðsmaður mannréttinda í […] (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hún hyggist einbeita sér að félagslegum réttindum og því að styðja […] ríkisborgara utan […]. Víða í […] séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi undan sjálfstæði skrifstofanna jafnframt sem skilvirkni þeirra sé ábótavant. Þá hafi sérstakt ráð […] heimild til að fylgjast með störfum umboðsmanns.

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að stjórnarskrá […] banni pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þrátt fyrir það kveði heimildir á um að lögregluyfirvöld grípi til pyndinga, illrar meðferðar og ofbeldis til að þvinga grunaða einstaklinga til játningar. Þá séu lögreglumenn sem grípi til slíkra framkvæmda sjaldnast sóttir til saka og í þau fáu skipti sem það hafi gerst sé refsingin væg. Þá komi jafnframt fram í ofangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þ.m.t. frelsi til tjáningar á veraldarvefnum. […]

[…]

[…]

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi kveðst vera í hættu í heimríki vegna ofsókna og pyndinga af hálfu […] yfirvalda vegna meintra […] og að hafa banað […] hermanni.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst óttast ofsóknir af hálfu […] yfirvalda, einkum […]. Umræddar ofsóknir megi rekja til stjórnmálaskoðana sem yfirvöld […] hafi ætlað kæranda. Vegna meintra stjórnmálaskoðana hafi […] yfirvöld svipt kæranda frelsi sínu, yfirheyrt hann og látið hann sæta pyndingum. Hafi yfirvöld […] sakað kæranda um að hafa barist gegn […]. Þá hafi […] jafnframt ranglega sakað kæranda um að hafa myrt […] hermann. […] yfirvöld hafi framkvæmt ólögmæta húsleit á heimili kæranda og foreldra hans.

Kærunefnd telur að framburður kæranda hafi verið óstöðugur. Jafnframt gæti misræmis í frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimalandi hans en það lýtur einkum að tímalínu atburða sem hann greindi frá við meðferð máls hans. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á einu viðtali við kæranda hjá kærunefnd, afritum af tveimur viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Nokkurt ósamræmi er á milli lýsingar kæranda á tilteknum en mikilvægum atriðum í upphaflegu viðtali við Útlendingastofnun og því sem hann hefur haldið fram síðar. Þá átti kærandi í erfiðleikum með að lýsa staðarháttum, meðan á frásögn hans stóð, sem eðlilegt þætti að hann gæti þó upplýst um.

Kærandi sagði í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi þurft að selja bifreið fjölskyldunnar til þess að geta farið frá […]. Í viðtali við kærunefnd var kærandi spurður hvort hann hafi selt bílinn til að kaupa flugmiðana til Íslands. Kærandi kvaðst hafa selt bílinn til að nota peninginn til að komast frá […]. Aðspurður hvenær kærandi hafi selt bílinn svaraði kærandi að hann hafi selt hann sumarið 2016. Aðspurður hvenær […] hafi byrjað að ofsækja kæranda svaraði kærandi að það hafi verið 22. september 2016, þegar hann hafi komið til […]. Benti kærunefnd kæranda á misræmi í frásögn hans, en hann hafi fyrst sagt nefndinni að hann hafi selt bílinn til að flýja heimaríki sitt um sumarið 2016 en ofsóknirnar hafi ekki byrjað fyrr en í september 2016. Því svaraði kærandi á þá leið að hann hafi upphaflega selt bílinn til að kaupa nýjan bíl. Þar sem þau hafi ekki keypt nýjan bíl þá hafi peningurinn verið notaður í að fjármagna ferðalag fjölskyldunnar til Íslands. Í viðtali kærunefndar við eiginkonu kæranda, sem tekið var sama dag og viðtalið við kæranda, var hún spurð hvort þau hafi átt bíl í heimaríki. Kvað eiginkona kæranda að þau hafi selt hann áður en þau fóru frá […]. Aðspurð hvort hún muni hvenær þau hafi selt bílinn sagði eiginkona kæranda að þau hafi selt hann í október, viku áður en þau fóru til […]. Aðspurð af hverju þau hafi selt bílinn kvaðst eiginkona kæranda hrædd um að hann muni hverfa í fjarveru þeirra. Aðspurð hver hafi séð um söluna á bílnum kvað eiginkona kæranda að bæði hún og eiginmaður hennar hafi skipulagt söluna en að hún hafi séð um hana. Frásögn kæranda er í ósamræmi við frásögn eiginkonu hans af bílasölunni sem dregur úr trúverðugleika frásagnar þeirra.

Í viðtali kærunefndar við kæranda var hann spurður hvenær hann og fjölskylda hans hafi ákveðið að koma til Íslands og svaraði kærandi að það hafi lengi verið á stefnuskránni, en þau hafi lengi ætlað að koma til Íslands sem ferðamenn. Aðspurður hvenær þau hafi keypt flugmiðana til Íslands svaraði kærandi að þau hafi keypt þá eftir að þau hafi fengið vegabréfsáritun til Íslands en áritunina hafi þau fengið þann 17. október 2016. Benti kærunefnd kæranda á misræmi milli frásagnar hans og gagna sem kærunefndinni hafi borist frá sendiráði Íslands í […] um að flugmiðar hafi verið keyptir áður en kærandi hafi fengið vegabréfsáritunina. Þessu svaraði kærandi á þá leið að eiginkona hans hafi keypt þá flugmiða og að kærandi hafi ekki verið viðstaddur þegar hún hafi keypt þá. Kærandi kannaðist ekki við að hafa lagt fram umrædda flugmiða hjá sendiráðinu í […] þegar hann hafi sótt um vegabréfsáritun en hann hafi aðeins lagt fram bunka af gögnum. Kærandi sagðist síðan ekki vita hvenær seinni flugmiðann til Íslands, þann sem þau nýttu til fararinnar til Ísland, hafi verið keyptur en sagði þó að kona hans hafi keypt flugmiðana. Í viðtali kærunefndar við eiginkonu kæranda staðfesti hún þá frásögn kæranda að fjölskyldan hafi lengi ætlað að koma til Íslands sem ferðamenn. Aðspurð hvenær þau hafi keypt flugmiðana til Íslands sagðist hún ekki muna nákvæma dagsetningu en að það hafi verið í byrjun nóvember 2016. Aðspurð hver hafi keypt flugmiðana sem þau hafi skilað inn til sendiráðs Íslands í […] svaraði eiginkona kæranda að þau hafi fengið flugmiðana hjá ferðaskrifstofu en hún hafi sjálf séð um undirbúninginn. Hún gat ekki munað hvort eiginmaður hennar hafi vitað af pöntun þessara miða. Hún hafi verið að undirbúa þetta um miðjan september en kærandi hafi þá ekki verið heima. Aðspurð af hverju þau hafi verið að skipuleggja ferð til Íslands um miðjan september svaraði eiginkona kæranda að þau hafi viljað fara með fjölskylduna til Íslands sem ferðamenn. Síðari flugmiðarnir hafi hins vegar verið keyptir í byrjun nóvember 2016. Kærunefnd telur afar ótrúlegt að eiginkona kæranda hafi, án samráðs við eiginmann sinn, verið að undirbúa frí fyrir fjölskylduna til Íslands á sama tíma og hún óttaðist um líf kæranda sem þá var í […] í stopulu símasambandi. Frásögn kæranda og eiginkonu hans af miðakaupum þeirra þykja því draga úr trúverðugleika frásagnar þeirra.

Kærandi hefur haldið því fram bæði í greinargerð og í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi komið til […] þann 22. september 2016 og þann sama dag hafi hann farið með eiginkonu sinni og dóttur í íslenska sendiráðið í […] þar sem þau hafi sótt um vegabréfsáritun til Íslands. Í viðtali við kærunefnd var kæranda greint frá því að í gögnunum frá sendiráðinu í […] komi fram að hann hafi sótt um vegabréfsáritunina þann 21. september 2016. Aðspurður hvort hann geti útskýrt þetta misræmi svaraði kærandi að hann sé viss um að hann hafi farið í sendiráðið þann 22. september og ekki komið þangað daginn áður. Eiginkona kæranda hafði áður staðhæft að þau hafi farið í sendiráðið þann 22. september 2016. Þegar henni var bent á dagsetningar í gögnum frá sendiráðinu varð hún óviss um dagsetninguna. Þá mundi hún ekki hvaða vikudag þau hafi farið í sendiráðið. Kærunefnd telur að dagsetning ætlaðrar ferðar kæranda frá Kiev til Moskvu, sem kærandi og eiginkona hans hafi verið samhljóma um standist ekki í ljósi gagna frá sendiráðinu. Óvissa eiginkonu kæranda um þessa dagsetningu, sem hún hafði áður staðfastlega og endurtekið nefnt, eftir að henni var bent á ósamræmið við gögnin frá sendiráðinu draga að mati kærunefndar úr trúverðugleika frásagnar kæranda og eiginkonu hans.

Í viðtali við Útlendingastofnun heldur kærandi því fram að hann hafi verið færður á yfirlögreglustöð í […] og nefnir kærandi heimilisfangið […]. Aðspurður hvernig hann muni götuheitið og götunúmerið svaraði kærandi að áður en hann hafi verið færður þangað hafi hann vitað að á þessari götu séu höfuðstöðvar […]. Aðspurður hvernig hann hafi vitað húsnúmerið og hvort hann hafi séð númerið utan á húsinu sagði kærandi að fyrir löngu hafi hann horft á þætti í sjónvarpinu, heimildaþætti, og þar hafi umrætt götuheiti og húsnúmer verið endurtekið. Þá bætti kærandi því við að þetta götunúmer og götuheiti hafi fest í minni kæranda og haldi kærandi að næstum allir […] þekki þessa götu, en þetta sé gata sem maður vilji ekki láta tengja sig við. Aðspurður hvernig kærandi hafi vitað að hann hafi verið færður í umrætt hús og hvort hann þekkti húsið eða götuna, svaraði kærandi að þegar honum hafi verið sleppt úr haldi hafi hann farið að leita að stað til að komast burt og hafi hann gengið eftir […] og því hafi ekkert annað hús komið til greina.

Lýsingar kæranda á umhverfi hússins, bílastæðum, gróðri, girðingum, nálægð við götu og fleira eru ekki í samræmi við upplýsingar um útlit hússins samkvæmt nákvæmum myndum frá hverfinu sem kærunefnd skoðaði. Kærunefnd telur því að frásögn kæranda að þessu leyti sé ekki sannleikanum samkvæmt en ætla má að hann hefði getað lýst staðháttum að einhverju leyti. Þykir þessi frásögn enn frekar draga úr trúverðugleika frásagnar kæranda.

Í viðtali við kæranda hjá kærunefnd, þann 1. febrúar 2018, var kærandi spurður hvort hann gæti lagt fram einhver gögn um að hann hafi verið í […], t.d. reikningsyfirlit á greiðslukorti eða stimpla í vegabréfi. Hann svaraði því neitandi. […] Að mati kærunefndar dregur þessi skortur á gögnum úr trúverðugleika frásagnar kæranda af dvöl hans í […].

Þá telur kærunefnd að misræmi á milli frásagnar eiginkonu kæranda og dóttur hans um símtöl þau sem áttu að hafa átt sér stað á meðan hann var í […] og lýst er nánar í úrskurði kærunefndar í máli eiginkonu kæranda þykir enn frekar draga úr trúverðugleika frásagnar þeirra.

Með vísan til ofangreinds telur kærunefnd að óútskýrt misræmi í frásögn kæranda, almennur óstöðugleiki í framburði hans og skortur á gögnum honum til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta sé að mestu ótrúverðug. Ekki verður því byggt á frásögn kæranda um för hans til […] og þá atburði sem hann tengdi við þá ferð. Þá verður ekki byggt á því að kærandi hafi verið handtekinn og beittur harðræði af […] yfirvöldum. Af sömu ástæðu verður ekki talið að […] yfirvöld leiti kæranda af ástæðum sem gætu skipt máli við afgreiðslu umsóknar alþjóðlega vernd. Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins og skýrslur um aðstæður í […] og er það mat nefndarinnar að kærandi hafi ekki að öðru leyti gert sennilegt að hann hafi orðið fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila. Kærunefnd telur því að kærandi hafi ekki sýnt fram á með nægilega skýrum hætti að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu í skilningi laga um útlendinga.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Með úrskurði kærunefndar, dags. 1. mars 2018, var lagt fyrir Útlendingastofnun að veita eiginkonu kæranda og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga, sbr. lög um breytingu á lögum um útlendinga nr. 81/2017. Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2017 er það niðurstaða kærunefndar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lögin.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration related to his application for international protection is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir                                                            Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta