Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 225/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 225/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. apríl 2022 og var umsóknin samþykkt 4. maí 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sökum þess að hann hefði ekki upplýst stofnunina um dvöl erlendis.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. maí 2023. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 6. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að forsaga máls hans sé sú að hann hafi átt bókaðan tíma í viðtal hjá Vinnumálastofnun á Austurlandi þann 23. nóvember 2022. Kærandi hafi lenti í alvarlegu bílslysi þann 21. nóvember og hafi verið inni á spítala í nokkra daga og hafi þar af leiðandi ekki getað mætt á fundinn. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun læknisvottorð sem staðfesti fjarvist hans og spítalavistina. Svo virðist sem Vinnumálastofnun taki vottorðið ekki gilt því ákvörðunin standi enn, hann hafi fengið á sig brot og umsókn hans hafi verið sett á bið í þrjá mánuði vegna þessa. Kærandi hafi reynt að fá þessu hnikað í gegnum fulltrúa Vinnumálastofnunar en það hafi ekki gengið þrátt fyrir vottorðið. Að mati kæranda sé það stórkostlegt gáleysi hjá Vinnumálastofnun að taka vottorð frá lækni ekki gilt og viðhalda ákvörðuninni um að setja hann á biðtíma. Engu að síður hafi það verið raunin.

Á biðtímanum hafi fjölskylda kæranda boðið honum erlendis yfir jól og áramót sem hann hafi þegið með þökkum, enda hafi hann ekki haft neinar tekjur í einhverja mánuði á þeim tíma og ekki seinasta hálfa árið ef út í það sé farið vegna ákvarðana Vinnumálastofnunar. Síðan hafi kærandi fengið bréf þess efnis að umsókn hans hefði verið sett í greiðslustöðvun vegna þriðja brots af hans hálfu vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Kærandi hafi þó áður verið búinn að ræða við fulltrúa Vinnumálastofnunar á Austurlandi um að hann hefði farið til útlanda og lesið sér til á heimasíðu stofnunarinnar um tilkynningarskyldu og komist að því að honum hefði ekki borið skylda til að tilkynna ferðina þar sem hann væri ekki að þiggja bætur. Fulltrúinn hafi verið sammála kæranda í þeim efnum og hafi þótt þetta furðulegt af hálfu Greiðslustofu. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar standi: „Þú þarft að upplýsa Vinnumálastofnun tafarlaust um allar breytingar sem verða á högum þínum og kunna að hafa áhrif á rétt þinn á þeim tíma sem þú færð greiddar atvinnuleysisbætur.“ Kærandi hafi ekki skilið þetta öðruvísi en að hann þyrfti ekki að tilkynna neitt vegna þess að hann væri ekki að fá bætur á þessum tíma. Fulltrúi Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum hafi verið sammála kæranda og talið að þetta mætti vera mun betur orðað. Starfsmaðurinn hafi haft samband við yfirlögfræðing stofnunarinnar vegna þessa en hafi aldrei fengið nein svör. Þetta sé því virkilega loðið að mati kæranda.

Kærandi telji að hann sé hlunnfarinn og að það sé gert lítið úr slysinu og hans aðstæðum. Kæranda finnist framkoma Vinnumálastofnunar og Greiðslustofu vera mannvonska. Kærandi krefjist þess að fá greiddar bætur fyrir tímabilið frá slysdegi til dagsins í dag, sem hann hefði undir öllum eðlilegum kringumstæðum átt rétt á, að undanskildum þeim dögum sem hann hafi dvalið erlendis.

Einnig vilji kærandi að Vinnumálastofnun endurskoði upplýsingar sem gefnar séu á heimasíðunni varðandi tilkynningaskylduna því að allir sem kærandi hafi talað við varðandi þetta mál hingað til hafi verið sammála því að textinn sé misvísandi og bæri að túlka á sama veg og hann hafi gert, þ.e. að honum hafi ekki verið skylt að tilkynna ferðina erlendis þar sem hann hafi ekki verið að fá greiddar bætur á þessu tímabili.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 1. apríl 2022. Með erindi, dags. 4. maí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Upphaf máls kæranda megi rekja til þess að þann 23. nóvember 2022 hafi hann verið boðaður til símaviðtals við fulltrúa Vinnumálastofnunar. Umrætt viðtal hafi átt að eiga sér stað þann 24. nóvember 2022 klukkan 9:30-10:30. Kærandi hafi hins vegar ekki svarað síma sínum þegar fulltrúi stofnunarinnar hafi reynt að hringja í hann vegna umrædds viðtals. Með erindi, dags. 5. desember 2022, hafi verið óskað skýringa frá kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt til viðtalsins. Engar skýringar hafi þó borist frá kæranda og því hafi honum verið tilkynnt með erindi, dags. 19. desember 2022, að réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í þrjá mánuði. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

Þann 21. febrúar 2023 hafi kærandi mætt til boðaðs viðtals á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá því að hann hefði dvalið erlendis á tímabilinu 23. desember 2022 til 3. janúar 2023. Vinnumálastofnun hafi ekki áður borist upplýsingar þess efnis. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði verið á viðurlögum samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar og ekki vitað að honum bæri að tilkynna um dvöl sína erlendis. Í kjölfarið hafi með erindi, dags. 2. mars 2023, verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki tilkynnt stofnuninni um dvöl sína erlendis. Að auki hafi verið óskað afrits af flugfarseðlum. Þann 8. mars 2023 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem hann hafi dvalið erlendis. Því hafi hann ekki gert ráð fyrir að honum bæri skylda til að tilkynna stofnuninni um ferðir til og frá landinu. Máli sínu til stuðnings hafi kærandi vísað til upplýsinga á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem fram hafi komið að upplýsa þyrfti Vinnumálastofnun tafarlaust um allar breytingar sem yrðu á högum atvinnuleitanda og kynnu að hafa áhrif á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem viðkomandi fengi greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi talið ljóst að af framangreindum upplýsingum léki enginn vafi á því að fólk sem færi til útlanda þann tíma sem það fengi greiddar atvinnuleysisbætur ætti að tilkynna það til stofnunarinnar. Hins vegar hefði kærandi á því tímabili sem hann hafi dvalið erlendis ekki fengið greiddar bætur frá stofnuninni. Því hafi hann ekki gert ráð fyrir því að þurfa að tilkynna stofnuninni um ferð sína erlendis. Meðfylgjandi skýringum kæranda hafi verið afrit af flugfarseðlum. Þar komi fram að kærandi hafi dvalið erlendis á tímabilinu 23. desember 2022 til 1. janúar 2023. Kærandi hafi jafnframt afhent Vinnumálastofnun læknisvottorð þann 8. mars 2023, útgefið 2. mars 2023, þar sem fram komi að hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús í kjölfar áreksturs. Hann hafi dvalið þar á tímabilinu 22. til 26. nóvember 2022. Því hafi hann ekki mætt til boðaðs viðtals þann 24. nóvember 2022, en eins og að framan hafi verið rakið hafi kæranda með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2022, verið gert að sæta þriggja mánaða viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna fjarveru í boðað viðtal.

Með erindi, dags. 14. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem hann hafi ekki tilkynnt stofnuninni um dvöl sína erlendis. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. mgr. 61. gr. sömu laga. Kæranda hafi jafnframt verið sent bréf þann 14. mars 2023 þar sem óskað hafi verið eftir skriflegri afstöðu á ástæðum þess að hann hafi ekki veitt stofnuninni upplýsingar um skerta vinnufærni fyrr. Áðurnefnt læknisvottorð hafi gefið stofnuninni tilefni til að óska eftir skýringum kæranda. Vinnumálastofnun hafi borist skýringar kæranda samdægurs á ástæðum þess að hann hafi ekki greint stofnuninni frá skertri vinnufærni. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði verið boðaður í viðtal hjá fulltrúa stofnunarinnar en hafi ekki mætt því hann hafi lent í bílslysi. Hann hafi í kjölfarið verið lagður inn á sjúkrahús og dvalið þar í nokkra daga. Slíkt kæmi fram á læknisvottorði sem hann hafi afhent stofnuninni. Kærandi hafi greint frá því að hann hefði átt í samskiptum við fulltrúa Vinnumálastofnunar og greint honum frá stöðu sinni. Fulltrúi stofnunarinnar hafi ráðlagt honum að senda inn læknisvottorð. Slíkt ætti að teljast góð og gild ástæða fyrir því að hafa ekki mætt í viðtalið. Kærandi hafi óskað eftir því að honum yrði sýndur skilningur. Hann hafi verið lengi að ná sér að fullu eftir bílslysið og hafi ekki verið með hugann við að útvega vottorð á þeim tíma. Vegna mistaka Vinnumálastofnunar hafi framangreindar skýringar kæranda ekki hlotið viðeigandi meðferð innan stofnunarinnar. Réttilega hefðu skýringar kæranda átt að gefa stofnuninni tilefni til frekari athugunar á máli hans en vegna mistaka hafi láðst að afgreiða mál kæranda vegna fjarveru í boðað viðtal. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2022, hafi því ekki verið tekin fyrir að nýju þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli kæranda. Þann 28. mars 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi greint frá því að honum þætti virkilega furðulegt að honum væri gert að sæta viðurlögum vegna ferðar sinnar erlendis. Kærandi hafi aftur vísað til áðurnefndra upplýsinga á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi áréttað að hann hafi verið þeirrar trúar að honum bæri ekki að tilkynna stofnuninni um neitt þar sem hann hafi á þeim tíma er hann hafi dvalið erlendis ekki þegið bætur frá stofnuninni sökum viðurlaga. Kærandi hafi sagst hafa talað við fulltrúa Vinnumálastofnunar sem hafi tjáð honum að texti stofnunarinnar á heimasíðunni mætti væri skýrari. Þá hafi kærandi gert athugasemdir við það að stofnunin hefði ekki tekið læknisvottorð hans gilt. Kærandi hafi sent póst á sínum tíma og hringt í stofnunina til að láta vita af fjarveru sinni til umrædds viðtals. Kærandi hafi vonast til þess að Vinnumálastofnun myndi endurskoða mál hans. Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 17. apríl 2023, hafi kæranda þó verið tilkynnt að það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu.

Þann 21. apríl 2023 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun tölvupóst. Kærandi hafi gert frekari athugasemdir við það að læknisvottorð hans hefði ekki verið tekið gilt. Vinnumálastofnun hafi óskað skýringa frá honum og hann veitt stofnuninni sínar skýringar. Þá hafi kærandi aftur vísað til texta á heimasíðu Vinnumálastofnun um upplýsingaskyldu atvinnurekanda og áréttað að upplýsingaskyldan ætti aðeins við um þá sem myndu þiggja greiðslur en hann hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur í nærri hálft ár. Kærandi hafi óskað rökstuðnings á ákvörðun stofnunarinnar. Vegna mistaka hafi kæranda ekki verið veittur rökstuðningur sem stofnunin biðjist velvirðingar á.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Kærufrestur ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 19. desember 2022, er varði viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum fjarveru í boðað viðtal, sé liðinn, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Hér verði því rökstudd ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. mars 2023, um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. jafnframt ákvörðun stofnunarinnar, dags. 17. apríl 2023.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingarskyldu hins tryggða. Þar segi orðrétt:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis á tímabilinu 23. desember 2022 til 1. janúar 2023. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína. Kærandi hafi því verið beittur viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Í skýringum til Vinnumálastofnunar hafi kærandi greint frá því að honum hafi ekki verið kunnugt um að honum bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis. Hann hafi á þeim tíma er hann hafi dvalið erlendis ekki þegið atvinnuleysisbætur sökum þess að hann hafi áður verið beittur viðurlögum. Máli sínu til stuðnings hafi kærandi vísað til texta á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem fram hafi komið að upplýsingaskyldu gagnvart Vinnumálastofnun bæru þeir sem væru að þiggja atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun veki athygli úrskurðarnefndarinnar á því að umræddur texti á heimasíðu stofnunarinnar hafi nú nýlega verið uppfærður. Uppfærður texti hafi þó ekki verið birtur fyrr en þann 4. apríl 2023. Eins og áður segi hafi kærandi verið beittur viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2022. Í 2. mgr. 58. gr. sé skýrt kveðið á um það að hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði laganna á viðurlagatímanum samkvæmt 1. mgr. Veiti hann Vinnumálastofnun ekki nauðsynlegar upplýsingar á þeim tíma eða tilkynni ekki um breytingar á högum geti komið til ítrekunaráhrifa samkvæmt 61. gr. Ljóst sé að þeir sem dvelji erlendis uppfylli ekki skilyrði laganna, sbr. einkum c-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að hann hafi ekki uppfyllt upplýsinga- og trúnaðarskyldu sína gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú skylda atvinnuleitanda sem þiggi atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrir fram um utanlandsferðir sínar sé fortakslaus, enda sé um að ræða upplýsingar um atvik sem hafi bein áhrif á rétt atvinnuleitanda til greiðslu atvinnuleysisbóta. Að mati Vinnumálastofnunar hefði kæranda mátt vera ljóst að honum bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis þrátt fyrir að hann sætti viðurlögum á þeim tíma er hann hafi dvalið erlendis. Stofnunin vísi meðal annars til þess að kæranda hafi í öll þau skipti sem hann hafi verið beittur viðurlögum verið greint frá því að honum bæri að staðfesta atvinnuleit sína á viðurlagatímanum og það hafi hann reglulega gert.

Staðfesting á atvinnuleit sé ein grunnskylda hvers atvinnuleitanda. Með því að staðfesta atvinnuleit í hverjum mánuði staðfesti atvinnuleitendur að þeir uppfylli skilyrði laganna. Með því að staðfesta atvinnuleit staðfesti atvinnuleitandi jafnframt að hann sé reiðubúinn að ráða sig til vinnu og taka þeim störfum sem bjóðist og hafi vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem stofnunin skipuleggi. Eðli máls samkvæmt samrýmist það ekki staðfestingu á virkri atvinnuleit að dvelja erlendis án þess að tilkynna það til stofnunarinnar.

Í ljósi alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um sé að ræða þriðja skiptið á sama tímabili samkvæmt 29. gr. laganna sem kærandi sé beittur viðurlögum. Kærandi eigi því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 61. gr. Vinnumálastofnun biðji kæranda velvirðingar á annmörkum á málsmeðferð í máli hans. Stofnuninni þyki rétt að árétta fyrir úrskurðarnefndinni að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2022, um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi fyrir mistök ekki verið tekin fyrir að nýju í kjölfar þess að ný gögn hafi borist í máli kæranda í tengslum við umrædda ákvörðun.

Með vísan til alls ofangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva beri greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. mgr. 61. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi staddur erlendis á tímabilinu 23. desember 2022 til 1. janúar 2023 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi ekki haft vitneskju um að hann þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína þar sem hann hafi verið á viðurlögum og því ekki verið að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni á þessu tímabili. Kærandi hafi lesið sér til á heimasíðu Vinnumálastofnunar og þar hafi verið tekið fram að upplýsa þyrfti stofnunina tafarlaust um allt sem kynni að hafa áhrif á þeim tíma er viðkomandi fengi greiddar atvinnuleysisbætur.

Þann 11. apríl 2022 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var meðal annars greint frá því að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir til útlanda á „Mínum síðum“. Kæranda var einnig bent á að skoða vel upplýsingar um réttindi og skyldur á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Af hálfu Vinnumálastofnun hefur komið fram að sá texti á heimasíðu stofnunarinnar sem kærandi hafi vísað til hafi nýlega verið uppfærður. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi mátt vita, þrátt fyrir ófullnægjandi upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar, að honum bæri að tilkynna stofnuninni sérstaklega um ferð sína til útlanda, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér upplýsinga um slíka tilkynningarskyldu.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti ekki fyrir fram um ferð sína erlendis. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um viðurlög við slíku broti.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Þá segir í 4. mgr. 61. gr. að ef atvik sem lýst sé í 1. málsl. 1. mgr. endurtaki sig á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 31. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins hófst bótatímabil kæranda í apríl 2022. Kærandi sætti niðurfellingu bótaréttar á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 þann 5. október 2022 og sætti aftur viðurlögum á grundvelli 58. gr. laganna þann 19. desember 2022. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, kom nú til ítrekunaráhrifa samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laganna og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysibóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna, þ.e. eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar velferðarmála vísaði Vinnumálastofnun til þess að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2022, um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 hefði fyrir mistök ekki verið tekin fyrir að nýju í kjölfar þess að ný gögn hefðu borist frá kæranda í tengslum við þá ákvörðun. Fyrir liggur að um er að ræða læknisvottorð sem kærandi sendi Vinnumálastofnun þar sem fram kemur hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús 22. nóvember 2022 eftir árekstur og verið þar inni til 26. nóvember 2022. Vegna þessa hafi hann ekki getað mætt í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun 24. nóvember 2022. Úrskurðarnefndin telur ljóst að kærandi hafi með framlagningu læknisvottorðsins verið að óska eftir endurupptöku á ákvörðun frá 19. desember 2022. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Vinnumálastofnun að afgreiða erindi kæranda með formlegum hætti og í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en kærandi getur eftir atvikum lagt fram nýja kæru hjá nefndinni í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A-2599, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta