Hoppa yfir valmynd

A-308/2009 úrskurður frá 14. ágúst 2009

A-308/2009. Úrskurður frá 14. ágúst 2009.

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. ágúst 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-308/2009.

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi, dags. 4. júní 2009, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kærði [...] þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja [...] um afhendingu gagna sem lögð voru fram á fundi borgarráðs 28. maí 2009 í tilefni af fyrirspurn fulltrúa í borgarráði frá 14. þess sama mánaðar.

Atvik málsins eru þau að kærandi óskaði eftir því við Reykjavíkurborg að fá afhent gögn sem lögð voru fram á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar 28. maí 2009 sem svar við fyrirspurn fulltrúa í ráðinu frá 14. sama mánaðar. Nánar tiltekið fól umrædd fyrirspurn í sér ósk um „sundurliðað yfirlit um stöðu lóðarhafa á nýbyggingarsvæðum borgarinnar m.t.t. stöðu framkvæmda og í hversu mörgum tilvikum [hefðu] komið fram óskir um að Reykjavíkurborg [leysti] lóðirnar til sín.“ Með tölvubréfi frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. júní 2009, fékk kærandi afhent svar borgarstjóra við umræddri fyrirspurn, dags. 22. maí 2009, þar sem fram kemur m.a. listi yfir þær lóðir sem óskað hafði verið eftir að skilað yrði til borgarinnar. Hins vegar var kæranda með umræddu tölvubréfi ekki afhent fylgiskjal sem fylgt hafði svari borgarstjóra, en í því kemur fram sérstakt yfirlit yfir stöðu framkvæmda á útboðslóðum 2006 í Úlfarsárdal.

Með tölvubréfi þann sama dag, þ.e. 3. júní, óskaði kærandi formlega eftir aðgangi að umræddu fylgiskjali með vísan til upplýsingalaga nr. 50/1996. Með tölvubréfi, dags. 4. júní 2009, synjaði Reykjavíkurborg beiðni kæranda með vísan til þess að um væri að ræða upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem borgin teldi rétt að farið væri með sem trúnaðarmál, sbr. fyrri málslið 5. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið var synjun Reykjavíkurborgar kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með tölvubréfi, dags. 4. júní 2009. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. júní sl., var Reykjavíkurborg kynnt kæran og veittur frestur til 16. júní til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir synjuninni. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrðu innan sama frests látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júní, var sá frestur síðan framlengdur til 22. júní að beiðni kærða.

 Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júní, benti kærandi á að Reykjavíkurborg hefði í desember 2008 veitt íbúa í borginni svipaðar upplýsingar og beiðni hans beindist að og [...] hefði þær upplýsingar nú undir höndum. Fylgdu umræddar upplýsingar bréfi kæranda.

Með bréfi, sem einnig er dags. 19. júní., bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir Reykjavíkurborgar við hina fram komnu kæru. Var þar ítrekuð sú afstaða að synja bæri beiðninni á grundvelli fyrri málsliðar 5. gr. upplýsingalaga. Segir ennfremur í bréfinu að yfirlitsblaðið hafi að geyma persónugreinanlegar upplýsingar sem varði einkaframkvæmdir og falli ótvírætt undir einkamálefni einstaklinga, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að farið verði með sem trúnaðarmál. Með bréfinu fylgdi einnig afrit af hinum umbeðnu gögnum.

Með bréfi, dags. 23. júní, kynnti úrskurðarnefnd kæranda umsögn Reykjavíkurborgar og veitti honum frest til 29. sama mánaðar til að koma að frekari athugasemdum vegna kæru hans í ljósi umsagnarinnar. Sama dag kynnti úrskurðarnefnd fyrir Reykjavíkurborg athugasemdir þær sem borist höfðu frá kæranda þann 19. júní og var Reykjavíkurborg einnig veittur frestur til 29. þess mánaðar til að láta í ljós álit sitt á þeim.

Reykjavíkurborg sendi inn athugasemdir sínar við erindi kæranda frá 19. júní með bréfi, dags. 26. júní. Voru þar sjónarmið þau sem komið höfðu fram í upphaflegum athugasemdum borgarinnar, dags. 19. júní, ítrekuð. Þar segir ennfremur svo:

„Umrætt fylgiskjal sem fylgdi með tölvubréfi kæranda virðist hafa verið afhent vegna mistaka af hálfu Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg telur sér ekki skylt að afhenda þau gögn sem kærandi fer fram á þó svo að fyrrgreind afhending hafi farið fram enda getur hún ekki skapað kæranda neinn rétt til aðgangs, t.d. á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, þar sem fyrir liggur það mat sveitarfélagsins að þær upplýsingar sem þar koma fram falli undir ákvæði 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.“

Af þessu tilefni sendi úrskurðarnefnd kæranda bréf, dags. 1. júlí sl., þar sem honum var veittur frestur til 7. júlí sl. til að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu vegna hinnar nýju umsagnar Reykjavíkurborgar. Ekki bárust athugasemdir fyrir lok frestsins og sendi úrskurðarnefnd kæranda því tölvubréf, dags. 14. júlí sl., þar sem honum var gefinn frestur til 20. júlí til að koma að athugasemdum sínum, ella yrði málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Kærandi sendi athugasemdir sínar til úrskurðarnefndar með tölvubréfi, dags. 17. júlí 2009.

Niðurstöður

Í máli þessu reynir á aðgang kæranda að upplýsingum um stöðu lóðarhafa á nýbyggingarsvæðum Reykjavíkurborgar sem koma fram í yfirliti sem fylgdi svari borgarstjóra, dags 22. maí 2009, við fyrirspurn fulltrúa í borgarráði um stöðu lóðarhafa á nýbyggingarsvæðum borgarinnar. Var hið umrædda svar, ásamt yfirlitinu, lagt fram á fundi borgarráðs 28. sama mánaðar.

Meginregla upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum hjá stjórnvöldum kemur fram í 3. gr. laganna. Sá upplýsingaréttur sem þar er kveðið á um sætir takmörkunum samkvæmt nánari fyrirmælum 4.-6. gr. upplýsingalaga. Í máli þessu reynir á hvort þær upplýsingar sem fram koma á umræddu skjali teljist upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. laganna. Tekur úrskurðarnefndin fram að í því sambandi skiptir ekki máli hver tilgangur kæranda er með því að leita umræddra upplýsinga, hvort af hans hálfu er fyrirhugað að birta þær í fjölmiðlum eða nýta þær á annan hátt.

Samkvæmt fyrri málslið 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það myndi takmarka mjög upplýsingaréttinn ef allar upplýsingar, sem snerta einkahagsmuni einstaklinga væru undanþegnar. Er þeirri stefnu fylgt að láta meginregluna um upplýsingarétt taka til slíkra upplýsinga en með þeim takmörkunum sem gera verður m.a. til að tryggja friðhelgi einkalífs, sbr. 5. gr. Upplýsingarétturinn verður almennt ekki takmarkaður samkvæmt ákvæðinu nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingarnar eru veittar.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér það gagn sem kæranda hefur verið synjað um aðgang að af hálfu Reykjavíkurborgar. Skjalið, sem er dagsett 20. maí 2009, inniheldur fjóra dálka. Í fyrsta dálki kemur fram heiti viðkomandi lóðar. Í dálki tvö kemur fram íbúðafjöldi sem ráðgert er að byggja á hverri lóð fyrir sig. Í þriðja dálki kemur fram hvort teikningar fyrir viðkomandi lóð hafi verið samþykktar og þá hvenær það var gert og í fjórða dálki kemur fram hvort framkvæmdir á viðkomandi lóð séu hafnar, og eftir atvikum hvort húsnæði sé orðið fokhelt. Í lok skjalsins kemur svo fram samantekt ofangreindra upplýsinga. Ekki koma fram beinar upplýsingar á yfirlitinu um fjárhag lóðarhafa, en á hinn bóginn er af upplýsingum í dálkum nr. þrjú og fjögur m.a. hægt að draga ályktanir um stöðu framkvæmda og hvort framgangur þeirra sé í samræmi við almenna skilmála borgarinnar um framkvæmdahraða.

Líkt og fram kemur í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-236/2006 og A-272/2007 verður almennt ekki talið að upplýsingar um það hvort einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili hafi fengið útgefið leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis eða húsnæðis fyrir starfsemi sína samkvæmt framlögðum teikningum séu þess eðlis að þær skuli fara leynt skv. 5. eða 6. gr. upplýsingalaga. Hið sama verður almennt að telja að eigi við um úthlutun á byggingarrétti á tilteknum lóðum. Með vísan til þessa verður að telja að kærandi eigi rétt á aðgangi að þeim upplýsingum sem fram koma í dálkum eitt og tvö í umræddu yfirliti, sem og samantektinni síðast í skjalinu.

Þær upplýsingar sem fram koma í því yfirliti sem hér er um að ræða lúta á hinn bóginn að fleiri þáttum en einvörðungu því hvort ákveðnum aðila hafi af hálfu sveitarfélags verið veitt heimild til tiltekinna framkvæmda eða honum úthlutaður byggingarréttur á tiltekinni lóð. Með vísan til þess að hið umbeðna yfirlit geymir upplýsingar um stöðu framkvæmda á 102 tilgreindum lóðum í Úlfarsárdal í Reykjavík, þar sem fyrirhugað er að byggja samtals 341 íbúð, og að teknu tilliti til hagsmuna þeirra lóðarhafa sem hér um ræðir, telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fallast beri á þá ákvörðun kærða, Reykjavíkurborgar, að synja kæranda um aðgang að umbeðnu gagni með vísan til 5. gr. upplýsingalaga hvað varðar þær upplýsingar sem fram koma í dálkum þrjú og fjögur í skjalinu.

Í 7. gr. upplýsingalaga kemur fram að eigi ákvæði 4.-6. gr. laganna aðeins við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins. Með vísan til þessa ber Reykjavíkurborg að afhenda kæranda það skjal sem honum hefur verið synjað um aðgang að og kæra máls þessa beinist að, en þó með þeirri takmörkun að ekki skal veita honum aðgang að þeim upplýsingum sem fram koma í dálkum þrjú og fjögur í skjalinu. Nánar tiltekið skal veita kæranda aðgang að skjalinu í heild sinni, að undanskildum dálkum með yfirskriftina „Teikningar samþykktar“ og „Framkvæmdir hafnar“.

Þar sem Reykjavíkurborg var samkvæmt framangreindu rétt að synja um aðgang að hluta af umræddu skjali með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hefur það ekki áhrif á niðurstöðu málsins þó að Reykjavíkurborg hafi í desember 2008 afhent einstaklingi sambærilegt yfirlit og það sem beiðni kæranda í máli þessu lýtur að.

 Úrskurðarorð

 Reykjavíkurborg ber að afhenda kæranda, [...] fylgiskjal sem fylgdi svari borgarstjóra, dags. 22. maí 2009, og lagt var fram á fundi í borgarráði Reykjavíkurborgar 28. sama mánaðar, þar sem fram kemur yfirlit yfir stöðu framkvæmda á útboðslóðum í Úlfarsárdal, að undanskildum þeim upplýsingum sem fram koma í dálki þrjú og fjögur í skjalinu.

Friðgeir Björnsson,

 formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                           Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta