Hoppa yfir valmynd

A 311/2009 Úrskurður frá 24. september 2009

ÚRSKURÐUR

Hinn 24. september 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-311/2009.


Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 23. júlí 2009, kærði [...] þá ákvörðun félags- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 20. júlí 2009, að afhenda honum einungis upplýsingar um nöfn og stöðu umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík en ekki upplýsingar um menntun umsækjenda um stöðuna.

Atvik málsins eru þau að kærandi óskaði munnlega eftir því við félags- og tryggingamálaráðuneytið að honum yrði afhentur listi yfir nöfn umsækjenda um umrætt starf sem var gert samdægurs. Í kjölfar þess óskaði hann eftir nánari upplýsingum um umsækjendur sem ættu að gera honum betur grein fyrir umsækjendum. Með bréfi félags- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 20. júlí 2009, var kæranda afhentur listi með nöfnum umsækjenda, heimilisföngum þeirra og starfsheitum.


Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið var sú ákvörðun félags- og tryggingamálaráðuneytisins um að afhenda kæranda einungis upplýsingar um nöfn og stöðu umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík án upplýsinga um menntun þeirra kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 23. júlí 2009. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júlí 2009, var félags- og tryggingamálaráðuneytinu kynnt kæran og veittur frestur til 7. ágúst sl. til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi. Einnig var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran laut að.

Með bréfi, dags. 5. ágúst sl., bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að kærandi óskaði munnlega eftir upplýsingum frá ráðuneytinu varðandi umsækjendur um umrædda stöðu. Í fyrstu óskaði hann aðeins eftir nöfnum umsækjenda og var honum afhentur listi yfir nöfn umsækjenda þann sama dag. Í kjölfar þess hafði kærandi aftur samband við ráðuneytið og óskaði eftir nánari upplýsingum sem ættu að gera honum betur grein fyrir umsækjendum. Ráðuneytið tekur fram, í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar, að kærandi hafi ekki tilgreint sérstaklega þær upplýsingar sem hann óskaði eftir. Var kæranda tilkynnt að honum yrðu veittar upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda eftir því sem við ætti eins og skylt væri samkvæmt 4. tl. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Ráðuneytið tekur einnig fram að ekki hafi annað komið í ljós en kærandi væri sáttur við þá afgreiðslu ráðuneytisins. Upplýsingarnar hefðu í kjölfarið verið sendar kæranda með bréfi, dags. 20. júlí sl. Jafnframt tekur ráðuneytið fram að það fallist ekki á þá staðhæfingu kæranda að ráðuneytið hafi synjað honum um upplýsingar um menntun umsækjenda enda hafi hann ekki óskað þeirra upplýsinga sérstaklega. Ráðuneytið tekur jafnframt fram að það telji að með bréfi, dags. 20. júlí sl., hafi kæranda verið veittar þær upplýsingar sem heimilt hafi verið að veita í málum sem þessum samkvæmt upplýsingalögum.   

Með bréfi, dags. 10. ágúst sl., kynnti úrskurðarnefndin kæranda umsögn félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Honum var jafnframt veittur frestur til 20. ágúst sl. til að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar.

Með bréfi kæranda, dags. 14. ágúst sl., tekur hann fram að í 4. tl. 4. gr. upplýsingalaga komi ekki fram að upplýsingar um menntun umsækjenda séu undanþegnar upplýsingarétti og ítrekar hann kröfu sína um upplýsingar um menntun umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík.  

 

Niðurstöður

Í máli þessu reynir á aðgang kæranda að upplýsingum um menntun umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði 1. júní 2009.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þau gögn er málið varða og telur að beiðni kæranda um nánari upplýsingar sem ættu að gera honum betur grein fyrir umsækjendum hafi falið í sér beiðni um upplýsingar um gögn í tilteknu máli án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða eins og heimilt er samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Sú ákvörðun félags- og tryggingamálaráðuneytisins að afhenda honum upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda hafi falið í sér synjun á afhendingu annarra gagna um umsækjendur á grundvelli 4. tl. 4. gr. upplýsingalaga. Kæru vegna þeirrar synjunar hefur kærandi réttilega beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.
Meginregla upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum hjá stjórnvöldum kemur fram í 3. gr. laganna. Sá upplýsingaréttur sem þar er kveðið á um sætir takmörkunum samkvæmt nánari fyrirmælum 4.-6. gr. upplýsingalaga. Í máli þessu reynir á hvort upplýsingar um menntun umsækjenda um tiltekið starf séu undanþegnar upplýsingarétti almennings á grundvelli 4. tl. 4. gr. upplýsingalaga.
Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til „umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og allra gagna sem þær varða“. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að upplýsingalögum er ákvæði þetta skýrt á þann hátt, að með því sé tekið af skarið um að öll gögn máls, sem snerta skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf, séu undanþegin aðgangi almennings. Umsóknir, einkunnir, meðmæli, umsagnir um umsækjendur og öll önnur gögn í slíkum málum séu því undanþegin aðgangi almennings. Frá þessari reglu er þó lögfest eitt frávik, sbr. áðurnefndan 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, en þar segir: „þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn“.
Að þessu athuguðu er ljóst að upplýsingar um menntun umsækjenda teljast til þeirra upplýsinga sem í 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um að falli ekki undir rétt almennings til aðgangs að gögnum. Með hliðsjón af því ber að staðfesta þá ákvörðun félags- og tryggingamálaráðuneytisins að synja um aðgang að þeim upplýsingum.


Úrskurðarorð

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu ber ekki að afhenda kæranda, [...], upplýsingar um menntun umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði 1. júní 2009.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 

                                             Sigurveig Jónsdóttir                                      Trausti Fannar Valsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta