Hoppa yfir valmynd

Nr. 23/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 23/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU19090036 og KNU19090037

 

Kæra [...] og[...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. september 2019 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 20. ágúst 2019 um að synja kærendum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. febrúar 2019. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 25. mars 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 20. ágúst 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 17. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 2. október 2019 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd bárust viðbótargögn þann 5. desember 2019. M kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála 12. desember 2019. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kærendum 16., 18. og 27. desember 2019 og 9. janúar 2020.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að kærendur hafi verið búsett í bænum [...], í um [...] km. fjarlægð frá Moskvu. Þau hafi komið til Íslands í janúar sl. sem ferðamenn en vegna atburða sem hafi átt sér stað í Rússlandi hafi þau ekki séð sér annað fært en að sækja hér um alþjóðlega vernd. M kvaðst vera rithöfundur og ljóðskáld í heimaríki en að hann hafi einnig starfað við sölumennsku og auglýsingar á netinu og þar á undan við handritaskrif fyrir tölvuleiki. Kærendur kváðust tilheyra minnihlutahópi í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, en þau kváðust ekki styðja ríkisstjórn landsins, vera á móti yfirvöldum og hafa tekið þátt í mómælum árið 2011 vegna skoðana sinna.

Kærendur kveða ástæðu flótta vera þá að lögregluyfirvöld hafi komið að heimili þeirra þann 28. janúar sl. og gert húsleit þar sem haldlagt hafi verið handrit að bók eftir M, [...], ásamt tölvu, öllu ritefni M og fleiri bókum, og heimili kærenda lagt í rúst. Móðir M, hafi verið á heimili þeirra og lögreglan hafi krafist þess að hún afhenti þeim allt ritefni sem innhéldi öfgaefni (e. extremism) eða annað efni sem gagnrýndi Pútín eða stjórnvöld í landinu. Móðir M hafi ekki brugðist við og því hafi húsleitin haldið áfram. Lögreglan hafi gert skýrslu um húsleitina þar sem haldlagt efni hafi verið tiltekið. Þá hafi lögregla afhent móður M kvaðningu þess efnis að M ætti að mæta til yfirheyrslu sem grunaður maður vegna þeirra gagna sem hafi fundist á heimili hans við húsleitina. Í kjölfar húsleitarinnar hafi tölvupóstur M, sem hann hafði áður notað í tengslum við skrif bókarinnar [...], hætt að virka. Þá hafi móðir M haft samband við vin M og beðið hann um að koma í íbúð kærenda og taka ljósmyndir til staðfestingar á því sem hafi gerst. Hann hafi komið og tekið ljósmyndir af íbúðinni og framangreindum gögnum frá lögreglu. M kveður það hafi verið rannsóknarlögreglan, n.t.t. Sledstvennyi Komitet (e. The Investigative Committee of the Russian Federation) sem hafi framkvæmt húsleitina. Þá hafi, tíu dögum fyrir viðtal kærenda hjá Útlendingastofnun, lögreglumaður komið að heimili móður M í [...], í um [...] km. fjarlægð frá heimabæ kærenda, og spurt hvar M væri staddur, hvað hann væri að gera, hvort hann hafi gagnrýnt stjórnvöld eða stundaði hryðjuverkastarfsemi og hvort hann hafi áhuga á trúarbrögðum íslam.

Í greinargerð kærenda kemur fram að M hafi fyrst um sinn samið bækur og ljóð sem ekki hafi verið af pólitískum meiði. Hann hafi fengið hugmyndina að bók sinni í kjölfar atburðanna á Krímskaga, en hann og K hafi alltaf verið umkringd fólki sem styðji aðgerðir Rússa á Krímskaga og Pútín þvert á skoðanir kærenda, sem bæði séu á móti framangreindum aðferðum og stjórnvöldum í Rússlandi. M hafi lýst því að [...]. Ekki væri um eiginlega ævisögu að ræða þar sem staðreyndir blandist við fantasíu. Kærandi hafi lýst því m.a. að í bókinni sé fjallað um hluta í lífi Pútíns sem hann vilji ekki að rætt sé um, [...]. Kærandi kvað efni bókarinnar ekki vera leyndarmál, en hins vegar sé ólöglegt að tala illa um Pútín og gagnrýna stjórnvöld í Rússlandi. Bókin innihaldi m.a. efni sem talið sé vera áróður af yfirvöldum og því bannað í landinu. M kvaðst upphaflega hafa ætlað að gefa bók sína út og vonast til þess að Pútín yrði ekki endurkjörinn. Stjórnmálaástand hafi hins vegar versnað eftir síðustu kosningar og mun harðar verið tekið á andófsskoðunum almennings, öfgastefnu og athugasemdum á netinu. Því hafi M hætt við að gefa bókina út. M hafi hins vegar sent bókina til yfirlesturs til fimm kunningja sinna og hluta úr bókinni á einn til viðbótar í lok árs 2018. Hann kvaðst ekki vita hvernig efni bókarinnar hafi borist til yfirvalda, en kannski hafi einhver þessara manna tilkynnt yfirvöldum um efni bókarinnar, eða að bókin hafi borist til yfirvalda á leið til þeirra sem lásu hana yfir. Kærendur nefndu dæmi um einstaklinga sem hafi verið handteknir fyrir að tjá sig opinberlega í Rússlandi, t.d. Andrej Bubeev sem hafi birt mynd af tannkremstúpu á bloggsíðu sinni og fengið tveggja ára fangelsisrefsingu fyrir gagnrýni á stjórnvöld. Tannkremstúpan hafi verið myndlíking fyrir deilurnar á Krímskaga. Þá hafi hún minnst á bloggarann Aleksej Kumbburov sem hafi fengið fangelsisdóm fyrir skrif um hernaðarhreyfingar í Sýrlandi á bloggsíðu sinni og kennarann Anatolij Bivshev sem hafi skrifað ljóð til stuðnings Úkraínu til vinar síns þar í landi. Ljóðið hafi með einhverju móti komist á internetið og í kjölfarið hafi honum verið refsað fyrir skrifin í Rússlandi.

Kærendur óttist að M verði handtekinn af stjórnvöldum vegna gruns um öfgastefnu og andóf vegna umræddrar bókar. Fimm ára fangelsisrefsing liggi við því að einstaklingur kyndi undir mótmælum eða sýni andúð gegn ríkisstjórninni. Þá kveðast þau jafnframt óttast almenning, ekki aðeins að þau verði fyrir fordómum heldur einnig líkamlegu ofbeldi af hálfu almennings. Kærendur kváðust ekki njóta tjáningarfrelsis í Rússlandi og óttist stjórnvöld og lögregluyfirvöld. Aðspurð um möguleika á vernd lögreglu kváðu kærendur að þau gætu ekki fengið neina vernd yfirvalda. Lögregla verndi ekki fólk sem gagnrýni og sé á móti stjórnvöldum. Lögregluyfirvöld séu verkfæri stjórnvalda.

Kærendur kváðust ekki geta búið annars staðar í Rússlandi og verið örugg. Þegar hafi lögregla leitað að kæranda í heimaborg móður hans. Þá hafi kærandi ekki gagnrýnt staðbundin yfirvöld í Rússlandi, heldur yfirvöld í landinu öllu. Þá skipti máli í Rússlandi hvar einstaklingur sé með skráð lögheimili, m.a. til þess að fá heilbrigðisþjónustu. Því þurfi að skrá lögheimili formlega hjá þar til gerðri stofnun lögreglu, n.t.t. Pasportnij stol, vilji viðkomandi flytja og allar upplýsingar því aðgengilegar þegar lögheimili sé flutt. Þess vegna yrði vitað af kæranda sem grunuðum öfgasinna hvar sem er í landinu.

Í greinargerð kemur fram að í ráðgjöf hjá talsmanni sínum þann 4. september 2019. hafi M greint frá því að bankareikningi hans í bankanum [...] í Rússlandi hafi verið lokað u.þ.b. tveimur mánuðum áður. Kærandi hafi ætlað að greiða rússneskan símreikningi sinn en þá hafi bankareikningur hans verið óvirkur. Þann 3. september 2019 hafi M hringt í bankann til að fá upplýsingar um ástæður þess að reikningur hans væri óvirkur. Hann hafi fengið samband við þjónustuteymi bankans og talaði við þjónustufulltrúa sem hafi greint frá því að reikningnum hafi verið lokað vegna fyrirmæla frá yfirvöldum n.t.t. Rosfinmonitoring (e. The Federal Financial Monitoring Service of the Russian Federation). M hafi greint frá því að það hafi komið honum á óvart að þjónustufulltrúinn hafi tilgreint ástæður þess að reikningurinn væri lokaður með svo nákvæmum hætti, ekki sé sjálfgefið að slíkar ástæður séu gefnar upp og M hafi frekar búist við því að fá engar upplýsingar um ástæður lokunar á reikningum. M hafi tekið upp símtalið við bankann og sé upptakan meðfylgjandi, ásamt greiðslukorti hans hjá bankanum.

Í greinargerð kærenda er fjallað um stöðu mannréttindamála í Rússlandi. Í fyrsta lagi er fjallað um skorður á tjáningarfrelsi, ritskoðun og refsingar fyrir stjórnarandóf og „öfgahyggju“. Í greinargerðinni kemur fram að stjórnarandstæðingar og andófsmenn um allt land sæti áreitni, stjórnsýslu- og refsimálsóknum og líkamlegu ofbeldi af hálfu stuðningsmanna stjórnvalda og „óþekktra“ einstaklinga, sem taldir séu vera öryggisstarfsmenn yfirvalda og aðrir í samstarfi við stjórnvöld. Þá hafi löggjöf gegn öfgahyggju/öfgastefnu (e. anti-extremism legislation) verið víkkuð enn frekar og notuð af geðþótta gegn tjáningarfrelsi. Þá kemur fram að æðstu öryggisyfirvöld landsins, FSB, sem beri ábyrgð á öryggi, leyniþjónustu, aðgerðum gegn hryðjuverkastarfsemi og baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi og spillingu. Pútín hafi smám saman aukið lagaleg völd FSB til að hafa afskipti af einkalífi fólks og um leið skert grundvallarmannréttindi sem viðurkennd séu samkvæmt alþjóðalögum. Völd FSB séu orðin svo mikil að stofnuninni hafi verið líkt við forvera hennar, sovésku leyniþjónustuna KGB. Þá hafi mannréttindasamtökin Agora gefið út skýrslu í mars 2018 um húsleitir innan friðhelgis heimilisins vegna stjórnmálaskoðana, þar sem greindar hafi verið húsleitir á heimilum 600 stjórnarandófsmanna sem yfirvöld hafi fylgst með undanfarin þrjú ár. Í greinargerðinni kemur fram að stjórnvöld setji tjáningarfrelsi miklar skorður og í síauknum mæli. Þá misnoti stjórnvöld hina víðtæku skilgreiningu á hugtakinu öfgastefna (e. extremism) sem vopn gegn hvers kyns andófi. Þá eru nefnd dæmi um þegar bloggarar, fréttafólk, aðgerðarsinnar og aðrir sem hafi gagnrýnt stjórnvöld í Rússlandi hafi verið sóttir til saka á grundvelli ákvæða hegningarlaga fyrir öfgastefnu og ólögmæta gagnrýni og sætt fangelsisrefsingu.

Til stuðnings aðalkröfu kærenda um alþjóðlega vernd í heimalandi rekja kærendur í greinargerð sinni ástæður þess að þau eigi á hættu ofsóknir í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, en skoðanir M séu stjórnvöldum kunnar enda hafi þau undir höndum handrit að háðsbók hans um [...] þar sem fjallað sé um [...] á gagnrýninn hátt. Umrædd skrif M um [...] í bókinni [...], hafi leitt til húsleitar lögreglu á heimili kærenda, þar sem handrit bókarinnar hafi m.a. verið gert upptækt sem öfgaefni og M boðaður til yfirheyrslu í kjölfarið. M hafi lýst því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann hafi fengið hugmynd að bókinni í kjölfar atburðanna á Krímskaga, en kærendur séu á móti aðgerðum Rússa og stjórnvalda í landinu. Þá hafi þau vonast til að Pútín myndi ekki vera endurkjörinn forseti landsins og að kærandi gæti gefið út bók sína en vegna versnandi stjórnmálaástands og harðari löggjafar sem tekur á andófsskoðunum almennings, öfgastefnu og gagnrýni, hafi hann ekki séð sér fært að gefa bókina út. Kærendur telji yfirvöld í Rússlandi líkleg til að nota saksókn sem átyllu til refsingar gegn kæranda fyrir stjórnmálaskoðanir sem fram koma í umræddri bók, og að hann eigi á hættu að fá óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir meint brot sín og öfgastefnu. Þá óttist K um líf sitt sem eiginkona rithöfundar sem hafi gagnrýnt stjórnvöld.

Kærendur telja sig hafa með greinargóðum og ítarlegum hætti lýst þeim atburðum sem hafi leitt til þess að þau geti ekki snúið aftur til heimalands síns. Frásögn sinni til stuðnings hafi kærendur lagt fram gögn sem sýni að þau séu í hættu gagnvart yfirvöldum í heimalandi sínu. Þá sé ljóst að lögregluyfirvöld, í skjóli refsileysis, stundi pyndingar og ofbeldi í því skyni að þvinga fram játningar frá grunuðum einstaklingum. Þar sem kærendur séu að flýja Rússland vegna ofsókna af hálfu yfirvalda þar í landi sé ekki raunhæft að þau geti leitað sér verndar yfirvalda þar í landi, auk þess sem framanraktar heimildir bendi til þess að spilling og refsileysi loði við yfirvöld í landinu. Auk þess sé ljóst að með því að senda kærendur til Rússlands sé brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Kærendur gera nokkrar athugasemdir við það sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. að sökum stöðu hans sem óbreytts og óyfirlýsts andstæðings stafi honum ekki meiri hætta af yfirvöldum heldur en gengur og gerist í Rússlandi. Því er haldið fram í greinargerð að kærendur hafi lagt fram gögn sem sýni að húsleit hafi verið gerð á heimili kærenda í Rússlandi og að M hafi fengið boðun til að mæta í yfirheyrslu á lögreglustöð sem grunaður maður. Útlendingastofnun taki enga afstöðu til hinna framlögðu gagna og séu þau því ekki dregin í efa. Því sé ljóst að kærandi sé ekki óbreyttur og óyfirlýstur andstæðingur rússneskra stjórnvalda heldur stafi honum raunar töluvert meiri hætta af yfirvöldum heldur en gengur og gerist sem einstaklingur sem sé á móti stjórnvöldum í Rússlandi. Að mati kærenda skorti verulega á rökstuðning Útlendingastofnunar um hvers vegna stofnunin meti það sem svo að kærandi hafi stöðu óbreytts og óyfirlýsts stjórnmálaandstæðings. Auk þess komi fram í ákvörðun stofnunarinnar að M hafi ekki verið frambjóðandi í stjórnarandstöðu eða gegnt valdastöðu innan stjórnarandstöðunnar og að skrif hans hafi hingað til ekki verið af pólitískum toga, að undanskilinni hinni óútgefnu bók [...]. Í þessu samhengi sé áréttað að ekki sé hugtakskilyrði við mat á ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana að umsækjandi sé frambjóðandi í stjórnarandstöðu eða hafi gegnt sambærilegri valdastöðu innan stjórnarandstöðu. Slíkar ofsóknir feli í sér skoðanir sem annaðhvort hafi verið látnar í ljós eða séu orðnar yfirvöldum kunnar. Það að umrædd bók M sé í vörslu stjórnvalda sem vilji yfirheyra hann vegna gruns um öfgahyggju, geri hann berskjaldaðan gagnvart hvers kyns ofbeldi og ofsóknum af hálfu rússneskra yfirvalda. Þrátt fyrir að bók kæranda hafi ekki verið gefin út, af ótta hans við afleiðingar þess, hafi hún engu að síður verið gerð upptæk af yfirvöldum. Innihald og tilvist bókarinnar sé flokkað sem öfgaefni og því sé hann í hættu.

Til vara telji kærendur að þau uppfylli öll skilyrði til að hljóta viðbótarvernd þar sem þau séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Rússlandi.

Auk þess telji kærendur að þau geti ekki búið annars staðar í Rússlandi og verið örugg. Lögregla hafi þegar leitað að M í heimaborg móður hans. Þá hafi kærandi ekki gagnrýnt staðbundin yfirvöld í Rússlandi heldur yfirvöld í landinu öllu. Þá skipti máli í Rússlandi hvar einstaklingur sé með skráð lögheimili, m.a. til að fá heilbrigðiþjónustu, allar upplýsingar séu því aðgengilegar þegar lögheimili sé flutt. Þess vegna yrði vitað af kæranda sem grunuðum öfgasinna hvar sem er í landinu.

Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og kærendum veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þar sé með annars vísað til þess að taka skuli mið af því hvort grundvallarmannréttindi séu tryggð. Með erfiðum almennum aðstæðum sé sérstaklega tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Að lokum óska kærendur eftir því að koma í viðtal hjá kærunefndinni í samræmi við 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað rússneskum vegabréfum. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu rússneskir ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2019);
  • Civic Freedom Monitor. Russia (International Center for Not-for-Profit Law (ICNL), síðast uppfært 19. maí 2019);
  • Corruption Perception index 2018 – Russia (Transparency International, skoðað 28. nóvember 2019);
  • Country Reports on Human Rights Practices 2018 – Russia (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Country Reports on Terrorism 2017 – Russia (United States Department of State, 19. september 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report. Russian Federation State Actors of Protection (European Asylum Support Office, mars 2017);
  • Freedom in the World 2019 – Russia (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Human Rights and Democracy Report 2017 – Russia (United Kingdom, Foreign and Commonwealth Office, 16. júlí 2018) In Brief – Human Rights and Democracy in Russia (Helsinki Commission Report, 20. september 2017);
  • Laws of Attrition, Crackdown on Russia´s Civil Society after Putin´s Return to the Presidency (Human Rights Watch, apríl 2013);
  • Mass arrests tighten authorities´ stronghold on freedom of expression (Amnesty International, 12 júní 2017);
  • Nations in Transit 2018 – Russia Country Profile (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Putin signs law partially decriminilizing Article 282 of Russian Criminal Code on exremism (Interfax, 28. desember 2018);
  • Russia country profile (BBC News, 26. apríl 2019);
  • Russian Activists Forcibly Disappeared, Allegations of Torture in Custody (Human Rights Watch, 1. febrúar 2018);
  • Russian political prisoners in the year of 2018: situation and its trends (Human Rights Center Memorial, 28. september 2018);
  • The Human Rights Center „Memorial“ publishes lists of political prisoners as of March 1, 2018 (Human Rights Center Memorial, 7. mars 2018);
  • The UN reviews dramatic crackdown on civil and political rights in Russia (International Federation for Human Rights, 16. mars 2015);
  • World Report 2020 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020) og
  • The Supreme Court of the Russion Federation will clarify its position on extremism (Radio Free Europe, 7. september 2018).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Rússland sambandsríki með um 144 milljónir íbúa. Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 gerðist Rússland aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1973. Rússland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2005. Þá er Rússland aðili að Evrópuráðinu og samþykkti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1998.

Í framangreindum gögnum kemur fram að staða mannréttinda í Rússlandi hafi versnað í kjölfar endurkjörs Vladímírs Pútíns sem forseta Rússlands árið 2012. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi allt til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi Rússlands vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Með aðstoð lögreglu, áróðri og löggjöf kúgi stjórnvöld íbúa landsins. Yfirvöld hafi þrengt að borgaralegum réttindum í Rússlandi m.a. með lagasetningu sem takmarki möguleika erlendra stofnanna og jafnvel frjálsra félagasamtaka til að aðhafast í landinu þar sem yfirvöld líti á starfsemi þeirra sem ógn við ríkið. Þrátt fyrir að stjórnarskrá Rússlands tryggi sjálfstæði dómstóla landsins þá sé spilling viðvarandi vandamál í dómskerfinu. Bæði dómstólar og löggæsla séu notuð af stjórnvöldum til að kúga íbúa ríkisins. Samkvæmt framangreindum gögnum sé algengt að dómarar láti undan pólitískum þrýstingi þegar dæmt sé í málum andófsmanna sitjandi yfirvalda í Rússlandi.

Rússneska stjórnsýslukerfið einkennist að miklu leyti af óhagkvæmni, geðþóttaákvörðunum og spillingu. Þrátt fyrir að Rússland hafi samþykkt samning Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum árið 2012 þá sjáist engar marktækar framfarir í þeim efnum þar sem stjórnvöld hafi ekki framfylgt samningnum með fullnægjandi hætti. Þessi víðtæka spilling grafi undan trausti almennings á stjórnkerfi landsins.

Starfandi sé umboðsmaður mannréttinda í Rússlandi (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hún hyggist einbeita sér að félagslegum réttindum og því að styðja rússneska ríkisborgara utan Rússlands. Víða í Rússlandi séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála, en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi undan sjálfstæði skrifstofanna jafnframt sem skilvirkni þeirra sé ábótavant. Þá hafi mannréttindaráð (e. Council for Civil Society and Human Rights) heimild til að fylgjast með störfum umboðsmannsins.

Leyniþjónusta Rússlands nefnist FSB og hafi forseti Rússlands yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt framangreindum gögnum beri innanríkisráðuneytið, FSB, rannsóknarnefnd (e. the Investigative Committee), skrifstofa saksóknara (e. the Office of the Prosecutor General) og þjóðvarðarliðið (e. the National Guard) ábyrgð á löggæslu í öllu ríkinu. Þá sé FSB ábyrgt fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt lögum hafi FSB m.a. aðgang að öllum símtölum, smáskilaboðum, tölvupósti og öðrum aðgerðum sem framkvæmdar séu á veraldarvefnum í Rússlandi. Fjarskiptafélög séu skyldug til að koma upp búnaði sem auðveldi tengingu FSB jafnframt sem símafyrirtæki þurfi að vista gögn viðskiptavina sinna svo að FSB hafi aðgang að þeim. Fjármunaeftirlit Rosfinmonitoring (e. the Federal Service for Financial Monitoring) er stofnun rússneskra stjórnvalda sem hefur eftirlit með að rannsaka fjármögnun hryðjuverka og annarrar öfgastarfsemi. Á árinu 2017 hafði listi stofnunarinnar yfir þá sem grunaðir voru um öfgastarfsemi eða hryðjuverk fjölgað fjórfalt frá árinu á undan, og voru m.a. 9000 einstaklingar eða lögaðilar á listanum.

Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að stjórnarskrá Rússlands banni pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þrátt fyrir það gefi heimildir til kynna að lögregluyfirvöld grípi til pyndinga, illrar meðferðar og ofbeldis til að þvinga grunaða einstaklinga til játningar. Þá séu lögreglumenn sem grípi til slíkra framkvæmda sjaldnast sóttir til saka og í þau fáu skipti sem það hafi gerst sé refsingin væg. Þá kemur jafnframt fram í framangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þ.m.t. frelsi til tjáningar á veraldarvefnum. Ýmis umræðuefni á veraldarvefnum, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og jafnvel fangelsisvistar. Löggjöf gegn t.d. öfgahreyfingum, landráði og hryðjuverkum hafi verið notuð til að þagga niður í baráttufólki fyrir mannréttindum og meðlimum stjórnarandstöðunnar. Ríkið eigi stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og hafi töluverð áhrif á það sem þar komi fram.

Í frétt Amnesty International, um fjöldahandtökur rússnesku lögreglunnar í júní 2017 á mótmælendum við friðsæl mótmæli gegn opinberri spillingu, kemur fram að það verði ekki séð að friðsamleg mótmæli séu liðin af stjórnvöldum. Samkvæmt Amnesty International og Human Rights Watch hafi ekki þrengt jafn mikið að tjáningarfrelsi í landinu frá falli Sovétríkjanna. Í skýrslu Human Rights Watch frá 15. janúar 2020 kemur fram að á árinu 2019 hafi ástand mannréttindamála haldið áfram að versna í landinu. Stjórnvöld hafi brugðist við gagnrýni með bönnum, íþyngjandi löggjöf og sýndarréttarhöldum. Rússnesk stjórnvöld hafa stigið enn fleiri skref til að takmarka tjáningu á vefmiðlum með löggjöf sem tekur gildi í janúar 2020.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsótt vegna stjórnmálaskoðana M. Kærendur hafi ekki tekið virkan þátt í mótmælum heldur megi rekja ástæðu flótta kærenda til þess að bók sem M hafi skrifað, [...] hafi verið gerð upptæk og kærendur telji að M eigi á hættu að vera fangelsaður vegna innihalds hennar. Húsleit hafi verið framkvæmd þegar kærendur hafi verið stödd hér á landi í ferðalagi. Bókin og annað efni sem M hafi skrifað hafi verið gert upptækt og talið öfgakennt efni af stjórnvöldum, samkvæmt húsleitarheimild.

Kærendur hafa lagt fram nokkuð magn gagna við málsmeðferð stjórnvalda sem þau telja að renni stoðum undir frásögn sína. Þar á meðal er afrit af húsleitarheimild, boðun í yfirheyrslu til lögreglunnar, samskipti kæranda við viðskiptabanka sinn og bók sem kærandi kveðst hafa skrifað. Þá kom M í viðtal hjá kærunefnd jafnframt sem hann mætti til kærunefndar með tölvu sína og fór yfir hluta þessara gagna með starfsmönnum kærunefndar.

M kom í viðtal hjá kærunefnd þann 12. desember 2019 og lýsti hann ástæðum umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Í viðtalinu áréttaði hann að það efni sem hafi verið tekið af heimilinu hans hafi verið álitið öfgaefni og að einungis höfundarverk hans hafi verið tekið, en það hafi ekki verið skýrt í ákvörðun Útlendingastofnunar. M kvaðst telja að hann eigi yfir höfði sér fangelsisrefsingu í 4-5 ár. Að hans mati sé fáránlegt að ætla að honum verði einungis gert að greiða sekt bara á þeim grundvelli að hann sé ekki þekktur eða tengdur stjórnmálaflokki eins og fram hafi komið í ákvörðun Útlendingastofnunar. M kvað Útlendingastofnun ekki hafa tekið afstöðu til mikilvægra atriða um stöðu hans sem sakbornings. Auk þess hafi stofnunin ekki gefið sér tíma til að skoða bókina og átta sig á innihaldi hennar. Aðspurður um stjórnmálaskoðanir sínar kvaðst M ekki hafa skrifað pólitískt efni fyrr en eftir átökin á Krímskaga árið 2014 þar sem framganga rússneskra stjórnvalda á svæðinu hafi misboðið honum gjörsamlega. Hann hafi starfað sem tölvuleikjahönnuður en byrjað að skrifa bókina [...], og unnið að henni í þrjú ár. Bókin sé ekki sannsöguleg en byggi á og fjalli um atvik í lífi [...] sem stjórnvöldum myndi mislíka.

Í viðtali hjá kærunefnd var M beðinn um að skýra frá því hvaða þýðingu myndbandsupptaka af rithöfundinum [...] hefði fyrir mál hans. Hann kvaðst hafa lagt það fram til að sanna að hann sjálfur væri rithöfundur og þekkti þennan mann, [...], sem sé þekktari rithöfundur í Rússlandi. Kærunefnd lét túlk þýða myndbandið þann 13. janúar sl. og leggur til grundvallar að um umæddan rithöfund sé að ræða og að M og hann þekkist. Að beiðni kærunefndar lagði M fram tölvupóst dags. 28. janúar 2019, frá vini sínum, [...], sem hann kvað hafa komið að beiðni móður M að íbúð kærenda eftir húsleitina. Í viðhengi með tölvupóstinum voru myndir af íbúðinni eftir húsleitina og mynd af húsleitarskýrslu og boðun M til að mæta daginn eftir á lögreglustöð.

M lagði einnig fram upptöku af símtali sem hann kvað vera við bankastarfsmann [...]. Kærunefnd fékk aðstoð túlks við að þýða upptöku sem M lagði fram. Samkvæmt túlki greinir sá starfmaður bankans sem M talaði við frá því að umræddum reikningi hafi verið lokað og að ástæðuna í slíkum tilvikum, megi oftast rekja til afskipta lögreglunnar. Að öðru leyti þyrfti kærandi að nálgast þær upplýsingar hjá lögreglunni. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst hann hafa lagt það fram til að sýna fram á að bankareikningi hans hafi verið lokað af lögreglunni. M var beðinn um að sýna fram á tilvist umrædds reiknings og staðfestingu á að honum hafi verið lokað. Þann 27. desember 2019 og 9. janúar 2020 lagði M fram gögn vegna samskipta hans við starfsfólk bankans. Í skjali með athugasemdum M varðandi umrædd samskipti kemur fram að bankinn hafi upplýst hann um að kortinu hans hafi verið lokað vegna tilsagnar framangreindrar stofnunar, Rosfinmonitoring. Þá komi fram að þrátt fyrir ofangreint geti hann komið í útibú bankans og tekið út peninga að hámarki 10,000 rúblur á mánuði en með aukinni heimild sé fjölskyldumeðlimur atvinnulaus. M kveður þetta atriði mikilvægt og styðja við það að hann sæti eftirliti af hálfu rússneskra stjórnvalda þar sem að lög nr. 115-FZ sem fjalli um fjármögnun hryðjuverka hafi verið breytt árið 2013 þannig að nú taki þau einnig til þeirra aðila sem sem grunaðir séu um öfgastarfsemi. Séu ofangreindar takmarkanir á úttektum hans til samræmis við á 6. gr. laganna, þar sem slíkar takmarkanir séu heimilaðar fyrir þá sem grunaðir séu um öfgastarfsemi. Slíkt renni enn frekari stoðum undir fullyrðingar hans.

Í viðtali hjá kærunefnd var M beðinn um að leggja fram blaðsíður í bók sinni sem hann telur að stjórnvöld muni einkum líta á sem gagnrýni á sig eða öfgaskoðanir, eða þar sem hann minnist sérstaklega á Pútín eða aðra stjórnmálamenn á neikvæðan hátt. M lagði fram þrjá kafla úr bók sinni, þann 27. desember 2019 ásamt skýringum á samhengi sem skipti máli að hans mati. Í skýringunum kvað kærandi bókina vera [...]. M telji að umfjöllun um raunverulega atburði sem rússnesk stjórnvöld vilji ekki að sé fjallað um og umfjöllun um raunverulegt fólk, geri það að verkum að hann sé í meiri hættu en aðrir. Kærunefnd fór yfir texta þessara þriggja kafla með aðstoð túlks og af þeirri yfirferð verður ráðið að umfjöllun í bókinni er í samræmi við frásögn kæranda.

Kærendur hafa verið samræmd í frásögn sinni frá upphafi og lagt fram ofangreind til gögn til stuðnings henni. Verður því lagt til grundvallar í málinu að M hafi skrifað bók sem sé pólitísk ádeila á ríkjandi stjórnvöld í Rússlandi og að sú bók hafi borist til stjórnvalda sem telji bókina vera öfgaefni. Af þeim sökum hafi lögregla gert húsleit á heimili kærenda og gert upptæka ýmsa hluti, m.a. handrit umræddrar bókar, og boðað M til yfirheyrslu. Þá er fallist á að bankareikningi M hafi verið lokað og að það hafi verið gert að beiðni stjórnvalda.

Í ljósi gagna málsins og framburðar kærenda hjá Útlendingastofnunar og framburðar M hjá kærunefnd dregur kærunefnd ekki í efa að M sé undir eftirliti stjórnvalda í heimaríki þar sem þau telji hann hafa skoðanir sem séu í andstöðu við vilja stjórnvalda. Kærunefnd telur ljóst af þeim gögnum sem nefndin hefur skoðað að töluverðar takmarkanir séu á tjáningarfrelsi í heimaríki kærenda, sérstaklega þegar um er að ræða gagnrýni á stjórnvöld í landinu. Fjölmörg dæmi séu um að einstaklingar sem gagnrýni stjórnvöld í Rússlandi hafi verið sóttir til saka á grundvelli ákvæða hegningarlaga fyrir öfgastefnu og ólögmæta gagnrýni og sætt óhóflegri fangelsisrefsingu. Rússnesk stjórnvöld hafa á undanförnum árum notað löggjöf (e. anti-extremism legislation) til að þagga niður í friðsömum mótmælum, stjórnarandstæðingum, blaðafólki og rithöfundum með saksókn.

Að mati kærunefndar gáfu kærendur með ítarlegum og trúverðugum hætti grein fyrir atburðum sem hafi leitt til umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur að kærendur hafi lagt nægan grunn að þeirri málsástæðu sinni að M eigi á hættu óhóflega saksókn eða refsingu vegna skrifa sinna sem líklegt sé að rússnesk stjórnvöld líti á sem öfgaefni. Þá er jafnframt talið nægilega líklegt að hann eigi á hættu alvarlega mismunum af hálfu stjórnvalda og samfélagsins og að samlegðaráhrif alls þessa nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir, sbr. 1. mgr. 38. gr. og c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Er því fallist á það að M hafi með nægilega rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að M uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi.

Í ljósi þessarar niðurstöðu verður K veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga enda er ekkert í gögnum málsins sem gefi til kynna að sérstakar ástæður mæli því mót.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar. M er veitt alþjóðleg vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna. K er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.  

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda er felld úr gildi. Kærendum er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. og 2. mgr. 45. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants are vacated. The appellants are granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, Article 40, paragraph 1, and Article 45, paragraph 2 of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue them a residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta