Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 56/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 56/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. apríl 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 21. apríl 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 19. febrúar 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. maí 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í umrædda 40 daga. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að verklýsing starfs hans sem húsvörður hjá X hafi ekki verið fyrir hendi í upphafi. Það virðist hafa leitt til þess að samskipti hans og fyrrverandi yfirmanns hans hafi valdið misskilningi sem felist í því að flest sem kærandi hafi talið vera vel gert virðist ekki hafa staðist kröfur yfirmannsins. Kærandi telur að um einelti hennar í hans garð hafi verið að ræða. Kærunni fylgir undirskriftalisti fólks sem mótmælir uppsögn kæranda.

Í vottorði vinnuveitanda, dags. 25. febrúar 2009, segir að kærandi hafi starfað við húsvörslu og þrif í X til 1. mars 2009, en þá hafi honum verið sagt upp vegna óstundvísi o.fl.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. september 2009, kemur fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá X, meðal annars vegna óstundvísi. Hann hafi þá áður hlotið áminningu. Fyrir hafi legið ágreiningur milli kæranda og vinnuveitanda. Vinnumálastofnun vitnar til 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segi að erfitt gæti verið að meta hvað teldust gildar ástæður í skilningi greinarinnar. Það væri erfiðleikum bundið að takmarka slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að einstaklingum væri sagt upp störfum eða segði störfum sínum lausum væri af margvíslegum toga. Sökum þessa hafi verið lagt til að þessi lagaregla yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hvers máls. Í þessu tiltekna máli liggi fyrir að ágreiningur kæranda og vinnuveitanda hafi lotið að vinnutíma og vinnubrögðum kæranda. Það sé mat Vinnumálastofnunar og með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 39/2008 að ágreiningur milli launamanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma, aðstæður á vinnustað o.s.frv. flokkist ekki sem gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun tekur einnig fram að fullyrðingar kæranda um að hann hafi verið lagður í einelti af hálfu yfirmanns síns séu ekki studdar neinum gögnum og megi í því sambandi benda á að ekki liggi fyrir yfirlýsing frá stéttarfélagi um að kærandi hafi leitað til stéttarfélags síns vegna málsins. Verði þær því að teljast ósannaðar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. september 2009. Nefndinni barst tölvupóstur kæranda þann 1. október 2009. Þar kemur fram að yfirmaður kærandi segi ekki rétt frá. Hún hafi aldrei sagt honum að hann hegðaði sér ekki eftir hennar hugmyndum um umgengni á vinnustaðnum. Enn fremur hafi það komið fyrir tvisvar sinnum að sami einstaklingur hafi kvartað undan kæranda en hann ekki fengið að vita það fyrr en löngu seinna.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Það leiðir af fyrri málslið þessarar málsgreinar að atvinnuleitandi þarf að sæta 40 daga biðtíma hafi hann sagt upp án gildra ástæðna og af þeim síðari leiðir að atvinnuleitandi þarf ekki að sæta 40 daga biðtíma nema hann hafi átt sök á því að hafa misst starf sitt, þ.e. atvinnuleitandi þarf að hafa átt sök á því að hafa verið sagt upp af vinnuveitanda svo að hann sæti 40 daga biðtíma samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrrverandi vinnuveitandi kæranda fullyrti, eftir að kæranda var sagt upp, að hann hafi verið óstundvís og hann hafi fengið áminningar fyrir það áður en honum var sagt upp störfum. Kærandi hefur bent á aðrar mögulegar skýringar á uppsögn sinni. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem staðfesta fremur frásögn vinnuveitanda en kæranda um tildrög þess að kæranda var sagt upp. Með vísan til þessa hefur ekki verið leitt í ljós að kærandi hafi átt sök á uppsögn sinni í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi á því rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 19. febrúar 2009.

 

Úrskurðarorð

Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 21. apríl 2009 að fella niður bótarétt A í 40 daga er felldur úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 19. febrúar 2009.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta