Hoppa yfir valmynd

Nr. 450/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 450/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050031

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. maí 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi krefjist þess að kærunefnd útlendingamála felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi fyrst komið til Íslands árið 2009 í leit að alþjóðlegri vernd en umsókn hans var synjað. Hann hafi næst sótt um dvalarleyfi hér á landi sem maki íslensks ríkisborgara 16. apríl 2013 og fengið leyfið veitt með gildistíma til 5. júní 2014. Kærandi hafi fengið endurnýjun á dvalarleyfi tvívegis, nú síðast með gildistíma til 16. júní 2016. Hinn 16. júní 2016 hafi kærandi sótt um dvalar- og atvinnuleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.

Kærandi hafi lagt fram greinargerð dags. 28. júlí 2016 um tengsl hans við landið. Í janúar 2017 hafi Útlendingastofnun kallað eftir ítarlegri greinargerð. Sú greinargerð hafi borist með tölvupósti frá kæranda þann 7. febrúar 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 17. maí 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 2. júní 2017, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að kærandi væri [...] ríkisborgari. Hann hafi komið hingað til lands ásamt eiginkonu sinni í apríl 2013 og hafi verið búsettur hér síðan þá. Kærandi hafi [...]. Fram kom að ef litið væri til dvalarinnar einnar og sér væri ljóst að kærandi hafi sterkari tengsl við heimaland sitt heldur en Ísland. Samkvæmt greinargerð kæranda hafi hann alist upp í [...] og búið hjá foreldrum sínum þar til hann varð 22 ára. Þá hafi hann flutt til nágrannalanda og dvalið meðal annars á Íslandi í um tíu mánuði þegar umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi verið til vinnslu hjá stofnuninni. Kærandi hafi flutt aftur til [...] árið 2010 og búið þar þangað til hann hafi flutt til Íslands vorið 2013. Í greinargerð kæranda hafi jafnframt komið fram að í heimalandi hafi kærandi lagt stund á nám, lokið háskóla og unnið við fjölbreytt störf. Kærandi hafi einnig átt sterk fjölskyldutengsl í heimalandi þar sem foreldrar hans og tvær systur búi. Kærandi hafi á hinn bóginn engin fjölskyldutengsl hér landi. Í greinargerð hafi m.a. komið fram að tengsl hans við landið séu í gegnum vini sem hafi hjálpað honum að læra íslensku. Hann hafi einnig farið á íslenskunámskeið og sótt viðburði hjá Rauða krossinum. Hann hafi m.a. unnið á [...] og sé að reyna að koma á fót fyrirtæki sínu sem heiti [...]. Hans líf væri á Íslandi og hann hafi unnið hörðum höndum að því að byggja það upp hér.

Að mati Útlendingastofnunar voru dvöl kæranda hér á landi og tengsl hans við landið ekki talin svo sterk að þau réttlættu veitingu dvalarleyfis á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Vísað var til þess að kærandi hefði engin fjölskyldutengsl hér á landi sem vegi þyngst í mati á veitingu sérstakra tengsla. Kærandi hafi myndað einhver félagsleg og menningarleg tengsl á landinu, m.a. á grundvelli atvinnu og í gegnum vini, en til þess að þau tengsl gætu verið grundvöllur veitingu dvalarleyfis, þá yrðu þau að vera mjög sterk. Kærandi hafi ekki stundað atvinnu allan dvalartíma sinn og væri samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar ekki með vinnu á þeim tíma. Það að hann væri að koma á stofn fyrirtæki yrði ekki talinn nægjanlegur grundvöllur sérstakra tengsla og heldur ekki að kærandi væri í sambandi við EES ríkisborgara. Þá var tekið fram að [...] hafi varað stutt samkvæmt upplýsingum frá kæranda en kæranda hafði verið leiðbeint af Útlendingastofnun að leggja fram umsókn um rétt til dvalar á grundvelli þess sambands. Það að ómöguleiki væri til staðar fyrir framlagningu slíkrar umsóknar væri ekki ástæða til beitingar undanþáguákvæðis 78. gr. laga um útlendinga. Kæranda var því synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið til landsins 2009 og búið hér á landi í 10 mánuði. Hann hafi á þeim tíma kynnst [...]. Þau hafi búið þar um stutta stund en vegna erfiðra aðstæðna hafi hún þurft að flytja frá [...] og [...] . Hann hafi sótt um dvalarleyfi í apríl 2012 á grundvelli hjónabands síns en umsókn hans hafi verið synjað. Í apríl 2013 hafi hann sótt aftur um og fengið útgefið dvalarleyfi. Þau hjónin hafi búið saman í tvö ár á Íslandi. [...]. Honum hafi síðan verið synjað í júní 2016 um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar og verið leiðbeint að sækja um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi búið og starfað hér á landi frá 16. apríl 2013 til 4. maí 2017 sem þýði að hann hafi búið hér á landi í 4 ár og 10 daga er greinargerðin var rituð. Hann kveði fjölskyldu sína vera í [...] en hann hafi farið frá henni þegar hann hafi verið 22 ára. Hann sé ekki með sterk tengsl við fjölskyldu sína og upp hafi komið [...] Síðan þá hafi hann misst sambandið við fjölskyldu sína og hann tali einungis stundum við móður sína í gegnum síma.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann muni eiga erfitt með að yfirgefa Ísland þar sem hann hafi komið upp lífi sínu hér. Hann hafi starfað hér, greitt skatta og sé nú kominn með sitt eigið fyrirtæki, [...], en hann hafi sett allt sparifé sitt í fyrirtækið. Þá hafi hann fengið nýtt ótímabundið starf hjá [...] frá 10. apríl 2017 og eigi hér kærustu sem hann hafi búið með síðastliðna sjö mánuði.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað um mat á umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar kemur fram að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en sérstaklega horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt er liðið frá dvalartíma, brotaferils umsækjanda hér á landi, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskyldsögu, fjölskylduaðstæðna og skyldleika auk umönnunarsjónarmiða. Um lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en í tvö ár, eða þá önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Varðandi umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla segir m.a. í d-lið ákvæðisins að líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji slíka umsókn. Þá segir í e-lið ákvæðisins að með umönnunarsjónarmiðum sé átt við hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis sem er tengdur honum fjölskylduböndum eða hvort einhver aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er [...], hefur dvalist hér á landi í rúm fjögur ár. Hann fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þann 16. apríl 2013 sem gilti til 5. júní 2014. Hann fékk tvívegis endurnýjun á því dvalarleyfi, síðast með gildistíma til 16. júní 2016. Kærandi [...] . Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að dvöl kæranda samkvæmt útgefnu dvalarleyfi er þrjú ár og tveir mánuðir.

Kærandi hefur starfað hér á landi með hléum frá því í ágúst 2013. Hann kveðst vera með ótímabundinn ráðningarsamning hjá [...] frá 10. apríl 2017 auk þess sem hann reki eigið fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hefur kærandi starfað hjá fjórum fyrirtækjum á meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið en jafnframt þegið atvinnuleysisbætur. Að mati kærunefndar hefur kærandi því einhver félagsleg og menningarleg tengsl á grundvelli atvinnuþátttöku en þau tengsl geti ekki verið metin jafn sterk og ef hann hefði verið í föstu starfi allan dvalartíma sinn.

Kærandi á ekki fjölskyldu hér á landi en kveðst hafa verið í sambúð með [...], sem er búsett er hér á landi, síðastliðna sjö mánuði. Kærandi á foreldra og tvær systur í heimaríki. Kærandi kveður ágreining hafa komið upp í fjölskyldunni eftir að [...]. Kærandi bar þessa málsástæðu ekki fyrir sig við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun en kvaðst m.a. hafa átt erfitt þar sem hann hefði ekki séð fjölskyldu sína í eitt og hálft ár. Í ljósi þess að upplýsingar frá kæranda varðandi tengsl við fjölskyldu í heimaríki eru að einhverju leyti misvísandi verður að mati kærunefndar ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi slitið samskiptum við fjölskyldu sína í heimaríki. Verður því að líta svo á, í ljósi sterkra fjölskyldutengsla kæranda í heimaríki, að tengsl sem hann hefur myndað við landið með sjö mánaða sambúð við konu hér á landi teljist ekki nægjanlega sterk enda benda gögn málsins m.a. ekki til þess að umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi í málinu.

Líkt og fyrr greinir hefur kærandi verið í löglegri dvöl hér á landi í þrjú ár og tvo mánuði. Þótt dvöl kæranda á grundvelli útgefins dvalarleyfis sé lengri en tvö ár er það mat kærunefndar að tengsl kæranda, þegar þau eru metin í heild, nái ekki þeim styrkleika sem þarf til þess að 78. gr. laga um útlendinga verði beitt.

Með hliðsjón af öllu því sem hér hefur verið rakið og hinni kærðu ákvörðun er það niðurstaða kærunefndar að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Samkvæmt þessu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Kærandi getur sótt um dvalarleyfi á grundvelli nýs ráðningarsamnings síns við [...] að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                     Árni Helgason 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta