Mál nr. 72/2002
Þriðjudaginn, 9. september 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.
Þann 7. nóvember 2002, barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. nóvember 2002.
Kærð var ákvörðun sem tilkynnt var kæranda með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 9. október 2002 um að synja kæranda um hækkun á áður ákveðnum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„Ég, undirrituð, er ósátt við afgreiðslu og niðurstöðu mála í Tryggingastofnun vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði og vil hér með bréfi þessu leita réttar míns og kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Vegna fæðingar dóttur minnar 4. október 2000 fékk ég greitt fæðingarorlof út mars 2001. Apríl 2001 til ágúst 2001 var ég með B kr. í mánaðarlaun. September 2001 var ég með D kr. í mánaðarlaun. Október, nóvember og desember 2001 var ég með E kr. í mánaðarlaun. Janúar 2002 var ég með F kr. í mánaðarlaun. 1. – 14. febrúar 2002 var ég með G kr. Frá og með 15. febrúar var ég óvinnufær fram að fæðingardegi og fékk greidda sjúkradagpeninga samkvæmt grein 7 úr reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Vegna mistaka endurskoðenda míns, H voru gerð mistök í launaútreikningum mínum en þau hafa verið leiðrétt samanber hér að ofan (sjá meðfylgjandi gögn). Útreikningar Tryggingastofnunar vegna fæðingarorlofs míns fyrir barn mitt fætt 24. maí. 2002 byggja á þessum mistökum H í launaútreikningum.
Hef ég ítrekað reynt að fá leiðréttingu á fæðingarorlofi mínu þar sem tekið er mið af rétt reiknuðum launum mínum og að ég fái 80% af meðaltekjum mínum samkvæmt skrám skattayfirvalda.
Í bréfi frá Tryggingastofnun 9. október 2002 kemur fram að ekki er tekið tillit til leiðréttinga á launum. Ríkisskattstjóri hefur þegar gert þessar launabreytingar og er ég ósátt við að Tryggingastofnun taki ekki tillit til þess.“
Með bréfi, dags. 12. nóvember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. desember 2002. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á að taka til greina breytingu á reiknuðu endurgjaldi sem átti sér stað eftir að tilkynnt hafði verið um greiðslur og þar með synjun á greiðslum miðað við 50-100% starfshlutfall í stað greiðslna miðað við 25-49% starfshlutfall.
Með umsókn, dagsettri 3. mars 2002, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns 30. maí 2002. Í umsókninni kom fram að sótt væri um lengingu á greiðslum vegna veikinda á meðgöngu.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 11. apríl 2002 var kæranda tilkynnt að umsókn hennar væri í biðstöðu þar sem staðfestingu vantaði um greitt tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds. 8. maí var framvísað í þjónustumiðstöð TR útprentunum um greiðslustöðu tryggingagjalds fyrir janúar – desember 2001 og janúar – febrúar 2002 auk kvittunar dags. 7. maí fyrir greiðslu á I kr. af J kr.
Samkvæmt yfirliti yfir reiknað endurgjald í skrám skattyfirvalda hafði áætlað endurgjald kæranda upphaflega verið áætlað K kr. Þeirri áætlun var þann 10. október 2001 breytt þannig að áætlað reiknað endurgjald væri skv. flokki D3, L kr. á mánuði. Þann 17. apríl 2002 var áætlað á hana reiknað endurgjald fyrir apríl – desember á árinu 2001 skv. flokki D3, G kr. á mánuði. Fyrir árið 2002 hafði reiknað endurgjald hennar upphaflega verið áætlað M kr. yfir árið en þann 19. mars 2002 verið áætlað á hana reiknað endurgjald fyrir árið 2002 skv. flokki D3 N kr. á mánuði og hún var tilkynnt veik frá 15. febrúar. Skráningunni fyrir árið 2002 hafði síðan verið breytt þannig að hún væri afskráð frá og með apríl mánuði. Kærandi fékk greidda fulla sjúkradagpeninga frá 1. mars 2002, þ.e. frá 15. degi eftir að hún varð óvinnufær eins og 38. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 kveður á um, á grundvelli þess að hún kvaðst vera í heilsdagsstarfi og tilgreindi laun sín sem K kr. á mánuði.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 14. maí 2002 var kæranda tilkynnt um að samþykkt hefði verið lenging á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og fylgdi með tilkynning um greiðslur í 6 mánuði eins og farið hafði verið fram í umsókn. Í tilkynningu um greiðslur kom fram að þar sem hún væri í 25 – 49% starfshlutfalli fengi hún P kr. á mánuði. Henni voru því reiknaðar lágmarksgreiðslur miðað við það starfshlutfall sem reiknað endurgjald hennar samsvaraði samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu en fullt starf þar var skv. flokki D3 R kr. á árinu 2001 og er M kr. á árinu 2002.
Henni var send ný tilkynning um greiðslur 28. maí þar sem lengingunni sem hafði verið samþykkt var bætt við 6 mánuðina sem samþykkt hafði verið að greiða henni.
3. júní 2002 barst á faxi útprentun um listun skilagreina og yfirlit yfir greiðslustöðu tryggingagjalds fyrir árin 2001 og 2002 þar sem gerðar höfðu verið þær breytingar þann 24. maí sem var á þá leið að launafjárhæðir á seinni hluta ársins 2001 voru hækkaðar án þess að heildarlaunin fyrir árið hækkuðu og launafjárhæðin fyrir janúar 2002 var hækkuð úr N kr. í F kr. Ekki hafði verið greitt tryggingagjald til viðbótar því sem áður hafði verið greitt.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 19. júní var synjað að taka til greina þessa breytingu á þeim grundvelli að hún hefði gert afturvirka breytingu á reiknuðum launum sínum og starfshlutfalli rúmum þremur mánuðum eftir að hún hefði lagt niður störf og eftir að búið var að tilkynna henni um hverjar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til hennar yrðu og að ekki væri um heildarhækkun að ræða heldur millifærslu milli mánaða. Sviðið teldi sér ekki heimilt að taka til greina afturvirka breytingu á starfshlutfalli og því stæði fyrri úrskurður.
Í bréfi dags. 22. ágúst 2002 þar sem í fyrirsögn kemur fram að um sé að ræða svar við bréfi til kæranda frá 19. júní sl. varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði kveður H rangar skilagreinar hafa verið sendar vegna misskilnings milli sín og kæranda. Hún hafi ekki verið í starfi janúar, febrúar og mars 2001. Hún hafi hafið aftur störf í apríl 2001 og þá í hlutastarfi, bætt við sig hlutfalli þegar leið á árið og hefði síðustu mánuðina verið í nær 100% starfi. Hún hefði reiknað sér endurgjald frá B kr. í fyrstu en í september D kr. og október 2001 til janúar 2002 E kr.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. október var synjað að taka tillit til millifærslu á reiknuðum launum milli mánaða sem gerð var 24. maí án þess að nýrri greinargerð væri skilað til skattstjóra og í ljósi þess að engin greinargerð gerði ráð fyrir meira en G kr. tekjum á mánuði.”
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30.desember 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 14. janúar 2003, þar sem kærandi ítrekar fyrri kröfur.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um hækkun á áður ákveðnum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil, sbr. 3. ml. 1. mgr. 13. gr. ffl.
Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. einnig 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000.
Barn kæranda fæddist 24. maí 2002. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2001 var reiknað endurgjald kæranda á árinu 2001 samtals S kr. og frá áramótum og fram til 15. febrúar 2002 samtals T kr. síðan sjúkradagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins frá þeim tíma og fram til þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hófust.
Í apríl 2002 er skilað inn greinargerð vegna ársins 2001 þar sem áætlaðar tekjur eru G kr. á mánuði. Ekki hefur verið skilað inn annarri greinargerð né staðfest með öðrum gögnum breytt skipting tekna milli mánaða á árinu 2001.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Jóhanna Jónasdóttir