Mál nr. 77/2002
Þriðjudaginn, 8. júlí 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, Jóhanna Jónasdóttir og Hanna S. Gunnsteinsdóttir.
Þann 16. desember 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. desember 2002.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 26. nóvember 2002 um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„Með þessu bréfi vil ég fara þess á leit við úrskurðarnefnd að ákvörðun tryggingayfirlæknis um að synja umsókn minni um framlengingu á fæðingarorlofi vegna fæðingarþunglyndis verði endurskoðuð. Ástæður þessa eru tvær. Í fyrsta lagi kemur fram í svarbréfi við umsókn minni að læknisvottorð gefi ekki til kynna að ég hafi verið ófær um að annast barnið vegna veikinda minna. Að mínu áliti á þetta atriði ekki við rök að styðjast. Í vottorðinu kemur einmitt fram að ég hafi greinst með fæðingarþunglyndi og að lyfjameðferð hafi þurft til. Slíkt ástand hlýtur að gefa það til kynna að ég sem móðir átti í miklum erfiðleikum með að hugsa um barnið mitt. Nægir að vísa í fræði og rannsóknir því til stuðnings. Hefði verið haft fyrir því að grennslast betur fyrir um þetta atriði hjá mér og þeim lækni sem semur vottorðið hefði komið í ljós að ég var mjög veik á þessum tíma en hafði tímabundinn stuðning eiginmannsins míns sem notaði sumarfrí sitt til að styðja mig í veikindunum. Í öðru lagi tók fæðingarþunglyndið sig upp aftur með alvarlegum hætti og varð að hefja lyfjameðferð að nýju. Sá sérfræðingur sem ég hef verið hjá mælir með tveggja ára lyfjameðferð til að jafnvægi geti komist á að nýju.
Af þessum ástæðum fer ég þess á leit við úrskurðarnefnd að synjun verði endurskoðuð og að ég hljóti þá framlengingu sem ég hef sótt um. Fæðingarþunglyndi er alvarlegur sjúkdómur sem gerir það að verkum að ég er mun lengur að jafna mig eftir barnsburð og aðlagast því að vera með ungabarn en gengur og gerist. Af þeim ástæðum þurfa mæður eins og ég lengri tíma í fæðingarorlofi með ungabörnum okkar “
Með bréfi, dags. 22. janúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. mars 2003. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á framlengingu á fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.
Með læknisvottorði dags. 6. nóvember 2002 var sótt um framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu. Með bréfi læknasviðs dags. 26. nóvember var kæranda tilkynnt um synjun á þeim grundvelli að af læknisvottorði verði ekki ráðið að veikindin hafið verið þess eðlis, að geta til að annast barn fyrst eftir fæðingu hafi skerst verulega.
Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er að fínna heimild til að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir um þetta að miðað sé við að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt.
Samkvæmt upplýsingum sem koma fram í læknisvottorði fólust veikindi kæranda fæðingarþunglyndi sem var meðhöndlað með lyfjameðferð. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar sem gefa tilefni til að ætla að veikindin hafi verið þess eðlis að hún hafi verið ófær um að annast barns sitt, s.s. að veikindin hafi leitt til sjúkrahúsdvalar.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. mars 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 26. mars 2003, þar segir m.a.:
„Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vitnað í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Þar er fjallað um heimild til framlengingar ef um er að ræða alvarleg veikindi móður sem má rekja til fæðingar. Þar er ekki talað um að veikindin þurfti að vera þess eðlis að til sjúkrahúsinnlagnar þurfi að koma. Í mínu tilviki kom ekki til sjúkrahúsinnlagnar en þetta virðist vera aðalröksemd Tryggingastofnunar ríkisins fyrir synjun. Ekki verður séð annað en að sú röksemd sé geðþóttalega ákvörðuð af Tryggingastofnun og virðist ekki eiga sér lagalega stoð. Sjúkrahúsinnlögn er ekki endilega til marks um alvarleika fæðingarþunglyndis. Mæður með fæðingarþunglyndi óska langflestar eftir því að ganga í gegnum veikindi sín á heimili sínu með stuðningi fjölskyldu sinnar og sækja viðtöl hjá sérfræðingi.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segir að þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. - 4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði læknis. Ennfremur segir þar að tryggingayfirlæknir skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og að ákvörðun hans sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.
Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga segir að komi til framlengingar fæðingarorlofs verði veikindi móður að vera rakin til fæðingarinnar og valda því að hún geti ekki annast barnið. Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt.
Samkvæmt læknisvottorðum er staðfest að kærandi þjáðist af þunglyndi í kjölfar fæðingar barns. Hins vegar er það ekki mat lækna að hún hafi verið ófær að annast barn sitt. Með hliðsjón af því og með vísan til 3. og 5. mgr. 17. gr. ffl. og 11. gr. reglugerðar nr. 909/2002 verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði þess að fá framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi er staðfest.
Hanna S. Gunnsteinsdóttir
Jóhanna Jónasdóttir