Hoppa yfir valmynd

Nr. 653/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 653/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110066

 

Beiðni [...] og barna hans um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Hinn 14. október 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, frá 2. júlí 2021, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela og Líbanons, og börnum hans, [...] fd. [...], (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), ríkisborgurum Venesúela og Líbanons, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

    Með úrskurði kærunefndar nr. 604/2021 í máli nr. KNU21100068, dags. 17. nóvember 2021, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa í máli hans hafnað. Hinn 19. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni um endurupptöku máls kæranda ásamt fylgigögnum.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kærenda

    Í beiðni kæranda um endurupptöku máls hans kemur fram að hún sé byggð á því að úrskurður kærunefndar hafi verið byggður á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að rökstuðningur kærunefndar þess efnis að ekki væri hægt að leggja til grundvallar að hann og börn hans ættu á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki þeirra Líbanon sé ófullnægjandi. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi í dóm Landsréttar nr. 149/2020, þar sem fram hafi komið að röksemdarfærsla þess efnis að frásögn væri ótrúverðug þar sem hún hafi ekki komið fram í fyrsta viðtali væri ófullnægjandi. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt landaupplýsingum um Líbanon hafi yfirvöld þar í landi ekki stjórn yfir Hezbollah samtökunum og þá hafi þau ekki ráðist í neinar aðgerðir gegn samtökunum til að takmarka eða útrýma starfsemi þeirra. Kærandi telur framangreindar upplýsingar styðja frásögn hans. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi m.a. til dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. ágúst 2016 í máli J.K. og fleiri gegn Svíþjóð. Kærandi vísar til þess að samkvæmt framangreindum dómi flytjist sönnunarbyrði yfir á ríkið sýni umsækjandi um alþjóðlega vernd fram á að rökstudd ástæða sé til að ætla að aðstæður hans séu með þeim hætti að hann eigi raunverulega hættu á að verða fyrir meðferð af því tagi sem 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 taki til.

    Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram skjal frá Líbanon útgefnu, samkvæmt þýðingu, af „The Lebanese Republic General Directorate of Internal Forces“ ásamt enskri þýðingu. Á skjalinu komi fram að kærandi hafi borið upp kvörtun, dags. 25. september 2020, vegna ofsókna í Líbanon til lögregluyfirvalda þar í landi. Kærandi telur að framlagning þessa skjals styðji ennfremur við frásögn hans.

    Þá vísar kærandi til þess, að samkvæmt framangreindum dómi Landsréttar, skuli við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fært fram nægar sönnur á persónulegum högum sínum í heimaríki ekki gera svo ríkar sönnunarkröfur að hann njóti ekki raunhæfrar verndar gegn alvarlegum mannréttindabrotum. Telur kærandi að í því sambandi beri að líta til þess að það geti verið háð umtalsverðum vandkvæðum fyrir fólk á flótta að tryggja sönnunargögn frá því landi sem það sé að flýja. Vegna sérstakra ástæðna fólks á flótta geti jafnframt verið nauðsynlegt að meta vafa þeim í hag þegar það komi að því að meta trúverðugleika frásagnar þeirra og þeirra gagna sem lögð séu fram til stuðnings henni.

    Á grundvelli því sem að framan sé rakið þyki kæranda einsýnt að úrskurður kærunefndar, í máli hans og barna hans, hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum, enda hafi ekki verið tekið nægilegt tillit til frásagnar hans um persónulega hagi hans í Líbanon þar sem hún hafi þótt ótrúverðug. Þá hafi ekki legið fyrir það skjal sem nú hafi verið þýtt og kærandi telur að styðji frásögn hans um ástæðuríkan ótta við ofsóknir í Líbanon.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli nr. KNU21070059 hinn 14. október 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hans uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda og barna hans í heimaríki þeirra, Líbanon, væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt taldi nefndin, með vísan til umfjöllunar hennar í úrskurði um aðstæður í heimaríki kæranda og barna hans, Líbanon, að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði ekki í vegi fyrir endursendingu þeirra þangað.

Af málatilbúnaði kæranda í beiðni hans um endurupptöku máls hans má ráða að hann sé ósammála trúverðugleikamati kærunefndar á frásögn hans um að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki hans Líbanon af hálfu meðlima Hezbollah samtakanna. Kærunefnd vekur athygli á því að samkvæmt ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga felst í beiðni um endurupptöku að fyrir hendi séu þær aðstæður að sýnt þyki að ákvörðun hafi verið tekin á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Það að aðili máls sé ósammála mati stjórnvalda á gögnum málsins uppfyllir ekki skilyrði ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls hans.

Líkt og fram hefur komið lagði kærandi fram til stuðnings endurupptökubeiðni sinni ljósmynd af skjali frá Líbanon er hann kveður vera kvörtun, dags. 25. september 2020, til lögregluyfirvalda í Líbanon sem hann hafi borið upp vegna ofsókna þar í landi. Telur kærandi að framangreint skjal styðji frásögn hans um ofsóknir. Á framlagðri enskri þýðingu skjalsins má sjá að um er að ræða tilkynningu frá hershöfðingja hersveita Líbanons til yfirmanns lögregludeildar þess efnis að kona að nafni [...] hafi lagt fram skýrslu þess efnis að eiginmanni hennar, [...], hafi verið hótað lífláti og að eitt af börnum hans yrði myrt. Þá kemur fram að sá sem hafi staðið að hótununum sé ónafngreindur en hann hafi unnið með eiginmanni hennar í 45 daga. Hafi þessi ótilgreindi einstaklingur verið tengdur Hezbollah. Er lagt til að gripið verði til viðeigandi og nauðsynlegra ráðstafana til að bera kennsl á þann sem staðið hafi að baki hótununum.

Af framangreindu má ráða að um er að ræða formlega kvörtun sem eiginkona kæranda hafi lagt fram hinn 25. september 2020, degi eftir að kærandi og tvö börn hans komu til Íslands og lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd. Eins og fram kemur í úrskurði kærunefndar frá 14. október 2021 gaf kærunefnd kæranda kost á því að leggja fram gögn er styddu frásögn hans um að hafa verið hótað af hálfu meðlims Hezbollah samtakanna. Í svari kæranda sem barst kærunefnd hinn 13. október 2021 kom fram að kærandi gæti ekki lagt fram umbeðin gögn þar sem þau væru ekki til. Var það mat kærunefndar að ekki væri ástæða til að draga í efa að kærandi kynni að hafa starfað fyrir aðila við ólögmæta starfsemi en hins vegar væri til þess að líta að hann hefði engin gögn lagt fram til stuðnings um að hafa orðið fyrir hótunum af hálfu meðlima Hezbollah eða með öðrum hætti gert líklegt að hann væri í þeirri stöðu að vera sérstakt skotmark samtakanna. Í ljósi þess sem fram kom við málsmeðferð efnismeðferðarmáls kæranda taldi kærunefnd ástæðu til að óska eftir frekari upplýsingum frá kæranda um framlagt skjal. Hinn 25. nóvember 2021 sendi kærunefnd fyrirspurn til talsmanns kæranda og óskaði eftir upplýsingum um síðari dagsetningu á skjalinu, 22. október 2021, og jafnframt eftir því að kærandi greindi frá því hvers vegna hann hafi ekki lagt fram umrætt skjal áður. Í svörum frá kæranda hinn 30. nóvember 2021 kom fram að eiginkona kæranda hefði óskað eftir skjalinu hinn 22. október 2021. Kærandi kvaðst ekki hafa lagt fram skjalið á fyrri stigum málsins vegna misskilnings sem hafi átt sér stað milli hans og fyrri talsmanns hans. Kærandi bauðst til þess að leggja fram frumrit tilkynningarinnar.

Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að kalla eftir frumriti skjalsins þar sem að um væri að ræða einhliða frásögn eiginkonu kæranda um ætlaðar hótanir af hálfu ótilgreinds manns sem hún hafi talið að væri meðlimur Hezbollah eftir að kærandi og tvö börn þeirra hafi yfirgefið Líbanon. Það er mat kærunefndar að upplýsingar í framangreindu skjali hafi takmarkað sönnunargildi fyrir málatilbúnað kæranda og eru ekki til þess fallnar að breyta trúverðugleikamati kærunefndar í úrskurði nefndarinnar frá 14. október 2021.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 14. október 2021 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta