Mál nr. 559/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 559/2021
Fimmtudaginn 3. febrúar 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 28. október 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2021, var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir mars, apríl og maí 2020, samtals að fjárhæð 461.224 kr.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. nóvember 2021, var óskað eftir afriti af öllum gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 16. desember 2021.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefjist sérfræðiþekkingar þann 29. apríl 2013. Hann hafi starfað samfellt á íslenskum vinnumarkaði í mörg ár og aldrei fengið atvinnuleysisbætur þar til í mars 2020. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls 27. mars 2020, með aðstoð yfirmanns síns. Kærandi hafi ekki getað farið sjálfur inn á ,,Mínar síður’’ á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í mars, apríl og maí árið 2020. Kærandi hafi fengið innheimtubréf vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta 16. apríl 2021. Rök Vinnumálastofnunar hafi verið þau að stofnunin hafi talið að kærandi væri ekki með atvinnuleyfi á því tímabili sem hann hafi fengið atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, þ.e. mars, apríl og maí árið 2020.
Kærandi hafi ekki getað sótt um atvinnuleysisbætur sjálfur vegna tungumálaerfiðleika og notkunar tölvutækninnar. Yfirmaður hans í vinunni hafi þurft að hjálpa honum í gegnum ,,Mínar síður“ til að staðfesta gögn og fleira. Þannig hafi hann ekki vitað um innheimtubréfið sem Vinnumálastofnun hafi sent honum á rafrænan hátt. Hann hafi ekki vitað um bréfið fyrr en hann hafi séð kröfu um ofgreiddar atvinnuleysisbætur í heimabanka sínum í ágúst árið 2021. Kærufrestur sé því miður liðinn. Umboðsmaður kæranda hafi þann 2. september 2021 skrifað bréf til Vinnumálastofnunnar til að óska eftir að mál kæranda yrði tekið til meðferðar á ný en ekki fengið svar. Því telji hann að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Umboðsmaður kæranda hafi einnig kvartað til umboðsmanns Alþingis 11. október 2021 vegna þess að málið sé óvenjulegt og snúist um réttindi útlensks launamanns. Umboðsmaður Alþingis hafi bent á ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að kæra geti verið tekin til meðferðar þrátt fyrir að hún berist að liðnum kærufresti.
Kærandi tekur fram að hann hafi ekki vitað um innheimtubréfið og því ekki getað tjáð sig um þá ákvörðun vegna tungumálaerfiðleika. Ákvörðunin sé íþyngjandi gagnvart honum og fjölskyldu hans. Andmælaréttur kæranda hafi ekki verið tryggður í málinu. Ágreiningur sé um hvort kærandi hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum því tímabili sem hann hafi fengið atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, þ.e. mars, apríl og maí árið 2020. Samkvæmt bréfi Útlendingastofnunnar frá 18. maí 2020 hafi umsókn kæranda um dvalar- og atvinnuleyfi verið móttekin hjá Útlendingastofnun 21. febrúar 2020. Það hafi tekið þrjá mánuði (nákvæmlega tímabilið sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur) hjá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun að veita kæranda atvinnuleyfi. Á þessum tíma hafi verið ljóst að úrvinnslutími innkominna umsókna um tímabundin atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun hafi lengst nokkuð vegna Covid-19 faraldursins. Kærandi spyrji hvort það hafi verið kæranda að kenna.
Í 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ávinnslutímabil launamanns. Samkvæmt því eigi launamaður rétt á atvinnuleysisbótum ef hann hafi starfað lengur en þrjá mánuði (megi skilja að greiða skatt af launum sínum) síðustu tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi starfað samfellt í mörg ár síðan hann hafi komið til Íslands árið 2013 og aldrei fengið atvinnuleysisbætur áður en Covid-19 faraldurinn hafi skollið á. Þannig telji kærandi að réttindi sem hafi safnast upp ráðist af því hvort hann eigi rétt á þessum atvinnuleysisbótum í þessu tilviki eða ekki. Úrræði um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls sé sérstök tegund atvinnuleysisbóta í þeim tilfellum sem atvinnurekandi og starfsmaður geri með sér tímabundið samkomulag um minnkað starfshlutfall. Megintilgangurinn sé að aðstoða og gera atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra kleift að viðhalda ráðningarsambandi. Hins vegar geti fólk með tímabundið dvalarleyfi sótt um og átt rétt á þessum atvinnuleysisbótum. Með öllum framangreindum rökum telji kærandi að það sé ósanngjarnt að hann eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls og að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. apríl 2021 um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2021, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 28. október 2021. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Í kæru til úrskurðarnefndar er vísað til þess að kærandi hafi ekki vitað um bréf Vinnumálastofnunar fyrr en hann hafi séð kröfu um ofgreiddar atvinnuleysisbætur í heimabanka sínum í ágúst 2021. Af fyrirliggjandi samskiptasögu má sjá að kærandi kom þann 9. júlí 2021 til Vinnumálastofnunar vegna skuldar og ræddi við starfsmann stofnunarinnar. Er því ljóst að kærandi hafði vitneskju um ofgreiðsluna áður en framangreindur kærufrestur var liðinn. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir