Hoppa yfir valmynd

Nr. 178/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 178/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030019

 

Beiðni […] um endurupptöku og frestun réttaráhrifa

 

I.          Málsatvik

Þann 22. febrúar 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. janúar 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 26. febrúar 2018. Þann 13. mars 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum. Kærunefnd veitti talsmanni kæranda frest til 3. apríl 2018 til að skila frekari gögnum í málinu. Viðbótarfrestur var veittur til 5. apríl 2018. Engin frekari gögn voru lögð fram af hálfu kæranda.  

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af hálfu kæranda er jafnframt óskað eftir frestun réttaráhrifa með vísan til 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er vísað til úrskurðar kærunefndar frá 22. febrúar sl. í máli KNU18020001 þar sem nefndin hafi staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun alþjóðlegrar verndar hér á landi til handa kæranda. Þann 5. mars sl. hafi kærandi fengið afhent afrit af kærum sem maki hans hafi áður lagt fram til lögreglu í heimaríki, ásamt þýðingum á þeim. Um sé að ræða ný gögn í málinu og því skuli það endurupptekið, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 22. febrúar 2018. Með úrskurðinum staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að kæranda yrði ekki veitt alþjóðleg vernd eða dvalarleyfi hér á landi og að hann skyldi yfirgefa landið. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á þeim úrskurði og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ.e. það sem kærandi kveður vera kærur sem maki hans hafi lagt fram til lögreglu í heimaríki, ásamt þýðingum á þeim. Telur kærunefnd að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem fyrir lá þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp. Í úrskurði kærunefndar var frásögn kæranda um aðstæður hans í heimaríki, einkum hvað varðar hótanir og áreiti frá fyrrum maka eiginkonu hans, ekki dregin í efa en komist að þeirri niðurstöðu að aðstæður í landinu og þau atvik sem kærandi hefði lýst næðu ekki því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá taldi kærunefnd að kærandi hefði ekki sýnt fram á að yfirvöld í heimaríki hans geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd. Niðurstaða kærunefndar var því að aðstæður kæranda féllu heldur ekki undir 2. mgr. 37. gr. eða 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 22. febrúar 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Með beiðni um endurupptöku óskaði kærandi jafnframt eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar. Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Kröfu þess efnis skal gera ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Endanleg ákvörðun í máli kæranda var birt 26. febrúar 2018 en beiðni um frestun réttaráhrifa barst kærunefnd þann 13. mars s.á. Frestur skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga var því liðinn þegar beiðni barst. Í málinu hefur ekkert komið fram sem kallar á að vikið verði frá tímafresti ákvæðisins. Beiðni um frestun réttaráhrifa er því vísað frá.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa er vísað frá.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

The request to suspend legal effects is dismissed.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Erna Kristín Blöndal

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta