Hoppa yfir valmynd

Nr. 120/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 120/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17110013

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 5. október 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. ágúst 2017, um að synja umsókn […], fd. […], ríkisborgara Kósovó (hér eftir nefnd kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 10. október 2017. Þann 6. nóvember 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Með beiðni kæranda bárust fylgigögn. Viðbótargögn bárust kærunefnd 2. og 15. nóvember 2017.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi óskaði eftir því að fá að koma fyrir nefndina og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Kærunefnd bauð kæranda að koma fyrir nefndina þann 7. desember 2017 og þáði kærandi boðið.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hennar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Kærandi byggir kröfu sína á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvörðunar ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga. Vísar kærandi sérstaklega til 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Í sameiginlegri greinargerð kæranda og fjölskyldu hennar er tekið fram að þau tilheyri þjóðarbrotinu Ashkali sem sé minnihlutahópur í heimaríki þeirra sem sæti stöðugum ofsóknum auk þess sem þau séu í mikilli hættu vegna blóðhefndar. Kærandi og fjölskylda hennar hafi ítrekað leitað til lögreglu í heimaríki vegna ofsókna og ofbeldis í þeirra garð en vegna ónógra sannana og þess minnihlutahóps sem þau tilheyri hafi yfirvöld ekki veitt þeim aðstoð. Kærandi og tvær af systrum hennar þjáist af miklu þunglyndi og streitu jafnframt sem þær hafi allar lýst því yfir að þær muni fremur svipta sig lífi en að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Hún hafi greint lögmanni sínum frá ofbeldinu í trúnaði og kveðið að hún hafi ekki greint öðrum fjölskyldumeðlimum frá því vegna þeirrar skammar sem hún beri vegna ofbeldisins. Þá þurfi kærandi að leita til sálfræðings vegna misnotkunarinnar og þeirrar vanlíðunar og sjálfsvígshugsana sem hún glími við. Föðurbróðir kæranda hafi einnig sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og hafi kæranda borist hótanir og ógnanir frá elsta syni hans. Í beiðni kæranda kemur jafnframt fram að föðurbróðir hennar hafi mikil völd yfir fjölskyldunni og krefjist þess m.a. að fjölskyldan gangist við múslimatrú, styðji ISIS, fari í mosku og að konurnar í fjölskyldunni gangi með höfuðslæðu. Faðir kæranda fái ekki atvinnu vegna uppruna síns og því hafi fjölskyldan búið í húsnæði bróður hans. Kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu föðurbróður síns og sonum hans og þá sérstaklega þeim elsta. Kærandi lagði fram facebook skilaboð þess efnis með beiðni sinni um endurupptöku

Með beiðni kæranda fylgdi m.a. greinargerð félagsráðgjafa hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða dags. 1. nóvember 2017 auk annarra fylgigagna. Í greinargerð framangreinds félagsráðgjafa kemur m.a. fram að fjölskyldan hafi reglulega mætt í viðtöl og þegið læknis -og sálfræðiþjónustu. Fjölskyldan hafi rætt reynslu sína í heimaríki og þær ofsóknir sem þau hafi orðið fyrir vegna uppruna síns. Þá hafi þrjár elstu dæturnar tjáð sig um ofsóknir og ofbeldi sem þær hafi orðið fyrir í heimaríki vegna þess minnihlutahóps sem þær tilheyri og þeirrar ákvörðunar sinnar að ganga ekki með höfuðslæðu. Þær hafi orðið fyrir neikvæðu umtali og mannorð þeirra svert í heimaríki. Þá hafi þær greint frá kynferðislegri áreitni sem þær verði reglulega fyrir í heimaríki og nágrenni. Jafnframt hafi kærandi og systur hennar hætt að mæta í líkamsrækt og sund vegna ótta við frænda sinn sem hafi einnig dvalið hér á landi.

Kærandi lagði einnig fram gögn frá félagsráðgjafa m.a. dags. 24. apríl 2017, 23. október 2017 og 30. október 2017. Þar kemur fram að félagsráðgjafi hafi boðað kæranda til viðtals vegna gruns um vanlíðan þar sem hún hafi orðið vör við ótta kæranda þegar hún mætti frændum sínum í opnum viðtalstímum. Kærandi hafi greint félagsráðgjafanum frá því að frændur hennar hefðu beitt hana og systur hennar andlegu og líkamlegu ofbeldi auk þess að hafa reglulega veitt þeim eftirför og sýnt ógnandi hegðun. Kærandi hafi sagt að frændur sínir hafi skipt sér að því að hún noti ekki höfuðslæðu. Kærandi sé aðallega hrædd við elsta son föðurbróður síns vegna líkamlegs ofbeldis sem hann hafi beitt hana og strák sem hún hafi verið að hitta í Þýskalandi sökum þess að strákurinn hafi verið frá Írak. Hún hafi ekki kært atvikið af ótta við hefnd. Einnig hafi framangreindur frændi beitt kæranda kynferðislegu ofbeldi. Þá óttist faðir kæranda einnig bróður sinn og syni hans. Kærandi hafi í annað skipti leitað til félagsráðgjafa til að draga til baka umsókn sína um líkamsræktarkort vegna ótta við frænda sinn. Í öðru viðtali greindi kærandi félagsráðgjafanum frá nauðgunartilraun sem hún hafi orðið fyrir í heimaríki af hálfu frænda síns í desember 2016. Kærandi hafi náð að klóra frænda sinn og flýja. Hún hafi hlaupið heim þar sem hún hafi mætt föðurbróður sínum, föður frændans, og sýnt honum rifin föt sín og sagt við hann að sjá hvað sonur hans hefði gert henni. Föðurbróðir hennar hafi löðrungað kæranda og kveðið þetta vera henni að kenna þar sem hún hafi neitað að ganga með höfuðslæðu.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 5. október 2017 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 10. október 2017. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku einkum á því að hún sé þolandi kynferðisofbeldis og verði fyrir áreiti vegna uppruna síns og af hálfu frænda sinna þar sem hún vilji ekki ganga með höfuðslæðu. Kærandi lagði fram skjáskot af facebook skilaboðum þar sem komi m.a. fram hótanir í hennar garð. Skilaboðin séu frá notanda að nafninu […] sem hún kveður vera frænda sinn sem hafi reynt að beita hana kynferðisofbeldi.

Kærandi sótti um vernd hér á landi ásamt fjölskyldu sinni þann 5. febrúar 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 20. mars 2017. Þar kvaðst kærandi m.a. hafa flúið vegna fjölskylduvandamála. Einnig greindi kærandi frá því að árið 2013 hafi hún verið að aðstoða móður sína við að þrífa hús þegar þrír strákar hafi komið sem hafi ætlað sér að misnota kæranda en hún hafi sloppið. Aðspurð kvaðst kærandi ekki hafa þekkt árásarmennina og hafa farið með málið til lögreglu og hún hafi verið kölluð til viðtals í tvígang en ekkert hafi orðið úr því. Kærandi hafi eftir atburðinn ekki getað farið út úr húsi og verið innilokuð. Þrátt fyrir að hafa verið ítarlega spurð út í það ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir í heimaríki greindi kærandi ekki frá þessu atviki í viðtali hjá kærunefnd.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi einnig frá því að deginum áður en hún hafi flúið Kósovó hafi hún verið á leið á markaðinn þegar þrír grímuklæddir drengir hafi komið til hennar og sagst vera frá Albaníu. Hafi þeir hótað að hefna sín á kæranda eða systrum hennar. Mennirnir hafi verið frændur fyrrverandi konu föðurbróður kæranda sem hafi verið myrt. Kærandi lýsti ekki þessu atviki hjá kærunefnd en sagði hins vegar frá svipuðu atviki, þ.e. að þrír grímuklæddir menn hafi reynt að draga hana og systur hennar inn í bifreið þegar þær voru á leið út í búð.

Í greinargerð kæranda vegna kæru hennar á ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 9. ágúst 2017 kom fram að meðlimir fjölskyldunnar hefðu lýst því að kærandi hafi orðið fyrir nauðgunartilraun. Í endurupptökubeiðni kæranda kom fram að hún hefði orðið fyrir nauðgun. Í viðtali hjá kærunefnd dags. 7. desember greindi kærandi frá ofbeldi af hálfu frænda síns m.a. nauðgunartilraun í desember 2016 í almenningsgarði en þar hafi hún sloppið frá honum með því að öskra og slá frá sér.

Þá sagði kærandi frá atviki hér á landi þegar hún hafi verið með systrum sínum að sækja föt í Rauða krossinn og mætti fyrrnefndum frænda sínum, bróður hans og móður þeirra. Þau hafi m.a. kallað kæranda og systur hennar hórur og sagt þeim að hylja sig. Einnig greindi kærandi frá því að hún hefði aðeins gengið í skóla í sjö ár í heimaríki.

Það er mat kærunefndar að misræmis gæti í frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimaríki hennar að því er varðar árásir sem hún kveðst hafa orðið fyrir af hálfu frænda síns, ókunnugra manna og manna tengdum ætlaðri blóðhefnd fjölskyldu hennar. Kærunefnd telur ofangreint misræmi í frásögn kæranda draga úr trúverðugleika frásagnar hennar af atburðum í heimaríki. Samanburður á frásögn systur kæranda og kæranda sjálfrar styður ekki heldur við trúverðugleika frásagnar kæranda. Kærunefnd fellst þó á að kærandi hafi sýnt fram á að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og ógnandi hegðun karlkyns fjölskyldumeðlima og annarra manna í heimaríki hennar.

Kærunefndin hefur farið yfir gögn með nýrri beiðni kæranda og aðrar upplýsingar um aðstæður í Kósovó, einkum varðandi stöðu þolenda kynferðisofbeldis í Kósovó. Þar kemur fram að kynferðisleg áreitni sé refsiverð samkvæmt kósovóskum lögum en fá tilfelli séu tilkynnt. Þá sé skilvirkni réttarverndar kvenna í Kósóvó að sumu leyti takmörkuð vegna feðraveldismenningar og hefða en einnig vegna óskilvirkra stjórnarhátta. Yfirvöld hafi þó reynt að bregðast við framangreindum vandamálum með ýmsum hætti og kemur m.a. fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að árið 2016 hafi skrifstofa almannaöryggis (The Kosovo Academy for Public Safety) bætt við námskeiðum um mannréttindi og vinnu með þolendum heimilisofbeldis, nauðgunar og mansals í grunnþjálfun lögreglunema. Lögreglunni beri að rannsaka nauðganir og bjóða þolendum læknisaðstoð um leið. Þá hafi stjórnvöld sett á fót áætlanir og lög sem er ætlað að bregðast við kynbundnu ofbeldi en stofnunum hafi þó tekist erfiðlega að samræma framkvæmd sína auk þess sem lögum og stefnum sé ekki framfylgt með árangursríkum hætti. Skrifstofa Evrópusambandsins í Kósovó hefur fjármagnað samtökin The Kosovo Womens Network frá árinu 2008 og eru langflest kvenréttindasamtök Kósovó hluti af samtökunum. Áætlun samtakanna felur m.a. í sér að berjast gegn kynbundnu ofbeldi, fyrir aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu, stjórnmálaþátttöku kvenna og styrkja efnahagslega stöðu kvenna. Samkvæmt ársskýrslu samtakanna fyrir árið 2016 var áhersla lögð á að auka vitund almennings um kynbundið ofbeldi, þ. á m. heimilisofbeldi, kynferðislega áreitni og nauðganir. Í þessu skyni hafa samtökin m.a. staðið fyrir fjölmiðlaherferð til að kynna löggjöf og réttindi fólks fyrir almenningi. Af framangreindu er það mat kærunefndar að kærandi eigi þess því kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda telji hún þörf á því.

Eins og að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að í beiðni kæranda um endurupptöku hafi ekki komið fram nýjar upplýsingar eða gögn um aðstæður kæranda sem benda til þess að aðstæður séu breyttar frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp. Þá er það afstaða kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram, hótanir á facebook og vottorð sálfræðings og félagsráðgjafa auk viðtals við kæranda hjá kærunefnd útlendingamála, séu aðeins ítarlegri frásagnir af aðstæður kæranda í heimaríki og séu ekki þess eðlis að hægt sé að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 5. október 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Því sé ekki hægt að fallast á endurupptöku málsins á þeim grundvelli.

Að öðru leyti er það mat kærunefndar að ekki sé tilefni til endurupptöku málsins. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar hennar hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Pétur Dam Leifsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta