Hoppa yfir valmynd

Nr. 155/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 155/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. mars 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. febrúar 2020, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka hana aftur til efnismeðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir ættingja Íslendings þann 16. september 2015 og fékk það leyfi endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 19. ágúst 2019. Þann 28. maí 2019 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. febrúar 2020, var kæranda synjað um ótímabundið dvalarleyfi. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 2. mars sl. og þann 13. mars sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 13. apríl sl.

Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma til viðtals hjá kærunefnd til að gera skýrari grein fyrir máli sínu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Þar sem mál kæranda varðar hvorki IV. kafla né 74. gr. laga um útlendinga, líkt og ákvæði 7. mgr. 8. gr. laganna gerir áskilnað um, taldi kærunefnd ekki tilefni til að gefa kæranda kost á því að koma fyrir nefndina.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til 58. gr. laga um útlendinga og 14. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að kærandi hefði ekki lokið 150 stundum af íslenskunámskeiði fyrir útlendinga eins og gerð væri krafa um samkvæmt 14. gr. reglugerðar um útlendinga, sbr. c-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá ættu undantekningarákvæði 14. gr. reglugerðarinnar ekki við. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að í læknisvottorði, dags. 11. júní 2019, komi fram að hún hafi ekki treyst sér til að takast á hendur nám í íslensku enda hafi hún verið komin yfir sjötugt þegar hún hafi komið fyrst til landsins. Hafi mat læknis verið það að óraunhæft væri að ætlast til þess að hún gæti numið nýtt tungumál úr þessu. Kærandi sé [...] ára gömul og þarfnist verulegrar umönnunar og stuðnings sonar síns hér á landi enda hafi hann séð um framfærslu hennar fram til þessa, en líkt og gögn málsins sýni fram á sé hann með nægjanlegar tekjur til þess að standa straum af framfærslu hennar. Sé því eingöngu um að ræða hvort kærandi uppfylli skilyrðið fyrir íslenskukunnáttu til þess að fá útgefið ótímabundið dvalarleyfi hér á landi. Vísar kærandi til þess að framangreint læknisvottorð hafi legið fyrir hjá Útlendingastofnun við meðferð umsóknar hennar en þrátt fyrir það byggi stofnunin á því að ekki verði séð af gögnum málsins að kærandi sé af líkamlegum eða andlegum ástæðum ófær um að taka þátt í íslenskunámskeiði, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Telur kærandi ámælisvert að Útlendingastofnun hafi ekki stuðst við vottorðið og þar með veitt kæranda undanþágu frá skilyrðinu um að hafa sótt íslenskunámskeið. Þá vísar kærandi til þess að hún sé stödd í heimaríki og hafi verið þar frá ágúst 2019, þar sem hún hafi talið að hún þyrfti að yfirgefa Ísland á meðan umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins leyfis síðan 16. september 2015.

Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Samkvæmt c-lið er það skilyrði að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, sbr. þó 9. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 9. mgr. 58. gr. laga um útlendinga ber ráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundið dvalarleyfi, þar á meðal um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Samkvæmt 4. málsl. ákvæðisins er í reglugerðinni m.a. heimilt að kveða á um undanþágur frá skyldu til þátttöku í námskeiði.

Í 14. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, er fjallað um námskeið í íslensku vegna umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skal umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá námskeiðshaldara sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 1. mgr. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 14. gr. er heimilt að víkja frá skilyrði um þátttöku í námskeiði ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri og hefur búið hér á landi í a.m.k. sjö ár eða ef hann er af líkamlegum eða andlegum ástæðum ófær um að taka þátt í slíku námskeiði, enda sé slíkt staðfest af þar til bærum sérfræðingi.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki sótt námskeið í íslensku skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga og uppfyllir því ekki skilyrði ákvæðisins. Í læknisvottorði, dags. 11. júní 2019, sem kærandi lagði fram við meðferð umsóknar hjá Útlendingastofnun kemur fram að kærandi hafi ekki treyst sér til að takast á hendur nám í íslensku enda hafi hún verið komin yfir sjötugt þegar hún kom til landsins og sé aðeins farin að gleyma móðurmáli sínu. Var það mat læknis að miðað við þetta væri óraunhæft að ætlast til þess að hún gæti numið nýtt tungumál úr þessu.

Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga er eins og áður greinir veitt undanþága frá þátttöku í íslenskunámskeiði ef útlendingur er af líkamlegum eða andlegum ástæðum ófær um að „taka þátt“ í slíku námskeiði. Telur kærunefnd að túlka verði skilyrði um þátttöku á þann veg að ekki sé einungis gerð krafa um að útlendingur sitji námskeið í íslensku heldur að á námskeiðstíma sé viðkomandi fær um að nema þá kennslu sem þar fer fram sér til gagns. Kærandi hefur lagt fram vottorð þar sem fram kemur það mat læknis að m.t.t. aldurs hennar og frásagnar sé óraunhæft að hún geti numið nýtt tungumál. Að mati kærunefndar hefur þar til bær sérfræðingur talið kæranda ófæra af andlegum ástæðum að taka þátt í námskeiði í íslensku í skilningi 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Kemur skilyrði c-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga því ekki í veg fyrir að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                 Daníel Isebarn Ágústsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta