Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 4/2021, úrskurður 8. mars 2021

Mánudaginn 8. mars 2021 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 4/2021

 

 

Vegagerðin

gegn

Brimgörðum ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 11. febrúar 2021 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu í landi jarðarinnar Esjubergs, landnúmer 125668, og spildu í landi jarðarinnar Móa, landnúmer 125724, í þágu lagningar Hringvegar og hliðarvegar á Kjalarnesi. Með matsbeiðninni var þess einnig farið á leit við matsnefndina að nefndin heimilaði eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem taka ætti eignarnámi, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámsheimild er í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Eignarnámsþoli er Brimgarðar ehf., kt. 591103-2610, Sundagörðum 10, 104 Reykjavík, þinglýstur eigandi jarðanna Esjubergs og Móa, en fyrirsvarsmaður eignarnámsþola er Guðný Edda Gísladóttir, stjórnarformaður, kt. […], [heimilisfang].

Matsandlagið samkvæmt matsbeiðni 11. febrúar 2021 er nánar tiltekið:

1.         35.049 fermetra landspilda í landi Esjubergs undir Hringveg á Kjalarnesi milli vegstöðva 19120 og 19980, miðað við 60 metra breitt vegsvæði, það er 30 metra frá miðlínu til hvorrar handar.

2.         1.573 fermetra landspilda í landi Móa undir hliðarveg á Kjalarnesi til móts við Hringveg og á milli vegstöðva 19520 og 19630, miðað við 30 metra breitt vegsvæði, það er 15 metra frá miðlínu vegar til hvorrar handar.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 19. febrúar 2021. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 31 tölusettu fylgiskjali. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs. Eftir eignarnámsþola var bókað: „Eignarnámsþoli mótmælir lögmæti eignarnámsins sem og kröfu Vegagerðarinnar um að stofnuninni verði heimilað að taka umráð landspildnanna sem taka á eignarnámi. Eignarnámsþoli mun láta reyna á lögmæti eignarnámsins. Þess er að vænta að fyrsta skref í þeim tilgangi verði kæra til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Eignarnámsþoli gerir áskilnað um að honum verði bætt allt fjártjón sem Vegagerðin kann að valda honum auk þess að gera kröfu um að landi hans verði skilað í sama ástandi og það er í nú verði fallist á kröfur hans fyrir ráðherra eða eftir atvikum dómstólum.“ Eftir eignarnema var bókað að um rökstuðning fyrir kröfum hans vísaðist til matsbeiðnarinnar 11. febrúar 2021. Fært var til bókar að matsnefnd féllist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 37. gr. vegalaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, svo og að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. sömu laga. Þá var þess farið á leit við málsaðila að þeir skiluðu til matsnefndarinnar athugasemdum um hvort skilyrði stæðu til umráðatöku samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr 11/1973 á grundvelli fram kominnar beiðni eignarnema þar að lútandi. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Föstudaginn 26. febrúar 2021 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

Með tölvubréfi miðvikudaginn 3. mars 2021 óskaði nefndin eftir því að eignarnemi afhenti útboðsgögn vegna verksins. Það gerði eignarnemi með tölubréfi sama dag. Með öðru tölvubréfi eignarnema þennan sama dag til nefndarinnar var áréttað að fergingum ætti ekki að vera alfarið lokið í mars 2021 fyrir landspildum eignarnámsþola heldur væru þær keyrðar út í þrepum og mælt á milli til að fylgjast með sigi.

Með tölvubréfi fimmtudaginn 4. mars 2021 óskaði nefndin eftir því að eignarnemi afhenti nákvæmari framkvæmdaáætlun sem sýndi bundna tímalínu verksins. Það gerði eignarnemi með tölvubréfi sama dag.

Mánudaginn 8. mars 2021 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 19. febrúar 2021 og vettvangsgöngu 26. sama mánaðar. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar athugasemdir eignarnema 2. mars 2021 og athugasemdir eignarnámsþola sama dag ásamt einu fylgiskjali, auk þriggja áðurgreindra tölvubréfa eignarnema 3. sama mánaðar ásamt tveimur fylgiskjölum og tölvubréfs 4. þess mánaðar ásamt einu fylgiskjali. Voru skjöl þessi lögð fram. Þá var málið tekið til úrskurðar að því er varðar kröfu eignarnema um undanfarandi umráðatöku.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Að því er varðar kröfu eignarnema þess efnis að matsnefnd eignarnámsbóta heimili honum að taka umráð þeirra landspildna eignarnámsþola, sem taka á eignarnámi, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973, skírskotar eignarnemi til þess að vegaframkvæmdir séu þegar hafnar í nágrenni við þær landspildur sem fyrirhugað sé að taka eignarnámi og mikilvægt sé að verktaki á vegum eignarnema komist sem fyrst að spildum eignarnámsþola til að hefja framkvæmdir þar. Áætli verktaki að hefja vinnu þar í fyrri hluta marsmánaðar 2021. Að öðrum kosti megi búast við að verkið tefjist og verði mun óhagkvæmara þannig að líkur séu á að kostnaður aukist verulega.

Eignarnemi skírskotar til þess að í útboðslýsingu segi meðal annars um 1. áfanga verksins að fyrsta verk sé vinna við lagningu og færslu á veitustofnum og strengjum Veitna og Gagnaveitu áður en farið verði í það meginverkefni þessa áfanga að keyra út fyllingarefni í fergingar, gerð bráðabirgðaskurða vegna ferginga og gerð akfærra rampa yfir fergingar svo hægt sé að halda heimreiðum og bæjum opnum. Jafnframt að vinnu skuli lokið við veitulagnir fyrir 30. september 2020 og vinnu við áfanga 1 í mars 2021. Telur eignarnemi mikilvægt að ekki verði tafir á fergingum því þær verði látnar standa og vinna upp langtímasig á jarðvegi í vegstæðinu og séu grundvöllur þess að byggja upp vegina sem byggðir séu á blautu landi.

Eignarnemi bendir einnig á að í útboðslýsingu segi meðal annars um „verkhluta 8.2 fylling/ferging“ að í þessum verkhluta sé um að ræða fergingu vegna Hringvegar, hliðarvega og stíga, gerð framræsluskurða og grjótræsa auk fyllinga í skurði sem eigi að leggjast af. Telur eignarnemi að þannig sé ráðgert að fergt verði undir nýtt vegsvæði Hringvegar og nýja hliðarvegi í landi eignarnámsþola. Frá nýja hringtorginu sem verði að hluta í landi eignarnámsþola verði tengingar inn á hliðarvegi og að öðrum jörðum. Verði með því fækkað vegtengingum inn á Hringveginn með auknu umferðaröryggi.

Telur eignarnemi að fergingar séu því ein af grunnforsendum þess að ljúka megi verkinu á áætlun. Verktaki hefji vinnu í landi eignarnámsþola eftir fyrstu vikuna í mars 2021. Bendir eignarnemi á að við vettvangsgöngu matsnefndar 26. febrúar 2021 hafi mátt sjá með skýrum hætti að verktaki hafi verið búinn eða að fergja land undir ný vegsvæði næst landspildum eignarnámsþola. Liggi því beint við að hefja framkvæmdir þar í samræmi við framkvæmdaáætlun. Dráttur á því að eignarnemi fái umráð spildnanna sé til þess fallinn að lengja verktíma, gera verkið óhagkvæmara og hækka kostnað.

Kveður eignarnemi aðstöðuna í þessu máli alls ólíka því sem verið hafi í dómi Hæstaréttar 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015. Vinna verktaka sé þegar hafin á nærliggjandi jörðum og samkvæmt útboðsskilmálum eigi að vera búið að fergja í lok mars. Eins og áður greini hyggist verktaki fara inn á land eignarnámsþola eftir fyrstu vikuna í mars. Telur eignarnemi því að áskilnaður 1. málsliðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 sé uppfylltur, svo og að sú niðurstaða væri í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 53/2015. Vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 3/2020, þar sem byggt hafi verið á sömu sjónarmiðum.

Að síðustu vísar eignarnemi til þess að getið sé um framkvæmdina í samgönguáætlun og sé hún því í samræmi við vilja löggjafans. Þá samræmist framkvæmdin skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar sem veitt hafi leyfi til framkvæmda 1. september 2020. Um nauðsyn eignarnámsins bendir eignarnemi á ákvörðun um eignarnám 10. febrúar 2021 og matsbeiðni sína 11. febrúar 2021. Áskilur eignarnemi sér rétt til að leggja fram frekari gögn og koma að frekari röksemdum á síðari stigum málsins.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli mótmælir kröfur eignarnema um umráðatöku samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 og krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta synji henni og úrskurði um málskostnað til handa eignarnámsþola í þessum þætti málsins.

Þá bendir eignarnámsþoli á að hann hyggist láta reyna á lögmæti eignarnámsins, þ. á m. aðdraganda þess, væntanlega fyrst með kæru til ráðherra og síðan fyrir dómstólum ef með þarf.

Eignarnámsþoli telur að sá dráttur sem orðið hafi á því að taka ákvörðun um eignarnám sé alfarið eignarnema sjálfum að kenna og ekki sé við eignarnámsþola að sakast í þeim efnum. Sé þannig einhver bráð þörf á því fyrir eignarnema að fá umráð landsins, áður en málsmeðferð sé lokið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, verði hann að bera hallann af því að hafa ekki ráðist í þá aðgerð fyrr að taka ákvörðunina um eignarnám. Það að eignarnemi hafi komið sér í tímaþröng gagnvart verktaka með tímasetta verkáætlun sé eitthvað sem hann verði sjálfur að bera ábyrgð á og hallann af. Að framkvæma eignarnám samtímis því sem verktaki eigi að hefja vinnu á landi eignarnámsþola sé óafsakanlegt og eignarnámsþola óviðkomandi. Vísar eignarnámsþoli til þess að eigarnemi hafi haft vitneskju um verkáætlun verktakans fyrir löngu síðan því verkið hafi verið boðið út af eignarnema sjálfum og hafi hann ráðið öllum skilmálum. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu eignarnema hafi tilboð í verkið verið opnuð í maí 2019. Matsnefnd beri þannig að hafna kröfu eignarnema um umráðatöku lands eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli telur ástæðulaust að rekja sérstaklega í þessum þætti málsins þau lagasjónarmið sem hann mun tefla fram vegna eignarnámsákvörðunarinnar en vill þó benda á að eignarréttur hans nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, svo og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá gerir eignarnámsþoli að sínum þau sjónarmið sem greinir í dómi Hæstaréttar 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015 um 13. og 14. gr. laga nr. 11/1973, þ. á m. um að það sé meginregla 13. gr. laganna að eignarnemi geti ekki krafist þess að fá umráð verðmætis sem eignarnám beinist að fyrr en hann hafi greitt eignarnámsþola bætur, svo og að það sé matsnefndar að meta hvort hafið sé yfir vafa að fullnægt sé þeim skilyrðum sem að lögum sé sett fyrir því að vikið verði frá meginreglu 13. gr.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmdar við lagningu Hringvegar og hliðarvegar á Kjalarnesi. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til breikkunar Hringvegar um Kjalarnes á um 9 km kafla milli vegamóta Hvalfjarðarvegar í vestri og Varmhóla í austri með lagningu nýs vegar í aðra akstursstefnu sem aðskilinn er núverandi vegi. Ráðgert er að vegsvæði Hringvegar verði 60 metrar á breidd eftir breytingarnar, eða 30 metrar frá miðlínu til hvorrar handar, en vegsvæði hliðarvega 30 metrar, eða 15 metrar frá miðlínu til hvorrar handar. Um er að ræða breikkun á 4,1 km löngum kafla Hringvegar á Vesturlandsvegi. Í framkvæmdaleyfi fyrir verkið og útboðsgögnum vegna 1. áfanga þess kemur fram að undir verkið heyri hringtorg, tvenn undirgöng úr stálplötum, áningastaður, hliðarvegir og stígar, svo og ræsi, regnvatnslagnir, veglýsing, lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og breytingar á lögnum veitufyrirtækja. Einnig að fergja eigi vegstæði og framtíðarstæði stíga meðfram hliðarvegum. Þar kemur einnig meðal annars fram í lýsingu á verkinu að um sé að ræða meðal annars breikkun núverandi Hringvegar, ásamt gerð hringtorgs við Móa og malbikaðra tengivega frá hringtorgi að hliðarvegum. Framkvæmdin fer um land jarða sem telja á annan tug frá Varmhólum í suðaustri allt til Vallár í norðvestri, þ. á m. um tvær landspildur eignarnámsþola í landi jarðanna Esjubergs og Móa. Eignarnámið beinist að tveimur áðurgreindum landspildum fyrir landi eignarnámsþola sem báðar liggja suðvestan þjóðvegar (neðan vegar). Landspilda eignarnámsþola í landi jarðarinnar Móa er ætluð undir hliðarveg á Kjalarnesi til móts við Hringveg. Á spildunni er ráðgert að staðsett verði áðurgreint hringtorg að hluta ásamt malbikuðum tengivegum frá hringtorginu. Landspilda eignarnámsþola í landi jarðarinnar Esjubergs liggur að áðurgreindri spildu úr landi Móa og er land hennar ætlað undir Hringveg á Kjalarnesi. Ráðgert er að áðurgreint hringtorg verði staðsett að hluta innan spildunnar úr landi Esjubergs ásamt Hringvegi og malbikuðum tengivegum frá hringtorgi. Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að bæta samgöngur og umferðaröryggi á þjóðvegum.

Í þessum þætti málsins kemur til úrlausnar matsnefndar sú krafa eignarnema að nefndin heimili honum að taka umráð matsandlagsins, tveggja spildna eignarnámsþola í landi jarðanna Esjubergs og Móa.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 segir að matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Í fyrsta málslið 1. mgr. 10. gr. sömu laga segir að matsnefnd skuli kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Í fyrsta málslið 13. gr. laganna segir að þegar mat liggur fyrir, geti eignarnemi tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Í öðrum málslið sömu greinar segir að eignarnema sé rétt að leita aðfarargerðar án undangengins dóms eða sáttar í þessu skyni. Frá fyrirmælum síðastgreinds ákvæðis er vikið í fyrsta málslið 1. mgr. 14. gr. laganna, þar sem segir að þótt mati sé ekki lokið geti matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir sem séu tilefni eignarnámsins. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna er matsnefnd einnig heimilt að heimila eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka á eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins þótt mati sé ekki lokið ef vandkvæði eru á að ákveða bætur fyrirfram eða mat er að öðru leyti vandasamt. Þar sem 14. gr. laganna á í hlut gildir þá það sama, um að eignarnema sé rétt að leita aðfarargerðar í þessu skyni, þegar umráðataka hefur verið heimiluð gegn tryggingu, ef tryggingar hefur verið krafist, sbr. lokamálslið 13. gr. laganna. Má enda gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt úrskurðum yfirvalda sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Hæstiréttur hefur tekið afstöðu til undanfarandi umráðatöku samkvæmt heimildum 14. gr. laga nr. 11/1973, sbr. dóm réttarins 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015. Þar segir meðal annars að af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum leiði að við það sé miðað að þessarar heimildar sé fyrst og fremst neytt þegar eignarnema sé tímans vegna af sérstökum ástæðum mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og honum yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Samkvæmt þessu sé ljóst að hagsmunir eignarnema af því almennt séð að fá fljótt umráð hins eignarnumda geta ekki skipt máli þegar metið er hvort skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laganna sé fullnægt. Meira þurfi til að koma svo sem sérstakar aðstæður sem geti valdið seinkun framkvæmda eða gert þær óhagkvæmari en gengið hafi verið út frá í upphafi og tengist veðurfari eða öðrum ytri aðstæðum í náttúrunni. Í dómi Hæstaréttar segir einnig meðal annars:

„Eignarnemi sem óskar þess að neyta heimildar samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 þarf að beina erindi um slíkt til matsnefndar eignarnámsbóta og færa þar fram rök fyrir því að fullnægt sé lagaskilyrðum til að verða við beiðni hans. Metur nefndin það síðan á grundvelli framkominna gagna hvort lagaskilyrðum sé fullnægt til að verða við beiðninni og ber nefndinni í því sambandi að líta til þess að um undantekningarákvæði er að ræða. Þarf samkvæmt þessu að vera hafið yfir vafa að fullnægt sé þeim skilyrðum sem að lögum eru sett fyrir því að vikið verði frá meginreglu 13. gr. laga nr. 11/1973. Eins og í hinum áfrýjaða dómi greinir nægir eignarnema í þessu sambandi almennt ekki að vísa til þess að eignarnám þjóni almannahagsmunum þannig að fullnægt sé áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf, heldur verður hann að færa að því rök að tafarlaus umráðataka sé nauðsynleg.“

Samkvæmt gögnum málsins er kveðið á um verkið í samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024 og gerð grein fyrir því í samgönguáætlun 2020 til 2034, auk þess sem verkið mun vera í samræmi við skipulag Reykjavíkurborgar. Mun vinna við verkið hafa tafist nokkuð frá því sem upphafleg áform eignarnema miðuðu við, einkum sökum þess að með ákvörðun Skipulagsstofnunar 11. júní 2019 var talið að verkið væri háð mati á umhverfisáhrifum en með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 5. mars 2020 í máli nr. 62/2019 var sú ákvörðun felld úr gildi. Framkvæmdir við verkið munu hafa hafist þegar og skrifað hafði verið undir samning við verktaka um 1. áfanga verksins í september 2020 en verkáætlun samkvæmt framkvæmdaleyfi og útboðsgögnum miðar verklok heildarverksins við 31. maí 2023.

Í framkvæmdaleyfi Reykjavíkurborgar 1. september 2020 fyrir verkið, sem þar er nánar tilgreint sem breikkun á 4,1 km löngum kafla Hringvegar á Vesturlandsvegi frá Varmhólum að Vallá, er verkinu skipt í sex áfanga. Samkvæmt gögnum málsins er vinna við 1. áfanga verksins hafin, en áfanginn felst í vinnu við lagningu og færslu á veitustofnunum og strengjum Veitna og Gagnaveitu, því að fyllingarefni sé keyrt í fergingar, gerð rampa yfir fergingar til að hægt sé að halda heimreiðum opnum og jarðvegsskiptum í vegstæði hliðarvega beggja vegna Hringvegar o.fl. Skuli vinnu við fyrsta áfanga lokið fyrir mars 2021. Í 2. áfanga, sem skal lokið fyrir miðjan september 2021, er fyrirhugað að fram fari áframhaldandi fergingar og mögulega viðbætur við fyrri fergingar þegar sig hefur komið í ljós, svo og áframhaldandi jarðvegsskipti og lagnir, uppsetning á undirstöðum fyrir undirgöng ásamt því að ræsi skuli lögð varðandi afvötnun o.fl. Í 3. áfanga, sem skal lokið fyrir miðjan mars 2022, skal unnið að vegagerð og jarðvinnu á Hringvegi og hliðarvegum, taka í notkun hluta hliðarvega beggja vegna Vesturlandsvegar, leggja áfram lagnir og strengi í nýja lagnaleið og afleggja eldri strengi á ákveðnum köflum o.fl. Í 4. áfanga, sem skal lokið fyrir september 2022, skal hefja fergingu á þeim kafla vegarins sem ekki hefur áður verið fergður vegna lagna og strengja í jörðu, það er á kafla frá Móum til Saltvíkur, og ljúka við nýtt hringtorg við Móa utan þess svæðis sem þá verður í fergingu. Einnig skal unnið að malbikun, skiltun og yfirborðsmerkingum ásamt uppsetningu lýsingar, undirstöður fyrir ný undirgöng við Varmhóla skulu byggðar og undirgöngum komið fyrir á endanlegri staðsetningu, stígar til og frá undirgöngum við Varmhóla kláraðir o.fl. Í 5. áfanga, sem skal lokið fyrir apríl 2023, skal áfram unnið að fergingum á kafla Hringvegar milli Móa og Saltvíkur o.fl., vegtengingum sem beint hefur verið inn á Hringveg fækkað, áningarstaður við Hofsvík fullkláraður og opnaður fyrir almenningi og fram skal fara frágangur innan og utan vega og við stíga o.fl. Í þessum áfanga er gert ráð fyrir þeim möguleika að taka hluta nýrra akreina Vesturlandsvegar í notkun með bráðabirgðatengingum á um 1,7 km kafla frá nýjum undirgöngum að Vallá. Í 6. áfanga, sem skal lokið fyrir júní 2023, fer fram vinna við að fullklára nýjar akreinar Hringvegar, það er á síðasta kaflanum sem fergður skal á milli Móa og Saltvíkur, ásamt því að ljúka gerð heimreiða. Fram skal fara yfirborðsfrágangur á Hringvegi og hliðarvegum, svo sem merkingar, lýsing, skiltun og uppsetning vegriða sem ekki hefur verið lokið í fyrri áföngum. Þá skal við lok áfangans taka í notkun hringtorg við Móa og þar með nýjar akreinar á öllum kaflanum.

Í útboðsgögnum eignarnema vegna 1. áfanga verksins frá því í júlí 2020 er verkinu lýst á hliðstæðan en nákvæmari hátt og í framkvæmdaleyfinu. Þar er jafnframt fjallað um áfangaskiptingu verksins meðal annars með svofelldum hætti: „Framkvæmdum í þessu útboðsverki er skipt í 6 áfanga. Verktaka er skylt að vinna ákveðin verkefni innan hvers áfanga á undan öðrum [...]. Verktaka er leyfilegt að framkvæma vel skilgreind verkefni úr seinni áföngum, að því gefnu að hann sýni fram á að þau muni ekki hafa áhrif á nauðsynlega undanfara úr fyrri áföngum.“ Af útboðsgögnum verður ráðið að áfangarnir sex sem þar var skírskotað til, svari til áfanganna sex sem lýst var í framkvæmdaleyfinu og áður greinir.

Af gögnum málsins verður ráðið að samskipti og samningaviðræður málsaðila hafi staðið yfir með hléum frá 24. apríl 2019, þegar eignarnemi upplýsti eignarnámsþola um fyrirhugaðar framkvæmdir og gerði honum tilboð um bætur fyrir landspildurnar, til 18. nóvember  2020, þegar eignarnemi boðaði eignarnám sökum þess að samningaviðræður hefðu ekki borið árangur. Enn áttu sér stað samningaviðræður milli aðila í desember sama ár og síðast í janúar 2021. Með ákvörðun eignarnema 10. febrúar 2021 voru landspildur eignarnámsþola teknar eignarnámi með vísan til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, í því skyni að halda áfram vegaframkvæmdum í landi eignarnámsþola á þeim grunni sem deiliskipulag gerði ráð fyrir og í samræmi við fjárveitingar frá Alþingi. Degi síðar neytti eignarnemi eignarnámsheimildar sinnar og sendi í því skyni eins og áður greinir beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta þess efnis að mat færi fram.

Eignarnemi hefur í málinu fært fram sérstakar röksemdir fyrir því að heimildar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, til undanfarandi umráðatöku, skuli neytt í málinu. Samkvæmt fyrirætlunum eignarnema er ráðgert að vinnu við 1. áfanga verksins verði lokið í mars 2021. Áformar verktaki að hefja vinnu í landi eignarnámsþola eftir fyrstu viku marsmánaðar. Fram er komið af hálfu eignarnema að 1. áfangi feli meðal annars í sér vinnu við fergingu vegna Hringvegar, hliðarvega og stíga, gerð framræksluskurða og grjótræsa auk fyllinga í skurði sem eigi að leggjast af. Fergt verði undir nýtt vegsvæði Hringvegar og nýja hliðarvegi í landi eignarnámsþola. Frá nýja hringtorginu, sem verði að hluta í landi eignarnámsþola, verði tengingar inn á hliðarvegi og að öðrum jörðum. Verði með því fækkað vegtengingum inn á Hringveginn með auknu umferðaröryggi. Í kjölfarið skuli vinnu við 2. áfanga verksins, það er vinnu við veitulagnir, lokið fyrir 30. september 2020. Af hálfu eignarnema hefur því verið haldið fram að mikilvægt sé að ekki verði tafir á fergingum því þær verði látnar standa og vinna upp langtímasig á jarðvegi í vegstæðinu og séu grundvöllur þess að byggja upp vegina sem byggðir séu á blautu landi. Jafnframt að fergingar séu ein grunnforsenda þess að ljúka megi heildarverkinu á áætlun og að dráttur á því að eignarnemi fái umráð landspildna eignarnámsþola sé til þess fallinn að lengja verktíma, gera verkið óhagkvæmara og hækka kostnað. Af þeim upplýsingum um verkið, um breikkun Hringvegar á Kjalarnesi, sem liggja fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, þ. á m. í framkvæmdaleyfi 1. september 2020 og útboðsgögnum vegna 1. áfanga frá því í júlí 2020, verður ráðið að hver skilgreindur áfangi verksins sé nauðsynlegur undanfari síðari verkþátta. Þetta fær nægilega stoð í upplýsingum um verksamning eignarnema við hlutaðeigandi verktaka, sem liggja fyrir í málinu, en af verkáætlun í verksamningnum verður ráðið að sérhver áfangi verksins sé í bundinni línu við eftirfarandi áfanga þess. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að eignarnemi sjálfur hefur hraðað málsmeðferð sinni eftir föngum allt frá því eignarnámsþola var gert viðvart um framkvæmdir í gegnum landspildur hans 24. apríl 2019 og þar til ákvörðun um eignarnáms lá fyrir 10. febrúar 2021. Matsnefnd fór á vettvang 26. febrúar 2021 ásamt lögmönnum aðila og fyrirsvarsmanni eignarnámsþola. Af þeirri athugun verður ráðið að búið sé að fergja land undir ný vegstæði í námunda við spildur eignarnámsþola. Það er álit matsnefndar að röksemdir eignarnema standi til þess að honum sé tímans vegna nauðsyn á að fá fljótt umráð hins eignarnumda lands, það er til þess að hægt sé að ljúka 1. áfanga framkvæmda við breikkun Hringvegar og hefja því næst vinnu við 2. áfanga verksins sem standi fram á haust, svo og til að halda verkáætlun í heildarverkinu. Það er einnig álit matsnefndar að eignarnema yrði við þessar aðstæður verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Standa því lagaskilyrði til þess að heimila eignarnema umráðatöku á landspildum eignarnámsþola samkvæmt undantekningarákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eignarnámsþoli hefur haft uppi kröfu um að málskostnaður verði ákveðinn í þessum þætti málsins en ekki lagt fram upplýsingar um þann kostnað sem hann hefur haft af rekstri málsins vegna þessa þáttar. Í fyrsta málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að kostnað af starfi matsnefndar skuli greiða úr ríkissjóði en matsnefnd ákveði hverju sinni í úrskurði sínum, þegar ríkið er ekki eignarnemi, hverja greiðslu eignarnemi skuli inna af hendi til ríkissjóðs vegna slíks kostnaðar. Í lokamálslið sömu greinar segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hafi haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu laga skal matsnefnd kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola og skal þar meðal annars tiltaka sérstaklega hvern matskostnað eignarnemi eigi að greiða, sbr. 11. gr. laganna. Bíður því ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþola og kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni úrskurðar nefndarinnar um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnema, Vegagerðinni, er heimiluð umráðataka í landi Móa, landnúmer 125724, í eigu eignarnámsþola, Brimgarða ehf., á 1.573 fermetra spildu undir hliðarveg á Kjalarnesi til móts við Hringveg og á milli vegstöðva 19520 og 19630, miðað við 30 metra breitt vegsvæði, það er 15 metra frá miðlínu vegar til hvorrar handar, í þágu framkvæmdar um lagningu Hringvegar og hliðarvegar á Kjalarnesi vegna breikkunar Hringvegarins.

Eignarnema er heimiluð umráðataka í landi Esjubergs, landnúmer 125668, í eigu eignarnámsþola, á 35.049 fermetra spildu undir  undir Hringveg á Kjalarnesi milli vegstöðva 19120 og 19980, miðað við 60 metra breitt vegsvæði, það er 30 metra frá miðlínu til hvorrar handar, í þágu sömu framkvæmdar.

 

Valgerður Sólnes

 

            Gústaf Vífilsson                                                         Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta