Mál nr. 471/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 471/2021
Mánudaginn 13. desember 2021
A
gegn
Barnavernd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. 5. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, dags. 3. september 2021, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, C.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn C er sonur kæranda. Í greinargerð Barnaverndar B um könnun málsins, dags. 3. september 2021, kemur fram að frá árinu 2016 hafi borist alls 26 tilkynningar er vörðuðu meðal annars ágreining foreldra, áhyggjur af aðstæðum drengsins í umsjá beggja foreldra þar sem foreldrar ásaka hvort annað um óviðunandi aðstæður hvort á sínu heimili. Málið hefur í þrígang verið til könnunar hjá Barnavernd B.
Í ákvörðun Barnaverndar B um lokun málsins, dags. 3. september 2021, kemur fram að starfsmenn telji að málið sé þess eðlis að vegna mikillar og langvarandi deilu foreldra hafi það í gegnum tíðina haft slæm áhrif á líðan og stöðu drengsins. Foreldrar hafi verið hvattir til að láta ágreining sinn til hliðar og einblína á velferð sonar síns og hafa fengið ýmsar ráðleggingar vegna þessa.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmál, dags. 5. september 2021. Viðbót við kæru barst með tölvupósti, dags. 13. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. september 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni með bréfi þann 28. september 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. september 2021, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust þann 11. október 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2021, voru athugasemdir kæranda sendar Barnavernd B til kynningar. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 1. nóvember 2021 og 15. nóvember 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda voru sendar Barnavernd B til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er rakinn aðdragandi málsins, ágreiningi kæranda og barnsmóður lýst og aðstæðum drengsins. Kærandi kveðst hafa óskað eftir inngripi Barnaverndar B í málefni drengsins í hartnær fjögur ár þar sem drengurinn hafi í langan tíma þurft að búa við vanrækslu og bæði líkamlegt og andlegt ofbeldi af hendi móður. Drengurinn hafi ekki notið stuðnings Barnaverndar B af neinu tagi, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið eftir því leitað af kæranda.
Kærandi greinir frá því að foreldrar hafi skilið eftir tíu ára hjónaband og fari nú saman með forsjá drengsins. Fram kemur í kæru að kærandi telji að barnsmóðir sé óhæft foreldri. Kærandi bendir á að fyrir liggi matsgerð sem sýni fram á ýmsa alvarlega bresti móður. Kærandi bendir hins vegar á að hann hafi sinnt þörfum drengsins og leitað eftir stuðningi fyrir hann. Hann sé hæfara foreldri og drengurinn sé tengdari honum. Þá bendir hann á að drengurinn hafi leitað mikið til sín sökum aðstæðna á heimili móður.
Kærandi vísar til eftirfarandi gagna málsins:
• 8. apríl 2019, meðferðarfundur.
• 5. júní 2019, lokabréf eftir könnun.
• 1. október 2019, lokabréf.
• 8. desember 2020, lokabréf eftir könnun.
• 5. febrúar 2021, lokabréf.
• 11. maí 2021, lokabréf.
• Upplýsingar frá D.
• Tugir tilkynninga sem bárust símleiðis til Barnaverndar B.
• Tvær tilkynningar frá E heimilislækni og tvær frá F.
• Ótal viðtöl hjá þremur félagsmálafulltrúum í G.
• Tilkynning frá H, sálfræðingi Þjónustumiðstöðvar I.
• Tilkynning frá Í, sálfræðingi Heilsugæslunni G
• Greinargerð frá J, námsráðgjafa F.
Út úr öllu þessu ofangreindu hafi ekkert komið. Öllu þessu aðgerðarleysi og stuðningsleysi af hendi Barnaverndar B sé harðlega mótmælt og þá sérstaklega öllum þessum lokunarbréfum á málum hans. Kærandi bendir á að ítrekað hafi verið leitað eftir því að drengnum væri skipaður talsmaður en aldrei hafi verið talin þörf á því. Drengurinn sé viðkvæmur og í skelfilegum aðstæðum og þurfi allan mögulegan stuðning sem barnavernd geti og beri að veita honum. Öllum þessum vinnubrögðum sé áfrýjað og kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Kærandi bendir á að drengurinn hafi ekki fengið viðeigandi stuðning yfirvalda og sé ástand hans slæmt núna, til dæmis finni hans sig ekki í nýjum skóla, tengist þar illa og saknar alltaf gamla skólans. Þá bendir kærandi á að óskir drengsins stangist allar á við málatilbúning, ósannsögli og ærumeiðingar barnsmóður. Í vitnisburði sínum til Barnaverndar B hafi hann sagt að faðir sinn reiddist aldrei, væri góður við sig og skammaði sig ekki. Í vitnisburði sínum hvað móður hans varði segi hann að hún geti stundum verið reið. Í upplýsingum frá skóla hafi drengurinn sagt að móðir sín væri vond, hafi slegið hann oftar en einu sinni og honum líði ekki vel á heimili móður.
Í dag sé staða drengsins mjög slæm félagslega og ekki síst námslega. Ósk hans og einlægur vilji er samt mjög skýr og hefur alltaf verið, en það er að vera meira hjá föður sínum en móður. Kærandi telur að móðir eigi við andlega erfiðleika að stríða. Hún beiti drenginn andlegu ofbeldi og sé það margsannað, til dæmis með SMS sendingum frá drengnum til föður síns þar sem hann greinir frá því. Kærandi bendir á að drengurinn hafi upplýst kennara um hvernig móðir hafi komið fram við sig. Þá telur kærandi að móðir beiti drenginn líkamlegu ofbeldi.
Kærandi bendir á að hann hafi pantað tíma fyrir drenginn hjá sálfræðingi en eftir margra mánaða bið hafi móðir afpantað tímann. Að mati kæranda hafi móðir með því verið beinlínis að vinna gegn hagsmunum drengsins. Þá telji kærandi að móðir sinni ekki heimanámi eða lestrarátaki drengsins. Þá fái drengurinn ekki nesti með sér í skóla og stundum ekki morgunmat. Auk þess sem kærandi telji að móðir sinni ekki hreinlæti drengsins. Þá segir kærandi að drengurinn hafi sent vinum sínum skrítin SMS skilaboð þar sem hann segist stressaður og þunglyndur. Hann sýni einnig af sér mjög neikvæða hegðun og sé hættur að mæta í skólann þegar hann sé hjá móður sinni.
Kærandi telur skýrt að foreldrum með forsjá barns beri að annast barn sitt, sýna því umhyggju og virðingu, vernda barnið gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Kærandi bendir á að drengurinn sé X ára og vilji hans sé skýr, hann vilji vera meira hjá föður en móður.
Kærandi kveðst hafa farið fram á það við sýslumannsembættið að lögheimili verði fært yfir til hans, meðlög og barnabætur færist yfir til hans, forsjá verði áfram sameiginleg en umgengni verði breytt.
Kærandi mótmæli harðlega öllum fullyrðingum móður um ofbeldi af neinu tagi, af hans hálfu, sem lygum og ærumeiðingum af verstu sort sem hafi verið kærðar til lögreglu á sínum tíma. Kærandi telur að móðirin hafi farið þá leið til að ná betri stöðu við skilnað þeirra. Kærandi kveðst ekki hafa sögu um ofbeldi. Kærandi bendir á að umsjónarkennari drengsins hafi áhyggjur af ástandi hans og finni mun á því eftir því hvort hann sé hjá föður eða móður. Einnig taki samnemendur drengsins eftir vanlíðan hans hjá móður.
Kærandi rekur í kæru erfiðar aðstæður drengsins á heimili móður og bendir á alvarleika málsins. Drengurinn hafi verið metinn í sjálfsvígshættu í viðtali við sálfræðing, sbr. bréf sálfræðings þess efnis, dags. 18. maí 2021, sem tilkynning til Barnaverndar B. Á sama tíma hafi skólastjóri F sent tilkynningu til barnaverndar, dagsett 1. júní 2021, þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af líðan drengsins og svo ekki síst vitnisburði drengsins sjálfs sem staðfesti allt sem þegar hafi komið fram.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Barnaverndar B um að loka málinu verði felld úr gildi og málið endurupptekið.
III. Sjónarmið Barnaverndar B
Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að málið varði drenginn C, sem sé tæplega X ára gamall, og lúti sameiginlegri forsjá foreldra sinna. Mál drengsins hafi í fjórgang verið kannað á grundvelli barnaverndarlaga en frá árinu 2016 hafa alls 28 tilkynningar og bakvaktarskýrslur borist í máli drengsins, þar á meðal tvær tilkynningar eftir að máli drengsins var lokað með þeirri ákvörðun sem hér um ræðir. Tilkynningar varði ágreining foreldra, áhyggjur af aðstæðum drengsins í umsjá beggja foreldra þar sem foreldrar, sem séu í forsjárdeilu, ásaki hvort annað um óviðunandi aðstæður á heimili hins foreldrisins. Í síðustu könnun málsins hafi verið rætt við drenginn og báða foreldra ásamt því að fá upplýsingar frá skóla og þá hafi málið verið tekið fyrir á samráðsfundi Heilsugæslunnar í I.
Gögn málsins bera með sér að líðan og staða drengsins hafi ekki verið nægilega góð vegna mjög erfiðra samskipta á milli foreldra hans. Faðir hafi rætt um að móðir beiti drenginn líkamlegu og andlegu ofbeldi. Í viðtali við drenginn í júní 2021 opnaði hann á það að móðir sín öskraði oft á sig á morgnana. Hann greindi ekki frá líkamlegu ofbeldi en sagði að þegar hann var yngri hefði móðir átt það til að slá í sig en það væri ekki raunin í dag. Sálfræðingur á heilsugæslu ræddi við drenginn að beiðni föður og greindi drengurinn ekki frá vanlíðan á heimili móður sinnar. Í samtali við foreldra í byrjun september 2021 greindu þau bæði frá því að líðan drengsins væri betri. Drengurinn væri kominn á lyf vegna ADHD og sagðist móðir sjá mikinn mun á líðan hans og hegðun. Drengurinn færi eftir reglum og þeim ramma sem hún setti, eitthvað sem hafi verið áhyggjuefni áður. Faðir greindi frá því að staðan væri betri en það væri vegna lyfjanna. Faðir taldi þó stöðu drengsins á heimili móður enn áhyggjuefni. Þá hafi verið rætt við skóla drengsins og ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir vegna stöðu og líðan drengsins á skólaárinu. Umhirða og aðbúnaður sé góður, mætingar hafi verið stopular fyrstu dagana en það væri komið í betri farveg. Niðurstaða könnunar starfsmanna hafi því verið sú að ekki væri tilefni til afskipta á grundvelli barnaverndarlaga. Var foreldrum sent bréf um lokun máls þann 3. september 2021 þar sem meðal annars var bent á að ákvörðun um að loka málinu á þessu stigi væri kæranleg til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 23. gr. bvl.
Frá því að málinu hafi verið lokað hafa tvær tilkynningar borist, þann 9. september 2021 frá þjónustumiðstöð eftir viðtal við föður og þann 13. september 2021 af hálfu föður. Á úthlutunarfundi þann 13. september 2021 hafi verið tekin ákvörðun um að loka málinu í kjölfar fyrrnefndra tilkynninga, þ.e. hefja ekki könnun.
Barnaverndarmál séu undantekningalítið viðkvæm mál sem fjalla um mikilvæga hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra. Í 1. mgr. 2. gr. bvl. sé sett fram það meginmarkmið barnaverndarstarfs að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þá segir þar jafnframt að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Samkvæmt þeim meginreglum barnaverndarstarfs sem settar eru fram í 4. gr. bvl. skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og hafa ávallt hagsmuni barna í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. og ákvæði 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í 4. mgr. 4. gr. bvl. kemur fram að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra. Eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir samvinnu á milli barnaverndaryfirvalda og foreldra að hún þjóni fyrst og fremst hagsmunum barnsins. Í 7. mgr. sama ákvæðis kemur fram að úrræði barnaverndarnefnda skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því skuli aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í samræmi við markmið laganna séu barnaverndaryfirvöldum fengnar ýmsar heimildir til að hafa afskipti af málum barna og högum þegar hagsmunir barna krefjast þess. Meðal annars sé kveðið á um að sé það niðurstaða eftir könnun að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögunum skuli barnaverndarnefnd gera skriflega áætlun um meðferð máls í samvinnu við foreldra samkvæmt 23. gr. bvl. um frekari meðferð máls, sbr. og 24. gr. sömu laga. Náist ekki samkomulag við foreldra sé gert ráð fyrir því í 4. mgr. 23. gr. bvl. að barnaverndarnefnd semji einhliða áætlun um framvindu máls og beitingu úrræða og skuli áætlunin kynnt foreldrum þar sem kveðið sé á um tillögur að beitingu tiltekinna þvingunarúrræða sem nauðsynlegt þyki að grípa til.
Í máli þessu hafi það verið mat starfsmanna barnaverndar, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, að málið væri þess eðlis að miklar og langvarandi deilur foreldra hafi í gegnum tíðina haft slæm áhrif á drenginn. Hafi foreldrar verið hvattir til að láta af ágreiningi sínum og fengið ýmsar ráðleggingar þar um. Þá hafi móðir verið hvött til að fá aðstoð vegna stöðu drengsins og rætt hafi verið um PMTO meðferð í því sambandi. Vegna betri stöðu drengsins frá sumarmánuðum hafi móðir ekki séð ástæðu til að fá stuðning að svo stöddu. Það hafi því verið niðurstaða starfsmanna Barnaverndar B í kjölfar könnunar málsins að ekki væri þörf á að mál drengsins yrði unnið frekar á grundvelli barnaverndarlaga og málinu yrði lokað.
Barnavernd B gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
VI. Niðurstaða
Drengurinn C er X ára gamall sonur kæranda. Mál drengsins hefur í fjórgang verið kannað á grundvelli bvl. frá árinu 2016. Alls hafa borist 30 tilkynningar og bakvaktarskýrslur í máli drengsins. Tilkynningar varða ágreining foreldra sem séu í forsjárdeilu og áhyggjur þeirra af aðstæðum drengsins. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnavernd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl. Samkvæmt gögnum málsins hefur langvarandi ágreiningur verið á milli foreldra drengsins og hafa deilur þeirra meðal annars haft þær afleiðingar að drengurinn upplifir mikla vanlíðan og kvíða. Ákvörðun Barnaverndar B um að loka málinu virðist meðal annars byggja á því að staða drengsins hafi batnað á síðustu mánuðum og í ljósi þess hafi ekki verið ástæða til að vinna málið frekar á grundvelli barnaverndarlaga. Það virðist hins vegar ágreiningslaust að drengurinn hafi liðið verulega fyrir ágreining og deilur foreldra og sú staða hafi enn verið uppi við lokun máls.
Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengsins þar sem sterkar vísbendingar eru um að drengurinn sé þvert á móti enn í erfiðri stöðu. Úrskurðarnefndin telur því að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en tekin var ákvörðun í því og kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr. bvl., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Barnaverndar B. Málinu er vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Barnaverndar B, dags. 3. september 2021, um að loka máli vegna drengsins, C, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndar B.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson