Hoppa yfir valmynd

Mannanafnanefnd, úrskurðir 3. október 2002

Þann 3. október 2002, var fundur haldinn í Mannanafnanefnd. Fundinn sátu Andri Árnason, formaður, Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir.

Mál nr. 62/2002Eiginnafn: Unnbjörn (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Unnbjörn tekur eignarfallsendingu (Unnbjörns) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Unnbjörn er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 63/2002

Eiginnafn: Seimur (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Seimur tekur eignarfallsendingu (Seims) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Seimur er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá

 

 

Mál nr. 64/2002

Eiginnafn: Sævald (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Sævald telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls (nafn án nefnifallsendingar). Þá telst nafnið ekki hafa unnið sér hefð í íslensku.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Sævald hafnað.

 

Mál nr. 65/2002

Eiginnafn: Maddý (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Maddý tekur eignarfallsendingu (Maddýjar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Maddý er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 66/2002

Eiginnafn: Elírós (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Elírós tekur eignarfallsendingu (Elírósar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Elírós er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

 

Mál nr. 67/2002

Eiginnafn: Karon (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Karon er karlkynsorð (-nafn). Að mati nefndarinnar telst nafnið hafa unnið sér menningarhelgi sem karlkynsnafn. Fer það því gegn almennum nafnritunarreglum íslensks máls, að taka nafnið á mannanafnaskrá sem stúlkunafn, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sem kveður á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Karon er hafnað.

 

Mál nr. 68/2002

Eiginnafn: Elenora (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Nafnið Elenora telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og fullnægir því ekki 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Er beiðni um Elenora því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Elenora er hafnað.

 

Mál nr. 69/2002

Eiginnafn: Þórgrímur (kk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Þórgrímur tekur eignarfallsendingu (Þórgríms) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Þórgrímur er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 70/2002

Eiginnafn: Þúfa (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Þúfa tekur eignarfallsendingu (Þúfu) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Þúfa er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 71/2002

Breyting á rithætti: Aasa verður Ása

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Úrskurðarorð:

Beiðni um breytingu á rithætti eiginnafns úr Aasa í Ása er samþykkt.

Úrskurðarorð:

Beiðni um breytingu ritháttar úr Aasa í Ása er samþykkt.

 

 

 

 

 

---

Bókun mannanafnanefndar vegna erindis xxxxxxxxx.

 

Með úrskurði mannanafnanefndar nr. 15/2002 frá xxxxx var beiðni um breytingu á rithætti úr Sævar í Sævarr hafnað. Með bréfi þann xxxxxxx er óskað eftir endurupptöku málsins en því hafnaði nefndin sbr. mál nr. 30/2002. Með tölvupósti dags. xxxxxxxx óskar xxxxxx eftir rökstuðningi þess úrskurðar.

Meðal verkefna mannanafnanefndar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 22. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996, er:

"1. Að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem heimil teljast skv. 5. og 6. gr....

    1. ... og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum þessum."

Nefndinni er því með lögum falið það verkefni að meta það hvaða nöfn teljast uppfylla skilyrði laganna og skuli sett á mannanafnaskrá.

Í 1. ml. 1. mgr. 5. gr. laganna segir að eiginnafn skuli geta tekið eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Í 2. ml. er kveðið á um það að nafnið megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Í 3. ml. segir svo að nafnið skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Nefndin taldi að rithátturinn Sævarr uppfyllti ekki ofangreind skilyrði 1. mgr. 5. gr. laganna og var því hafnað að færa nafnið á mannanafnaskrá.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn segir:

"Í 1. málsl. er kveðið á um að þau nöfn sem ekki geta tekið íslenska eignarfallsendingu skuli hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þessi hluti málsliðarins er samhljóða hefðarákvæði í 1. málsl. 2. gr. gildandi laga en hefur allt annað gildissvið. Ákvæðið heimilar tökunöfn sem hafa unnið sér hefð jafnvel þótt vafi kunni að leika á um það hvort þau taka íslenska eignarfallsendingu. Nauðsynlegt er að um þetta efni séu settar sem skýrastar reglur svo að unnt sé að gæta jafnræðis borgaranna gagnvart lögunum við framkvæmd þeirra. Mannanafnanefnd hefur sett ákveðnar reglur um hvaða skilyrðum tökunöfn þurfi að fullnægja til þess að teljast hafa unnið sér hefð samkvæmt gildandi lögum. Þessar reglur hafa gefist vel og sýnist því fara best á að hafa þær sem næst óbreyttar, ekki síst þegar haft er í huga að þær fá nú miklu þrengra gildissvið en áður og eru nú fyrst og fremst til rýmkunar á því ákvæði að eiginnöfn skuli geta tekið eignarfallsendingu, sbr. framannefnt dæmi um Nikolai. Þau ákvæði reglnanna, sem eðlilegt er að áfram verði stuðst við, eru þessi:
1. Ung tökunöfn eru þau tökunöfn sem hafa komið inn í íslenskt mál eftir 1703. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð ef það fullnægir einhverju einu af eftirfarandi skilyrðum:
Það er nú borið af a.m.k. 20 Íslendingum.
Það er nú borið af 15--19 Íslendingum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri.
Það er nú borið af 10--14 Íslendingum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri.
Það er nú borið af 5--9 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 (eða fyrr).
Það er nú borið af 1--4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1845 (eða fyrr).
Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1845 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað.
2. Hefð ungs tökunafns telst rofin ef það kemur hvorki fyrir í manntalinu 1910 né síðar.
3. Gömul tökunöfn eru þau tökunöfn sem hafa komið inn í íslenskt mál 1703 eða fyrr. Hefð gamals tökunafns telst rofin ef það kemur hvorki fyrir í manntölunum 1845 og 1910 né síðar. Hefð tökunafna sem hafa unnið sér menningarhelgi rofnar þó ekki. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum íslenskum fornritum í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Þótt nauðsynlegt sé að áfram verði stuðst við skýrar reglur í þessu efni er ljóst að það mun nú heyra til undantekninga að á þær reyni. Reglurnar þarf auðsæilega að endurskoða á svo sem áratugar fresti.
Ákvæði 2. málsl. um að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi svarar til 2. málsl. 2. gr. gildandi laga og er efnislega óbreytt. Íslenskt málkerfi er samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þessu ákvæði er því einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Afbakanir eins og Guðmund og Þorstein (í nefnifalli) eru því óheimilar. Enn fremur kemur ákvæðið í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur, t.d. þríliðuð nöfn eins og Guðmundrún, Guðmundpáll og Ragnhildmundur. Ákvæðið hindrar einnig að teknir séu inn í íslenskt mál nafnstofnar af erlendum uppruna sem eru ósamrýmanlegir íslenskum hljóðskipunarreglum, sbr. fyrrnefnd dæmi um Tsjækovski og Jean. Hins vegar hindrar ákvæðið ekki notkun neinna nafna eða nafnmynda sem þegar hafa unnið sér hefð í íslensku, t.d. endingarlausra nafna eins og Erling og Svanberg.
Í 3. málsl. 1. mgr. er tekið fram að eiginnöfn skuli rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þeirra. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsingar menntamálaráðherra um íslenska stafsetningu nr. 132/1974 í Stjórnartíðindum B, ásamt auglýsingu um breytingu á þeirri auglýsingu, nr. 261/1977 í Stjórnartíðundum B. Ekkert samsvarandi ákvæði er í gildandi lögum. Nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um rithátt nafna því að ekki er unnt að líta svo á að ritvenjur falli undir ákvæði 2. málsl. um íslenskt málkerfi. Með ákvæðinu er komið í veg fyrir að hróflað sé við rithætti rótgróinna nafna en jafnframt veitt heimild fyrir ritmyndum sem hafa unnið sér hefð, t.d. Zóphonías, Walter og Esther. Enn fremur hefur þetta ákvæði þau áhrif að tökunöfn, sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli, eru óheimil nema ritháttur þeirra sé í samræmi við íslenskar ritvenjur. Ritmyndin Vilma er því heimil en Wilma ekki."

Nafnið Sævarr telst ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli skv. ofangreindum viðmiðunarreglum. Nöfnunum Hávarr, Heiðarr, Hnikarr og Ísarr hefur verið hafnað með sömu rökum. Önnur nöfn sem hafa endinguna rr (Óttarr, Steinarr og Ævarr )og mannanafnanefnd hefur samþykkt hafa hins vegar verið talin hefðuð í skilningi 1. ml. 1. mgr. 5. gr., sbr. viðmiðunarreglur nefndarinnar og því verið tekin á mannanafnaskrá.

Ákvæði 2. ml. 1. mgr. 5. gr. um að eiginnafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi felur í sér að það verður að vera í samræmi við íslenska hljóðþróun. Endingin rr telst ekki uppfylla það skilyrði að mati nefndarinnar.

xxxxxxxxx telur að það að sum eiginnöfn geti haft endinguna rr en ekki önnur brjóti í bága við "jafnræðisregluna". Í jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felst að sambærileg mál skuli leyst með sambærilegum hætti og eftir málefnalegum sjónarmiðum. Öll mál sem komið hafa til kasta nefndarinnar er úrskurðað um eftir ofangreindum viðmiðunarreglum sem finna má í greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn. Lögskýringargögn teljast vafalaust vera málefnaleg sjónarmið og er nefndinni heimilt að byggja á þeim í úrskurðum sínum. Telur nefndin því ekki að hún hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna í úrskurðum sínum um eiginnöfn sem hafa ofangreinda endingu. Sum þeirra hafa öðlast hefð eftir ofangreindum reglum en önnur ekki, þ.á m. Sævarr.

Eins og sjá má af athugasemdum í greinargerð um hvenær nafn telst hefðað eru rök xxxxxxx um að hann hafi notað ritháttinn Sævarr um árabil ekki tæk.

Með þeim rökstuðningi sem kemur fram í úrskurði nefndarinnar nr. 30/2002 og því sem fram kemur í bókun þessari, var beiðni xxxxxxxxxxxxxx um endurupptöku dags. xxxxxxxxxxxx hafnað.

Rétt þykir að benda xxxxxxxxxxxxx á það að úrskurðum mannanafnanefndar verður ekki skotið til æðra stjórnvalds skv. 2. mgr. 22. gr., en verður borin undir dómstóla.


Fleira ekki gert.

Fundi slitið.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta