Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 11/2004:

A

gegn

B

 

- - - - - - - - - - - - - -

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 31. október 2005 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 24. september 2004, óskaði C hrl., eftir því fyrir hönd kæranda, A, við kærunefnd jafnréttismála að nefndin tæki til meðferðar hvort launagreiðslur til hennar sem sérfræðings hjá B fæli í sér mismunun sem bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 (jafnréttislaga).

Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt B með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 11. október 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, var óskað eftirfarandi upplýsinga og gagna:

  1. Skilgreining starfstitilsins sérfræðingur.
  2. Fjöldi og kyn sérfræðinga hjá B.
  3. Skipurit B og starfslýsingar hvers sérfræðings fyrir sig. Þess var sérstaklega óskað að getið yrði ef gerðar væru sérstakar menntunarkröfur eða kröfur um sérstaka starfsreynslu í tengslum við einstök störf.
  4. Hvaða viðmið B hafi til hliðsjónar við ákvörðun launa sérfræðinga hjá B.
  5. Afrit auglýsinga um stöður sérfræðinga sem ráðnir hefðu verið til B.
  6. Upplýsingar um heildarlaunagreiðslur sérfræðinga hjá B þegar kærandi hóf þar störf og núgildandi kjör þeirra sem stöðunum gegna. Sérstaklega var óskað upplýsinga um öll hlunnindi sem sérfræðingarnir njóta, svo sem bílastyrki og þess háttar.
  7. Annað það sem B teldi til upplýsinga fyrir málið í heild.
  8. Afstaða fyrirtækisins til erindis kæranda.

Með bréfi D hrl., f.h. B, dags. 11. nóvember 2004, bárust svör við framangreindum fyrirspurnum auk gagna. Kæranda var kynnt umsögn B og meðfylgjandi gögn með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 16. nóvember 2004. Með öðru bréfi kærunefndar til B, dags. 16. nóvember 2004, var óskað eftirfarandi upplýsinga og gagna:

  1. Hvort starfskjör sérfræðinga B taki að einhverju leyti mið af kjarasamningum og þá hvaða kjarasamningum?
  2. Óskað var upplýsinga um launagreiðslur hvers sérfræðings hjá B fyrir sig og þá átt við laun, bílastyrki og öll önnur starfskjör. Slíkum gögnum þyrfti að fylgja ópersónugreinanleg samantekt sem unnt væri að senda gagnaðila til kynningar og andmæla.
  3. Hvaða viðmið B hafi við ákvörðun svonefndra markaðslauna sem kærandi muni hafa verið ráðinn á?

Kærunefndinni barst svar B með bréfi, dags. 6. desember 2004. Þar kom fram að upplýsingar um launagreiðslur hvers sérfræðings B séu trúnaðarmál milli B og viðkomandi starfsmanns sem B telji sér ekki fært að upplýsa kærunefndina um nema þörf krefji og þá sem trúnaðarmál. B lagði mikla áherslu á að trúnaður um hugsanlega upplýsingagjöf yrði hafður í heiðri og innti eftir túlkun kærunefndar á 4. mgr. 6. gr. jafnréttislaga um að fara skuli með launaupplýsingar sem trúnaðarmál. Bréf B var sent lögmanni kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 17. desember 2004, og honum gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri.

Svar kæranda er dagsett 10. janúar 2005. Þar eru meðal annars gerðar athugasemdir við þá staðreynd að B hefði ekki látið af hendi gögn um laun starfsmanna í samræmi við lagaskyldu skv. 6. gr. jafnréttislaga. Bréfið var sent B með bréfi kærunefndar, dags. 3. febrúar 2005. Hinn 23. febrúar 2005 sendi kærunefnd jafnréttismála B jafnframt svohljóðandi bréf:

„Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum í ofangreindu máli er það afstaða kærunefndar jafnréttismála að upplýsingar um launakjör sérfræðinga sem starfa hjá B kynnu að hafa þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000.

Er þess því krafist að umrædd gögn verði afhent kærunefnd jafnréttismála með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000.

Um meðferð trúnaðarupplýsinga sem lagðar hafa verið fyrir kærunefnd jafnréttismála á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 vísast til 6. gr. reglugerðar nr. 50/2003 þar sem fram kemur að ef slík gögn eru lögð fyrir kærunefndina verða þau ekki afhent öðrum en aðilum viðkomandi máls. Við afhendingu slíkra gagna skal jafnframt greina móttakanda skýrt frá því að gögnin skuli meðhöndluð sem trúnaðarmál.“

Svar við þessu bréfi barst með bréfi B, dags. 11. mars 2005, ásamt launaupplýsingum varðandi þann sérfræðing B sem sagður var næstur kæranda í launum. Þetta bréf ásamt meðfylgjandi gögnum öðrum en launaseðlum framangreinds starfsmanns var sent kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 31. mars 2005. Svar barst með bréfi, dags. 12. apríl 2005, og var það sent B með bréfi kærunefndar, dags. 18. apríl 2005. Svarbréf B er dagsett 6. maí 2005 og var það sent til umsagnar kæranda. Með bréfi, dags. 12. maí 2005, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar B til umsagnar.

Enn ritaði kærunefnd jafnréttismála B bréf, dags. 3. ágúst 2005, og óskaði frekari upplýsinga, meðal annars um launakjör þeirra starfsmanna B sem ráðnir voru til starfa á árabilinu 1999–2001, og höfðu ekki flust í störf hjá B frá forverum hans þegar honum var komið á laggirnar. Jafnframt var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um laun þess starfsmanns sem ráðinn var síðastur til starfa hjá B og óskað eftir forsendum launamunar væri honum til að dreifa. Í bréfinu var enn fremur óskað upplýsinga um framlag kæranda til rekstraráætlunar E-deildar og þess hvort aðrir sérfræðingar B hefðu með sambærilegum eða hliðstæðum hætti komið að gerð áætlana fyrir F-svið B.

Svar B, dags. 23. ágúst 2005, var sent kæranda til umsagnar. Bréf kæranda, dags. 31. ágúst 2005, var kynnt B með bréfi kærunefndarinnar, dags. 5. september 2005.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi réðst í júní 2002 til starfa hjá B sem sérfræðingur til að annast málefni E-deildar. Laun kæranda voru í byrjun ákveðin [G] krónur, auk bílastyrks að fjárhæð [H] krónur. Launakjörum hennar var að ósk kæranda fljótlega breytt þannig að laun hækkuðu um [I] krónur, en bílastyrkur lækkaði að sama skapi um sömu fjárhæð. Hafa laun kæranda síðan hækkað tvisvar umfram kjarasamninga, í mars 2003 sem mun hafa verið í kjölfar fastráðningar og svo í desember 2003 eftir að hún óskaði eftir leiðréttingu launa sinna vegna launamismunar milli hennar og karlkyns sérfræðinga B. Í desember 2005 voru laun hennar [J] krónur auk bílastyrks, að fjárhæð [K] krónur eða samtals [L] krónur.

Auk kæranda, sem er viðskiptafræðingur að mennt, starfa hjá B fimm aðrir sérfræðingar og eru þeir allir karlmenn, starfandi á F-sviði. F-svið B og E-deildar eru hliðsett svið í skipuriti B, en allir sérfræðingar B heyra undir framkvæmdastjóra B.

Kærandi telur sig hafa vissu fyrir því að töluverður munur sé á launum hennar og annarra sérfræðinga hjá B sem hafi jafnlanga háskólamenntun. Þennan launamun sé ekki hægt að skýra með öðru en kynferði.

Upplýst er að laun allra karlmannanna sem gegna störfum sérfræðings í starfi hjá B eru hærri en kæranda en fyrir því telur B vera málefnalegar forsendur.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að þótt hún hafi starfað skemur hjá B en aðrir sérfræðingar búi hún yfir hún 10 ára starfsreynslu úr banka og því sé launamunur milli sín og annarra of mikill til að vera skýrður með lengd starfsaldurs hjá B eða öðrum þáttum en kynferði. Þeir karlar sem ráðnir hafi verið á undan henni hafi í upphafi fengið mun hærri laun en hún hafi verið ráðin á og laun þeirra séu í dag enn hærri en laun hennar.

Kærandi hafi vegna þessa sjálf óskað eftir leiðréttingu launa og hafi henni verið boðin [I] króna leiðrétting í nóvember 2003 sem hún hafi þegið. Frekari kröfum kæranda um leiðréttingu hafi verið hafnað með vísan til þess að störf kæranda séu annars konar en störf annarra sérfræðinga B og laun og önnur kjör sérfræðinga B taki mið af starfi viðkomandi starfsmanns, ábyrgð, starfstíma hjá B og öðrum þeim atriðum sem máli skipti. B hafi hafnað því að kynferði hafi haft þar einhver áhrif.

Kærandi telur að hún hafi verið ráðin til starfa á sömu forsendum og aðrir sérfræðingar hjá B og vinni þar störf sem séu síst verðminni en störf annarra sérfræðinga. Kærandi sé í forsvari fyrir E-deild og eini sérfræðingur B á þessu sviði. Kærandi lýsir störfum sínum á eftirfarandi hátt:

„1. Umsjón með daglegri starfsemi E-deildar. Gerir nauðsynlegar áætlanir varðandi rekstur þessarar starfsemi.

2. Ráðgjöf og upplýsingaþjónusta um starfsreglur og afgreiðsluferil umsókna við aðila sem leita eftir þjónustu deildarinnar/B.

3. Fer yfir og metur verkefni sem berast og metur þau m.t.t. þátttöku E-deildar/B.

4. Úrvinnsla umsókna og álitsgerðir til framkvæmdastjóra. Gerir úttektir á fyrirtækjum sem óska eftir ábyrgð E-deildar eða þátttöku B í verkefnum, þ.m.t. tæknilegt mat og fjárhagsgreining.

5. Fylgist með framgangi verkefna sem honum er falið að bera ábyrgð á.

6. Stundar kerfisbundna leit að áhugaverðum verkefnum.

7. Heldur uppi tengslum við aðra starfsmenn B með það markmið í huga að tryggja arðsemi og bæta upplýsingastreymi.

8. Byggir upp tengsl við viðskiptavini og tekur þátt í kynningu á starfsemi B.“

Kærandi telur að vinnuálag á henni sé síst minna en á öðrum sérfræðingum B. Hún hafi verið ráðin sem sérfræðingur hjá B en ekki eingöngu sem starfsmaður í E-deild. Kærandi áréttar að hún hafi verið með 10 ára reynslu í banka er hún hafi hafið störf hjá B og hafi sá starfsaldur nýst ákaflega vel í störfum hennar hjá B.

Ekki sé rétt að launamunur milli kæranda og þess sérfræðings sem næstur komi í launum sé óverulegur, sé tekið tillit til bílastyrks. Bílastyrkur þess sérfræðings sé mun hærri en hennar og sé skýringin sú að hluti bílastyrks komi í stað launa. Við samanburðinn sé nauðsynlegt að skoða heildarlaunagreiðslur sérfræðinga B. Bílastyrkur hafi verið kynntur kæranda sem hluti af hennar kjörum og ekki vikið að því að hann ætti að endurspegla neitt annað.

Kærandi vinni alla þá vinnu sem ætlast sé til af henni og bæti við aukavinnu og helgarvinnu ef með þurfi. Hún fallist ekki á að einhver munur sé á hennar vinnu og annarra hvað þetta varði, þótt einstakir starfsmenn kunni að vinna meira á kvöldin og um helgar en aðrir.

Kærandi sé ósátt við launakjör sín í samanburði við launakjör annarra sérfræðinga hjá B en sé að öðru leyti ekki ósátt við þau fríðindi sem hún hafi í starfi og telji ekki á sér brotið hvað þau varði.

Kærandi kveðst að langmestu leyti vinna störf hjá B sem enginn annar kunni. Þau störf séu að minnsta kosti jafnverðmæt ef ekki verðmætari en þau störf sem aðrir sérfræðingar hjá B vinni og miklu hafi verið kostað til þjálfunar hennar í starfi. Starfið sé meðal annars fólgið í samskiptum við utanaðkomandi aðila, meðal annars því að halda kynningar úti í bæ, en ekki inni í fyrirtækjunum eins og aðrir starfsmenn gera. Hennar störf fari ekki bara fram á íslensku heldur vinni hún mikið á ensku sem sé ekki síður krefjandi. Mikið af starfi kæranda felist í ráðgjöf til fyrirtækja og banka sem hafi hug á að nýta sér þjónustu E-deildar. Slíka ráðgjöf geti engir aðrir samstarfsmenn hennar veitt. Starf kæranda og sú þekking sem hún búi yfir sé verðmætari fyrir B en sú þekking sem hinir sérfræðingarnir búi yfir; þeir fáist allir meira og minna við það sama og geti þannig auðveldlega leyst hvern annan af.

 

IV

Sjónarmið B

Af hálfu B er bent á að starf kæranda fyrir E-deild sé frábrugðið störfum annarra sérfræðinga B.

Utan kæranda séu alls fimm sérfræðingar hjá B. Tveir þeirra hafi flust yfir til B við stofnun hans árið 1998 frá forverum hans, M og N. Aðrir hafi verið ráðnir síðar, þ.e. á árunum 1999–2001. Kærandi hafi verið ráðin til B árið 2002. Sérfræðingar, aðrir en kærandi, vinni á F-sviði og sinni störfum á öðrum sviðum eða öðrum verkefnum eftir þörfum. Kærandi vinni hins vegar ein í E-deild.

Til séu starfslýsingar fyrir þá sérfræðinga B sem hafi hafið störf í byrjun árs 1998, en þær hafi ekki verið endurnýjaðar. Ekki hafi verið gengið formlega frá starfslýsingu fyrir þá sérfræðinga sem síðar hafi hafið störf, en í fyrrgreindri starfslýsingu komi fram eftirfarandi lýsing á starfi sérfræðinga á F-sviði:

  1. Ráðgjöf og upplýsingaþjónusta um starfsreglur og afgreiðsluferli umsókna við aðila sem leita eftir þjónustu B.
  2. Að fara yfir verkefni sem berast og meta þau m.t.t. þátttöku B.
  3. Úrvinnsla umsókna og álitsgerðir til framkvæmdastjóra. Gera úttektir á fyrirtækjum sem óska eftir þátttöku B í verkefnum, þ.m.t. tæknilegt mat og fjárhagsgreining.
  4. Fylgjast með framgangi verkefna sem sérfræðingi er falið að bera ábyrgð á.
  5. Stunda kerfisbundna leit að áhugaverðum verkefnum fyrir B.
  6. Halda uppi tengslum við aðra starfsmenn B með það markmið í huga að tryggja arðsemi og bæta upplýsingastreymi.
  7. Byggja upp tengsl við viðskiptavini og taka þátt í kynningu á starfsemi B.
  8. Taka þátt í þátttökunefnd B.

Þessi lýsing á starfinu eigi í meginatriðum enn við. Áherslur hafi þó færst frá því að veita upplýsingar og meta umsóknir, sem hafi verið tímafrekasti þátturinn í upphafi, yfir í að taka virkan þátt í stjórnum fyrirtækja. Sé það nú meginþátturinn í starfi allra sérfræðinga B, annarra en kæranda. Stjórnarseta í O-fyrirtækjum krefjist mikils af viðkomandi auk þeirrar lagalegu ábyrgðar sem slíkt starf hafi í för með sér. Starfið krefjist frumkvæðis, þolinmæði og skipulagshæfileika þar sem finna þurfi lausnir á erfiðum vandamálum. Í starfinu felist dagleg samskipti við forsvarsmenn viðkomandi fyrirtækis og mikil innlend og erlend samskipti. Sérfræðingar B séu í stjórn fjölda fyrirtækja, en misjafnt er í hve mörgum stjórnum hver einstakur sérfræðingur sitji enda störf varðandi hvert einstakt fyrirtæki misjafnlega umfangsmikil. Stjórnarsetan sé hluti starfa sérfræðinganna fyrir B og taki launaákvarðanir mið af því. Stjórnarlaun, ef um þau sé að ræða, renni til B og fá sérfræðingar ekki sérstakar greiðslur vegna stjórnarsetu sinnar í fyrirtækjum.

Frá því er greint af hálfu B að ekki hafi verið gengið frá formlegri starfslýsingu varðandi starf kæranda. Störf hennar séu í stórum dráttum eins og fram komi í lýsingu hennar sjálfrar með þeim athugasemdum að kærandi geri ekki rekstraráætlanir fyrir E-deild. Hún framkvæmi ekki tæknilegt mat á verkefnum deildarinnar, hún fylgist ekki með framgangi verkefna sem notið hafi ábyrgðar frá henni og taki ekki þátt í að kynna starfsemi B aðra en sem viðkomi E-deild.

Launakjör sérfræðinga B séu ákvörðuð með tilliti til eðlis og umfangs viðkomandi starfs, ábyrgðar, starfstíma hjá B, hæfni starfsmanns og árangurs í starfi. Markaðsaðstæður hverju sinni hafi einnig áhrif. Bílastyrkur taki mið af því hve mikið viðkomandi sérfræðingur þurfi að nota bifreið í starfi sínu. Önnur kjör en laun og bílastyrkur séu þau sömu að því er varði alla sérfræðinga B.

Viðurkennt er að bílastyrkur sé hluti af kjörum starfsmanna að því leyti sem hann sé umfram það sem nemi akstri viðkomandi starfsmanns í þágu B. Það sé mat framkvæmdastjóra og fjármálastjóra B að kærandi þurfi að nota bíl í þágu starfs síns minna en aðrir sérfræðingar B þurfi að gera vegna eðlis starfs hennar og erinda utan skrifstofu.

Launamunur milli kæranda og þess starfsmanns sem næstur kemur henni í launum sé óverulegur og helgist af eðli starfs viðkomandi sérfræðings auk þess sem sá starfsmaður hafi lengri starfsaldur hjá B og mikla starfsreynslu. Sú fullyrðing kæranda að töluverður launamunur sé á milli hennar og annarra sérfræðinga B sé því ekki á rökum reist. Ljóst hafi verið frá upphafi að kærandi skyldi annast málefni E-deildar þar sem hún var sérstaklega ráðin til þess starfs enda hafi reynsla hennar fallið að því starfi. Bakgrunnur hennar og reynsla sé önnur en B sækist eftir og telji fullnægjandi til að sinna störfum annarra sérfræðinga B.

Ekki sé rétt hjá kæranda að hún ein kunni það starf sem hún sinni. Vinnuálag hennar sé auk þess minna en annarra sérfræðinga B. Ekki sé ætlast til þess að hún sinni öðrum störfum en verkefnum fyrir E-deild og því sé ekki um það að ræða að hún vinni önnur störf hjá B þótt hún hafi komið lítillega að gerð ábyrgðarskjala hjá B. Starf kæranda sé mjög frábrugðið störfum annarra sérfræðinga B. Hún vinni ekki við áhættufjárfestingar eins og aðrir sérfræðingar B og sé ekki í eins nánum tengslum við þau fyrirtæki sem B fjárfesti í. Hennar helstu verkefni séu að kynna starfsemi E-deild, leiðbeina þeim sem sæki um ábyrgðir, fá gögn til að meta umsóknir, vera í sambandi við systurstofnun í Svíþjóð sem áhættumeti allar umsóknir, undirbúa mál fyrir stjórnarnefnd E-deildar og framfylgja ákvörðunum nefndarinnar.

Hlutverk sérfræðinga B sé að meta hvort fjárfesta skuli í einstökum fyrirtækjum meðal annars með tilliti til áhættu. Ef viðkomandi fjárfesting standist skoðun sérfræðings og hann sé reiðubúinn að mæla með henni sé málið flutt fyrir stjórn B. Ef fjárfestingin er samþykkt taki viðkomandi sérfræðingur B í flestum tilvikum sæti í stjórn fyrirtækisins og fylgi eftir fjárfestingunni eins og kostur er. Allir þeir sérfræðingar sem kærandi beri sig saman við eigi sæti í stjórnum fyrirtækja. Í starfi kæranda felist hvorki að meta fjárfestingarkosti né seta í stjórnum fyrirtækja.

Með vísan til þessa telur B að ekki sé um að ræða jafnverðmæt og sambærileg störf í skilningi jafnréttislaga. Bakgrunnur kæranda og reynsla sé einnig frábrugðin auk þess sem hún hafi stystan starfsaldur þeirra sérfræðinga sem starfi hjá B. B hafni því alfarið að kæranda hafi verið mismunað í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis, sbr. 23. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla.

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Af ákvæðinu má ráða að störf þau sem um ræðir þurfa að teljast vera jafnverðmæt og sambærileg. Að fenginni niðurstöðu um að störfin séu það, ber atvinnurekandi sönnunarbyrðina fyrir því að málefnalegar forsendur, en ekki kynferði, séu fyrir launamun ef honum er til að dreifa.

Í máli þessu er um það deilt hvort störf kæranda sem sérfræðings hjá B hafi verið jafnverðmæt og sambærileg störfum annarra sérfræðinga sem starfi hjá B. Deila málsaðilar jafnframt um inntak starfs kæranda, hvað í því felist sem og mikilvægi einstakra þátta í starfinu. Þá er jafnframt ágreiningur um það hvers eðlis sá munur sé sem er á launum kæranda og annarra sérfræðinga B. B hefur látið kærunefnd jafnréttismála í té gögn um launakjör eins þeirra fimm karlkyns sérfræðinga sem starfa hjá B og staðhæft að sá komi næstur henni í launum, en af því má ráða að meiri munur sé á launum kæranda og annarra sérfræðinga B. Verður sú ályktun lögð til grundvallar við úrlausn þessa máls af hálfu kærunefndar jafnréttismála. Munur á launum þessa starfsmanns og kæranda eru nú 3,3% ef einungis er horft til launa en 9,4% ef tekið er tillit til hærri bílastyrks þess starfsmanns. Frekari gögn um launakjör annarra sérfræðinga B hafa ekki verið látin í té þrátt fyrir beiðni kærunefndarinnar og hefur B borið fyrir sig launaleynd og trúnað við aðra sérfræðinga sem þar starfi.

Af ofangreindu leiðir að sú staðreynd liggur fyrir að á kæranda hallar í launakjörum séu þau borin saman við kjör annarra sérfræðinga B. Breytir í því sambandi engu hvort horft er til launa einvörðungu eða bílastyrkur sé talinn til tekna, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi byggir á því að henni hafi verið mismunað í launum í starfi sínum allt frá því að hún hóf störf hjá B árið 2002. Á því er byggt af hálfu kæranda að karlkyns sérfræðingar sem gegnt hafi jafnverðmætu og sambærilegu starfi og hún hafi notið umtalsvert hærri launa, án þess að slíkt væri skýrt með öðru en kynferði hennar.

Af hálfu B hefur sjónarmiðum kæranda verið andmælt og á því byggt að umrædd störf séu ekki sambærileg og jafnverðmæt, meðal annars með tilliti til vinnufyrirkomulags og vinnuskyldu karlkyns sérfræðinga B, þeirrar ábyrgðar sem þeir bera á grundvelli stjórnarsetu í fyrirtækjum sem njóta styrks og stuðnings frá B og þess frumkvæðis, þolinmæði og skipulagshæfileika sem umræddir sérfræðingar þurfa að hafa til brunns að bera til þess að gegna því starfi sem þeir sinni hjá B. Rök B lúta einnig að því að rétt sé og óhjákvæmilegt að greiða starfsfólki laun í samræmi við frammistöðu þess og hæfni. Kynferði hafi þannig ekki haft áhrif á ákvörðun launa heldur sé byggt á reynslu, frumkvæði, framkomu og frammistöðu í starfi.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að launamunur milli karla og kvenna sem sinna sambærilegum og jafn verðmætum störfum verði að byggjast á fyrirfram skilgreindum og gagnsæjum viðmiðunum. Slíkir mælikvarðar mega ekki vera til þess fallnir að mismuna kynjum. Forsenda þess að tilgangi jafnréttislaga verði náð er að launa- og starfsmannastefna fyrirtækja sé skýr, gagnsæ og þekkt meðal starfsmanna. Einungis þannig er hægt að tryggja að konur og karlar njóti í reynd sömu kjara fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf og hafi sömu möguleika á vinnustað.

Fyrir liggur að bæði kærandi og aðrir sérfræðingar B fengu greidd hærri laun en gildandi kjarasamningar og því koma þeir ekki til sérstakrar skoðunar í máli þessu. Af þeim upplýsingum sem fram hafa komið af hálfu B verður sú ályktun dregin að hjá stofnuninni sé ekki rekin launastefna sem byggist á fyrirfram mótuðum og gagnsæjum mælikvörðum. Hjá B ríkir launaleynd. Slík leynd leysir atvinnurekanda ekki undan þeirri skyldu að ákvarða laun starfsmanna sinna í samræmi við ákvæði laga nr. 96/2000, einkum 13. gr. laganna. Því hefur verið haldið fram af hálfu B að laun séu ákvörðuð eftir eðli og umfangi viðkomandi starfs, ábyrgðar, starfstíma hjá B, hæfni starfsmanns og árangurs í starfi. Við ráðningu sérfræðinga hafi jafnframt verið miðað við markaðslaun hverju sinni. Afar takmörkuð grein hefur verið gerð fyrir því hvernig þessi atriði hafa haft áhrif á kjör annarra sérfræðinga B en kæranda. Þá hefur lítt verið upplýst um hlutlæga mælikvarða sem mat í þessa veru styðjist við.

Reynir því á hvort störf kæranda og annarra sérfræðinga hjá B séu sambærileg og jafnverðmæt í skilningi 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000.

Við mat á því hvort störf eru jafnverðmæt og sambærileg hefur verið litið til þess hvort þau séu sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði, og því hvort störfunum hafi verið ætlað nokkuð jafnræði í ytri ásýnd. Byggt hefur verið á heildstæðu mati og getur verið um slík störf að ræða, þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf nást ekki, ef launajöfnuðurinn á einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar og hefur löggjafinn með setningu jafnréttislaga sett því samningsfrelsi nokkrar skorður að þessu leyti.

Um B gilda lög nr. [S] [XXX].

Störf allra sérfræðinga B heyra undir stjórn hans samkvæmt skipuriti stofnunarinnar. Staða kæranda er í skipuriti undir „annarri starfsemi“ en stöður fimm karlkyns sérfræðinga heyra undir „F-svið“ og eru störf kæranda og annarra sérfræðinga B hliðsett í skipuritinu.

Í auglýsingu um starf kæranda var óskað eftir sérfræðingi til að annast málefni E-deildar sem sæi um daglegan rekstur deildarinnar, annaðist móttöku og greiningu umsókna um ábyrgðir sem og undirbúning mála fyrir stjórnarnefnd deildarinnar, samningagerð við innlenda og erlenda aðila og kynningu á starfsemi deildarinnar út á við. Gerð var krafa um viðskipta-, hagfræði- eða rekstrarverkfræðimenntun, þekkingu eða reynslu sem nýttist í starfinu, sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð, góða framkomu, hæfni í mannlegum samskiptum sem og góða enskukunnáttu.

Af hálfu B er upplýst að við stofnun hans þann 1. janúar 1998 hafi tveir sérfræðingar flust frá þeim T, M og N sem lagðir voru niður á sama tíma og hafi þeir við flutninginn haldið þeim launakjörum sem þeir nutu í þeim störfum sínum. Aðrir karlkyns sérfræðingar sem starfi hjá B hafi verið ráðnir án auglýsingar á grundvelli þeirrar þekkingar og reynslu sem þeir hafi búið yfir, utan eins karlkyns sérfræðings sem ráðinn hafi verið til starfa árið 1999 að undangenginni auglýsingu um starfið. Þar hafi staða verkefnastjóra verið auglýst og tekið fram að starfið fælist einkum í skoðun, úrvinnslu og mati á viðskiptaáætlunum og öðrum innsendum gögnum sem vörðuðu fjárfestingarverkefni. Þá gæti einnig komið til greina stjórnarseta í fyrirtækjum sem fjárfest væri í. Í auglýsingunni var tekið fram að æskilegt væri að umsækjendur byggju yfir þekkingu og reynslu í stjórnun og rekstri fyrirtækja ásamt menntun á tækni- og viðskiptasviði.

Ekki hefur verið framkvæmt formlegt starfsmat á störfum sérfræðinga B. Í ráðningarsamningi kæranda, dags. 1. febrúar 2002, kemur fram að hún var ráðin til starfa sem sérfræðingur til B, en um nánari atriði starfsins var vísað til starfslýsingar. Starfslýsing hefur verið lögð fram í málinu, en deila stendur milli aðila um það hvort sú starfslýsing hafi hlotið samþykki stjórnar B. Hefur B mótmælt því að í starfi kæranda hafi falist allir þeir þættir sem fram komi í starfslýsingunni. Þá liggja einungis fyrir starfslýsingar þeirra tveggja karlkyns starfsmanna B sem hófu störf við stofnun hans þann 1. janúar 1998, en því er haldið fram af hálfu B að þær starfslýsingar hafi ekki verið endurnýjaðar frá þeim tíma. Óumdeilt virðist þó að störfum sérfræðinga hafi ekki fylgt mannahald og að þeir hafi notið nokkurs sjálfstæðis í starfi.

Af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram að í starfi hennar hafi falist eftirfarandi þættir, og hefur því ekki verið andmælt af hálfu B:

  1. Ráðgjöf og upplýsingaþjónusta um starfsreglur og afgreiðsluferli umsókna við aðila sem leita eftir þjónustu deildarinnar/B.
  2. Yfirferð og mat verkefna sem berast og mat þeirra m.t.t. þátttöku E-deildar/B.
  3. Úrvinnsla umsókna og álitsgerðir til framkvæmdastjóra. Úttekt á fyrirtækjum sem óska eftir ábyrgð E-deildarinnar eða þátttöku B í verkefnum, þ.m.t. tæknilegt mat og fjárhagsgreining.
  4. Kerfisbundin leit að áhugaverðum verkefnum.
  5. Viðhald tengsla við aðra starfsmenn B með það markmið í huga að tryggja arðsemi og bæta upplýsingastreymi.

Til viðbótar við framangreinda þætti, hefur kærandi, gegn mótmælum B, haldið því fram að í starfi hennar hafi jafnframt falist eftirtaldir þættir:

  1. Umsjón með daglegri starfsemi E-deildar og gerð nauðsynlegra áætlana um rekstur þessarar starfsemi.
  2. Eftirfylgni með framgangi verkefna sem henni var falið að bera ábyrgð á.
  3. Uppbygging tengsla við viðskiptavini og þátttaka í kynningu á starfsemi B.
  4. Umsjón með ábyrgðum vegna viðskiptasamninga sem í boði voru hjá B (ábyrgð stofnsjóðs), sem nú hefur verið hætt.

 Af hálfu B er því haldið fram að í starfi annarra sérfræðinga B hafi falist eftirfarandi þættir:

  1. Ráðgjöf og upplýsingaþjónusta um starfsreglur og afgreiðsluferli umsókna við aðila sem leita eftir þjónustu B.
  2. Yfirferð verkefna sem berast og mat þeirra m.t.t. þátttöku B.
  3. Úrvinnsla umsókna og álitsgerðir til framkvæmdastjóra. Úttektir á fyrirtækjum sem óska eftir þátttöku B í verkefnum, þ.m.t. tæknilegt mat og fjárhagsgreining.
  4. Eftirlit með framgangi verkefna sem þeim er falið að bera ábyrgð á.
  5. Kerfisbundin leit að áhugaverðum verkefnum fyrir B.
  6. Viðhald tengsla við aðra starfsmenn B með það markmið í huga að tryggja arðsemi og bæta upplýsingastreymi.
  7. Uppbygging tengsla við viðskiptavini og þátttaka í kynningu á starfsemi B.
  8. Gerð ábyrgða vegna viðskiptasamninga.
  9. Taka þátt í þátttökunefnd B.
  10. Virk þátttaka í stjórnun fyrirtækja.

Er því haldið fram af hálfu B að meginþáttur í starfi karlkyns sérfræðinga hafi verið síðasttaldi þátturinn, þ.e. virk þátttaka í stjórnun þeirra fyrirtækja sem B hefur ákveðið að styðja við. Þessari lýsingu á inntaki starfa annarra sérfræðinga hefur ekki verið andmælt af hálfu kæranda. Í málinu liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um stjórnarsetu karlkyns sérfræðinga B í þeim fyrirtækjum sem um ræðir. Jafnframt liggur fyrir að kærandi hefur ekki setið í stjórnum fyrirtækja eða fengist við þessi fjárfestingaverkefni B enda er þeirra ekki getið í starfslýsingu kæranda. Á því hefur verið byggt af hálfu B að þessi þáttur sé veigamikill og ríkur í starfi karlkyns sérfræðinga B á F-sviði og valdi því að störfin geti ekki talist sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði, enda fylgi stjórnarsetu mjög rík ábyrgð.

Jafnframt hafa aðilar málsins deilt um hvert hafi verið vinnuframlag kæranda í störfum hennar auk þess sem mikilvægi starfs hennar hefur verið umþrætt, til dæmis að hve miklu leyti hún hafi samið fjárhagsáætlanir fyrir E-deild.

Að mati kærunefndar jafnréttismála sýnist við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu að það standi B nær að leiða að því hlutlæg rök að starf kæranda sé ekki sambærilegt og jafnverðmætt og starf karlkyns sérfræðinga B. Ræður þar mestu að ekki virðist vera til að dreifa skriflegum ráðningarsamningum eða gjaldgengum starfslýsingum þar sem störf sérfræðinga B í hvorri deild B fyrir sig, sem hér eru til umfjöllunar, eru skilgreind. Séu lýsingar málsaðila gaumgæfðar í þessu ljósi sýnast störf allra sérfræðinga B vera næsta svipuð að inntaki og ábyrgð þannig að þau teljist um flest vera sambærileg og jafnverðmæt.

Á einn hlutlægan hátt skilur þó á milli að áliti kærunefndar jafnréttismála. Felst það í þátttöku annarra sérfræðinga B í stjórnum þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í af hálfu B, en upplýst er að slík seta í stjórnum sé ríkur þáttur í starfi annarra sérfræðinga en kæranda. Stjórnarsetu fylgir rík persónuleg ábyrgð og skuldbinding einkum ef horft er til hlutverks B, sbr. 2. gr. laga nr. [S]. Fram kemur í gögnum málsins að umtalsverður fjöldi þeirra fyrirtækja sem B hefur fjárfest í á liðnum árum hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Við framangreindar aðstæður getur þessi stjórnarseta haft í för með sér ábyrgð að lögum, bæði refsi- og bótaábyrgð. Óumdeilt er að sérfræðingar B fá enga sérstaka þóknun fyrir stjórnarsetu og laun sem stjórnarmönnum kunna að verða ákvörðuð í viðkomandi félagi renna óskipt til B en ekki viðkomandi starfsmanns. Það er álit kærunefndar jafnréttismála að framangreint leiði til þess að ekki verður talið að um jafnverðmæt og sambærileg störf sé að ræða í skilningi laga nr. 96/2000, enda er því ómótmælt að kærandi hafi ekki tekið þátt í eða setið í stjórnum þeirra fyrirtækja sem B hefur fjárfest í.

Með vísan til framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttismála að B hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ákvörðun launa til handa kæranda og annarra sérfræðinga B.

Tafsamt hefur reynst að láta í té álit af hálfu kærunefndar jafnréttismála í máli þessu sem einkum helgast af ágreiningi aðila um málavexti og tregðu B við að láta nefndinni í té umbeðin gögn en hvoru tveggja hefur tafið fyrir úrlausn málsins.

 

 

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta