Mál nr. 34/2005
Þriðjudaginn, 11. október 2005
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 7. september 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 1. september 2005.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 9. maí 2005 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Í því bréfi var kæranda jafnframt bent á kæruleið, það er ef ágreiningur risi vegna greiðslna þá væri hægt að kæra ákvörðun innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfsins.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal kæra berast úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dagsettu 9. maí 2005. Kæran barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 7. september 2005.
Í 4. mgr. 6. gr. ffl. er um málsmeðferð vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 28. gr. þeirra laga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“
Þar sem hvorki verður séð að sérstakar ástæður leiði til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi komið of seint fram, né að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin fyrir, kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að vísa skuli kærunni frá þar sem hún er of seint fram komin.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kæru A, er vísað frá þar sem hún er of seint fram komin.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson