Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 39/2005

Þriðjudaginn, 22. nóvember 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. október 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. október 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. júlí 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„B kom til landsins og byrjaði að vinna þann 15. apríl 2004, en þá var A í vinnu úti. Hann flutti síðan til Íslands 1. nóvember 2004 og hóf strax störf hér sem arkitekt. Á þessum tímamótum fannst þeim góður tími fyrir nýtt barn, hafandi í huga að þáverandi fæðingarorlofslög og reglur komu sér vel fyrir okkur, barninu var tryggður jafn réttur föður og móður, eitthvað sem ekki var til jafns í boði í D-landi.

Við útreikninga á fæðingarorlofi A eru tekjur hans fyrir nóvember og desember teknar, deilt með 4 og 80% tekið svo af því til að finna hans bætur. Fæðingarorlofslögum er síðan breytt-afturvirkt- þannig að dóttir okkar sem fæddist 4. ágúst stendur ekki til boða að vera í samvistum við föður sinn eins og lögin kveða á um. Því eins og félagsmálaráðherra sjálfur komst að orði „Þá getur enginn lifað af“ þeim fæðingarorlofsbótum sem A er ætlað. Í 2. gr. laga um fæðingar-og foreldraorlof segir; „Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður“. Við lítum svo á að þessi réttur sé tekinn af dóttur okkar, þar sem A sér ekki fært að taka fæðingarorlof útfrá þessum tekjuútreikningum (sjá meðfylgjandi gögn) .

(Árið 2000 dugði fæðingarstyrkurinn, en árið 2005 stöndum við frammi fyrir afborgunum af 2 námslánum, hér og í D-landi, sem var ekki til staðar árið 2000)

Við sjáum ekki hvaða rök séu til staðar vegna 4 mánaða lágmarksins til að finna 80% af tekjum fólks.“

 

Með bréfi, dagsettu 13. október 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 1. nóvember 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 28. júlí 2005, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 5. ágúst 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda. Bar bréfið með sér að útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda væri miðaður við tekjur hans í nóvember og desember 2004 og að deilt hefði verið í þær tekjur með fjórum við útreikning á meðaltekjum hans.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þar segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði og að aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Þá segir jafnframt í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. og að aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikninga á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda er fætt þann 4. ágúst 2005 og skal því samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til hans reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans árin 2003 og 2004.

Um það er ekki deilt í máli þessu að kærandi aflaði einungis tekna á Íslandi í tvo mánuði á framangreindu viðmiðunartímabili útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þ.e. í nóvember og desember 2004. Með vísan til framangreindra laga- og reglugerðarákvæða, þar sem kveðið er á um að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna, telur lífeyristryggingasvið rétt að við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabili útreikningsins séu fjórir mánuðir teknir inn í útreikninginn, þ.e. þeir tveir mánuðir sem hann aflaði tekna á Íslandi og auk þess tveir mánuðir án launa.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 28. júlí 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. nóvember 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 17. nóvember 2005.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Jafnframt segir í 2. mgr. 13. gr. að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, skal meðaltal heildarlauna miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikninga á meðaltali heildarlauna.

Með 4. gr. laga nr. 90/2004 varð breyting á 13. gr. ffl. hvað varðar viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna. Hins vegar er áfram óbreytt að miðað skuli að lágmarki við fjóra almanaksmánuði. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum 90/2004 segir um það atriði: „Enn fremur er lagt til að áfram verði miðað við að lágmarki fjóra almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris. Þá er ætíð gert að skilyrði að foreldri uppfylli skilyrði 1. mgr. um sex mánaða samfellt tímabil á innlendum vinnumarkaði við upphafsdag fæðingarorlofs til að öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum. Hafi foreldri hins vegar ekki starfað á viðmiðunartímabilinu en uppfyllir skilyrði 1. mgr. er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi eigi rétt á lágmarksgreiðslum samkvæmt ákvæðinu í samræmi við starfshlutfall sitt. Sama gildir hafi foreldri haft lægri tekjur á viðmiðunartímabilinu en því nemur.“

Barn kæranda er fætt 4. ágúst 2005. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er því samkvæmt framangreindu árin 2003 og 2004. Kærandi var einungis í tvo mánuði á innlendum vinnumarkaði á því tímabili. Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning heildarlauna og engar undantekningar er að finna í lögunum eða reglugerð nr. 1056/2004 frá þeirri reglu. Þá kemur skýrt fram í greinargerð að þessir fjórir mánuðir þurfi að vera á viðmiðunartímabilinu. Það er því mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að ekki verði hjá því komist að hafna kröfu kæranda um breytingu á útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta