Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2013.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. maí 2013

í máli nr. 1/2013:

Logaland ehf.

gegn

Landspítala

 

Með bréfi, dags. 15. janúar 2013, kærir Logaland ehf. örútboð Landspítala nr. 1212 „Latex og vinyl skoðunarhanskar – Örútboð innan rammasamnings ríkisins nr. 13.03“. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.      Að kærunefndin stöðvi þegar í stað innkaupaferlið sem nú fer fram á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

2.      Að kærunefndin felli úr gildi ákvörðun kærða að efna til örútboðs nr. 1212 og leggi fyrir hann að auglýsa útboðið á nýjan leik.

3.      Að kærunefnd ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis. Athugasemdir kærða bárust kærunefnd útboðsmála með bréfi, dags. 24. janúar 2013. Krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði þess að kærunefnd ákveði að kærandi skuli greiða kostnað kærða við að verjast þessari kæru að skaðlausu samkvæmt mati kærunefndarinnar. Viðauki við greinargerð kæranda er dagsettur 1. febrúar 2013.

       Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála ákvörðun um hvort afhenda skuli kæranda lýsingu kærða á prófun hanska í útboðinu, sem liggur fyrir nefndinni, en lýsingin er merkt trúnaðarmál. 

I.

Með útboðslýsingu 20. desember 2012 óskaði kærði eftir verðtilboðum frá samningsaðilum Rammasamnings Ríkiskaupa nr. 13.03 um skoðunarhanska vegna örútboðs nr. 1212. Óskað var eftir tilboðum í hreina einnota latex skoðunarhanska og hreina einnota vinyl skoðunahanska. Örútboðið byggði á 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Kærandi kærði örútboðið 15. janúar 2013 á grundvelli meintra brota á meginreglum laga nr. 84/2007.

II.

Með bréfi 13. mars 2013 bendir kærandi á að meðal fylgiskjala með greinargerð kærða sé að finna lýsingu á prófun hanska vegna örútboðsins. Sé það í samræmi við annað að lýsingin sé merkt trúnaðarmál og hljóti af þeim sökum að vera mun ítarlegri en sú sem veitt hafi verið í örútboðslýsingunni sjálfri. Hafi því þó verið haldið fram að sú lýsing veiti bjóðendum gott yfirlit yfir þá aðferðarfræði sem notuð sé við prófanir á skoðunarhönskum. Kærandi bendir á að væri rétt að málum staðið væri lýsingin afhent bjóðendum og eftir atvikum strikað yfir nöfn einstakra deilda og starfsmanna. Með þeim hætti væri gagnsæi tryggt. Krefst kærandi þess með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kærunefndin afhendi kæranda umrædda lýsingu.

III.

Kærði svaraði kröfu kæranda um afhendingu umrædds trúnaðarskjals með tölvubréfi 6. maí 2013. Fram kemur að kærði telji rétt að aflétta trúnaði á lýsingu á prófun hanska vegna örútboðs kærða nr. 1212. Trúnaður eigi ekki lengur við nú þegar útboðið hafi farið fram og prófunum sé lokið. Kærði bendir á að rétt hafi þótt í upphafi að skjalið væri trúnaðarmál til að koma í veg fyrir að aðilar nýttu sér efni þess til að hafa áhrif á þá sem framkvæma prófanir hjá kærða.    

IV.

Í máli þessu krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála afhendi sér lýsingu kærða á prófun hanska í útboðinu, sem nefndin hefur undir höndum, en skjalið er merkt trúnaðarmál. Nefndin kallaði eftir afstöðu kærða til afhendingar skjalsins. Telur kærði rétt að aflétta trúnaði af skjalinu. Verður kæranda því afhent umrætt skjal, sem merkt er fylgiskjal nr. 4 með athugasemdum kærða, Landspítala, í máli nr. 1/2013

Ákvörðunarorð:

Fallist er á að kæranda, Logalandi ehf., verði afhent lýsing á prófun hanska í örútboði kærða, Landspítala, nr. 1212, sbr. fylgiskjal nr. 4 með athugasemdum kærða.

 

Reykjavík, 9. maí 2013

Páll Sigurðsson,

Auður Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

  

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík,  [Setja inn dags.]


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta