Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Þingeyjarsveit

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Mismunun vegna þjóðernisuppruna. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun Þ um ráðningu íslenskrar konu á leikskóla. Af kæru mátti ráða að kærandi héldi því fram að henni hefði verið mismunað á grundvelli þjóðernisuppruna, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Að mati kæru­nefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli þjóðernis­uppruna við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að Þ hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 23. nóvember 2023 er tekið fyrir mál nr. 15/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 21. október 2022, kærði A ákvörðun Þingeyjar­sveitar um ráðningu í starf leiðbeinanda á leikskóla. Af kæru má ráða að kærandi telji að kærði hafi með ráðningunni mismunað henni á grundvelli þjóðernisuppruna og brotið þar með gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 17. nóvember 2022. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 9. desember s.á., og var kynnt kæranda sama dag. Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir frekari upplýsingum frá kærða með tölvu­bréfi, dags. 24. júlí 2023, sem bárust eftir ítrekanir nefndarinnar 10. október s.á. og voru sendar kæranda til kynningar 27. s.m.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði auglýsti á heimasíðu sinni eftir leikskólakennara eða leikskólastarfsmanni í 60–100% starfshlutfall hjá leikskólanum Yl í Mývatnssveit með umsóknarfresti til 9. september 2022. Í auglýsingu kom fram að leitað væri að starfsmanni sem treysti sér í faglega og metnaðarfulla vinnu, hefði brennandi áhuga á að starfa með börnum, væri lausnamiðaður og vildi taka þátt í samstarfi og teymisvinnu. Jafnframt kom fram að lögð væri áhersla á samvinnu og sameiginlega ábyrgð starfsmanna á verkefnum skólans. Tekið var fram að gerðar væru kröfur um mikla hæfni í mannlegum sam­skiptum, stundvísi og hreint sakavottorð. Þá var tekið fram að ef ekki fengist leikskóla­kennari yrði ráðinn starfsmaður með aðra uppeldismenntun eða leiðbeinandi.
  5. Alls bárust níu umsóknir um starfið. Einn umsækjenda var boðaður til viðtals og í framhaldinu boðið starfið sem hún þáði.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Af kæru má ráða að kærandi, sem var einn umsækjenda um starf á leikskóla kærða, haldi því fram að henni hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernisuppruna við ráðningu íslenskrar konu í starf leiðbeinanda við leikskólann.
  7. Kærandi telur að hún hafi verið hæfari en sú sem var ráðin. Bendir kærandi á að hún hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingunni og ekkert hafi átt að koma í veg fyrir að hún yrði metin hæfust. Hafi kærði virt að vettugi þá skyldu sína að gæta að óhlutdrægni og ráða hæfasta umsækjandann.
  8. Kærandi telur ráðningarferli kærða hafa skort gagnsæi og ábyrgð. Þannig hafi mikil­vægum þáttum ferlisins verið sleppt. Hafi til að mynda móttaka á umsókn hennar hvorki verið staðfest né henni veittar nánari upplýsingar um ferlið. Þá hafi hún ekki verið upplýst um það formlega að ferlinu væri lokið og hver hefði fengið starfið. Kærandi hafi kvartað til kærða og hafi sveitarstjóri kærða sagst myndu svara henni innan 14 daga en það hafi hann ekki gert.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  9. Kærði hafnar því að ákvörðun um ráðningu starfsmanns á leikskóla hafi falið í sér brot á löggjöf um jafnréttismál.
  10. Kærði bendir á að enginn umsækjendanna hafi búið yfir menntun leikskólakennara og því hafi skólastjóri nýtt heimildir til að ráða starfsmann án fagmenntunar. Sú sem var ráðin hafi þótt standa upp úr hópi umsækjenda vegna fyrri reynslu sem starfs­mað­ur sama leikskóla. Hún hafi unnið þar með hléum frá mars 2018, þar af sem deildar­stjóri í eitt ár. Hafi kærði litið til þess að hún hafi búið yfir nýlegri reynslu af starfi með börnum sem félli vel að kröfum auglýsingar, auk þess sem það hafi talist henni til tekna að hafa lokið BSc-gráðu í viðskiptafræði. Þá hafi það verið talið henni til framdráttar að hafa sinnt danskennslu, setið í stjórn ungmennafélags og starfað í foreldrafélagi. Hafi hún því haft víðtæka reynslu af því að starfa með börnum og haft mikinn áhuga á velferð og hag þeirra. Þetta hafi verið þau lykilatriði sem réðu því að umsókn hennar hafi verið tekin fram yfir aðrar umsóknir, sbr. efni auglýsingar um starfið og aðra þætti sem málefnalegt er að líta til vegna starfa í leikskólum, sbr. t.d. markmið leikskóla­starfs, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla.
  11. Kærði bendir á að í ferilskrá kæranda og umsókn komi fram að hún búi yfir reynslu af starfi með börnum á ýmsum aldri sem starfsmaður dagvistar. Hins vegar hafi engin gögn fylgt umsókninni sem styðji þær fullyrðingar, auk þess sem ekkert í ferilskrá hennar hafi varðað slík störf. Tekur kærði fram að hvorki sé því haldið fram af hálfu kæranda né sé nokkuð í umsóknargögnum kæranda sem bendi til að hún sé menntaður leikskólakennari. Gert sé ráð fyrir því í 11. gr. laga nr. 95/2019, um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, að umsókn berist frá ríkisborgara EES-ríkis um að fá staðfestingu á því að fá að nota starfsheitið kennari. Gera verði þær lágmarkskröfur til umsækjenda að þeir sýni fram á færni sína til að geta komið til greina í þær stöður sem þeir sækja um.
  12. Kærði tekur fram að kærandi hafi sýnt af sér hegðun sem hafi ekki verið henni til framdráttar með ítrekuðum tölvupóstum þar sem hún hafi kvartað undan ráðningar­ferlinu og hótað kæru nokkru áður en umsóknarfrestur var liðinn. Þá hafi hún þótt dónaleg í samskiptum. Bendir kærði á að þessi atvik hafi verið mjög óvenjuleg en almennt verði að telja málefnalegt að horfa til slíkra atriða þar sem umsóknir séu m.a. metnar í tengslum við samstarfshæfni, samvinnu o.þ.h.
  13. Kærði bendir á að kærandi sé að læra íslensku á námskeiðum ætluðum byrjendum en íslenskukunnátta hafi verið augljós kostur í starfinu sem um ræðir þótt það hafi ekki verið tekið fram í auglýsingu, enda eitt meginmarkmið uppeldis í kennslu í leikskóla að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2008.
  14. Að lokum tekur kærði fram að kærandi hafi ekki óskað eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar. Kærði tók hins vegar fram að í svari skólastjóra leikskólans til kæranda hefði ekki verið gætt leiðbeiningarskyldu í samræmi við 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  15. Af kæru má ráða að mál þetta snúi að því hvort kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu íslenskrar konu í starf á leikskóla.
  16. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfs­getu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. við ráðningar, sbr. a-lið sömu málsgreinar. Í 1. mgr. 2. gr. er tekið fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri með­ferð einstaklinga á vinnu­markaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
  17. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórn­sýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Verkefni kæru­nefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  18. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 er tekið fram að hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna sé óheimil. Jafnframt er tekið fram að fjölþætt mismunun sé óheimil. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grund­velli þjóðernisuppruna. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu.
  19. Í auglýsingu um starf leikskólakennara eða leikskólastarfsmanns sem liggur til grund­vallar í málinu kom fram að leitað væri að starfsmanni sem treysti sér í faglega og metnaðarfulla vinnu, hefði brennandi áhuga á að starfa með börnum og væri lausna­miðaður og vildi taka þátt í samstarfi og teymisvinnu. Jafnframt kom fram að lögð væri áhersla á samvinnu og sameiginlega ábyrgð starfsmanna á verkefnum skólans. Þá kom fram að gerðar væru kröfur um mikla hæfni í mannlegum samskiptum, stundvísi og hreint sakavottorð. Sérstaklega var tekið fram að ef ekki fengist leikskólakennari yrði ráðinn starfsmaður með aðra uppeldismenntun eða leiðbeinandi.
  20. Kærði hefur gert grein fyrir því að enginn umsækjendanna hafi uppfyllt skilyrði um að vera leikskólakennari og hafi kærði því í samræmi við auglýsingu ákveðið að ráða leik­skólastarfsmann eða starfsmann án fagmenntunar. Við val á hæfasta umsækjanda­num hafi verið litið til starfsreynslu á leikskóla og nýlegrar reynslu af starfi með börnum. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem um ræðir með hagsmuni starfseminnar að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
  21. Kærði hefur einnig gert grein fyrir því að sú sem var ráðin í starfið hafi staðið hinum umsækjendunum framar vegna fyrri starfsreynslu við leikskólann. Hafi hún búið yfir nýlegri og víðtækri reynslu af starfi með börnum og áhuga á velferð þeirra, auk þess sem hún hafi haft menntun og reynslu sem hafi fallið vel að starfinu. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem var ráðinn hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafi lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  22. Kærandi hefur gert athugasemdir varðandi tiltekin atriði í málsmeðferð kærða. Kærunefnd telur ekki að annmarkar á málsmeðferð kærða við ráðningu í starfið séu þess eðlis að þeir hafi áhrif á þessa niðurstöðu.
  23. Með vísan til alls framangreinds verður að leggja til grundvallar að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann byggði á við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefna­legt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd því að gögn þau sem liggja fyrir í málinu leiði ekki líkur að því að við umrædda ákvörðun hafi kæranda verið mismunað á grundvelli þjóðernisuppruna, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018.
  24. Samkvæmt því verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mis­munað á grundvelli þjóðernisuppruna við ráðningu í starf á leikskóla kærða, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Verður því ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Þingeyjarsveit, braut ekki gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu í starf á leikskóla.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta