Hoppa yfir valmynd

Nr. 30/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 30/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090024

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. september 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. ágúst 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. maí 2018. Kærandi kom til viðtala hjá Útlendingastofnun 3., 8. og 12. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. ágúst 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 2. október 2019. Þann 7. nóvember 2019 bárust viðbótarathugarsemdir frá kæranda ásamt fylgigagni. Viðbótargögn bárust 18. og 20. desember s.á.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða fórnarlamb heiðursmorðs í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann hafi flúið heimaríki eftir að upp komst um samband hans og stúlku að nafni […]. Fjölskylda […], sem sé […], strangtrúuð og tilheyri hryðjuverkasamtökunum […], hafi beitt þau ofbeldi og brennt […] á lífi eftir að bræður hennar og faðir hafi komið að þeim saman. Þá hafi þau hótað kæranda því að hann skyldi einnig deyja í trúarlegri samkomu fjölskyldunnar. Kærandi greini frá því að hann hafi gefið skýrslu til lögreglunnar samdægurs vegna framangreinds og flúið strax í kjölfarið. Þá greini kærandi frá því að móðir hans hafi verið vitni af framangreindum atburðum og látist í kjölfar þeirra. Fjölskylda hans, sem sé einnig strangtrúuð, hafi kennt honum um dauða hennar og því afneitað honum. Vegna framangreinds óttist kærandi bæði fjölskyldu […] og sína eigin fjölskyldu í heimaríki. Þá telji kærandi að hann geti ekki leitað á náðir yfirvalda til að fá vernd og að hann geti ekki flutt sig um set innan Pakistan. Að lokum kveður kærandi að hann tilheyri minnihlutahópi í Pakistan þar sem hann sé ættaður frá Indlandi.

Kærandi gagnrýnir trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi telur, þvert á mat stofnunarinnar, að lögregluskýrslan sem hann hafi gefið eftir að […] hafi verið brennd lifandi styrki frásögn hans og víki ekki frá henni að neinu ráði. Kærandi vekur athygli á því að ekki sé ljóst af enskri þýðingu skýrslunnar hvort lögreglan hafi komið að heimili […] eftir símtal og skýrslu kæranda eða hvort skýrslan hafi verið tekin af honum þar. Þá telur kærandi það á engan hátt ótrúverðugt, m.a. í ljósi þess að tíu ár séu liðin, að hann muni ekki nákvæmlega hver atburðarrásin var umræddan dag. Í öllu falli sé ljóst að skilningur Útlendingastofnunar á skýrslunni gangi ekki upp, enda geti hann ekki bæði hafa yfirgefið svæðið áður en […] var myrt og einnig hafa verið á svæðinu eftir verknaðinn, líkt og staðhæft sé í hinni kærðu ákvörðun. Misræmið sé að finna í lélegri þýðingu skýrslunnar.

Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins og ákvarðanatöku litið of mikið til þess að hann hafi komið hingað til lands á fölsuðu vegabréfi. Mat stofnunar á trúverðugleika frásagnar hans hafi af þeim sökum ekki verið á réttri forsendu. Hann hafi gefið upp rétt nafn hjá lögreglu og þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd. Þá hafi hann verið staðfastur og skýr í frásögn sinni í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þá gagnrýnir kærandi að Útlendingastofnun hafi í hinni kærðu ákvörðun dregið ályktanir um þróun heiðursmorða í Pakistan af tölfræði sem byggi ekki á traustum grunni. Kærandi telur að ekkert í rökstuðningi stofnunarinnar styðji ályktun hennar að heiðursmorðum fari fækkandi í Pakistan. Þá telur kærandi að jafnvel þó svo kunni að vera, þá eigi 46 heiðursmorð á karlmönnum í heimahéraði kæranda að vera nóg til að stjórnvöld telji heiðursglæpi alvarlegt vandamál í Pakistan. Með hliðsjón af framansögðu telur kærandi það rangt að hann hafi ekki sýnt fram á, eða gert líklegt, að hann eigi á hættu að verða fórnarlamb heiðursmorðs í heimaríki.

Hvað varðar almennar aðstæður og öryggisástand í Pakistan vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 26. júlí 2019.

Í greinargerð kemur fram að heiðurstengdir glæpir séu rótgrónir í Pakistan. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2018. Þar komi fram að samfélagið í Pakistan stýri að mestu leyti makavali einstaklinga og að fjölmörg dæmi séu um að fjölskyldumeðlimir myrði bæði kvenmenn og karlmenn vegna ástarsambanda sem séu ekki fyrirfram ákveðin af fjölskyldum þeirra. Eigi bæði kyn því á hættu að vera tekin af lífi brjóti þau gegn boðum samfélagsins í þessum efnum. Minnihluti heiðursglæpa sé tilkynntur til yfirvalda en aðgerðasinnar telji að um þúsund einstaklingar séu teknir af lífi á ári hverju vegna heiðursdeilna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi yfirvöldum ekki tekist að koma í veg fyrir heiðursglæpi, t.a.m. hafi löggjöf frá árinu 2016 sem banni heiðurstengda glæpi ekki verið innleidd á fullnægjandi hátt í pakistanskan rétt. Þá blandi lögregluyfirvöld og dómstólar sér oft á tíðum ekki inn í heimilisofbeldismál þar sem talið sé að slík mál skuli leyst innan veggja heimilisins.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d- lið 3. mgr. 38. gr. laganna. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi sætt ofsóknum af hendi fjölskyldu […] og verið dæmdur til dauða á samkomu trúarhóps fjölskyldunnar. Hafi það verið vegna þess að kærandi og […] hafi, með sambandi sínu, farið gegn trú þeirra beggja og þannig varpað rýrð á heiður fjölskyldu […]. Kærandi tilheyri því hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Hafi þessi hópur einstaklinga ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna umrædds athæfis. Þá vísar kærandi til ákvæða a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um að ekki sé raunhæft að leita ásjár yfirvalda, enda séu það m.a. yfirvöld sjálf sem taki óbeint þátt í ofsóknum á hendur þeim þjóðfélagshópi sem kærandi tilheyrir. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda heldur hann því fram að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum í Pakistan. Almennt öryggisástand í Pakistan sé mjög ótryggt og gríðarlegt mannfall sé ár hvert vegna árása af hálfu öryggissveita ríkisins og hryðjuverkasamtaka. Þá beiti yfirvöld borgara sína pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra. Einnig telur kærandi að hann geti ekki leitað aðstoðar pakistanskra yfirvalda eða sinnar eigin fjölskyldu vegna árása af hendi fjölskyldu […].

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Krafan byggist í fyrsta lagi á því að hann eigi á hættu ofsóknir og illa meðferð í heimaríki sem yfirvöld geti ekki verndað hann gegn. Gróf mannréttindabrot viðgangist í Pakistan og samfélagið þar í landi samþykki ekki sambönd eins og það sem kærandi og […] hafi átt í. Krafan byggist auk þess á því að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem fjölskylda hans hafi afneitað honum og hann standi frammi fyrir félagslegri útskúfun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt til þess að sanna honum á deili. Af því virtu var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann er með fullnægjandi hætti og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi framvísað bresku vegabréfi annars manns ásamt flugmiða til Toronto, Kanada, þegar hann hafi komið hingað til lands þann 5. maí 2018. Skilríkjasérfræðingur Flugstöðvardeildar Lögreglunnar á Suðurnesjum hafi kannað vegabréfið og metið það sem svo að kærandi væri ekki réttmætur handhafi þess. Í skýrslutöku hjá lögreglu síðar þann sama dag hafi kærandi viðurkennt að hafa framvísað vegabréfi annars aðila. Þá hafi kærandi lagt fram ljósmyndir af bresku dvalarleyfiskorti með gildistíma til 7. nóvember 2027. Í svari utanríkisráðuneytis Bretlands, dags. 18. desember 2018, komi fram að umrætt dvalarleyfiskorti hafi ekki verið að finna í þeirra skrám auk þess sem útgáfudagur kortsins sé eftir að kærandi hafi verið skráður horfinn þar í landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa fengið dvalarleyfiskortið hjá vinnuveitanda sínum svo hann gæti unnið hjá honum. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi, annars vegar með framlagningu vegabréfs annars aðila og hins vegar með framlagningu falsaðs dvalarleyfiskorts, gegn betri vitund reynt að villa á sér heimildir fyrir íslenskum stjórnvöldum. Væri auðkenni kæranda því óljóst. Útlendingastofnun taldi á hinn bóginn enga ástæðu til að draga í efa að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari.

Þann 6. janúar 2020 barst kærunefnd útrunnið pakistanskt vegabréf kæranda. Með vísan til niðurstöðu skjalarannsóknarskýrslu Flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum er það mat kærunefndar að framangreint vegabréf sé til þess fallið að sanna auðkenni kæranda. Verður því lagt til grundvallar að hann sé pakistanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • Country Information and Guidance Pakistan: Women fearing gender-based harm / violence (UK Home Office, febrúar 2016);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, ágúst 2017);
  • Freedom in the World 2019 – Pakistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer i Pakistan 2015–2016 (Utrikesdepartimentet, 26. apríl 2017);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan - Country Fact Sheet 2017 (version 1) (Bundesamt für Migration und Flüchtlinge, 9. apríl 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan: Honour killings targeting men and women (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. janúar 2013);
  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 19. Nóvember 2019); 
  • World Report 2019 – Pakistan (Human Rights Watch, 18. janúar 2019);
  • […];
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 10. janúar 2020);
  • […]

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með tæplega 208 milljónir íbúa. Þann 30 september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1976. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1969 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1981, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan, en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. First Information Report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Punjab sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga, þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákærir í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann á meðan rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í ofangreindri skýrslu stofnunar sem veitir ráðgjöf varðandi flóttafólk (e. Asylum Research Consultancy) kemur fram að öryggisástandið í Pakistan sé breytilegt eftir landshlutum en heimahérað kæranda, […], sé talið eitt af öruggustu héruðum landsins. Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í […] sé starfandi umboðsmaður sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í pakistanskri menningu. Heiðursmorð sé morð á ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Pakistanar tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin menningunni. Í þessum tilvikum sé algengast að konan sé myrt fyrst og því nái maðurinn yfirleitt að flýja, en fjölskylda konunnar og maðurinn sem hafi vanvirt heiður fjölskyldu hennar geti komið sér saman um að láta leiðtoga ættbálka þeirra útkljá deiluna og ákveða örlög mannsins. Til þess að fjölskylda konunnar geti endurheimt heiður sinn án þess að maðurinn láti lífið verði maðurinn að bæta fjölskyldunni skaðann, annað hvort með því að greiða fjölskyldunni eða gefa þeim aðra konu í staðinn. Í skýrslu frá innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada frá 2013 kemur fram að einn þriðji þolenda heiðurstengds ofbeldis séu karlmenn. Þessar upplýsingar fá nokkurn stuðning frá því sem fram kemur á vefsíðu sem mannréttindastofnun Pakistan heldur utan um.

Pakistönsk stjórnvöld hafa á síðustu árum unnið að því að bæta lagaumhverfi varðandi heiðursglæpi. Breytingunum hafi einkum verið ætlað að bæta réttarstöðu kvenna, m.a. með því að koma á fót skilvirku kerfi sem verndi þær og aðstoði verði þær fyrir ofbeldi. Þá var lögum breytt árið 2016 til að koma í veg fyrir að gerendur gætu komist undan refsingu með því að fá fyrirgefningu frá fjölskyldumeðlimum fórnarlamba heiðursglæpa. Refsingar vegna heiðursglæpa voru jafnframt þyngdar á árinu 2016. Þá lýsti Ráð íslamskrar hugmyndafræði í Pakistan (e. Council of Islamic Ideology) því yfir á árinu 2016 að heiðursmorð séu ekki í samræmi við íslamska hugmyndafræði og pakistönsk lög. Þar sem tölfræði um skráð heiðursmorð í Pakistan er ekki byggð á opinberum upplýsingum liggur ekki fyrir hver árleg tíðni þeirra er. Ljóst er að heiðurstengt ofbeldi er enn vandamál í Pakistan og að mikil vinna sé fyrir höndum. Framangreindar landaupplýsingar bendi hins vegar til þess að yfirvöld bregðist við í málum sem tilkynnt séu til þeirra og sæki þá til saka sem ábyrgir séu fyrir heiðurstengdu ofbeldi og heiðursmorðum. Þá megi merkja að viðbrögð almennings við slíkum brotum hafi leitt enn frekar til þess að yfirvöld reyni að bæta úr vandanum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst óttast heiðurstengt ofbeldi eða heiðursmorð í heimaríki af hendi fjölskyldu […] sem hann hafi verið í sambandi með árið 2009. Líkt og að ofan er rakið kveður kærandi fjölskyldu hennar hafa brennt hana lifandi, beitt kæranda ofbeldi og hótað honum lífláti eftir að þau hafi komist að sambandi þeirra. Þá kveðst kærandi óttast sína eigin fjölskyldu, sem hafi afneitað honum í kjölfar andláts móður hans, og yfirvöld, sem taki óbeint þátt í ofsóknum á hendur einstaklingum sem óttist heiðurstengda glæpi. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Til stuðnings frásögn sinni lagði kærandi fram ljósrit af skjali sem hann kveður vera af FIR lögregluskýrslu, dags. 18. apríl 2009. Í meðfylgjandi enskri þýðingu skýrslunnar kemur fram vitnisburður kæranda um samband hans og […] og atburði sem hafi átt sér stað aðfaranótt 18. apríl 2009 á heimili fjölskyldu hennar. Þar sem kærandi lagði einungis fram ljósrit af skýrslunni er ekki hægt að kanna áreiðanleika hennar eða uppruna.

Útlendingastofnun mat frásögn kæranda af ástæðum flótta hans frá heimaríki ótrúverðuga. Var það einkum í ljósi þess misræmis sem stofnunin taldi hafa fram hafi komið fram í frásögn hans af atburðum og misræmi á milli frásagnar hans vitnisburðar kæranda í framangreindri FIR skýrslu. Hafi það sem fram kom í enskri þýðingu skýrslunnar verið í nokkrum veigamiklum atriðum frábrugðið frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í fyrsta lagi kemur fram í þýðingu skýrslunnar að […] hafi verið brennd lifandi eftir að kæranda hafi verið bjargað af nágrönnum sem hafi komið á vettvang að heimili fjölskyldu hennar. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hélt kærandi því hins vegar staðfastlega fram að hann hafi verið viðstaddur þegar kveikt hafi verið í henni, m.a. þegar hann var spurður sérstaklega út í framangreint misræmi. Var kærandi þá einnig tvísaga í því viðtali um það hvort hann hafi verið vitni að misþyrmingum og morði á […] eða ekki. Í öðru lagi kemur fram í skýrslunni að lögregla hafi tekið skýrslu af kæranda á vettvangi eftir að kærandi hafði hringt í lögregluna og tilkynnt það sem gerst hafði. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun bar kærandi því hins vegar við að hann hafi yfirgefið heimili fjölskyldu […]og farið á lögreglustöð þar sem hann hafi fengið skýrslu skráða. Í þriðja lagi kemur fram í skýrslunni að fjölskylda […] hafi vitað um samband þeirra áður en hún hafi beðið kæranda um að hitta hana aðfaranótt 18. apríl 2009.

Samkvæmt frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi fjölskylda hennar ekki vitað af sambandinu fyrr en faðir hennar og bræður hafi komið óvænt að þeim þá nótt. Þá er ekki minnst á það í skýrslunni að bræður og faðir […] hafi skotið að kæranda en honum hafi tekist að flýja án þess að verða fyrir skoti, líkt og hann greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þó svo að einstaka misræmi í frásögn umsækjenda af erfiðum atburðum leiði ekki endilega til þess að frásögn sé metin ótrúverðug, telur kærunefnd að þegar litið er heildstætt á framburð kæranda, dragi umrætt ósamræmi, sem lýtur að meginatriðum í frásögn kæranda, engu að síður verulega úr trúverðugleika frásagnar hans og sönnunargildi umræddrar skýrslu í málinu. Þá telur kærunefnd að skýringar sem kærandi veitti síðar í gegnum talsmann sinn hafi ekki varpað ljósi á það ósamræmi.

Kærandi hefur ekki fært fram frekari trúverðug gögn, t.a.m. um samband hans og […] eða tengsl föður hennar við […], sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af aðstæðum hans í heimaríki. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að ætlaðar ofsóknir hafi átt sér stað fyrir tíu árum síðan er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver trúverðug gögn sem leiði að því líkur að hann eigi á hættu heiðurstengt ofbeldi eða heiðursmorð í heimaríki. Það er því mat kærunefndar að framangreint ósamræmi í frásögn kæranda og skortur á gögnum henni til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta teljist ótrúverðug. Frásögn hans verður því ekki lögð til grundvallar í máli þessu.

Kærandi hefur einnig borið fyrir sig að vera i minnihlutahópi í Pakistan þar sem hann sé ættaður frá Indlandi. Hann hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir vanvirðandi meðferð eða ofsóknum af þeim sökum. Þá benda framangreindar landaupplýsingar ekki til þess að þeir sem eru af indverskum uppruna eigi á hættu mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-liðum 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 5. maí 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 23. janúar 2020, eru liðnir rúmir 20 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram frumrit vegabréfs. Vegabréfið var metið ófalsað af lögreglu. Verður því talið að ekki leiki vafi á því hver kærandi sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laganna Kærunefnd hefur einnig litið til d-liðar 2. mgr. ákvæðisins sem gerir þá kröfu að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að frásögn kæranda hafi verið metin ótrúverðug sé skilyrðið, eins og hér stendur á, engu að síður uppfyllt. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. útlendingalaga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

 

The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74(2) of the Act on Foreigners.

The decision of the Directorate of Immigration related to his application for international protection is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta