Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 41/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 41/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. febrúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 15. febrúar 2011 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var samþykkt, en með vísan til námsloka hans voru greiðslur atvinnuleysistrygginga felldar niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. mars 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 17. desember 2010. Við afgreiðslu umsóknar barst Vinnumálastofnun skólavottorð frá Tækniskólanum þann 24. janúar 2011 þar sem fram kom að kærandi hafði ekki lokið námi við skólann.

Vinnumálastofnun óskaði eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hann hafi hætt námi við Tækniskólann. Samkvæmt fyrirliggjandi námsferilsáætlun kæranda við Tækniskólann og skýringum kæranda sem fram komu í tölvupósti hans til Vinnumálastofnunar, dags. 19. janúar 2011, kemur fram að kæranda hafi verið synjað um áframhaldandi skólavist sökum óviðunandi námsárangurs á haustönn 2010.

Vinnumálastofnun fjallaði í kjölfarið um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á fundi sínum þann 15. febrúar 2011 og var það mat stofnunarinnar að kærandi hefði hætt námi án gildra ástæðna í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Umsókn kæranda var samþykkt en með vísan til námsloka voru greiðslur atvinnuleysistrygginga felldar niður í tvo mánuði.

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. mars 2011, segir kærandi að hann hafi ekki hætt námi heldur hafi honum verið synjað um áframhaldandi skólavist. Kærandi vísar til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum en sem hafi hætt námi án gildra ástæðna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi bendir á að hann hafi gildar ástæður, honum hafi verið hafnað um áframhaldandi skólavist en hann hafi ekki hætt námi af sjálfsdáðum.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. júní 2011, vísar Vinnumálastofnun til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar kemur fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum en hefur hætt námi án gildra ástæðna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.

Vinnumálastofnun vísar einnig til X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er að finna ákvæði er mæla fyrir um biðtíma er hinn tryggði skal sæta segi hann starfi upp án gildra ástæðna eða hætti námi án gildra ástæðna. Í greinargerð við frumvarp það er síðar varð að lögum um atvinnuleysistryggingar er í umfjöllun um 1. mgr. 55. gr. vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvaða ástæður geti talist gildar. Þar segir að erfitt geti reynst að telja upp endanlega þær aðstæður sem teljist gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. og lagareglan sé því matskennd. Sem dæmi um gildar ástæður í skilningi laganna séu til dæmis nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda. Vinnumálastofnun sé falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falla að umræddri reglu. Skuli stofnunin líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi færri tilvik en ella sem falli þar undir.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem misst hafi störf sín tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra sem segi upp starfi sínu eða hætta námi að þeir hafi til þess gildar ástæður. Vinnumálastofnun vísar til rökstuðnings kæranda með kæru sinni til úrskurðarnefndar og gagna málsins þar sem fram komi að kærandi hafi ekki fengið inngöngu í Tækniskólann á vorönn 2010 sökum þess að námsárangur hans hafi verið óviðunandi á haustönn 2010. Telji Vinnumálastofnun að ekki verði séð að skýringar kæranda á námslokum sínum hjá Tækniskólanum séu gildar ástæður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Verði ekki fallist á að óviðunandi námsárangur nemenda geti almennt talist til gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í þeim tilvikum sem nemandi skrái sig úr námi áður en hann tekur próf, sé fyrirséð að Vinnumálastofnun myndi almennt beita heimild 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Verði ekki séð að önnur meginregla ætti að gilda ef nemandi situr próf en nær ekki viðunandi árangri til þess að geta haldið námi sínu áfram. Sé það mat Vinnumálastofnunar að slík ástæða geti ekki talist gild í skilningi ákvæðisins, sé hún ekki studd frekari gögnum um námserfiðleika eða síðari tilkominna atvika er áhrif hafi haft á nám atvinnuleitanda.

Vinnumálastofnun telur að fyrirliggjandi gögn sýni ekki að kærandi hafi þurft að hætta námi sökum brostinna forsendna eða annarra gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar einnig til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 70/2010. Það er mat Vinnumálastofnunar að aðstæður þær er kærandi hafi fært fyrir brottfalli sínu úr námi geti ekki talist gildar ástæður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Því telji Vinnumálastofnun að kærandi eigi að sæta tveggja mánaða biðtíma, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Málið lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 18. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur hættir námi, sbr. c-lið 3. gr. laganna, og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, segir að þeir sem hætta námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Vísað er til umfjöllunar um 54. gr. í því sambandi. Þar kemur fram að erfiðleikum sé bundið að skilgreina nákvæmlega gildar ástæður í lögum og reglugerðum og því þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Orðalagið „gildar ástæður“ hefur verið skýrt þröngt sem þýðir að fá tilvik falla þar undir. Af framangreindu er ljóst að ef ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir því að námi er hætt, þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Verður ekki fallist á að óviðunandi námsárangur nemenda og synjun um áframhaldandi skólavist í kjölfarið, geti almennt talist til gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður sem kærandi hefur fært fram séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber því að láta kæranda sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. febrúar 2011 í máli í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta