Mál nr. 10/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 10/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 13. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 29. nóvember 2010 fjallað um greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda. Tekin hefði verið ákvörðun um stöðva slíkar greiðslur til kæranda þar sem hann var skráður í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010 að fjárhæð 194.256 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 4. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 2. júní 2010.
Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og nemendaskrár Háskóla Íslands, sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, kom í ljós að kærandi var skráður í nám við lagadeild Háskóla Íslands samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að námssamningur við stofnunina lægi fyrir. Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 21. október 2010, þar sem kæranda var tilkynnt um samkeyrslu við gagnagrunninn og hann beðinn að skila staðfestingu á einingafjölda frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa samband við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Kæranda var í sama bréfi, dags. 21. október 2010, tilkynnt að er hann hefði skilað inn gögnum og rætt við ráðgjafa Vinnumálastofnunar, myndi stofnunin taka ákvörðun um hvort kæranda væri heimilt að stunda nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga.
Vinnumálastofnun barst bréf frá kæranda, dags. 1. nóvember 2010, með athugasemdum og skýringum á atvikum í máli hans. Kærandi heldur því fram að hann telji sig ekki vera námsmann í skilningi 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem hann hefði einungis skráð sig í nám í þeim tilgangi að taka upptökupróf í báðum þeim áföngum sem hann hafi verið skráður í.
Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir á fundi stofnunarinnar þann 29. nóvember 2010. Niðurstaða Vinnumálastofnunar var að hann nyti ekki lengur réttar til greiðslna atvinnuleysistrygginga þar sem hann hafi verið í námi án þess að fyrir lægi námssamningur. Enn fremur bæri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010. Kæranda var tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 13. desember 2010.
Vinnumálastofnun tók mál kæranda upp að nýju samkvæmt beiðni kæranda þann 21. desember 2010. Með bréfi, dags. 24. janúar 2011, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja beiðni hans um endurupptöku málsins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Var það mat Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið tilefni til endurupptöku þar sem engar nýjar upplýsingar hafi komið fram og að ekki verði séð að ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. janúar 2011, segir kærandi að hann hafi ekki talið sig vera að fara á svig við reglur Vinnumálastofnunar er hann skráði sig í tvö upptökupróf í Háskóla Íslands, heldur hafi hann talið sig vera að nýta sér það svigrúm sem lögin buðu upp á. Kærandi segir að hann hafi talið sig vera komin með lausn á þeim vanda sem hann stóð frammi fyrir eftir að hafa orðið atvinnulaus, en hann hafi stundað nám samhliða vinnu undanfarin misseri. Kærandi segir jafnframt að ef hann hefði ekki farið þá leið að skrá sig í nám hefði hann misst íbúð sem hann var með á leigu hjá Stúdentagörðum, en þeirri íbúð hafði kærandi hugsað sér að halda þar til námi hans lyki. Kærandi bendir á að hlé frá námi á þessum tímapunkti hefði haft slæmar afleiðingar á möguleika hans á áframhaldandi námi við Háskóla Íslands.
Kærandi segir að hann hafi fengið þau skilaboð hjá starfsmanni Vinnumálastofnunar að upptökupróf myndu ekki skerða rétt til atvinnuleysistrygginga, enda teldist það ekki til náms. Ef hann hefði fengið vitneskju um að skráning í upptökupróf myndi hafa áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði hann hagað málum á annan hátt. Kærandi bendir einnig á að hann hafi setið námskeið á vegum Vinnumálastofnunar hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands allt haustið árið 2010 og þar af leiðandi hafi hann ekki verið að stunda fullt nám í lagadeildinni samhliða því námskeiði.
Kærandi telur að þar sem hann hafi stundað nám við Háskóla Íslands samhliða vinnu síðastliðin tvö ár ætti áframhaldandi nám hans ekki að hafa í för með sér neinar breytingar á rétti hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kærandi telur sig ekki vera að stunda nám skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi eingöngu ætlað sér að þreyta upptökupróf vegna náms árið 2009. Kærandi bendir á að orðið „nám“ taki yfir skólagöngu og það að ljúka námi, en upptökupróf geti ekki fallið undir þessar skilgreiningu. Kærandi telur því að hann sé ekki að brjóta gegn ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann sé ekki að stunda nám eða ljúka námi, heldur eingöngu að þreyta upptökupróf.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. júní 2011, bendir Vinnumálastofnun á c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem sé að finna skilgreiningu á námi. Samkvæmt þeirri skilgreiningu eigi námið að vera við viðurkennda menntastofnun og standa yfir í lágmark sex mánuði. Samkvæmt 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. sömu laga, teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar enda sé nám ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar.
Vinnumálastofnun vísar til gagna frá kæranda og upplýsinga sem Vinnumálastofnun aflaði við rannsókn málsins, en þar komi fram að kærandi hafi upphaflega verið skráður í 53 einingar á haustönn 2010. Kærandi hafi sagt sig nær samstundis úr 30 einingum enda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði lagadeildar Háskóla Íslands fyrir setu í þeim áföngum. Eftir hafi staðið tveir áfangar sem kærandi hafi verið skráður í, almenn lögfræði með ágripi af réttarsögu sem sé 18 einingar og heimspekileg forspjallsvísindi sem sé 5 eininga áfangi. Kærandi hafi því verið skráður í samtals 23 eininga nám á haustönn 2010. Vinnumálastofnun áréttar að meginreglan sé að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggi stund á nám sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar.
Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem sé að finna undanþáguheimild frá þessari meginreglu sem mæli fyrir um að stofnuninni sé heimilt að meta þegar sérstaklega standi á hvort sá, sem stundar nám á háskólastigi sem nemi allt að 10 ECTS einingum á námsönn, uppfylli skilyrði laganna, enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi uppfylli ekki skilyrði Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna náms síns þar sem sjóðurinn geri að skilyrði að lagt sé stund á nám að lágmarki 45 ECTS einingar á ári. Kærandi sé einungis skráður í 33 einingar á námsárinu 2010–2011. Kærandi sé skráður í 23 eininga nám á haustönn 2010 og fari sá einingafjöldi fram úr undanþáguheimild sem mælt sé fyrir um í 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og falli kærandi ekki þar undir, enda sé það almenn lögskýringarregla að undanþágur beri að túlka þröngt.
Vinnumálastofnun telur að við matið beri að líta til þess að stofnunin sé bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem og hinni óskráðu jafnræðisreglu og því sé nauðsynlegt að draga skýrar línur þegar veita eigi undanþágur frá meginreglum laganna. Telji stofnunin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. september til 19. september 2010, sökum þess að hann hafi lagt stund á of mikið nám, án þess að námssamningur við stofnunina lægi fyrir.
Vinnumálastofnun vísar til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því álit Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010, að fjárhæð 194.256 kr.
Niðurstaða Vinnumálastofnunar sé því að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða því að vera skráður í námi við Háskóla Íslands og að kæranda beri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 30. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. júní 2011. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bárust athugasemdir frá kæranda með bréfi, dags. 9. júní 2011. Kærandi gerir meðal annars athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar og telur hann að málshraða hafi verið verulega ábótavant.
Kærandi vísar einnig til mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar, en í íslenskri dómaframkvæmd hafi verið litið svo á að túlka beri rúmt ef vafi leiki á um þau réttindi sem ákvæðunum sé ætlað að vernda. Telur kærandi að í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. maí 2011, og í þeim lagagreinum sem stofnunin vísi til sé ekki að finna neitt sem styðji við þá fullyrðingu Vinnumálastofnunar að hann hafi gerst brotlegur við umrædd ákvæði laga.
Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun vísi í greinargerð sinni til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og skilgreiningu hugtaksins „námi“. Í lagaákvæðinu sé ekkert sem styðji heimfærslu á hugtakinu „upptökupróf“. Hins vegar sé skýrt tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til náms. Kærandi kveðst eingöngu hafa verið skráður í upptökupróf í tveimur námskeiðum en hafi að öðru leyti ekki verið skráður í nám við Háskóla Íslands á umræddum tíma eins og gögn málsins sýni glögglega.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3.gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.“
Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga.
Hugtakið nám er skilgreint í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi, sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Kærandi telst því vera námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Undanþáguheimildir 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar er kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá, sem telst námsmaður í skilningi laganna og sem stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 10 ECTS einingum á námsönn, uppfylli skilyrði laganna, enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Í málinu liggur fyrir að kærandi uppfyllir ekki skilyrði Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna náms síns, þar sem sjóðurinn gerir að skilyrði að lagt sé stund á nám að lágmarki 45 ECTS einingar á ári, en samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands, var kærandi skráður í 33 eininga nám á námsárinu 2010–2011. Kærandi var skráður í 22 eininga nám á haustönn 2010 og fellur nám hans því ekki undir undanþáguheimildina í 3. mgr. 52. gr. laganna þar sem einingafjöldinn fer umfram það sem heimilt er.
Kærandi hefur fært fram þau rök að hann telji sig ekki vera að stunda nám skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi eingöngu ætlað sér að þreyta upptökupróf vegna náms síns árið 2009. Verður ekki fallist á þá skýringu kæranda, að sá sem skráður er í nám með það eitt að markmiði að taka upptökupróf, verði ekki skilgreindur sem námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Ber að líta til þess að heimild sú sem kveðið er á um í 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er undanþáguheimild sem ber að túlka þröngt, enda er meginregla laga um atvinnuleysistryggingar sú að námsmenn eiga ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggja stund á nám sem er ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt er af hálfu Vinnumálastofnunar. Í málinu liggur ekki fyrir námssamningur kæranda við Vinnumálastofnun. Því er ljóst að kærandi telst ekki tryggður skv. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysisbætur og hann átti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á umræddu tímabili. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda er því staðfest.
Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir í umfjöllun um 39. gr. að gert sé ráð fyrir því að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Jafnframt segir að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur eftir að hann varð námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og uppfyllti því ekki lengur skilyrði laganna. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda því að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun hefur krafið hann um.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. nóvember 2010 í máli A um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda er staðfest. Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010 að fjárhæð 194.256 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson