Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 468/2022-Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 468/2022

Miðvikudaginn 30. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. ágúst 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri en meta honum örorkustyrk tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 6. júlí 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 23. ágúst 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Kæranda var aftur á móti metinn örorkustyrkur með gildistíma frá 1. júní 2022 til 31. mars 2025.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. september 2022. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. október 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að umsókn hans um greiðslu örorkulífeyris sökum Parkinsonveiki hafi verið synjað og kæri hann þá niðurstöðu Tryggingastofnunar.

Vegna þreytu þurfi kærandi að leggja sig að lágmarki tvisvar á dag í 45 til 60 mínútur í senn sem sé að aukast í þrjú skipti á dag. Dagsyfja vegna lyfja og þreyta vegna sjúkdómsins hafi áhrif á þetta. Lyfjaskammtur hans sé að aukast jafnt og þétt svo að þetta ástand komi ekki til með að skána. Kærandi sjái ekki fram á að geta stundað vinnu með góðu móti þar sem hann verði óstjórnlega þreyttur og hugsanir þokukenndar.

Kærandi hafi verið metinn með sjö stig í andlega hluta örorkumatsins. Hann sé viss um að honum hefðu verið metin fleiri stig í andlega hlutanum ef matið myndi miðast við líðan þegar hann stundi vinnu. Þegar skoðunarlæknir hafi metið kæranda hafði hann ekki stundað vinnu í þrjá til fjóra mánuði. Kærandi sé áhyggjufullur vegna andlegrar líðanar sinnar, sérstaklega í ljósi þess að ójafnvægi sé á framleiðslu dópamíns. Óþægindi vegna skjálfta sé slítandi en þó upplifi hann meiri ótta vegna andlegrar heilsu sinnar. Fyrst núna þegar kærandi sé utan vinnumarkaðar sé hann að ná betri sýn yfir andlegu hlið sína. Undir álagi hafi hann litla stjórn á hugsunum sínum og hann sé viss um að hann geti náð betri tökum á geðheilsu sinni ef hann fái frið til þess. Andleg einkenni sjúkdómsins geti valdið aðstandendum töluverðum áhyggjum svo að þetta snúist ekki einungis um kæranda.

Prótein sé farið að trufla upptöku á lyfinu. Kærandi taki inn tvær og hálfa töflu á tveggja tíma fresti og hann þurfi að taka að minnsta kosti þrjár töflur þegar hann sé að stunda hreyfingu og þegar hann vakni á morgnanna. Minni kæranda sé orðið verra og hann átti sig á því þegar hann gleymi að taka inn lyfin. Það þurfi ekki að líða nema fimmtán til tuttugu mínútur umfram lyfjatöku til þess að hann upplifi mikinn skjálfta í vinstri hendi og fæti og þurfi að hafa sig allan við til þess að halda skjálftanum niðri. Allur dagurinn fari í að vera vakandi yfir lyfjagjöfinni og að passa tímasetningar til að vera í góðu jafnvægi.

Viðtal kæranda við skoðunarlækni hafi farið fram þegar hann hafði verið frá vinnu síðan 1. apríl 2022. Athyglin í viðtalinu hafi verið á líðan kæranda á venjulegum degi sem í þessu tilfelli hafi verið þegar hann sé laus frá álagi við vinnu. Ekki sé hægt að bera saman líðan á meðan kærandi stundi vinnu annars vegar og hins vegar þegar hann sé frá vinnu, nái að sinna sér betur til að taka ábyrgð á sjúkdómnum og geri lífið bærilegt.

Kærandi geti með engu móti skilið hvers vegna hann fái engin stig í líkamlega hlutanum. Skjálftinn sem hrjái hann sé gríðarlegur sem og uppkrullaðar tær þegar lyfið nái ekki almennilegri upptöku í meltingunni eða þegar hann gleymi að taka það sem komi fyrir þar sem inntaka sé átta til níu sinnum á dag. Í ljósi þess að kærandi þurfi að fasta í eina til eina og hálfa klukkustund fyrir inntöku lyfsins og hálftíma eftir það og hann taki lyfið inn á tveggja tíma fresti, þá segi það sig sjálft að lítið megi út af bregða til þess að upptök á lyfinu í meltingunni eyðileggist. Kærandi þurfi einfaldlega næði til þess að ná stjórn á þessu yfir daginn. Óásættanlegt sé að þurfa að sætta sig við að koma inn á vinnustað og vona að skilningur sé á að hann sé greindur með Parkinsonsjúkdóminn, öllum þætti það erfitt.

Kærandi hafi unnið eins og hestur frá því að hann hafi verið ellefu ára gamall og ekki kveinkað sér. Það sé ekki að ástæðulausu að hann biðli til Tryggingastofnunar um að samþykkja örorkulífeyrisgreiðslur sem geri honum kleift að lifa lífinu eins bærilega og hægt sé. Parkinsonsjúkdómurinn sé einungis í eina átt eins og vitað sé.

 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri, dags. 23. ágúst 2022, með vísan til þess að fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn gæfu ekki til kynna að skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris væri fullnægt. Færni til almennra starfa hafi engu að síður verið talin skert að hluta og því hafi læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk verið talin uppfyllt. Örorka hafi því verið metin 50% tímabundið frá 1. júní 2022 til 31. mars 2025.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inna af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að átján mánuði ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri, sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjenda skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 6. júlí 2022, en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, með þeim rökum að skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris væri ekki fullnægt þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkustaðals. Færni kæranda til almennra starfa hafi engu að síður verið talin skert að hluta og hafi örorkustyrkur því verið veittur. Gildistími örorkumats hafi verið ákveðinn frá 1. júní 2022 til 31. mars 2025. Sú niðurstaða hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 20. september 2022.

Við mat á umsóknum um örorku styðjist tryggingalæknir við fyrirliggjandi gögn. Við örorkumat þann 23. ágúst 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 6. júlí 2022, læknisvottorð, dags. 1. júlí 2022, og spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 7. júlí 2022.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi örorkustyrkur verið ákveðinn á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 23. ágúst 2022, að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis, dags. 23. ágúst 2022.

Á grundvelli skýrslu álitslæknis Tryggingastofnunar vegna viðtals og skoðunar sem hafi farið fram þann 28. apríl 2022 hafi kærandi ekki fengið stig í líkamlega hluta örorkustaðals en sjö stig í þeim andlega. Í andlega þættinum komi fram að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur, að hann kjósi að vera einn sex tíma á dag eða lengur, að andlegt álag hafi átt þátt í því að kærandi hafi lagt niður starf, kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, hann kvíði því að sjúkleiki hans fari versnandi, fari hann aftur að vinna og að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Að mati skoðunarlæknis sé endurhæfing kæranda fullreynd.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi örorkustyrkur verið ákveðinn á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 23. ágúst 2022, að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis, dags. 23. ágúst 2022, þar sem kærandi hafi ekki fengið stig í líkamlega hluta örorkustaðalsins en fengið sjö í þeim andlega. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig en örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri skuli að meginreglu meta samkvæmt staðli, þrátt fyrir að endurhæfing teljist fullreynd. Það sé því nauðsynlegt skilyrði til samþykktar á örorkumati að endurhæfing sé fullreynd en ekki nægjanlegt. Enn fremur sé þessi stigagjöf í samræmi við umsögn skoðunarlæknis í skoðunarskýrslu. Niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar hafi verið sú að skilyrði staðals um hæsta örorkustig væru ekki uppfyllt en að færni kæranda til almennra starfa teldist engu að síður skert að hluta. Á þeim grundvelli hafi örorkustyrkur verið ákveðinn fyrir tímabilið 1. júní 2022 til 31. mars 2025.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengst í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Tryggingastofnun hafi lagt mat á fyrirliggjandi gögn á ný og virt þau í ljósi annarra og nýrri læknisfræðilegra gagna sem liggi fyrir í málinu. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann sé ákveðinn. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 26. ágúst 2022, spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 19. september 2022, og öðrum fyrirliggjandi gögnum sé líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé fullnægt skilyrðum til greiðslu örorkulífeyris. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé færni kæranda til almennra starfa þó skert að hluta.

Mat lækna Tryggingastofnunar hafi verið að athugasemdir kæranda með kæru breyti ekki fyrra mati þess efnis að skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris sé ekki fullnægt. Tryggingastofnun telji það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri en veita honum örorkustyrk þar sem hann uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris en færni hans til almennra starfa teljist skert að hluta. Helst sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og hversu mikið vinnufærni hans teljist skert. Kærandi uppfylli því ekki það skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar um að vera metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat sé heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, þ.e. utan örorkustaðals, ef tryggingayfirlæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki sé í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið eigi við. Þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat verði að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt sé að mati Tryggingastofnunar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda.

Niðurstaða sjálfstæðs mats Tryggingastofnunar sé sú að kærandi uppfylli ekki það skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar til að vera metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Þá sé það einnig niðurstaða Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem geri ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðalsins. Athugasemdir kæranda með kæru gefi ekki tilefni til breytinga á þeirri niðurstöðu.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat í tilviki kæranda á þeim grundvelli að læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri, eins og þau séu útfærð samkvæmt staðli, teljist ekki uppfyllt, sé rétt. Niðurstaðan sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari fram á að staðfest verði ákvörðun stofnunarinnar frá 23. ágúst 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

V.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri en meta honum örorkustyrk vegna tímabilsins 1. júní 2022 til 31. mars 2025. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 1. júlí 2022. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningu:

„Parkinsonsveiki“

Um fyrra heilsufar segir í vottorðinu:

„Hryggbrotnaði í bílveltu -98, ekki neurologískur skaði. Spengdur, spenging síðan fjarlægð síðar.

Þunglyndi og kvíði, áður fengið SSRI meðferð.“

Um sjúkrasögu segir:

„Undirritaður hitti umsækjanda fyrst árið 2017 þar sem eftirfarandi saga kom fram:

„41 ára hraustur maður, nokkurra mánaða saga um stífleika í vi hlið líkama, skjálfta í vi fótlegg í hvíld, t.d. við akstur. Hefur fundið að tær kreppast niður, byrjaði fyrir ca. ári síðan giskar hann. Skjálfti í vi hendi þegar hann er að beita gafflinum, en þó ekki skjálfti þegar færir glas að munni.

Hefur tekið eftir að minnið er aðeins síðra.

Talið höktir/tafsar stundum. Ekki þvoglumæli.“

Taugaskoðun gaf til kynn að Parkinson sjúkdómur væri greiningin, og rannsóknir leiddu ekki annað í ljós. Einnig góð svörun af Levodopa meðferð studdi þessa greiningu. Hefur tekið slíka meðferð með ágætis árangri, þótt hann hafi upplifað sig þurfa býsna háa skammta til að draga úr því sem hann telur hvimleiðasta einkennið, þ.e. skjálfta. Það er nýlega sem hann fann í fyrsta sinn fyrir stífnieinkennum í hægri fæti, eftir 5 ára sjúkdómsgang.

Hann er eins og áður kemur fram, með góða verkun af lyfjum, í hefðbundnum skilningi. Það er skjálfti og vægt jafnvægisleysi sem hann upplifði truflandi, m.a. á vinnustaðnum. Einnig áberandi þreyttur í lok vinnudags.

(Hann er strangt til tekið ekki „óvinnufær“ nema að hluta að mati undirritaðs eins og staðar er nú)“

Varðandi starfsgetu kæranda kemur fram í læknisvottorðinu að kærandi sé óvinnufær að hluta frá júní 2022 til óþekkts tíma. Meginorsök óvinnufærni kæranda er Parkinsonsjúkdómur. Í athugasemd læknis segir í vottorðinu:

„Parkinson er ágengur sjúkdómur, endurhæfing breytir ekki sjúkdómsgangi.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé greindur með Parkinsonveiki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hann finni stirðleika í fótum og svima annað slagið. Kærandi svarar spurningu það hvort hann eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hann fái skjálfta og fótaóeirð og krampa í tær á vinstri fæti þegar lyfin hans virki ekki sem skyldi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með gang þannig að hann fái krampa í tær á vinstri fæti. Hann sé reikull í spori og eigi erfitt með að ganga eftir beinni línu. Þetta eigi við þegar lyfin hans virki ekki sem skyldi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar þannig að hann fái mikinn kyrrstöðuskjálfta á vinstri hendi þegar lyfin virki ekki vel. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að hann fái stirðleika og verki í axlir. Hann rekist í hluti sem hann teygi sig eftir og eigi það til að velta þeim um koll eða ýta fram af borðinu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að honum finnist erfiðara að lyfta þungum hlutum upp fyrir höfuð vegna stífleika. Kærandi svarar spurningu um sjón sína þannig að hann eigi erfitt með að lesa innihaldslýsingar og noti gleraugu til þess. Kærandi svarar spurningu um tal þannig að hann eigi stundum erfitt með að koma orðum rétt frá sér og hökti. Rómurinn sé orðinn lágur og fólk þurfi að biðja hann um að endurtaka það sem hann segi við það. Kærandi svarar spurningu um hægðir og þvag þannig að í tilfellum þegar hægðir séu mjúkar eigi þær til að smitast í nærföt. Hægðatregða sé einnig vandamál. Kærandi svarar spurningu um stjórn á þvaglátum þannig að annað slagið glími hann við mjög stuttan fyrirvara á þörf fyrir að kasta af sér þvagi. Kærandi svarar spurningu um geðræn vandamál þannig að hann finni sterkt fyrir kvíða og þá sérstaklega undir álagi. Þunglyndi sé undirliggjandi og nokkurs konar flatneskja og tilgangsleysi, hann finni síður fyrir tilhlökkun. Í athugasemdum með spurningalistanum greinir kærandi frá því að hann þurfi að taka inn lyf á tveggja klukkustunda fresti yfir daginn. Eftir að hann taki inn Madopar þurfi hálftími að líða þar til hann geti borðað. Eftir að hann borði þurfi hann að fasta í eina og hálfa klukkustund þar til hann geti tekið lyfið inn aftur. Í hvort skipti þurfi hann að taka inn tvær og hálfa til þrjár töflur af 125 mg Madopartöflum. Kærandi greinir frá því að aðstæður séu að koma oftar upp þar sem honum finnist hann þurfi að fela einkenni sjúkdómsins þegar hann sé innan um fólk. Hann glími við dagsyfju vegna lyfjanna sem og þreytu vegna sjúkdómsins og þurfi að leggja sig einu til tvisvar sinnum á dag. Heilaþoka sé oft að angra hann og minnið sé farið að láta taka til sín. Hann sé ekki tilbúinn til að sinna vinnu undir þessu ástandi.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 23. ágúst 2022. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir svo að kærandi glími ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur. Að mati skoðunarlæknis kýs kærandi að vera einn sex tíma á dag eða lengur. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í því að kærandi lagði niður starf. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni, fari hann aftur að vinna. Þar að auki metur skoðunarlæknir það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dags. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu. 

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Kveðst vera 172 cm að hæð og 75 kg að þyngd. Situr í viðtali í 50 mín án þess að standa upp og án óþæginda. Stendur upp úr stólnum án þess að styðja sig við. Góðar hreyfingar í oxlum og kemur höndum afturfyrir bak og afturfyrir hnakka. Nær í 2 kg lóð frá gólfi án vandkvæða. Heldur á 2 kg lóði með hægri og vinstri hendi. Nær í og handleikur smapening með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Eðlilegt göngulag og gönguhraði. Ekki saga um erfiðleika að ganga í stiga og það því ekki testað í viðtali.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Lýsir kvíða þá sérstaklega undir álagi. Undirliggjandi þunglyndi en finnur flatneskju og tilgangsleysi.( finnur síður tilhlökkun) Hefur verið að díla við kvíða frá því að hann var ungur. Hefur farið til sálfræðingar sem yngri. Er nú á Cipramil og verið nokkuð nokkuð lengi.“

Um heilsufars- og sjúkrasögu kæranda segir meðal annars svo í skoðunarskýrslunni:

„Frá 2017 stífleiki og skjálfti. Klaufskur i vi hendi. Taugaskoðun gaf til kynna Parkinson. Talið höktir en ekki þvoglumælgi. Góð svörun levodopa sem að studdi við greiningu. Góður árangur en þurft að auka skammt til að minnka skjálfta. Nýlega farið að bera á stífeika í hægri fæti. Einkenni í dag því skjálfti og vægt jafnvægisleysi. Áberandi þreyta í lok vinnudags. Þarf að leggja sig x1-2 yfir daginn, en dagsyfja er töluvert að angra yfir daginn. Einnig heilaþoka og minnið farið að láta ta Að mati læknis óvinnufær að hluta. Lýsir kvíða þá sérstaklega undir álagi. Undirliggjandi þunglyndi en finnur flatneskju og tilgangsleysi.( finnur síður tilhlökkun) Hefur verið að díla við kvíða frá því að hann var ungur. Hefur farið til sálfræðingar sem yngri. Er nú á Cipramil og verið nokkuð nokkuð lengi.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Vaknar um kl 7 er að reyna að halda reglu. Vaknar í kvíða á morgnana.Tekur lyfið strax og hann vaknar. tekur 1 klst að virka. Er síðan að taka 2-3 töflur á 2 tíma fresti yfir daginn. Fær sér að borða eftir 30 mín frá inntöku. Byrjar í rólegheitum og er farinn að gera teygjuæfingar á morgnana ca 15-20 mín. Ekki verið í sjúkraþjálfun. VIrknin á lyfinu óreglulegri en áður. Fær stundum skjálfta þegar að hann geriri teygjuæfingar og stundum ekki. Þarf að leggja sig í hádeginu. 45 mín. Þreyta vegna sjukdoms og vegna lyfjanna. Einkennandi yfir daginn að hann finnur ekki fyrir sömu fyllingu. Tilgangsleysi. FInnur óþægindi. Gengur á fell x2-3 í mánuði. Nýbúin að kaupa sér hjól og finnst það gott. Fnnur ekki eins fyrir einkennum. Einnig verið að dansa einu sinni í viku. Jafnvægið aðeins farin að trufla sig. Var í D hjá E en hætti í fyrra. Var orðið full erfitt. Þyrfti að gera það aftur en á lægra tempói. Gengur betur með heimilisstörf eftir að hann hætti að vinna. Ekki eins mótiveraður að hreyfa sig og að gera hluti ein og áður. Ekki erfitt líkamlega að gera hluti á heimilli. Fer í búðina og kaupir inn. Eldar og en áhuginn ekki eins mikill og áður. Áhugamál verið útivera. Dans og hreyfing. Les lítið. Er að reyna við hljóðbækur. Finnur að hann þarf að fara skerpa fókus. Er að reyna að finna rútínu. Hefur verið að díla við kvíða lengi. Er að einangra sig og hittir vini í mat í hverri viku. Sækir ekki í að hitta fólk og minni áhugi á fólki. FEr að sofa um kl 22 á kvöldin. Ekki erfitt að sofna. Svefn misjafn. Vaknar ekki úthvíldur.“

Í athugasemdum segir:

„Lítil endurhæfing verið reynd. Parkinson sjúkdómur versnandi og þarf að taka meira og meira af lyfjum. Þarf að taka lyf á 2 tíma fresti og má ekki borða 30 mín eftir að hann tekur lyf. Ef hann gleymir lyfjur þá stífni og skjálfti. Gæti mögulega unnið annað starf en hann kláraði ekki lyklaborðið í fyrra starfi. Var mikið að vinna í tölvu. Ekki verið send beiðni í Virk.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er kæranda ekki metin stig vegna líkamlegrar færniskerðingar. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kjósi að vera einn sex tíma á dag eða lengur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í því að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni ef hann fari aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þar að auki metur skoðunarlæknir það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dags. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknir er andleg færniskerðing kæranda því metin til sjö stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er þó heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að svefnvandamál hafi ekki áhrif á dagleg störf kæranda. Í rökstuðningi skoðunarlæknis fyrir mati á því kemur fram að kærandi eigi að jafnaði ekki erfitt nú með svefn. Í skýrslu C, skoðunarlæknis kemur fram varðandi heilsufars- og sjúkrasögu að kærandi sé áberandi þreyttur í lok vinnudags. Hann þurfi að leggja sig einu sinni til tvisvar yfir daginn og dagsyfja sé töluvert að angra hann. Í læknisvottorði B

kemur fram í sjúkrasögu varðandi það sem læknir telji að valdi óvinnufærni að kærandi sé áberandi þreyttur í lok vinnudags. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þetta atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera aðrar athugasemdir við skoðunarskýrslu en að framan greinir og leggur hana að öðru leyti til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi hefði að hámarki getað fengið átta stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni en engin stig úr líkamlega hlutanum, uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

Í skoðunarskýrslu bendir skoðunarlæknir á endurhæfingarúrræði sem hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að átján mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings, sem er á aldrinum 18 til 67 ára, verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Úrskurðarnefndin telur því rétt að benda kæranda á að kanna hvort hægt sé að reyna endurhæfingu í hans tilviki og hvort hann kunni þá að eiga rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta