Hoppa yfir valmynd

Nr. 264/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 264/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050025

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 12. maí 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2022, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi fyrir foreldra á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka málið til meðferðar að nýju. Til þrautavara er þess krafist að Útlendingastofnun taki til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði til dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi. Hinn 22. júlí 2021 sótti kærandi um dvalarleyfi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga. Grundvallast umsóknin á fjölskyldusameiningu við stjúpson kæranda, sem er með bandarískt og íslenskt ríkisfang og er búsettur á Íslandi. Í hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að skilyrði 72. gr. laga um útlendinga væru ekki uppfyllt. Kemur fram í ákvörðuninni að við vinnslu málsins hafi stofnunin óskað eftir nánari skýringum á skráðu faðerni stjúpsonar kæranda þar sem fram kæmi í fæðingarvottorði stjúpsonarins að faðir hans væri annar maður en kærandi. Engin gögn hefðu borist í málinu varðandi ættleiðingu en fyrirliggjandi væri hjúskaparvottorð sem sýndi að kærandi væri í hjúskap með móður stjúpsonarins. Samkvæmt gögnum málsins var hin kærða ákvörðun upphaflega send á rangt heimilisfang en talsmaður kæranda móttók hana með tölvubréfi 4. maí 2022. Greinargerð kæranda vegna málsins barst kærunefnd útlendingamála 27. maí 2022.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 13. maí 2022 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi geti framfleytt sér sjálfur og sé mjög vel stæður. Umsókn hans hafi verið synjað á grundvelli þess að hann teljist ekki vera foreldri barnsins þar sem hann sé ekki blóðtengdur honum né hafi ættleitt hann. Er vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað haldið því fram að tilvist „fjölskyldulífs“ snúist í grunninn um það hvort raunveruleg persónuleg tengsl séu til staðar á milli aðila. Ekkert hafi komið fram sem bendi til annars en að tengsl kæranda við stjúpson sinn séu raunveruleg og náin. Þá hafi Útlendingastofnun ekki óskað eftir slíkum gögnum. Kærandi geti sýnt fram á slík tengsl með ljósmyndum og þá séu kærandi og stjúpsonur hans reiðubúnir að koma fyrir kærunefnd og lýsa þessum tengslum. Gjörbreytt samfélagsgerð nútíma lýðræðisríkja með áherslu á mannréttindi hafi leitt af sér aðrar fjölskyldugerðir en hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu og stjúpfjölskyldur séu nú orðin algeng fjölskyldugerð. Samkvæmt 1 . mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2003/86/EB sé mælt fyrir um að kjarnafjölskyldan (e. nuclear family) hafi ávallt rétt á fjölskyldusameiningu og þá sé skilgreining á foreldri samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 sem og barnalögum nr. 76/2003 á þann veg að sá sem fari með forsjá barns teljist vera foreldri þess.

Kærandi hafi verið giftur maka sínum frá árinu […] og farið með forsjá stjúpsonar síns síðan hann hafi verið […] ára gamall. Löggjafinn fjalli samt sem áður um forsjárskyldur foreldra í 1. mgr. 29. gr. barnalaga þó svo að það nái einnig til stjúpforeldra sem fari með forsjá barns. Kærandi hafi því farið með forsjá drengsins og gengið honum í föðurstað samkvæmt íslenskum og bandarískum rétti og gert það allt þar til stjúpsonurinn hafi náð 18 ára aldri. Þá hafi kærandi greitt fyrir menntun hans og stutt hann fjárhagslega eftir að hann hafi komist á fullorðinsaldur. Þá er sérstaklega á því byggt að fjölskyldusameining sé ríkur réttur og meginregla í útlendingarétti. Samkvæmt því skuli túlka allar undantekningar á heimild til fjölskyldusameiningar þröngt. Byggir kærandi á því að stjúptengsl rúmist innan hugtaksins „foreldri“ og að túlka beri ákvæði 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga á þann hátt að vafi sé metinn kæranda í hag. Sé slíkt í samræmi við allar helstu lögskýringarkenningar sem almennt séu viðurkenndar í íslenskum rétti. Slík niðurstaða falli vel að samræmisskýringu, túlkun í samræmi við meginreglu sem og eðli máls enda rúmist túlkunin innan merkingarfræðilegs ramma hugtaksins.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Samkvæmt 72. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem á barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greinir í 2.-4. mgr. ákvæðisins. Þá þurfa skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. að vera uppfyllt þegar dvalarleyfi eru veitt á þessum grundvelli. Samkvæmt 2. mgr. 72. gr. er heimilt að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi. Í athugasemdum við ákvæði 72. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. sé efnislega óbreytt frá gildandi löggjöf og taki til foreldra útlendings eða maka hans sem eru eldri en 67 ára og óski eftir því að dveljast hér á landi hjá afkomendum sínum.

Um dvalarleyfi fyrir aðstandendur var kveðið á um í 13. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Kom fram í 2. mgr. 13. gr. að nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. væru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maki í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.

Eins og áður greinir grundvallast umsókn kæranda um dvalarleyfi á fjölskyldusameiningu við stjúpson hans sem er með íslenskt og bandarískt ríkisfang og er búsettur hér á landi. Við meðferð málsins lagði kærandi m.a. fram hjúskaparvottorð þar sem fram kemur að kærandi og móðir stjúpsonar hans hafi gengið í hjúskap 12. júní 2001. Kærunefnd telur því ekki ástæðu til að draga í efa frásögn kæranda um að tengsl hans við stjúpson sinn séu náin og raunveruleg og að hann hafi farið með forsjá hans, ásamt móður hans, um tíma.

Samkvæmt I. kafla A. barnalaga, sem fjallar um foreldra barns, fellur stjúpforeldri ekki undir hugtakið „foreldri“ í skilningi laganna. Samkvæmt 72. gr. laga um útlendinga tekur dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar einungis til útlendings sem á uppkomið barn hér á landi. Í lögunum er ekki að finna ítarlegri skýringu á því hverjir teljast foreldri barns, en lagt hefur verið til grundvallar hjá stjórnvöldum að um sé að ræða börn sem eru kynbörn foreldris. Styðst sú túlkun m.a. við kröfu um gögn hvað varðar ættleiðingu í ákvæði 3. mgr. 71. gr. laganna og athugasemdir með því ákvæði í frumvarpi til laganna. Einnig er ljóst að hafi vilji löggjafans verið sá að veita stjúpforeldrum samskonar rétt og kynforeldrum hefði honum verið í lófa lagið að setja slík ákvæði inn í lögin líkt og hann hefur gert í b-lið 2. mgr. 82. gr. laganna er fjallar um dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-borgara hér á landi. Í ljósi orðalags ákvæðis 72. gr. laga um útlendinga, skilgreiningu laganna á nánustu aðstandendum og með hliðsjón af lögskýringagögnum er liggja að baki því, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að ákvæðið nái til stjúpforeldris útlendings. Með vísan til þess uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá því að eiga náið samband með stjúpsyni sínum sem býr hér á landi. Með tilliti til þess bendir kærunefnd á að kærandi getur lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur þó fram að með þessum leiðbeiningum tekur nefndin enga afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði slíks leyfis.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta