Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 260/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 260/2021

Miðvikudaginn 8. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 25. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. maí 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 29. apríl 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. maí 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Þann 9. maí 2021 óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir synjuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. maí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. maí 2021. Með bréfi, dags. 26. maí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. júní 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. júní 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hún krefjist þess að fá samþykkta örorku og vísar þar til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Engin forsenda sé fyrir áframhaldandi endurhæfingu og hafi ekki verið frá því í mars 2019. Þá hafi læknir úrskurðað að endurhæfing væri fullreynd. Síðan þá hafi kærandi sótt fjórum sinnum um örorkulífeyri en alltaf fengið höfnun á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Hins vegar telji allir þeir læknar sem hún hafi leitað til og séu fagmenn á þessu sviði að endurhæfing sé fullreynd og hafi verið það um tíma.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið í endurhæfingu á B, hjá VIRK og á vegum heimilislæknis og sálfræðings. Nú hafi allir þeir aðilar lokið við þá endurhæfingu sem þeir geti boðið henni og því séu öll þau úrræði sem hún mögulega geti nýtt sér að þrotum komin. Vegna þess vilji hún kæra þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að hafna enn og aftur umsókn hennar um tímabundna örorku. Samkvæmt sálfræðingi sem hafi komið að endurhæfingu hennar, hafi það neikvæð áhrif á endurhæfingu hennar að vera í slíkri óvissu. Endurhæfingarlífeyrir hafi verið samþykktur í stuttan tíma í senn, oft í tvo mánuði, og iðulega sé hún tekjulaus fram yfir þau mánaðamót og jafnvel þá mánuði sem þetta ferli sé í gangi. Telji kærandi að með þessu sé brotið á rétti hennar til framfærslu, sbr. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi óvissa um innkomu sé gríðarlega kvíðavaldandi, hún sé einstæð og hafi ekki fjárhagslegan stuðning annars staðar frá. Kærandi hafi þurft að vera tekjulaus í tvo mánuði eftir að hún hafi verið útskrifuð af B og þar til hún hafi verið tekin þangað inn aftur. Nú sé hún enn og aftur tekjulaus á meðan hún bíði eftir því að leyst verði úr hennar málum, en ef mál hennar leysist ekki núna sjái hún ekki fram á að geta greitt leigu eða framfleytt sér að öðru leyti. Af öllum gögnum sé ljóst að frekari endurhæfing muni bera takmarkaðan árangur þar sem stöðugleikapunkti sé löngu náð. Af þeim sökum ítreki kærandi umsókn sína um tímabundna örorku.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Í reglugerð nr. 661/2020 sé nánar fjallað um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Málavextir séu þeir að við afgreiðslu Tryggingastofnunar hafi legið fyrir umsókn, dags. 29. apríl 2021, læknisvottorð, dags. 28. apríl 2021, spurningalisti, dags. 29. apríl 2021, og greinargerð sálfræðings, dags. 29. apríl 2021. Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. maí 2021, með þeim rökum að endurhæfing væri ekki fullreynd og því ekki tímabært að taka afstöðu til örorku hennar. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað.

Rökstuðningur fyrir synjun umsóknar hafi verið veittur með bréfi, dags. 18. maí 2021. Í því bréfi bendi Tryggingastofnun á að kærandi hafi verið í endurhæfingu í 28 mánuði. Hins vegar sé hægt, við vissar aðstæður, að vera 36 mánuði í endurhæfingu. Gögn málsins beri með sér að ekki sé útilokað að frekari endurhæfing geti gagnast kæranda. Þá sé bent á að VIRK starfsendurhæfing sé ekki eini endurhæfingaraðilinn. Er kæranda bent á að ræða við sína lækna um aðra endurhæfingarmöguleika.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi áður sótt um örorkulífeyri, sbr. umsókn móttekin 24. maí 2019. Þeirri umsókn hafi verið synjað með þeim rökum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest þá synjun með úrskurði þann 29. október 2019 í máli nr. 316/2019.

Í læknisfræðilegum gögnum þessa máls, þar með talið greinargerð Landspítala, dags. 7. janúar 2020, komi fram að kærandi hafi glímt við afleiðingar höfuðhögga sem hún hafi hlotið þegar hún hafi slasast í knattspyrnuleik [...]. Hún hafi fjórum sinnum fengið heilahristing, síðast sumarið [...]. Afleiðingar þessa lýsi sér meðal annars í skerðingu á mállegu minni, það er getunni til að meðtaka og geyma upplýsingar í minni. Hraði í hugsun hafi mælst almennt slakur í taugasálfræðilegum verkefnum og vitsmunaþættir almennt mælst í meðallagi. Kærandi hafi lokið stúdentsprófi og stundi nú nám [...] við Háskóla Íslands. Námsárangur hafi ávallt verið góður en hún þurfi í dag að hafa meira fyrir hlutunum en áður.  Mælt hafi verið með því að hún minnkaði námshlutfall í 50%. Fram komi að hún hafi átt við fíkniefnavanda að stríða en hafi náð góðum tökum á þeim vanda. Mælt hafi verið með aðkomu sálfræðings vegna þunglyndis og streitueinkenna.

Eins og áður sé getið hafi kærandi verið í endurhæfingu í um tuttugu og átta mánuði. Í byrjun árs 2020 hafi umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri verið samþykkt til fjögurra mánaða á grundvelli endurhæfingaráætlunar sem unnin hafi verið af C. Endurhæfing hafi falist í því að auka námshlutfall með stuðningi frá námsráðgjafa, úrræðum til að viðhalda og auka smám saman úthald og styrk og með andlegum þáttum. Framhald hafi verið á endurhæfingu og greiðslu endurhæfingarlífeyris í tvo mánuði frá 1. maí til 30. júní 2020, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 8. apríl 2020. Í kjölfarið hafi verið samþykkt nýtt endurhæfingartímabil fram til 31. desember 2020 sem hafi meðal annars byggt á skýrari markmiðssetningu í ljósi upplýsinga um ýmsar áskoranir sem upp hafi komið vegna náms við Háskóla Íslands sem og styrkingu líkamlegra og andlegra þátta.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 10. nóvember 2020, sé saga kæranda rakin nánar og lýst afleiðingum heilahristings sem að framan sé nefndur. Hún finni fyrir miklum þrýstingi í höfðinu, sé oft mjög þreytt og upplifi sjóntruflanir. Síðan slysið hafi orðið hafi hún verið með stöðugan en misslæman höfuðverk, hún þoli illa áreiti svo sem birtu, hljóð og áreynslu. Verkur versni og hún fái svima og sjóntruflanir og flökt fyrir augum. Hún þreytist fljótt og haldi einbeitingu mest í tíu mínútur. Henni gangi illa að lesa og minni sé slæmt. Henni finnist hún hafa tekið miklum framförum frá því hún kom í þjónustu VIRK. Hún sé enn með þrýsting í höfði og fái annað slagið svima við ýmsar aðstæður en finnist jafnvægið betra en það vanti enn upp á það. Hún hafi ekki verið að detta og meiða sig. Fram komi að kærandi hafi átt við fíknivanda að etja frá xx ára aldri. Kærandi hafi farið á D og í E og sé núna búin að vera edrú í tvö og hálft ár og stundi AA fundi minnst þrisvar í viku. Kærandi hafi verið í tíu mánuði í þjónustu á vegum VIRK og hafi einnig lokið umfangsmikilli endurhæfingu á B og sinnt starfsendurhæfingu vel sem hafi reynst henni vel og hún sé ánægð með árangurinn. Enn vanti þó upp á þrek og minni en hún hafi hlotið margháttuð verkfæri til að nota í áframhaldandi endurhæfingu á eigin vegum. Að mati VIRK sé heilsubrestur enn til staðar sem valdi óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá VIRK sé talin fullreynd. Raunhæft sé talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. janúar 2021, hafi umsókn um endurhæfingarlífeyri verið samþykkt til fjögurra mánaða út frá endurhæfingaráætlun sem útbúin hafi verið af Heilsugæslunni F fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. apríl [2021.]  Í þeirri áætlun sé meðal annars vísað til þess að von sé á því að einkenni vegna mars á heilavef gangi til baka á næstu árum. Tíminn sé því dýrmætur og kveðist kærandi ætla að nota þennan tíma til að afla sér menntunar. 

Með framangreindri ákvörðun hafi Tryggingastofnun verið búin að meta endurhæfingartímabil í tilviki kæranda með greiðslu endurhæfingarlífeyris í samtals tuttugu og átta mánuði.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er í kjölfarið vísað til svara kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar sem fylgdi með umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 29. apríl 2021, og greinargerðar sálfræðings, dags. 29. apríl 2021, sem fylgdi með umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Læknisvottorð, dags. 28. apríl 2021, sé í samræmi við framangreind gögn. Greint sé frá vaxandi höfuðverk síðustu mánuði, einkum á nóttunni. Hún hafi af þeim sökum fengið meðferð hjá taugalækni í apríl síðastliðnum sem hafi reynt að sprauta hana með botoxi allan hringinn í ennishæð. Hún fari aftur í júlí næstkomandi. Í stórum dráttum sé ástand hennar óbreytt.

Eins og áður segi hafi synjun á umsókn kæranda um örorkulífeyri verið studd þeim rökum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Bent hafi verið á að Tryggingastofnun hafi þá verið búin að meta endurhæfingartímabil með greiðslu endurhæfingarlífeyris í samtals 28 mánuði. Hins vegar sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í alls 36 mánuði eins og fram komi í bréfi stofnunarinnar þann 18. maí 2021. Gögn málsins beri með sér að ekki sé útilokað að frekari endurhæfing geti gagnast kæranda. Þá hafi verið bent á að VIRK starfsendurhæfing sé ekki eini endurhæfingaraðilinn á þessu sviði. Henni hafi verið bent á að ræða við sína lækna um aðra endurhæfingarmöguleika.

Að mati Tryggingastofnunar verði ekki ráðið af læknisfræðilegum gögnum að tilefni sé að ætla að færniskerðing kæranda um þessar mundir og til frambúðar sé á því stigi sem skilyrði séu gerð um samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, sbr. reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun hafi bent kæranda á að hún hafi ekki fullnýtt réttindi sín til endurhæfingarlífeyris og að möguleiki sé á því að lengja endurhæfingartímabil, berist endurhæfingaráætlun sem feli í sér meðferð, stuðning og endurhæfingu sem mögulega geti leitt til bættrar líðanar og færni, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum, sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar, í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. maí 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð G, dags. 28. apríl 2021. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„HÖFUÐVERKUR

LÍKAMLEG VANLÍÐAN

POSTCONCUSSIONAL SYNDROME

BRADYCARDIA, UNSPECIFIED

INSOMNIAS“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Sjá fyrri skýrslur, einkum beiðni um endurhæfingu dags 1/12 2020

Er að klára helming af annari önn, Erfitt en fer lokapr á föstud.

Verið með vaxandi höfuðverk síðustu mán, einkum á nóttunni. Fór til Taugalæknis, M, 21. apríl, sem hefur reynt að sprauta með botox, allan hringinn í ennishæð. Fer aftur til hans í júlí

Varðandi áætlunina sem við gerðum í des:

Göngutúrar áfram eftir getu

Nám, geta'ð stundað það. Lokapróf f 2 áfanga í vikunni

Sund: EKki farið í það. Lokað og nú með svima.

Viðtöl hjá heimilislækni x1 í mánuði

VIðtöl áfram hjá sálfræðingi. Skýrsla þaðan væntanleg. En í stórum dráttum viðhaldsmeðf á heilsu

Ekkert verið í sjúkraþjálfun,

Í stórum dráttum óbreytt ástand, en sennilega velur smá streita, svo sem námið höfðuverknum.

VIRK endurhæfing fullreynd í bili

Spurn um tímabundna örorku“

Um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„Vægur heilaskaði eftir höfuðáverka [...]. Endurhæfing skilað nokkru, og getað stunda nám en ekki meir en það“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi:

„Sjá að ofan. Kemur vel fyrir. Hikstar áfram á orðum og þarf aðeins lengri tíma til að tjá sig en annað fólk. Adekvat í svörum

Notar dekkt gleraugu, er ljósfælin, alltaf eitthvað flökt í sjóninni“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni hennar aukist með tímanum.

Enn fremur liggja fyrir læknisvottorð G, dags. 1. desember 2020, og H, dags. 8. júní 2020, vegna eldri umsókna kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Í dagál I sálfræðings, dags. 7. janúar 2020, segir um ráðleggingar:

„Mælt er með að A sé áfram skráð í 50% nám á vorönn 2020 vegna þeirra hugrænu veikleika sem hún glímir enn við og auki svo við sig næstkomandi haust. Ráðlagt er að A haldi áfram að nýta sér þær ráðleggingar sem hún hefur fengið varðandi minnis-og skipulagshjálp, orkubókhaldið, forgangsröðun verkefna og fleira, jafnt í námi sem utan. Einnig er mikilvægt að huga vel að grunnþörfum eins og næringu og svefni. Mælt er með aðkomu sálfræðings vegna þunglyndis og streitueinkenna, en A kveðst munu sjálf leita sér aðstoðar hvað það varðar ef henni þykir ástæða til. Einnig ræðum við almennt um andlega heilsu, eftirheilahristingsheilkenni og hættuna á að oftúlka t.d. eðlilega gleymsku sem eitthvað sjúklegt, vegna sögu um heilahristing. Mikilvægt er að A sýni sér samkennd og leyfi sér að gera mistök og læri af þeim.“

Í greinargerð J, félagsráðgjafa og EMDR meðferðaraðila, dags. 29. apríl 2021, segir:

„Til mín hefur leitað A, í EMDR áfallameðferð. A kom fyrst í viðtal þann 23.október 2020 og hefur síðan þá verið mjög reglulega í viðtölum hjá mér og lagt á sig mikla vinnu.

A sýnir mikil einkenni áfallastreituröskunar sem við höfum unnið mikið í síðast liðna mánuði. En sú staðreynd A sé stöðugt í ótta, kvíða og óöryggi um afkomu sína, stöðugleika og öryggis hefur gríðarlega mikil áhrif á hana og því andlega jafnvægi sem mikilvægt er að ná svo að meðferð skili tilsettum árangri. Hún er undir mikilli andlegri streitu vegna þessa sem virðist einnig hafa áhrif á þær afleiðingar sem höfuðhöggin hafa valdið henni. Um er að ræða unga konu sem hefur mikinn metnað i lífinu en er að takast á við mjög erfiða, óhefðbundna og flókna stöðu sem veldur henni mikilli vanliðan. Sú staðreynd að hún þurfi stöðugt að hafa áhyggjur af fjárhag sínum, að missa ibúðina sem hún býr í, ásamt öðru, er að hafa áhrif á nám hennar ásamt andlegri og likamlegri heilsu.

Það er mitt faglega mat að A þurfi nauðsynlega að fá tímabundna örorku samþykkta til þess að hafa örugga undirstöðu til að byggja líf sitt upp á ný. Eins og staðan er núna er sú undirstaða, að mínu mati, ekki til staðar sem veldur henni mikilli angist og erfiðleikum. Endurhæfing virðist ekki hafa skilað tilteknum árangri og því er mikilvægt , að mínu mati, að ástand hennar sé skoðað með tilliti til þess.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 4. nóvember 2020, kemur fram að líkamlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda og andlegir þættir hafi talsverð áhrif. Í samantekt og áliti segir:

„A er xx stúlka. Hún hefur fjórum sinnum fengið heilahristing, [...] í knattspyrnuleik. [..] A man ekki eftir að hafa farið aftur inn á völlinn, og man ekki eftir sér fyrr en á bráðamóttökunni. Hún var með tvísýni lengi á eftir, sem og höfuðverk sem hún upplifir enn. Nú finnur hún fyrir miklum þrýstingi í höfðinu, er oft mjög þreytt og upplifir sjóntruflanir. Síðan slysið varð hefur hún verið með stöðugan en misslæman höfuðverk, hún þolir illa áreiti svo sem birtu, hljóð og áreynslu. Verkur versnar og hún fær svima og sjóntruflanir, flökt fyrir augum. Hún þreytist fljótt, heldur einbeitingu mest í 10 mín. Gengur illa að lesa og minni er slæmt. Segist oft villast og fara annað en hún ætlaði sér. A var mjög sterk í stærðfræði áður og fannst hún skemmtileg en á núna í erfiðleikum með hana en lærði hjá K taugsálfræðing leiðir til að draga úr þeim einkennum. A er að taka hálft ár [...]í HÍ. Henni finnst hún hafa tekið miklum framförum frá því hún kom í þjónustu Virk. Hún er enn með þrýsting í höfði og fær annað slagið svima við ýmsar aðstæður og finnst jafnvægið betra en vantar enn upp á. Hún hefur ekki verið að detta og meiða sig. A varð illa áttuð fyrir um mánuði í tvígang og leið yfir hana heima og fór í tvígang á BRM og var rannsökuð þar sem hún var með hægan púls og ekki fannst nein skýring og CT af höfði eðlileg.

Hefur átt við fíknivanda að etja frá xx ára aldri. Farið á D og E og er núna búin að vera edrú í 2 1/2 ár og stundar AA fundi minnst þrisvar í viku.

Einnig saga um búlemíu og A fór í nokkra vikna daglegt prógrammi á L 30.8. 2018 en kláraði ekki meðferð þar sem hún var kölluð inn á B áður. Henni finnst þessi tími á L hafa dugað sér til að ná að vinna með einkenni búlemíu.

A hefur verið í 10 mánuði í þjónustu, hefur einnig lokið umfangsmikilli endurhæfingu á B. Hefur sinnt starfsendurhæfingu vel og m.a. fengið aðstoð taugasálfræðings. Verið í hlutanámi og aukið við sig milli anna, stefndi á fullt nám haustönn 2020 en treysti sér ekki til þess. Er nú að reyna við 50-60% nám sem reynist henni krefjandi.

A hefur verið í 10 mánuði í þjónustu og hefur einnig lokið umfangsmikilli endurhæfingu á B og sinnt starfsendurhæfingu vel sem hefur reynst henni vel og hún ánægð með árangurinn en vantar enn upp á þrek og minni en hefur hlotið margháttuð verkfæri til að nota í áframhaldandi endurhæfingu á eigin vegum og telst starfsendurhæfing fullreynd og hún metin fær til að stunda nám að hluta til.

10.11.2020 18:24 - N

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin fullreynd.

Raunhæft er talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

A hefur verið í 10 mánuði í þjónustu og hefur einnig lokið umfangsmikilli endurhæfingu á B og sinnt starfsendurhæfingu vel sem hefur reynst henni vel og hún ánægð með árangurinn en vantar enn upp á þrek og minni en hefur hlotið margháttuð verkfæri til að nota í áframhaldandi endurhæfingu á eigin vegum og telst starfsendurhæfing fullreynd og hún metin fær til að stunda nám að hluta til.“

Í fyrirliggjandi spurningalistum vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, dags. 29. apríl 2021, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda greinir kærandi frá eftirheilahristingsheilkenni. Af svörum hennar verður ráðið að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja, svima, yfirliðs og sjóntruflana. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hún sé með áfallastreitu vegna höfuðhöggsins.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um frekari endurhæfingarúrræði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum og líkamlegum toga og að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í tuttugu og átta mánuði. Í læknisvottorði G, dags. 28. apríl 2021, segir að kærandi sé óvinnufær en búast megi við því að færni hennar aukist með tímanum. Þá er enn fremur tekið fram í vottorðinu að endurhæfing kæranda hafi skilað nokkru. Í starfsgetumati VIRK, dags. 4. nóvember 2020, kemur fram starfsendurhæfing hjá VIRK sé talin fullreynd. Í starfsgetumatinu er einnig tekið fram að raunhæft sé talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði og hún sé metin fær til að stunda nám að hluta til. Þá er enn fremur tekið fram að kærandi hafi hlotið margháttuð verkfæri til að nota í áframhaldandi endurhæfingu á eigin vegum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé fullreynd en ekki verður dregin sú ályktun að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður hvorki ráðið af læknisvottorði G né eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gangi. Matsgerð R barnataugalæknis breytir ekki því mati nefndarinnar. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 28 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta