Mál nr. 46/2002
Þriðjudaginn, 19. nóvember 2002
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.
Þann 10. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 9. júlí 2002.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, með bréfi dags. 26. apríl 2002.
Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 10. apríl 2002, sbr. bréf dags. 26. apríl 2002 verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Tryggingastofnun ríkisins að ákvarða greiðslur til kæranda í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 95/2000.
Um málavexti segir í kærubréfi:
"Með bréfi dags. 10. apríl 2002 synjaði Tryggingastofnun umsókn minni um fæðingarstyrk námsmanna með vísun í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, og sagði að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti ég ekki skilyrði um fullt nám. Með bréfi, dags. 17. apríl 2002, óskaði ég eftir að Tryggingastofnun endurskoðaði umsókn mína þar sem ástæða þess að ég lauk ekki prófum í desember 2001 voru veikindi undir lok haustmisseris. Með bréfinu lét ég fylgja afrit af bréfi frá LÍN, dags. 25. mars 2002 þar sem fram kom að sjóðurinn hafði tekið tillit til þessara veikinda á haustmisseri og veitt mér 75% lán. Með bréfi, dags. 26. apríl 2002 hafnaði Tryggingastofnun enn á ný umsókn minni og sagði engar nýjar upplýsingar hafa komið fram og því stæði fyrri úrskurður óhaggaður. Stofnunin gerir því enga tilraun til að leggja mat á þær upplýsingar sem fyrir hana voru lagðar í bréfi mínu frá 17. apríl 2002."
Þá segir svo í kærubréfi um málsástæður og réttarheimildir sem kærandi byggir kröfur sínar á:
" 1. Skortur á lagastoð
Í 19. gr. fæðingarorlofslaga kemur fram að foreldrar í fullu námi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. Í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er síðan skýrt út hvað fullt nám í skilningi laga um fæðingarorlof er, en það 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun og varla þarf að deila um það hér að Háskóli Íslands teljist viðurkennd menntastofnun. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er síðan ákvæði um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur, en ekki er að sjá við skoðun laga um fæðingarorlof að heimild sé í lögunum fyrir að setja þetta skilyrði í reglugerðinni. Ákvæði reglugerðarinnar skortir því lagastoð.
2. Krafa um námsárangur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar
Ef úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar hafi lagastoð þá er hér ekki um skylduákvæði að ræða heldur heimild sem Tryggingastofnun er veitt. Með öðrum orðum er það ekki fortakslaus skylda að viðkomandi sýni námsárangur til að eiga rétt á greiðslum sem námsmaður. Nægjanlegt er að viðkomandi leggi fram staðfestingu frá viðkomandi skóla að hann sé skráður í skólann.
Enga skýringu er hins vegar að finna í reglugerðinni á því í hvaða tilvikum heimilt sé að krefjast þess að námsárangur sé sannaður. Ljóst má þó vera að ekki hefur verið ætlast til að það þyrfti í öllum tilvikum, ef svo hefði verið hefði ákvæðið verið orðað skýrar og þess krafist afdráttarlaust að umsækjendur þyrftu í öllum tilvikum að sýna fram á námsárangur. Í staðinn þá eftirlætur reglugerðin Tryggingastofnun eftir mat á því í hvaða tilvikum rétt er að krefjast námsárangurs. Við það mat verður stofnunin að sjálfsögðu að gæta sanngirnis og hafa einhverjar málefnalegar ástæður til að krefja umsækjanda um námsárangur. Af bréfum Tryggingastofnunar er ekki hægt að sjá að það hafi verið gert og í raun er á engan hátt hægt að sjá hvaða ástæður liggja að baki því að í þessu tilviki skuli gerð krafa um námsárangur.
Ég hef verið nemandi í Háskóla Íslands frá því á haustmisseri 1999 og lokið tilskildum árangri til að fá námslán frá LÍN fyrir sama tímabil. Sú staðreynd að ég veikist í nóvember s.l. og í framhaldi af því tek ekki haustmisserispróf í desember á ekki að verða þess valdandi að ég missi rétt til fæðingarstyrks námsmanna. Fram að þessum tíma hafði ég skilað fullnægjandi námsárangri, sbr. yfirlit frá nemendaskrá Háskóla Íslands, sem fylgdi með umsókninni. Sá gjörningur nú að krefjast námsárangurs á grundvelli heimildarákvæðis í reglugerð án þess að á nokkurn hátt að tekið sé tillit til fyrri námsframvindu getur því ekki staðist.
Þá er einnig rétt að ítreka hér að LÍN hefur metið það svo að ég hafi verið við nám í Háskóla Íslands á síðasta haustmisseri og því átt rétt á námsláni fyrir haustmisserið, sbr. hjálagt bréf. Erfitt er að sjá rök fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins setji upp einhvern annan mælikvarða á fullt nám en LÍN notar.
Með vísun í ofangreint fer ég fram á að Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taki kröfu mína til greina."
Með bréfi, dags. 2. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 13. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:
"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.
Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Er Tryggingastofnun heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur, sbr. 2. mgr. 14. gr. Í 14. gr. er að finna undantekningar sem heimila greiðslu fæðingarstyrks námsmanna þrátt fyrir að skilyrðið um nám sé ekki uppfyllt og verður að telja að um tæmandi talningu sé þar að ræða.
Vegna veikinda á meðgöngu sagði kærandi sig úr öllum fögum á haustönn 2001. Í ffl. eða reglugerð ekki gert ráð fyrir að tekið sé tillit til þeirra aðstæðna við ákvörðun á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna sbr. ofangreint. Af þeirri ástæðu var kæranda ákvarðaður lægri fæðingarstyrkur.
Rétt er að nefna, vegna ummæla í kæru um 2. mgr. 14. gr. rgl. nr. 909/2000 að, að áliti lífeyristryggingasviðs felst ekki í ákvæðinu heimild til mats á því í hvaða tilvikum námsárangur sé skilyrði greiðslu fæðingarstyrks námsmanna og hvenær heimilt sé að líta fram hjá því hvort námsframvinda hafi orðið. Fremur er um að ræða heimild til að afla frekari staðfestingar á námsárangri, leiki vafi á því að skilyrðið um nám sé uppfyllt."
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 26. ágúst 2002, þar segir m.a.:
"Vegna ummæla í greinargerð Tryggingastofnunar um túlkun á 2. mgr. 14. gr. rgl. nr. 909/2000, þ.e. að um sé að ræða heimild til að afla staðfestingar á námsárangri, leiki vafi á því að skilyrði um nám sé uppfyllt, er þetta að segja. Óumdeilt ætti að vera að ég stundaði nám við Háskóla Íslands á umræddu tímabili. Ég sótti tíma við Háskólann fram að þeim tíma er ég veikist og ég fékk einnig námslán frá LÍN fyrir sama tímabil, sbr. fylgiskjal með kæru minni. Tel ég mig því uppfylla öll þau skilyrði sem 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar tiltekur um hvað teljist vera fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt þeim skilningi sem nú kemur fram hjá Tryggingastofnun á aðeins að kalla eftir staðfestingu á námsárangri ef vafi leikur á að skilyrði um nám sé uppfyllt. Sá vafi er ekki til staðar í þessu máli sbr. ofangreint."
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.
Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.
Fjallað er um veikindi á meðgöngu þegar viðkomandi er á vinnumarkaði í 4. mgr. 17. gr. ffl. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Hvorki lögin né umrædd reglugerð taka á veikindum námsmanna af sama tilefni.
Kærandi ól barn 21. apríl 2002. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 21.apríl 2001 til fæðingardags barns.
Kærandi var skráð sem stúdent við Háskóla Íslands, á vor- og haustmisseri 2001 svo og á vormisseri 2002. Kærandi lauk fimm einingum á vormisseri 2001 og níu einingum sumarið 2001, en sagði sig úr öllum prófum á haustmisseri 2001 svo og á vormisseri 2002. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands telst fullt nám við skólann vera 15 einingar á misseri. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur. Með hliðsjón af því verður ekki talið að skráning í nám geti ein sér talist nægjanleg til þess að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanns í fæðingarorlofi óháð framvindu náms. Við mat á því hvort kærandi hafi verið í fullu námi og eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður er því ekki unnt að líta framhjá námsárangri hennar í Háskóla Íslands á viðmiðunartímabilinu. Með hliðsjón af því sem fram kemur um námsárangur í gögnum málsins verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75?100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.
Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur fæðingarstyrks er staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Ósk Ingvarsdóttir