Hoppa yfir valmynd

Nr. 338/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 338/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20090002 og KNU20100004

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU20050037, dags. 20. ágúst 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2020, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 24. ágúst 2020. Þann 31. ágúst 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Þann 2. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telur að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, auk þess sem að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum.Í greinargerð kæranda kemur fram að í frásögn hans hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að hann hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi í heimaríki og misst fjölskyldumeðlim. Þá beri gögn málsins með sér að kærandi glími við áfallastreituröskun. Því telur kærandi að hann falli undir fleiri en eitt þeirra atriða sem talin séu upp í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6459/2019 þar sem talið var að upplýsingar um heilsufar gætu haft verulega þýðingu við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi að leiða til þess að mál sé tekið til efnismeðferðar. Kærandi telur þau sjónarmið sem áttu við í þessu máli eigi við í sínu máli þar sem vísbendingar hafi legið fyrir áður en ákvörðun stjórnvalda var tekin að kærandi glímdi við alvarlega fylgikvilla þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir. Kærandi telur ótækt að kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð sinn áður en fullnægjandi gögn hafi legið fyrir og því sé um að ræða brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.

Kærandi byggir á því að hann eigi rétt á efnismeðferð enda sé meginreglan sú að umsóknir um alþjóðlega vernd skuli hljóta efnismeðferð. Kærandi vísar til þess að túlka skuli undantekningar frá meginreglu þröngt og að 2. mgr. 36. gr. m.a. sé ætlað að þrengja undantekningarheimild stafliða 1. mgr. 36. gr. enn frekar. Kærandi byggir á því að hann sé einstaklingur í afar viðkvæmri stöðu með tilliti til fyrirliggjandi heilsufarsupplýsinga og að staða hans sem viðkvæmur einstaklingur m.a. með vísan til 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, teljist í hans tilviki til sérstakra ástæðna m.a. vegna þess að aðgangur umsækjenda um alþjóðlega vernd að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og húsnæði sé ábótavant í Rúmeníu.

Fallist kærunefnd útlendingamála ekki á að tilefni hafi verið til að rannsaka heilsufar kæranda nánar á fyrri stigum er því haldið fram að nú séu komnar nýjar upplýsingar sem séu þess eðlis að óhjákvæmilegt sé annað en að taka málið upp að nýju á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi vísar til læknabréfs dags. 28. ágúst 2020 þar sem fram kemur að heilsa hans sé talsvert verri en þau gögn sem lágu fyrir hjá Útlendingastofnun og kærunefnd gáfu til kynna. Bendi gögnin til þess að kærandi þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun vegna þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir. Kærandi vísar til þess að áfallastreituröskun sé alvarleg geðröskun sem hafi verulega þýðingu við mat á því hvort að rétt sé að taka mál umsækjanda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Jafnframt hafi kærandi leitað á bráðamóttöku geðsviðs m.a. þann 1. september sl. og því sé ljóst að heilsa hans sé talsvert verri en gert var ráð fyrir við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar.

Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi eru í málinu og hvernig ofangreindar upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins telur kærandi að fullt tilefni sé til að endurupptaka mál hans.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi byggir beiðni um endurupptöku m.a. á því að úrskurður í máli hans hafi verið byggður á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og er í því sambandi vísað til nýlegra heilsufarsgagna þar sem fram kemur að hann hafi leitað á bráðamóttöku geðsviðs í tvö skipti m.a. vegna kvíða, áfallastreituröskunar og sjálfsvígshugsana.

Kærandi vísar í erindi sínu til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6459/2019 frá 20. desember 2019. Íslenska ríkið áfrýjaði umræddum dómi til landsréttar. Þann 25. júní sl. gerðu aðilar þess máls með sér dómsátt á grundvelli 4. mgr. 108. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sáttin var gerð vegna þeirrar óvissu sem ríkti á Ítalíu vegna Covid-19 faraldursins en stefnandi málsins féll frá öllum öðrum málsástæðum sem hafðar voru uppi fyrir héraðsdómi. Með dómsáttinni féllu öll réttaráhrif dómsins niður. Eins og talsmanni kæranda er vel kunnugt um, en hann stóð að sátt í ofangreindu dómsmáli, hefur dómurinn því hvorki þýðingu fyrir aðila dómsmálsins né fordæmisgildi fyrir það mál sem hér er til umfjöllunar.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 20. ágúst 2020, grundvallaðist mat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda á fyrirliggjandi heilsufarsgögnum sem báru með sér að kærandi glímdi við verki og eftirköst skotárásar sem hann hafði orðið fyrir í heimaríki. Jafnframt báru framlögð heilsufarsgögn með sér að engin tiltæk meðferð væri í boði fyrir kæranda önnur en verkjastillandi lyf en læknar töldu skurðaðgerð ekki koma til greina. Þá kom fram í komunótum frá Göngudeild sóttvarna að kærandi hafi hitt sálfræðing þar í tvígang, þann 6. apríl og 11. maí 2020. Í nótum sálfræðings, dags. 6. apríl 2020 kom m.a. fram að kærandi hefði greint frá ótta, kvíða og svefnerfiðleikum. Í tölvupósti frá talsmanni kæranda til kærunefndar þann 14. ágúst 2020 var greint frá því að illa gengi að verkjastilla kæranda auk þess sem hann væri með miklar aukaverkanir af verkjalyfjunum.

Í beiðni sinni vísar talsmaður ranglega til þess að kærandi ætti endurkomu hjá sálfræðingi þann 28. ágúst sl. og að kærunefnd hefði átt að bíða eftir niðurstöðu þess tíma. Hið rétta er að kærandi átti tíma hjá lækni en ekkert í gögnum málsins benti til þess að frekari gagnaöflun hefði getað haft áhrif á niðurstöðu málsins. Engin rök standa því til þess að bíða hefði átt eftir þeim gögnum sem til yrðu við umrædda læknisheimsókn. Þegar kærunefnd úrskurðaði í málinu þann 20. ágúst 2020 var það því mat nefndarinnar að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda væru ekki þess eðlis að þær teldust til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Þá báru þau gögn sem kærunefnd kynnti sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Rúmeníu með sér að þeir ættu rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Í göngudeildarnótu frá Göngudeild geðþjónustu dags. 1. september 2020 kemur m.a. fram að kærandi virðist mjög veikur af áfallastreituröskun. Hann sé þunglyndur og sjálfsvígshugsanir séu til staðar. Jafnframt kemur fram að kærandi sé í viðunandi sálfræðimeðferð en þörf sé á lyfjameðferð til að tryggja svefn og minnka þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Í göngudeildarnótu frá Göngudeild fíknigeðmeðferðar, dags. 7. september sl., kemur þá m.a. fram að kærandi sé með veruleg einkenni áfallastreituröskunar, kvíðaköst og versnandi sjálfsvígshugsanir. Hann þarfnist bráðrar eftirfylgdar vegna sjálfsvígshættu og mögulega lyfjameðferð í kjölfarið.

Það er mat kærunefndar þegar litið er til eðlis gagnanna, þeirrar aðstöðu sem kæranda má vænta við endurkomu til viðtökuríkis, þ.m.t. aðgengis að þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann virðist þarfnast, forsendna úrskurðar kærunefndar útlendingamála og málsins í heild að fallast beri á að ný gögn og upplýsingar hafi komið fram sem sýni fram á að aðstæður í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og tilefni sé til að skoða mál hans aftur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem liggja fyrir. Er því efni til endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

Í ljósi þess að endurupptökubeiðni kæranda hefur verið samþykkt leiðir það til þess að upphaflegur úrskurður kærunefndar í máli nr. KNU20050037 hefur fallið úr gildi. Hefur það því ekki þýðingu fyrir mál kæranda að taka upphaflega beiðni hans um frestun réttaráhrifa, dags. 31. ágúst 2020, á umræddum úrskurði til úrlausnar og er henni hér með vísað frá.

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

The appellant‘s request for re-examination of his case is granted.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta