Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2015 úrskurður 19. janúar 2015

Mál nr. 1/2015                       Millinafn:       Hemmert

 

 

 

Hinn 19. janúar 2015 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 1/2015 en erindið barst nefndinni 19. desember 2015:

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá liggur fyrir að nafnið Hemmert hafi verið borið sem ættarnafn en nú beri það enginn í þjóðskrá. Eiginnafnið Hemmert er jafnframt á mannanafnskrá sem karlmannsnafn.  Þjóðskrá Íslands hefur óskað afstöðu mannanafnanefndar um hvort nafnið fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn nr. 45/1996 til að vera tekið á skrána sem millinafn.

Um skilyrði þess að millinafn sé heimilt samkvæmt lögum  nr. 45/1996 um mannanöfn er að meginstefnu fjallað um í 2. mgr. 6. gr. laganna. Ein reglan í þeim efnum er sú að millinafn skuli dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Enn fremur er kveðið á um þá skipan að nöfn sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna séu ekki heimil sem millinöfn.

 

Fyrir liggur að millinafnið Hemmert er ekki dregið af íslenskum orðstofnum. Sem millinafn hefur það enga hefð í íslensku máli. Enn fremur hefur nafnið stöðu eiginnafns. Með vísan til þessa er ekki hægt að fallast á beiðni þessa á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Kemur þá til skoðunar hvort beita eigi 3. mgr. þessa sama lagaákvæðis.

 

Í 3. mgr. 6. gr. laganna segir að millinafn sem víki frá 2. mgr. sé þó heimilt þegar svo stendur á að „eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn.“ Í 4. mgr. 7. gr. segir enn fremur að ættarnafn sé heimilt sem millinafn hafi „eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn“.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að umsækjandi eigi rétt á því að taka nafnið upp sem sérstakt millinafn á grundvelli skilyrða í. 3. mgr. 6. gr. eða 4. mgr. 7. gr. sömu laga.

Eins og mál þetta er vaxið, og með vísan til þess sem þegar hefur verið rakið, er óhjákvæmilegt að hafna beiðni um að Hemmert verði leyft sem millinafn.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Hemmert er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta