Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 47/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála, aðgangur að gögnum.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. ágúst 2024
í máli nr. 47/2023:
Intuens Segulómun ehf.
gegn
Sjúkratryggingum Íslands,
Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf.,
Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og
Íslenskri myndgreiningu ehf.

Lykilorð
Aðgangur að gögnum.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála lagði til grundvallar að I ætti rétt til aðgangs að athugasemdum SÍ sem voru lagðar fram í kjölfar beiðni nefndarinnar. Þá var lagt til grundvallar að MH, LM og ÍM skyldu eiga rétt til sama aðgangs að skjalinu.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 24. nóvember 2023 kærði Intuens Segulómun ehf. (hér eftir „kærandi“) kaup Sjúkratrygginga Íslands (hér eftir „varnaraðili“) á myndgreiningarþjónustu án útboðs.

Kærunefnd útboðsmála sendi erindi til varnaraðila 1. ágúst 2024. Með erindinu var óskað eftir upplýsingum um fjárhæðir þeirra greiðslna sem varnaraðili hefði greitt Íslenskri myndgreiningu ehf., Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. (hér eftir sameiginlega „hagsmunaaðilar“), annars vegar á síðastliðnum 48 mánuðum og hins vegar frá og með júní 2023 til og með nóvember sama ár. Þá óskaði kærunefndin eftir að varnaraðili myndi taka afstöðu til þess hvort að 117. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kynni að eiga við í málinu og, eftir atvikum, rökstyddi með hvaða hætti skilyrðum ákvæðisins væri uppfyllt. Loks var óskað eftir upplýsingum um hversu langan tíma varnaraðili þyrfti til að ljúka nýju innkaupaferli vegna innkaupa á þjónustu við læknisfræðilegar myndgreiningar.

Varnaraðili svaraði erindinu 9. ágúst 2024 og lagði fram athugasemdir með umbeðnum upplýsingum. Á sama degi barst kærunefndinni tölvupóstur frá Íslenskri myndgreiningu ehf. þar sem þess var krafist að þær upplýsingar sem nefndin hefði óskað eftir, þá einkum fjárhæðir greiðslna til fyrirtækisins, yrðu ekki afhentar öðrum aðilum málsins, þar með talið kæranda.

Kærunefnd útboðsmála sendi tölvupóst til kæranda 14. ágúst 2024, kynnti honum afstöðu Íslenskrar myndgreiningar ehf. og gaf honum kost á að tjá sig um afhendingu skjalsins. Svar barst frá kæranda samdægurs og krafðist hann aðgangs að skjalinu.

Kærunefnd útboðsmála sendi tölvupósta 15. ágúst 2024 til hagsmunaaðila og óskaði eftir afstöðu þeirra til hugsanlegrar afhendingar skjalsins til kæranda. Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum um hvort að hagsmunaaðilar óskuðu eftir sama aðgangi að skjalinu og kæranda kynni að verða veittur. Með tölvupósti sama dag gaf kærunefnd útboðsmála varnaraðila kost á að tjá sig um ágreininginn. Svör bárust frá Íslenskri myndgreiningu ehf. 19. ágúst 2024 og Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. degi síðar. Lögðust báðir aðilar gegn afhendingu upplýsinga um greiðslur varnaraðila til fyrirtækjanna en óskuðu eftir sama aðgangi að skjalinu og kæranda kynni að verða veittur. Svar barst frá varnaraðila 21. ágúst 2024.

I

Kærandi rökstyður kröfu sína í meginatriðum með þeim hætti að fjárhæðir opinberra greiðslna geti aldrei telist undanþegnar upplýsingaskyldu samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Íslensk myndgreining ehf. byggir í meginatriðum að upplýsingar um greiðslur fyrirtækisins til varnaraðila séu undanþegnar upplýsingarskyldu samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga. Um sé að ræða viðkvæmar viðskiptaupplýsingar um veltu og greiðslu til fyrirtækisins og að aðrir aðilar séu samkeppnisaðilar fyrirtækisins. Sé því um að ræða einkahagsmuni sem varði fyrirtækið miklu og sem geti haft töluverð áhrif á samkeppni aðila. Þá hafi kærandi enga lögvarða hagsmuni af því að fá gögnin afhent, þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin sem falli undir lög um opinber innkaup.

Læknisfræðileg myndgreining ehf. byggir í meginatriðum á að upplýsingarnar séu þess eðlis að um þær gildi 17. gr. stjórnsýslulaga um takmörkun á upplýsingarétti. Burtséð frá niðurstöðu um aðgang til kæranda og/eða annarra að fjárhagslegum upplýsingum þá óski Læknisfræðileg myndgreining ehf. eftir að fá aðgang að svari varnaraðila um beitingu 1. mgr. 117. gr. laga nr. 120/2016 í málinu.

Varnaraðili byggir í meginatriðum á að umbeðin gögn séu í vörslum kærunefndar útboðsmála og falli undir 15. gr. stjórnsýslulaga og sé það nefndarinnar að úrskurða um aðgengi að þeim gögnum. Ljóst verði þó að telja að 17. gr. stjórnsýslulaga geti komið til álita um þau gögn sem krafist sé aðgangs að. Hafi túlkun greinarinnar verið á þá leið að hér geti fallið undir upplýsingar um fjárhagsmálefni, s.s. upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Í ljósi framkominna athugasemda frá að lágmarki einum þeirra aðila sem gögnin fjalla um sé áhersla lögð á að við matið á því hvort að 17. gr. stjórnsýslulaga eigi við muni nefndin framkvæma ítarlegt mat á því hvort að hagsmunir þessara aðila séu nægilega ríkir til að rökstyðja að takmarka eigi aðgang að gögnunum, með hliðsjón af því að um sé að ræða upplýsingar um veltu fyrirtækjanna, sem byggja rekstur sinn að miklu eða öllu leyti á samningum við hið opinbera. Loks sé á það bent að einungis kærandi geti talist til aðila máls og verði því ekki séð að aðrir geti átt tilkall til að fá sömu gögn afhent á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga.

II

Í þessum hluta málsins deila aðilar um rétt kæranda til aðgangs að athugasemdum varnaraðila frá 9. ágúst 2024. Þá hafa Læknisfræðileg myndgreining ehf. og Íslensk myndgreining ehf. krafist þess að fá sama aðgang að skjalinu og kæranda kann að verða veittur.

Umbeðið skjal telst til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd útboðsmála á milli málsaðila, en um meðferð kærumála fyrir nefndinni gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 108. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ber því við úrlausn um aðgang að gögnunum að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sem ganga framar ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 4. gr. síðarnefndu laganna, sbr. einnig 4. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru undantekningar frá þessari grunnreglu í 16. og 17. gr. laganna, en að mati nefndarinnar er ljóst að einungis 17. gr. laganna getur komið til álita um þau gögn sem kærandi krefst aðgangs að. Samkvæmt þeirri grein er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Við mat á þessum skilyrðum ákvæðisins verður meðal annars að horfa til þess að ákvæði 17. gr. laganna er undantekning frá þeirri meginreglu að málsaðili eigi rétt á því að kynna sér málsgögn auk þess sem líta ber til þess hvort afhending upplýsinga geti raskað hagsmunum sem lögum um opinber innkaup er ætlað að þjóna, þar á meðal jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup.

Fyrrgreindar athugasemdir varnaraðila hafa að geyma svar hans við fyrirspurn kærunefndar útboðsmála frá 1. ágúst 2024. Upplýsingarnar sem koma fram í skjalinu eru þríþættar, í fyrsta lagi upplýsingar um greiðslur varnaraðila til hagsmunaaðila á grundvelli fyrirliggjandi samninga á tilteknum tímabilum, í öðru lagi rökstuðning varnaraðila fyrir beitingu 1. mgr. 117. gr. laga nr. 120/2016 og í þriðja lagi upplýsingar um hversu langan tíma varnaraðili áætlar að hann þurfi til að ljúka nýju innkaupaferli.

Með hliðsjón af málatilbúnaði aðila í þessum hluta málsins verður ekki séð að deilt sé um afhendingu annarra upplýsinga en þeirra sem lúta að greiðslum varnaraðila til hagsmunaaðila auk þess sem ekki verður séð að 17. gr. stjórnsýslulaga geti átt við um aðrar upplýsingar í skjalinu.

Að mati kærunefndar útboðsmála verður að telja að upplýsingar um greiðslur varnaraðila til hagsmunaaðila varði ekki ríka einkahagsmuni umræddra aðila í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga. Umbeðið skjal hefur þannig ekki að geyma upplýsingar um nýleg einingaverð hagsmunaaðila eða aðrar viðkvæmar viðskiptaupplýsingar heldur er framsetning upplýsinganna þannig að gerð er grein fyrir heildarfjárhæðum greiðslna varnaraðila til hvers og eins hagsmunaaðila á tilteknum tímabilum. Þá verður að telja að kærandi hafi hagsmuni af því að fá upplýsingar um þetta atriði. Samkvæmt þessu verður ekki talið að svo ríkir almanna- eða einkahagsmunir í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi að réttlætanlegt sé að víkja frá meginreglu 15. gr. laganna að því er varðar afhendingu skjalsins til kæranda.

Að framangreindu gættu verður fallist á kröfu kæranda um að hann skuli fá aðgang að athugasemdum varnaraðila frá 9. ágúst 2024. Þá verður einnig fallist á kröfur Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. og Íslenskrar myndgreiningar ehf. um að þau skuli fá sama aðgang að skjalinu og kærandi. Í þessu samhengi og í tilefni af athugasemdum varnaraðila skal á það bent að nefndin hefur lagt til grundvallar að fyrirtækin teljist til aðila málsins í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. ákvarðanir kærunefndar útboðsmála í málinu frá 12. júní 2024. Í ljósi sjónarmiða um jafnræði málsaðila við meðferð stjórnsýslumála þykir loks rétt að veita Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. sama aðgang að skjalinu þrátt fyrir að félagið hafi ekki sérstaklega krafist þess.

Ákvörðunarorð:

Kæranda, Intuens Segulómun ehf., Íslenskri myndgreiningu ehf., Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. er veittur aðgangur að athugasemdum varnaraðila, Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. ágúst 2024.


Reykjavík, 29. ágúst 2024.


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta