Hoppa yfir valmynd

Nr. 575/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 575/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090034

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. ágúst 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, í fyrsta lagi með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og í öðru lagi með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga, og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 26. júlí 2019. Við umsókn framvísaði kærandi grísku flóttamannavegabréfi með gildistíma til 3. febrúar 2024 og dvalarleyfisskírteini útgefnu af grískum stjórnvöldum með gildistíma til 9. mars 2020. Samkvæmt leitarniðurstöðum af fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann 26. júlí sl. hlaut kærandi alþjóðlega vernd á Grikklandi þann 24. febrúar 2017. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, þann 1. ágúst 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 28. ágúst 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 3. september 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 17. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 26. september 2019 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust frá kæranda þann 4. desember 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hann hafi dvalið í Grikklandi í rúmlega tvö ár. Síðustu fimm mánuðir fyrir komu kæranda til Íslands hafi reynst honum erfiðir. Kvað kærandi aðstæður sínar hafa orðið verulega slæmar eftir að hann náði [...] ára aldri en á þeim tímapunkti hafi hann misst ýmis mikilvæg réttindi. Grísk stjórnvöld hafi fyrst um sinn útvegað honum húsnæði en honum hafi verið gert að yfirgefa húsnæðið eftir að hann náði [...] ára aldri. Hafi hann eftir það verið heimilislaus þar í landi fyrir utan tvo mánuði þegar Sameinuðu þjóðirnar útveguðu honum húsnæði. Kærandi kvaðst jafnframt ekki hafa haft atvinnuleyfi í Grikklandi og þá hafi stjórnvöld ekki veitt honum framfærslu af neinu tagi. Jafnframt hafi hann þurft að hætta í skóla eftir að hann náði [...] ára aldri. Þá kvaðst hann hafa mætt fordómum í skólanum auk þess sem mikið hafi verið af fasistum á götum Grikklands. Greindi hann frá því að fjöldi heimamanna hafi ráðist á húsnæði sem hann bjó í um tíma og hafi hann upplifað árásina sem ógn. Kvaðst kærandi glíma við ennis- og kinnholuvandamál sem valdi honum höfuðverkjum auk þess sem hann hafi fundið fyrir þunglyndi, kvíða og depurð í Grikklandi.

Í greinargerð sinni gerir kærandi nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Gerð er athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki aflað upplýsinga um á hvaða forsendum kæranda hafi verið veitt flóttamannavegabréf í Grikklandi og vísar hann til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga í því samhengi. Þá gerir kærandi athugasemd við hraðann á málsmeðferð stofnunarinnar, en kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hinn 26. júlí sl. og hafi stofnunin birt ákvörðun í máli hans 3. september sl. Vegna þessa og annarra tilgreindra ástæðna hafi kæranda ekki gefist kostur á að leggja fram heilsufarsgögn til stofnunarinnar og telur hann að hin hraða málsmeðferð hafi komið niður á rannsókn stofnunarinnar. Þá gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, m.a. við staðhæfingu Útlendingastofnunar um að honum standi til boða aðstoð við framfærslu í Grikklandi og vísar til hindrana á aðgengi að félagslegri aðstoð flóttafólks þar í landi auk staðhæfinga um aðgengi að heilbrigðisþjónustu og húsnæði. Ennfremur gerir kærandi athugasemd við það að honum standi til boða raunhæf úrræði verði hann fyrir kynþáttafordómum og vísar í þeim efnum til þess að kynþáttafordómar séu sjaldnast tilkynntir til lögreglu og þegar slíkt sé tilkynnt sinni stjórnvöld því ekki nægilega vel. Þá gerir kærandi athugasemd við beitingu reglugerðar nr. 276/2018 og telur stofnunina einungis hafa horft til orðalags 32. gr. a reglugerðarinnar í stað þess að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda. Þá árétti kærandi skyldur kærunefndar til að leggja ítarlegt mat á stöðu hans m.t.t. þess hvort hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi áréttar að hann hafi verið ungur þegar hann hafi flúið heimaríki sitt og hafi eytt meginhluta unglingsára sinna við óöruggar aðstæður.

Krafa kæranda er í fyrsta lagi byggð á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum og úrskurðum kærunefndar. Vísar kærandi til þess að hann hafi reynt til þrautar að byggja upp einhvern vísi að lífi í Grikklandi og telja verði að staða hans sé verulegra síðri en staða almennings þar í landi og að endursending til Grikklands muni hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir hann. Hans bíði ekkert nema heimilisleysi og fátækt auk þess sem líkur séu á að hann muni ekki njóta viðeigandi læknisaðstoðar. Kærandi vísar þá til nánar tilgreindra úrskurða kærunefndar útlendingamála máli sínu til stuðnings. Með tilliti til ástands flóttamannamála í Grikklandi séu horfur kæranda svo slæmar að ekki sé unnt að endursenda hann í slíkar aðstæður og að hann muni verða fyrir alvarlegri mismunun þar í landi, líkt og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kveði orðrétt á um. Í ljósi framangreinds séu sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir hendi í máli hans og beri íslenskum stjórnvöldum því skylda til þess að taka umsókn hans til efnismeðferðar.

Krafa kæranda er í öðru lagi byggð á því að ótækt sé að beita heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr. laganna og því sé íslenskum stjórnvöldum skylt að taka mál hans til efnislegrar meðferðar skv. 3. mgr. 36. gr. laganna. Aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi, meðal annars m.t.t. húsnæðis- og félagsmála, séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Endursending kæranda muni brjóta í bága við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og samsvarandi grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Því beri að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 4. desember sl. barst tölvupóstur frá talsmanni kæranda sem innihélt hljóðupptöku og myndband sem kærandi kveður sýna fram á að séu líflátshótanir frá [...] sem beinist gegn honum, [...]. Kærandi óttist að [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi þann 24. febrúar 2017. Samkvæmt framlögðu dvalarleyfisskírteini kæranda er hann með réttarstöðu flóttamanns í Grikkland og hefur hann gilt dvalarleyfi þar í landi til 9. mars 2020. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] karlmaður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að hann glími við höfuðverki vegna [...] og að hann hafi upplifað andlega erfiðleika í Grikklandi. Samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum er kærandi almennt heilbrigður en hefur glímt við svefnvandamál sem hann fékk ráðleggingar um á Göngudeild sóttvarna. Að mati kærunefndar bera gögn málsins, þ. á m. viðtal kæranda hjá Útlendingastofnun og framlögð heilsufarsgögn, ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• 2018 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 13. mars 2019);

• Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

• Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, 29. mars 2019);

• Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);

• ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);

• EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);

• Freedom in the World 2019 – Greece (Freedom House, 2019);

• Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);

• Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);

• Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);

• Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);

• State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);

• Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu, og

• World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Af framangreindum gögnum verður ráðið að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur meðal annars bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sambærilegan rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Þá veita frjáls félagasamtök einstaklingum með alþjóðlega vernd aðstoð við að kynna sér réttindi sín í Grikklandi. Þá eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi sama rétt á aðgengi að menntakerfinu og aðrir útlendingar sem dveljast löglega í landinu.

Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi eiga rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig getur verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Þetta á jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í ríkinu. Sem fyrr segir eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sama rétt á félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar en aðgengi þeirra að húsnæði er háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með löglega dvöl í Grikklandi. Fá gistiskýli eru í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt getur reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin er mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem hafa verið sendir til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum.

Í framangreindum gögnum kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum með alþjóðlega vernd sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna. Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og má sem dæmi nefna að þeir þurfa að hafa kennitölu, skattnúmer, gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar. Þá kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggja bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Þá kemur fram í vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar í Grikklandi sem eru þolendur glæpa og tala hvorki né skilja grísku eigi rétt á túlkaþjónustu og upplýsingum um mál þeirra á tungumáli sem þeir skilja.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki nái ekki því alvarleikastigi að teljast brota á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóti alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem standi til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæli gegn endursendingu.

Með vísan til framangreinds tekur kærunefnd ekki undir þá málsástæðu kæranda að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð eða að þær samrýmist skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikkland er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Grikklandi telur kærunefnd að tryggt sé að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda en ljóst er að kærandi er ungur að árum og hefur greint frá svefnerfiðleikum. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi verður ráðið að kærandi hafi aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu. Í ljósi fyrirliggjandi gagna telur kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi aðgang að viðhlítandi aðstoð í Grikklandi vegna heilsufarsvandamála sinna, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu. Kærunefnd telur gögn málsins ekki benda til þess að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, en í því sambandi er sérstaklega vísað til þess að meðferð telst að jafnaði ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Þá hefur kærandi greint frá því að aðstæður hans í Grikklandi hafi verið erfiðar, m.a. í ljósi skorts á félagslegri framfærslu, skorts á húsnæði, erfiðleika við að finna atvinnu og fordóma auk aðgangs að menntun. Í framangreindum skýrslum og gögnum um aðstæður í Grikklandi kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd þar hafi heimild til að stunda atvinnu og eigi sambærilegan rétt á félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar þó að þeir þurfi í einhverjum tilvikum að yfirstíga ákveðnar hindranir til að sækja þá þjónustu. Þá hefur kærandi sama rétt á aðgengi að menntakerfinu og aðrir útlendingar sem dveljast löglega í landinu. Þótt skýrslur um aðstæður í Grikklandi bendi til þess að aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar þar séu um margt lakari en aðstæður þeirra hér á landi, m.a. m.t.t. inntaks félagslegrar aðstoðar og aðgangs að félagslegum húsnæðisúrræðum, er það mat nefndarinnar að almennar aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi séu ekki þess eðlis að þær, einar og sér, teljist til sérstakra ástæðna. Þá er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að hann geti ekki borið sig eftir þjónustu og aðstoð í Grikklandi.

Jafnframt getur kærandi leitað til grískra yfirvalda verði hann fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar þar í landi. Þar að auki getur hann leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda óttist hann um öryggi sitt. Eins og að framan greinir hafa einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar sambærilegan aðgang að lögum að félagsþjónustu á vegum gríska ríkisins og grískir ríkisborgarar. Hindranir sem einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar þar kunna að þurfa að yfirstíga til að fá aðgang að umræddri þjónustu fela að mati nefndarinnar ekki í sér alvarlega mismunun. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulegra síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin jafnframt litið til þess sem fram kemur í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga að efnahagslegar ástæður geti ekki talist til sérstakra ástæðna.

Þá er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017 tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda ekki um að ræða sömu viðtökuríki.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. ágúst 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 26. júlí 2019.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem áður hefur komið fram gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við trúverðugleikamat stofnunarinnar, við mat stofnunarinnar á stöðu kæranda í viðtökuríki og við beitingu reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga. Þá gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og byggir m.a. á því að ekki hafi farið fram heildstætt mat á heilsufari hans.

Kærandi gerir m.a. athugasemd við hraða málsmeðferð Útlendingastofnunar en hún hafi haft þær afleiðingar að kærandi hafi ekki gefist tækifæri til þess að leggja fram heilsufarsgögn í málinu. Kærandi skilaði inn greinargerð til Útlendingastofnunar þann 19. ágúst sl. og var þar gerður áskilnaður um rétt til framlagningar heilsufarsgagna en kærandi fór í læknisskoðun á Göngudeild sóttvarna þann 20. ágúst 2019. Gögnin hafi verið tilbúin til afhendingar hjá Göngudeild þann 23. ágúst sl., þann sama dag og talsmaður kæranda hafi farið í sumarfrí. Af gögnum máls er ljóst að kæranda var leiðbeint um framlagningu heilsufarsgagna í máli sínu í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. ágúst 2019 og um mikilvægi þess að leggja fram gögn sem hann teldi hafa þýðingu í máli hans. Líkt og fram kemur í greinargerð kæranda voru heilsufarsgögnin tilbúin til afhendingar hjá Göngudeild sóttvarna þann 23. ágúst 2019 en Útlendingastofnun tók ekki ákvörðun í máli kæranda fyrr en 28. ágúst 2019. Samkvæmt framangreindu er því ljóst að kærandi hafði tækifæri til þess að leggja fram heilsufarsgögn við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, þrátt fyrir sumarfrí talsmanns kæranda, en að mati kærunefndar er það á ábyrgð talsmanns að gera ráðstafanir við slíkar aðstæður. Kærunefnd áréttar að það er fyrst og fremst á ábyrgð kæranda og talsmanns að leggja fram þau gögn sem teljast nauðsynleg við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Þrátt fyrir að áskilnaður hafi verið gerður um framlagningu gagna í greinargerð til stofnunarinnar er ekki að sjá af gögnum máls að óskað hafi verið eftir því sérstaklega af hálfu kæranda að veittur yrði frestur til framlagningar gagna í málinu eða stofnunin látin vita af fjarveru talsmanns á þessum tíma. Þá er það mat kærunefndar að viðtal kæranda hjá Útlendingastofnun hafi ekki gefið sérstakt tilefni til þess að stofnunin þyrfti að aðhafast frekar í gagnaöflun varðandi heilsufar til þess að unnt væri að meta hvort hann hefði sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd gerir því ekki athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar að þessu leyti.

Hins vegar má ráða af gögnum máls sem bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun að læknisvottorð frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. ágúst 2019, þess efnis að læknisskoðun hefði farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga, hafi legið fyrir hjá stofnuninni þegar ákvörðun var tekin í málinu hjá Útlendingastofnun. Hins vegar er ekki að sjá af rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að það gagn hafi legið til grundvallar niðurstöðunni, enda hvergi minnst á það. Kærunefnd gerir athugasemd við þá málsmeðferð stofnunarinnar og telur að stofnunin hafi átt að gera grein fyrir því í rökstuðningi ákvörðunar sinnar að umrætt gagn hafi legið til grundvallar niðurstöðunni. Umrædd gögn, auk frekari gagna sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd varðandi heilsufar hans, lágu til grundvallar niðurstöðu kærunefndar í málinu, sem hefur komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Því er ljóst að umræddur vankantur á rökstuðningi stofnunarinnar hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins og hefur kærunefnd bætt úr þessu atriði á kærustigi.

Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi m.a. lagt fram dvalarleyfisskírteini með gildistíma til 15. júlí 2021. Af gögnum máls, sem bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun, má sjá að kærandi er ekki handhafi þess dvalarleyfisskírteinis sem lagt var til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun. Kærunefnd gerir athugasemd við málsmeðferð og vinnubrögð stofnunarinnar er þetta varðar. Kærunefnd óskaði eftir að fá afrit af dvalarleyfisskírteini kæranda frá Útlendingastofnun, sem er með gildistíma til 9. mars 2020, og lá það til grundvallar niðurstöðu málsins hjá kærunefnd. Kærunefnd hafi því bætt úr þessu atriði á kærustigi og ljóst sé að það hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu máls.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð Útlendingastofnunar og telur ekki tilefni til þess að gera frekari athugasemdir við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 25. júlí 2019. Hann sótti um alþjóðlega vernd þann 26. júlí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kæranda er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kæranda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta