Mál nr. 26/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. ágúst 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 26/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. janúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 25. janúar 2010 fjallað um fjarveru kæranda á boðuðu námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 17. febrúar 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Y hefur séð um að koma sjónarmiðum kæranda að fyrir úrskurðarnefndinni. Með kæru félagsins, fyrir hönd kæranda, dags. 17. febrúar 2010, kemur meðal annars fram að kærandi hafi verið á vinnumarkaði og greitt félagsgjöld til Y og áður Z í 36 ár samfleytt. Henni hafi verið sagt upp störfum hjá X í lok apríl 2009 og hún fengið atvinnuleysisbætur í ágúst sama ár.
Af gögnum málsins má ráða að farseðill til borgar í B-landi hafi verið gefinn út á nafni kæranda 6. ágúst 2009 en fyrirhuguð brottför var 1. desember 2009 og heimkoma 12. desember sama ár. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2009, var kæranda boðið að taka þátt í námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar dagana 7. til 11. desember 2009. Um svokallað vinnumarkaðsúrræði var að ræða.
Hinn 4. desember 2009 sendi kærandi tölvupóst til Vinnumálastofnunar á Suðurlandi og kvaðst ekki geta sótt námskeiðið á þessum tíma af persónulegum ástæðum. Kærandi óskaði eftir því að koma síðar á námskeið. Fram kemur í kæru að kærandi hafi áður kynnt sér lög og reglur Vinnumálastofnunar og ekkert fundið þar um ferðir til útlanda.
Í kæru er bent á að Vinnumálastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 26. janúar 2010, þar sem henni var kynnt sú ákvörðun að fella niður bótarétt hennar í 40 daga með vísan til þess að hún hafi hafnað vinnumarkaðsaðgerðum. Þessu er mótmælt í kæru þar sem skýrt liggi fyrir að kærandi hafi ekki hafnað vinnumarkaðsaðgerðum og ekkert banni henni að fara í frí til útlanda. Kærandi ætlist ekki til þess að henni séu greiddar atvinnuleysisbætur í þá tíu daga sem hún var í útlöndum. Þess er krafist að ákvörðun Vinnumálastofnunar um sviptingu bótaréttar verði afturkölluð.
Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 22. júní 2010, að stofnunin hafi samdægurs gert tilraun til að hafa samband við kæranda eftir að áðurnefndur tölvupóstur frá henni barst 4. desember 2009. Þær tilraunir stofnunarinnar reyndust árangurslausar. Var talið að ástæður þær sem hún gaf í tölvupóstinum gætu ekki talist gildar ástæður fyrir fjarveru á námskeiði stofnunarinnar, án nánari útskýringa. Óskað var eftir afstöðu kæranda til málsins með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. desember 2009, og svaraði hún því með tölvupósti daginn eftir þar sem hún segir að henni hafi verið boðið til útlanda þann tíma sem námskeið Vinnumálastofnunar var haldið.
Kæranda var tilkynnt, með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2010, að bótaréttur hennar væri felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir þar sem ekki var talið að skýringar hennar á fjarveru á námskeiði stofnunarinnar væru gildar skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði endurupptöku málsins með bréfi, dags. 28. janúar 2010, en þar kemur fram að það hafi verið misskilningur af hennar hálfu að nefna persónulegar ástæður fyrir því að geta ekki sótt námskeiðið í stað þess að tilkynna um dvöl hennar erlends. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 12. mars 2010, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 17. febrúar staðfest fyrri ákvörðun í máli kæranda.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. júní 2010, kemur fram að kærandi hafi ekki tilkynnt um för sína til útlanda þegar Vinnumálastofnun hafi boðað hana á námskeið. Vísað er til 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að í athugasemdum um 58. gr. með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það geti leitt til viðurlaga samkvæmt ákvæðinu bregðist hinn tryggði skyldum sínum. Sé gert ráð fyrir því að biðtímaákvarðanir eigi við um allar aðgerðir sem atvinnuleitanda sé boðið að taka þátt í, enda litið svo á að hinum tryggða sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum.
Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær er fram hafi komið í skýringarbréfum til stofnunarinnar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti ekki réttlætt fjarveru kæranda á námskeiði hjá stofnuninni. Þá þyki enn fremur ljóst af málsgögnum að kærandi fór til útlanda og gat þess vegna ekki mætt á þeim tíma er Vinnumálastofnun boðaði hana til þátttöku á námskeiði. Telji Vinnumálastofnun að dvöl kæranda erlendis án tilkynningar til stofnunarinnar geti ekki réttlætt fjarveru á boðað námskeið stofnunarinnar. Enn fremur sé það eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendum beri skylda til að tilkynna stofnuninni um þau atvik sem kunni að valda því að þeir uppfylli ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi hafi farið til útlanda hafi Vinnumálastofnun ekki borist tilkynning þess efnis.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júlí 2010. Athugasemdir bárust frá Y, fyrir hönd kæranda, dags. 29. júní 2010.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“
Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágu frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.
Það er meginregla að atvinnuleitendur hafa ýmsum skyldum að gegna gagnvart Vinnumálastofnun sem að sumu leyti eru sambærilegar þeim sem launþegi hefur gagnvart vinnuveitanda. Með þessu er átt við að mörg ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, svo sem 9., 10., 13., 14. og 35. gr. laganna, kveða á um hvernig atvinnuleitandi á að hegða sér á meðan hann nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í þessu felst meðal annars að atvinnuleitendur eiga að láta vita af breyttum högum sínum ásamt því sem að starfsmenn Vinnumálastofnunar eiga að geta náð sambandi við þá með skömmum fyrirvara, svo sem í gegnum síma, með tölvupósti eða á annan hátt.
Hafi atvinnuleitandi ekki frumkvæði að því að upplýsa um breytta hagi sína, til dæmis þegar hann fer erlendis, þá getur slíkt aukið líkur á réttindamissi fyrir viðkomandi atvinnuleitanda. Aðstaðan hér er lík þeirri þegar launþegi hyggst taka sér leyfi eða fara af landi brott um lengri eða skemmri tíma, þ.e. atvinnuleitandi á að láta Vinnumálastofnun vita fyrir fram hyggist hann ferðast til útlanda. Þetta byggist á því að slík brottför frá landinu hefur óhjákvæmilega áhrif á getu atvinnuleitandans að afla sér vinnu á íslenskum vinnumarkaði og þar með á getu hans að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Grundvallarreglan um virka atvinnuleit leiðir því til þess að atvinnuleitendur mega reikna með því að þeir geti ekki farið til útlanda eins og þeim þóknast án þess að slíkt kunni að hafa áhrif á stöðu þeirra í atvinnuleysistryggingakerfinu.
Þótt fallast megi á það með kæranda að bann við ferðum til útlanda komi ekki beinlínis fram í lögum og reglum þá á framkvæmd reglunnar um virka atvinnuleit sér langa forsögu. Jafnvel þótt rétt væri af Vinnumálastofnun að upplýsa atvinnuleitendur betur um þetta atriði þá haggar það því ekki að kærandi vissi strax í ágúst 2009 að hún væri að fara erlendis í byrjun desember sama ár. Hún lét Vinnumálastofnun ekki vita af þessu fyrr en eftir að stofnunin í desember 2009 hugðist beita þeim viðurlögum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þegar litið er til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur sett fram fyrir kröfu sinni þá verður hin kærða ákvörðun staðfest. Þetta er reist á því að kærandi hafnaði vinnumarkaðsúrræði í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig til hliðsjónar úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 11. mars 2010 í máli nr. 109/2009 og frá 11. maí 2010 í máli nr. 139/2010. Niðurstaðan verður því sú að kærandi á ekki rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga.
Með hliðsjón af niðurlagi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður að miða við að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 27. janúar 2010 að telja. Þetta er reist á því að það var fyrst þá sem ákvörðunin hafi verið tilkynnt kæranda í skilningi ákvæðisins, sbr. og 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest svo breytt.
Með framangreindu er litið svo á að Vinnumálastofnun hafi tekið hina kærðu ákvörðun á fundi 25. janúar 2010 og að ákvörðun stofnunarinnar frá 17. febrúar 2010 hafi falist í að hafna endurupptökubeiðni kæranda.
Úrskurðarorð
Bótaréttur A er felldur niður í 40 daga frá og með 27. janúar 2010 að telja.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson