Mál nr. 144/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. ágúst 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 144/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. desember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 4. desember 2009 fjallað um fjarveru kæranda á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 11. nóvember 2009. Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann var ekki talinn vera í virkri atvinnuleit samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Með kæru, sem barst úrskurðarnefndinni 29. desember 2009, kærði kærandi þessa ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í framhaldi af símtali starfsmanns Vinnumálastofnunar og kæranda 1. febrúar 2010 afturkallaði Vinnumálastofnun ákvörðun sína frá 5. desember 2009. Á fundi 5. febrúar 2010 tók stofnunin hins vegar ákvörðun þess efnis að fella niður bætur til kæranda í 40 daga frá og með 5. febrúar 2010. Ákvörðunin var reist á sömu málsatvikum og hin fyrri ákvörðun. Síðari ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi dagsettu 15. febrúar 2010. Litið er svo á að kæra kæranda lúti að þeirri ákvörðun sem tekin var 5. febrúar 2010 en kærandi krefst þess að hún verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 24. nóvember 2008 og fékk í kjölfarið greiddar bætur. Hann var boðaður á fund hjá stofnuninni þann 11. nóvember 2009, með bréfi dags. 4. nóvember 2009. Hann mætti ekki á fundinn en sendi tölvupóst þann 12. nóvember sama ár þess efnis að vegna hjólabrettaóhapps hafi hann ekki getað sótt fundinn. Kærandi var í kjölfarið boðaður á annan fund hjá Vinnumálastofnun en hann mætti ekki á þann fund. Hann mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 25. nóvember 2009. Honum var tjáð að honum bæri að skýra fjarveru sína á fundum stofnunarinnar. Engar skýringar bárust frá kæranda. Í erindi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. desember 2009, kemur fram að hann hafi misst af fundi Vinnumálastofnunar vegna þess að hann hafi verið meiddur eftir hjólabrettaslys. Hann segist hafa reynt að hringja til stofnunarinnar ásamt því sem hann sendi stofnuninni tölvupóst. Það hafi verið hringt í hann en hann þá verið vant við látinn og þegar hann hafi reynt að hringja til baka hafi enginn svarað.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. maí 2010, segir að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Vinnumálastofnun kveðst hafa gert ítrekaðar tilraunir til að hafa samband við kæranda, án árangurs. Atvinnuleitandi í virkri atvinnuleit þurfi að vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Atvinnuleitanda sé einnig skylt að tilkynna stofnuninni um allar þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.
Að mati Vinnumálastofnunar bera umsækjendur um atvinnuleysisbætur ábyrgð á því að heimilisfang þeirra sem og símanúmer sé rétt skráð hjá stofnuninni. Er atvinnuleitandi sæki um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni sé honum gert að skrá á umsókn, heimilisfang sitt, símanúmer og tölvupóst ef slíku sé til að dreifa. Þetta sé nauðsynlegt svo að unnt sé að aðstoða atvinnuleitanda við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum. Kærandi hafi ekki mætt í þau viðtöl er stofnunin hafi með öllum tiltækum ráðum reynt að boða hann til. Þá hafi Vinnumálastofnun ítrekað reynt að hafa samband við kæranda frá því að mál hans kom upp hjá stofnuninni. Ekki hafi tekist að ná tali af kæranda í því símanúmeri er hann hafi gefið upp og sé skráð í tölvukerfi stofnunarinnar. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að sú skýring er kærandi taki fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti ekki réttlætt fjarveru kæranda á fundi stofnunarinnar. Kærandi hafi með fjarveru sinni brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. maí 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. maí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“
Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g. lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.
Það er meginregla að atvinnuleitendur hafa ýmsum skyldum að gegna gagnvart Vinnumálastofnun sem að sumu leyti eru sambærilegar þeim sem launþegi hefur gagnvart vinnuveitanda. Með þessu er átt við að mörg ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, svo sem 9., 10., 13., 14. og 35. gr. laganna, kveða á um hvernig atvinnuleitandi á að hegða sér á meðan hann nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í þessu felst meðal annars að atvinnuleitendur eiga að láta vita af breyttum högum sínum ásamt því að starfsmenn Vinnumálastofnunar eiga að geta náð sambandi við þá með skömmum fyrirvara, svo sem í gegnum síma, með tölvupósti eða á annan hátt. Leitist atvinnuleitandi við að draga úr möguleikum Vinnumálastofnunar á því að hafa samband við sig getur það aukið líkur á réttindamissi fyrir viðkomandi atvinnuleitanda.
Kærandi hefur sett fram skýringar fyrir fjarveru sinni á fundi þeim sem Vinnumálastofnun boðaði hann á 11. nóvember 2009. Óháð því hvort þær skýringar teljast trúverðugar eða ekki þá liggur fyrir að hann var skömmu síðar boðaður á annan sambærilegan fund en mætti ekki. Jafnframt verður til þess að líta að gengið hefur erfiðlega fyrir starfsmenn Vinnumálastofnunar að ná sambandi við kæranda. Að þessu virtu verður talið að kærandi hafi í nóvember 2009 hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því er rétt að kærandi fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga.
Hin kærða ákvörðun var tekin 5. febrúar 2010 en tilkynnt kæranda með bréfi 15. febrúar 2010. Telja verður að of langt hafi liðið frá því að ákvörðunin var tekin og þar til að hún var tilkynnt kæranda.
Með hliðsjón af niðurlagi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður að miða við að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 16. febrúar 2010 að telja. Þetta er reist á því að það var fyrst þá sem ákvörðunin hafi verið tilkynnt kæranda í skilningi ákvæðisins, sbr. og 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest svo breytt.
Úrskurðarorð
Réttur A til greiðslu atvinnuleysisbóta fellur niður í 40 daga frá og með 16. febrúar 2010 að telja.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson