Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 108/2008

Þriðjudaginn 1. júlí 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir, og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Þann 23. apríl 2008 barst úrskurðarnefnd almannatrygginga kæra A, er varðar endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta árið 2006.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins sendi kæranda bréf, dags. 8. október 2007, vegna endurreiknings og uppgjörs bótagreiðslna ársins 2006. Fram kom í bréfinu að niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar væri sú að bætur ársins 2006 hefðu verið ofgreiddar kæranda um sem nemur 405.787 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kærandi kom athugasemdum sínum við endurreikninginn á framfæri við Tryggingastofnun og óskaði eftir niðurfellingu á endurkröfu stofnunarinnar. Tryggingastofnun sendi kæranda bréf, dags. 11. janúar 2008, þar sem segir að samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna hafi yfirfarið mál kæranda og sé það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu uppfyllt skilyrði til niðurfellingar kröfunnar og að fyrri niðurstaða endurreiknings standi óbreytt sem uppgjör bóta ársins 2006.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„Fjármagnstekjur fóru til íbúðarkaupa sama ár, sjá skattframtal og fylgiskjal um kaup og sölu eigna.

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 25. apríl 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Barst greinargerð frá stofnuninni, dags. 14. maí 2008, þar sem segir m.a.:

„Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 16. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna.

Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2006 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir.

Í tekjuáætlun 2006 voru lífeyrissjóðstekjur kæranda áætlaðar 390.012 kr. Reiknað endurgjald var áætlað 315.000 kr. Vextir og verðbætur voru áætluð 282.852 kr. Arður var áætlaður 960 kr. Við bótauppgjör ársins 2006 kom hins vegar í ljós að tekjur samkvæmt skattframtali reyndust skiptast þannig: Lífeyrissjóðstekjur 360.366 kr. Reiknað endurgjald 313.464 kr. Vextir og verðbætur 6.014.112 kr. og arður 13.244 kr. Ofgreiðslur til kæranda námu 405.787 kr., eins og sjá má á bréfi Tryggingastofnunar til A dags. 8. október 2007.

Í tekjuáætlun 2006 voru lífeyrissjóðstekjur maka kæranda áætlaðar kr. 250.404 kr. Reiknað endurgjald var áætlað 315.000 kr. Vextir og verðbætur voru áætluð 282.852 kr. og arður 960 kr. Við bótauppgjör ársins 2006 kom hins vegar í ljós að tekjur samkvæmt. skattframtali reyndust skiptast þannig: Lífeyrissjóðstekjur 237.564 kr. Reiknað endurgjald 312.000 kr. Vextir og verðbætur 6.014.112 kr. og arður 13.244 kr. Ofgreiðslur til maka kæranda námu 394.939 kr. eins og sjá má á bréfi Tryggingastofnunar til B dags. 8. október 2007.

Í 55. gr. atl. kemur fram skýr skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú skylda er ítrekuð í 10. gr. reglugerðar nr. 939/2003. Í 12. gr. reglugerðarinnar kemur fram þröng heimild til þess að veita bótaþega undanþágu frá endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Er í þeirri grein krafist þess að um sérstakar aðstæður sé að ræða og skal einkum horft til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega.

Kærandi andmæltu endurkröfu Tryggingastofnunar og krafðist niðurfellingar. Andmæli kærenda voru lögð fyrir samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna í samræmi við áðurnefnda 12. gr. reglugerðarinnar. Eftir ítarlega yfirferð yfir gögn málsins taldi nefndin að skilyrði til niðurfellingar væru ekki uppfyllt, eins og sjá má í svari Tryggingastofnunar, dags. 11. janúar 2008.

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kærenda.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör bótagreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda árið 2006.

Í kæru er gerð grein fyrir að fjármagnstekjur kæranda árið 2006 hafi farið til íbúðarkaupa það sama ár.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri hafi verið sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Þannig hafi í tekjuáætluninni verið áætlað að lífeyrissjóðstekjur kæranda næmu 390.012 kr., reiknað endurgjald hennar 315.000 kr., vextir og verðbætur 282.852 kr. og arður 960 kr. Við bótauppgjör hafi hins vegar komið í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda reyndust vera 360.366 kr., reiknað endurgjald hennar 313.464 kr., vextir og verðbætur 6.014.112 kr. og arður 13.244 kr. Ofgreiddar bætur til kæranda hafi því numið 405.787 kr. Þá segir jafnframt í greinargerðinni að kærandi hafi andmælt endurkröfu Tryggingastofnunar og hafi andmælin verið lögð fyrir samráðsnefnd stofnunarinnar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna, sem taldi ekki vera skilyrði fyrir hendi til að fella niður eða lækka endurkröfu stofnunarinnar.

Kæranda voru á árinu 2006 greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í formi ellilífeyris og tekjutryggingar, auk orlofs- og desemberuppbóta. Fóru greiðslur þessar fram á grundvelli þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum. Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, sbr. lög nr. 74/2002, segir að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Sams konar ákvæði er nú í 7. mgr. 16. gr. endurútgefinna almannatryggingalaga nr. 100/2007. Við endurreikning á lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar til kæranda árið 2006 er byggt á þeim reiknireglum sem í gildi voru árið 2006 og því þykir rétt í úrskurði þessum að vísa til ákvæða almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á lífeyrisgreiðslum stofnunarinnar til kæranda árið 2006 bar með sér að kæranda hefði verið ofgreidd tekjutrygging að fjárhæð 493.812 kr. Auk þess sem orlofs- og desemberuppbætur hefðu verið ofgreiddar að fjárhæð 20.575 kr.

Í 17. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um tekjutryggingu. Þar segir í 4. mgr. að hjónum, sem bæði njóti ellilífeyris, en hafi sameiginlegar tekjur sem séu ekki hærri en tilgreind mörk skuli greiða tekjutryggingu sem nemi tvöfaldri tekjutryggingu einhleypings. Hafi hjón hins vegar tekjur umfram hin tilgreindu mörk skuli skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram séu.

Í 2. mgr. 10. gr. laganna er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning og er vísað til ákvæða laga um tekjuskatt í því sambandi. Þar segir þó jafnframt að fjármagnstekjur skuli metnar að 50 hundraðshlutum við ákvörðun tekjugrundvallar við útreikning á tekjutryggingu. Í 4. mgr. 10. gr. laganna er hins vegar takmarkað hvaða skattskyldar tekjur teljist til tekna þegar um tekjutryggingu er að ræða.

Af ákvæðum þessum leiðir að tekjur sem skerða greiðslur tekjutryggingar til einstaklings eru allar skattskyldar tekjur nema bætur almannatrygginga, félagsleg aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og húsaleigubætur, svo og aðeins helmingur fjármagnstekna.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega, og eftir atvikum maka, skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur viðkomandi, og eftir atvikum maka hans, hjá skattyfirvöldum o.fl., svo fremi að samþykki þeirra, liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.

Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Þar segir enn fremur, eins og að framan greinir, að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.

Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna tekjuársins 2006 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti kæranda árið 2006 hjá Tryggingastofnun í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir endurreikning lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar til kæranda á árinu 2006 var munur á þeirri tekjuáætlun sem lögð var til grundvallar við samtímaútreikninga á greiðslu bóta til hennar á árinu 2006 og þeim tekjum sem taldar voru fram á skattframtali hennar og maka hennar 2007 vegna tekjuársins 2006. Munaði þar einkum um að framtaldar fjármagnstekjur kæranda og maka hennar, sem reyndust nema 6.014.112 kr., en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun að þær myndu nema 285.852 kr. Eins og að framan greinir segir í kæru að fjármagnstekjurnar hafi verið nýttar til fasteignakaupa.

Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar, byggðum á framtöldum tekjum kæranda og maka hennar árið 2006, var það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð 514.387 kr. árið 2006 og að teknu tilliti til áður afdreginnar staðgreiðslu skyldu innheimtar hjá henni ofgreiddar bætur að fjárhæð 405.787 kr.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar og er það niðurstaða nefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og gerir nefndin ekki athugasemdir við niðurstöðu hans.

Eins og að framan greinir er í 50. gr. almannatryggingalaga kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar. Í 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu. Þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Kærandi hefur farið þess á leit að felld verði niður endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar sem nemur 405.787 kr. Hefur kærandi rökstutt beiðni sína með vísan til þess að fjármagnstekjur hennar og maka hennar hafi myndað grundvöll hinna ofgreiddu bóta og að fjármagnstekjurnar hafi verið nýttar til fasteignakaupa. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar ríkisins um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna hefur tekið fyrir beiðni kæranda um niðurfellingu eða lækkun á kröfum um endurgreiðslu. Hafnaði samráðsnefndin beiðninni.

Á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem fyrir liggja hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga er ljóst að fjármagnstekjur kæranda og maka hennar voru tæpum sex milljón krónum hærri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun. Þegar litið er til þessa og upplýsinga um eignir kæranda samkvæmt framlögðu skattframtali vegna tekjuársins 2006, getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að aðstæður kæranda séu svo sérstakar að undanþáguheimild 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um niðurfellingu endurkröfu geti átt við. Í umræddu reglugerðarákvæði er kveðið á um að við mat á því hvort beita eigi niðurfellingarheimildinni skuli m.a. líta til fjárhagslegra aðstæðna bótaþega. Ennfremur er um að ræða undanþáguheimild sem eftir almennum lögskýringarreglum ber að skýra þröngt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur er honum voru greiddar árið 2006 að fjárhæð 405.787 kr. að teknu tillit til áður afdreginnar staðgreiðslu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja A um 405.787 kr. vegna ofgreiddra bóta árið 2006.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta