Mál nr. 5/2003
Þriðjudaginn, 24. júní 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.
Þann 7. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. febrúar 2003.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem barst með bréfi dags. 6. nóvember 2002 um að synja kæranda um framlengingu á greiðslu í fæðingarorlofi vegna veikinda í tengslum við fæðingu.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„Þannig er mál með vexti að vegna meðgöngu minnar þurfti ég að gangast undir lyfjaskipti en ég er haldin flogaveiki (gand mal epil.) sem haldið er niðri með þeim lyfjum sem ég var á fyrir meðgöngu. En þau lyf eru skaðleg fóstri. Lyfjaskiptin gengu vel og meðgangan ágætlega fyrir utan brengluð lifrapróf alla meðgönguna sem endaði þannig að ég varð að hætta að vinna gengin 7 mánuði á leið og síðustu vikurnar lá ég á meðgöngudeild vegna brenglunar á lifraprófum. Þá notaði ég ekki þann rétt að sækja um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu.
Nú standa málin þannig að eftir fæðinguna fór að síga á verri hliðina með flogaveikina þar sem lyfin sem ég tek inn nú halda veikinni ekki niðri en henta barninu þar sem ég er með það á brjósti. Barnsfaðir minn tók sína tvo mánuði í feðraorlofi en vegna veikinda minna hefur hann þurft að taka launalaust leyfi í rúma tvo mánuði í viðbót. Framundan eru lyfjaskipti hjá mér, vegna þess hversu illa gengur að halda veikinni niðri og vegna þess að ég er komin með barn treysti ég mér ekki að byrja að vinna meðan lyfjaskiptin fara fram og fer því fram á lengingu á fæðingarorlofi. Er ég tilbúin að koma í viðtal ef með þarf.“
Með bréfi, dags. 10. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 11. mars 2003. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Óskað hafði verið framlengingar vegna veikinda móður eftir fæðingu barns.
Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Nánar er fjallað um þessa heimild í 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þar er það gert að skilyrði framlengingar að um alvarleg veikindi móður sé að ræða, að veikindin séu í tengslum við fæðinguna og að móðir sé að mati lækna ófær um að annast barn sitt.
Lífeyristryggingasvið óskaði eftir greinargerð læknasviðs vegna kærunnar þann 14. febrúar sl. Greinargerðin barst í dag. Er það mat tryggingalæknis að veikindi kæranda sé ekki að rekja til fæðingar. “
Í umsögn tryggingalæknis sem fylgdi greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnun ríkisins segir:
„A sóttir um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu. Erindinu var synjað á þeirri forsendu að veikindi hennar væru ekki að rekja til fæðingar. A er flogaveik og vegna meðgöngu þurfti að skipta um lyf hjá henni og segir B, sérfræðingur í taugalækningum, að eftir fæðingu hafi borið á kippum hjá henni þannig að hætta væri á að hún missti barn sitt auk þess sem hún hafi fengið nokkur flog.
Lagagrein sú og reglugerðarákvæði er fjalla um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður eftir fæðingu segja afdráttarlaust, að veikindi skulu vera að rekja til fæðingar. Ég tel ekki svo vera í þessu tilviki og synja því erindinu.“
Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. mars 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segir að þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. - 4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði læknis. Enn fremur segir þar að tryggingayfirlæknir skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og að ákvörðun hans sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.
Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga segir að komi til framlengingar fæðingarorlofs verði veikindi móður að vera rakin til fæðingarinnar og valda því að hún geti ekki annast barnið. Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt.
Samkvæmt læknisfræðilegu mati verða veikindi kæranda ekki talin vera í tengslum við fæðingu. Með hliðsjón af því og með vísan til 3. og 5. mgr. 17. gr. ffl. og 11. gr. reglugerðar nr. 909/2002 verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði þess að fá framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda eftir fæðingu barns.
Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu barns og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á framlengingu fæðingarorlofs A, vegna veikinda eftir fæðingu barns, er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Jóhanna Jónasdóttir