Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2003

Þriðjudaginn, 28. október 2003

 

A og B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 17. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A og B.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, sem tilkynnt var með bréfi dags. 11. desember 2002, um að synja kærendum um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Við undirrituð A og B, höfum ákveðið að kæra úrskurð lífeyristryggingasviðs Tryggingarstofnunar Ríkisins. Ástæðan er sú að  við teljum að brotið sé á okkur, skv. 1. mgr. 7. gr. sbr. 8. gr. nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof þar sem talað er um töku barns yngra en 8 ára í varanlegt fóstur. Þar virðist  ágreiningurinn vera í okkar tilfelli, þ.e.a.s. að okkar umsókn er hafnað þar sem forsjá  barns telst ekki varanlegt fóstur. Barnið D kom á heimili okkar í september 2000, eftir að félagsmálayfirvöld í Reykjavík höfðu haft samband við okkur vegna eiturlyfjaneyslu foreldra D. Móðirin, dóttir okkar, er búin að fara í tvær vímuefnameðferðir hjá SÁÁ, án árangurs og kom núna 6. janúar úr þeirri þriðju. Faðirinn byrjaði afplánun 2 ára fangelsisdóms núna í febrúar. Þannig að eins og sést á þessu þá fannst okkur við eitthvað þurfa að gera til að tryggja framtíð drengsins. Þá byrjuðum við á því að fá forræðið yfir honum. Við höfðum hvort sem er alfarið séð um hann, fætt hann og klætt, síðustu 2 árin og verið honum sem foreldrar. Með samningi gerðum hjá sýslumanninum í E 27. september 2002 að undangenginni  skoðun og samþykki félagsmálayfirvalda í sveitarfélaginu E fengum við forræði yfír barninu. Þegar sótt var síðan um foreldraorlof og skilað inn gögnum þar að lútandi kom svar 11. desember 2002 þar sem umsókn okkar er synjað. Þar með var eiginkona mín komin í launalaust frí í desember og vinnustaður hennar orðinn ofmannaður þar sem enginn í Tryggingastofnun hafði sagt henni að eitthvað væri athugavert við umsókn okkar en það er mál sem leysist bara. Í framhaldi af synjun okkar fórum við að skoða þessi mál. Allir sem við höfum leitað ráða hjá, stéttarfélög og fleiri, eru öll sammála að um fósturbarn sé að ræða. Nú skulum við snúa þessu við. Segjum svo að við hefðum ekki haft áhuga á að ala upp fleiri börn og látið yfirvöldum það eftir að finna barninu vandalausa fósturforeldra, þá skilst mér að foreldraorlof sé skýlaus réttur þeirra. Það er harla skrýtið hvernig hið opinbera lítur á þessi mál vegna þess að forræðissamningurinn var ekki fyrr tekinn í gildi en leikskólagjöld drengsins hækkuðu um 37% og barnabætur fyrirfram greitt um áramót fóru úr F kr til móður og niður í 2xG kr til okkar. Þannig að þá er enginn vafi  hverjum ber hvað. Þess má að lokum geta, að okkur finnst líka verið að brjóta á drengnum með því að þessi réttur sem fylgir honum sé ekki virtur nema við alveg sérstakar aðstæður, vandalausum fósturforeldrum. Þannig að hjá okkur er þetta orðið hreint og klárt réttlætismál.“

 

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 14. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dagsettri 24. október 2002 sóttu kærendur um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem B óskaði eftir greiðslum frá 1. nóvember 2002 og A frá 1. desember 2002. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags. 24. október 2002 fyrir B þar sem fram kom að fæðingarorlof yrði tekið vegna töku barns í varanlegt fóstur. 1l. nóvember barst staðfesting frá félagsþjónustu sveitarfélagsins E um að þau fari með forsjá dóttursonar síns,  D og að hann búi hjá þeim. 13. nóvember barst ný tilkynning um fæðingarorlof dags. 12. nóvember fyrir B þar sem fram kom að hún tæki fæðingarorlof frá 1. desember 2002. 25. nóvember barst síðan tilkynning um fæðingarorlof  dags. 12. og 26. nóvember fyrir A þar sem kom fram að fæðingarorlofið yrði tekið í júlí - ágúst 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 11. desember 2002 var kærendum synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) veiti ekki rétt til fæðingarorlofs eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þegar breyting er gerð á forsjá barns.

Skv. 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingar- og foreldraorlof skv. lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta   ára eða töku barns yngra en  átta ára í varanlegt fóstur. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns. Í 4. mgr. 8. gr. laganna kemur síðan fram að við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti bamaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina.

Í 1. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir:

„Með fóstri er í lögum þessum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í a.m.k. þrjá mánuði þegar:

a.       foreldrar sem fara með forsjá barns afsala sér forsjá til barnaverndarnefndar eða samþykkja fóstur,

b.      barn er forsjárlaust, svo sem vegna andláts foreldris, ekki næst til foreldris eða af öðrum sambærilegum ástæðum,

c.       foreldrar hafa verið sviptir forsjá skv. 29. gr.

Í 68. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um að við ráðstöfun barns í fóstur skulu barnaverndarnefnd og fósturforeldrar gera með sér skriflegan fóstursamning og jafnframt hvað skuli koma fram í slíkum samningi.

Í 3. og 4.gr. barnalaga nr. 20/1992 segir: 

“Foreldrar geta falið þriðja manni forsjá barns síns með samningi, enda mæli barnaverndarnefnd með þeirri skipan. Ef forsjá barns er í höndum annars foreldris skal leitað umsagnar hins foreldrisins.

Samningur um forsjá barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttaráhrif samnings. Hann getur synjað um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barnsins.

Í máli þessu liggur ekki fyrir staðfesting frá barnaverndarnefnd eða öðrum til þess bærum aðilum, þ.á.m. viðeigandi félagsþjónustu, um að barninu hafi verið ráðstafað í fóstur til kærenda skv. 65. gr. barnaverndarlaga eða upplýsingar um að gerður hafi verið fóstursamningur skv. 68. gr. barnavemdarlaga. Á hinn bóginn liggur fyrir staðfesting félagsþjónustu sveitarfélagsins E á því að þau fari með forsjá barnsins og greinargerð í máli þeirra sem lagt var fyrir Félagsmálaráð þann 12. september 2002, þar sem m.a. kemur fram að erindi hafi borist frá sýslumanninum í E þar sem óskað var álits barnaverndarnefndar á þeirri ráðstöfun að þau tækju við forsjá barnabarns síns og að foreldrar barnsins hafi leitað til sýslumannsins í E og lýst því yfir að þau hefðu ákveðið að fela móðurforeldrum barnsins forsjá þess. Kærendur hafa þannig fengið forsjá yfír dóttursyni sínum á grundvelli samnings við foreldra þess sem staðfestur var af sýslumanni skv. 3. og 4. mgr. 33. gr. barnalaga.

Þar sem í máli þessu er um að ræða breytingu á forsjá barns skv. ákvæðum barnalaga en ekki fósturráðstöfun skv. ákvæðum barnaverndarlaga er réttur til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði  ekki fyrir hendi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. apríl 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kærendum um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast m.a. við töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna töku barns í varanlegt fóstur. Auk þess eiga foreldrar sameigilegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sbr. 1. mgr. 8. gr. ffl.

Samkvæmt gögnum málsins var staðfestur samningur þann 27. september 2002 af Sýslumanninum í E, eftir að félagsmálayfirvöld í sveitarfélaginu E höfðu gefið álit vegna beiðni kærenda um að fá forræði yfir barnabarni sínu, drengnum D. Slíkur samningur er gerður með vísan til 3. mgr. 33. gr. barnalaga nr. 20/1992, en þar kemur fram að foreldrar geti falið þriðja manni forsjá barns síns með samningi enda mæli barnaverndarnefnd með þeirri skipan. Samningurinn um forsjá barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns, sbr. 4. mgr. 33. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. ffl. er kveðið á um rétt til fæðingaorlofs við töku barns í varanlegt fóstur, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála telur að staðfesting sýslumannsins í E á samningi um forsjá að fengnum meðmælum félagsmálayfirvalda feli í sér staðfestingu á töku barnsins, D, í varanlegt fóstur í skilningi laga nr. 95/2000.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Í 4. mgr. 8. gr. segir að við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Þegar kærendur málsins öðlast forsjá barnsins með staðfestingu sýslumanns og sækja um greiðslur í fæðingarorlofi voru samkvæmt gögnum málsins liðin tvö ár frá komu barnsins á heimili þeirra. Í 1. mgr. 8. gr. ffl. segir að réttur til fæðingarorlofs falli niður er barnið nær 18 mánaða aldri. Samkvæmt c lið 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingarorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Ekki verður talið að ákvæði um niðurfellingu réttar til fæðingarorlofs geti átt við eins og máli þessu er háttað. Með hliðsjón af framangreindu og staðfestingu sýslumanns á samningi um forræði barnsins þann 27. september 2002 telur úrskurðarnefndin kærendur eiga rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kærendum um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kærendum greiðslu í fæðingarorlofi í samræmi við rétt þeirra samkvæmt lögum nr. 95/2000.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A og B um greiðslu í fæðingarorlofi er hafnað. Greiða ber kærendum greiðslu í fæðingarorlofi í samræmi við rétt þeirra samkvæmt lögum nr. 95/2000.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta