Mál nr. 9/2003
Þriðjudaginn, 30. september 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.
Þann 18. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B, hdl. f.h. A, dags. 17. febrúar 2003.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 19. nóvember 2002 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„A hefur falið mér að kæra til yðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 19. nóvember 2002.
Í synjunarbréfi Tryggingarstofnunar er því haldið fram að umbj. minn hafi ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þessi fullyrðing stofnunarinnar er algerlega úr lausu lofti gripin og vill umbj. minn mótmæla henni sérstaklega.
Meðfylgjandi sendist yður nýtt yfirlit D-háskóla um námsferil umbj. míns en þar kemur fram að hún hafi lokið alls 22 einingum í E-deild á síðasta ári sem er auðvitað langt umfram þær 15 einingar, sem Tryggingastofnun miðar við að sé fullt nám.
Umbj. minn ól son hinn 20. desember sl. Þá hafði hún stundað námið í ellefu mánuði og tuttugu daga. Hún á því rétt á fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. Önnur niðurstaða er fásinna.“
Með bréfi, dags. 27. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 3. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:
„B hdl. kærir fyrir hönd A synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl)
Með umsókn dags. 1. nóvember 2002 sótti A um fæðingarstyrk námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 15. desember 2002. Með umsókninni fylgdi vottorð frá D-háskóla dags. 25. október 2002 um að hún hafí hafið nám við skólann í janúar 2002 og sé skráður nemandi skólaárið 2002-2003. Með fylgdu með námsferilsyfirlit dags. sama dag þar sem fram kom að hún hefði lokið 10 einingum á vorönn 2002 og væri skráð í 12 einingar á haustönn 2002 og einnig viðurkenning frá F-kvöldskóla fyrir að hún hefði lokið námskeiði í Word og Windows á vorönn 2002 sem hefði verið samtals 20 kennslustundir.
Lífeyristryggingasvið synjaði með bréfi dags. 19. nóvember umsókn um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um fullt náms þar sem nám á vorönn var 10 einingar sem nái ekki 75% námi sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar.
Foreldrar í fullu námi eiga rétt á fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl. 100% nám í D-háskóla telst vera 15 einingar á hverri önn. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er sett það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, að um sé að ræða 75-100% samfellt nám í a.m.k. sex mánuði. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í lögunum, frumvarpi til laganna eða í reglugerðinni er ekki að finna heimild til frávika frá því að námið sé a.m.k. 75% í hverjum mánuði á sex mánaða tímabilinu. Nám A í D-háskólanum á vorönn 2002 uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám og námskeið í kvöldskóla hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. apríl 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 10. apríl 2003, þar segir:
“Umbj. minn mótmælir skilningi Tryggingarstofnunar ríkisins er fram kemur í greinargerð stofnunarinnar dags. 3. apríl sl. og er á því byggt að hann sé í ósamræmi við ákvæði 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.
Meginatriði málsins er að umbj. minn er var í fullu námi við D-háskóla er hún ól son hinn 20. desember sl. Haustönn sem þá var nýlokið verður að telja sex mánaða nám í skilningi reglugerðar nr. 909/2002, því skipta verður sumarfríi D-háskóla milli haust- og vorannar í þessu tilliti.
Umbj. minn lauk 12 einingum í námi sínu á haustönn en sú frammistaða er 80% af fullu námi eins og það er skilgreint af Tryggingastofnun og dugar því ein og sér til u viðmiðunarmörk þess að kröfur umbj. míns verði teknar til greina enda eru viðmiðunarmörk reglugerðarinnar sett við 75% .
Til vara er á því byggt að umbj. minn hafi byrjað nám á í haustönn hinn 20. júní 2003 og hafi því samfellt verið í námi á haustönn í sex mánuði er hún ól barnið, eftir atvikum með því að hefja lestur námsefnisins heima fyrir áður en regluleg kennsla hófst þá um haustið.
Til þrautarvara er á því byggt að krafa reglugerðarinnar um 75% viðmiðunarmörk eigi ekki stoð í lögum.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi framangreindra laga er skilgreint í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 7. mgr. 19. gr. ffl. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Hjá D-háskóla er almennt miðað við að 100% nám sé 15 einingar á misseri.
Kærandi ól barn 20. desember 2002. Samkvæmt vottorði frá D-háskóla, dags. 11. febrúar 2003, kemur fram að kærandi hafi lokið tíu einingum á vormisseri 2002 og tólf einingum á haustmisseri 2002. Þar sem kærandi var ekki í fullu námi á vormisseri 2002 í skilningi laga nr. 95/2000 og reglugerðarinnar uppfyllir hún ekki skilyrði þess að fá fæðingarstyrk sem námsmaður.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Jóhanna Jónasdóttir