Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5. mars 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. febrúar 2003, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég er ósátt við það að hafa fengið synjun á 100% fæðingarorlofi á þeim grundvelli að hafa verið í of litlu námi fyrir áramót. Ég var í fullu fjarnámi 75% (10 einingum) sem er úthlutað af  B-háskólanum. Ég hafði ekkert val um það sjálf. Ég er búin að ljúka flestu en á eftir að taka eitt sjúkrapróf í ágúst (það er ekki boðið upp á sjúkrapróf á öðrum tímum). Á hvaða grundvelli getið þið neitað mér um fullt orlof þegar B-háskólinn er búinn að senda ykkur vottorð uppá fullt fjarnám (75% nám). Ég las mér til á netinu um reglurnar og þar stendur ekkert um einingafjölda heldur bara 75% nám og þær kröfur uppfylli ég.“

 

Með bréfi, dags. 19. mars 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 23. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 28. nóvember 2002 sótti kærandi um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar 18. janúar 2003. Einnig bárust yfirlit yfir greiðslu atvinnuleysisbóta fram í byrjun ágúst 2002, launaseðlar  fyrir febrúar – september 2002, vottorð dags. 29. nóvember frá B-háskólanum um að hún væri skráður nemandi í fjarnámi við skólann skólaárið 2002-2003. Hún væri skráð í 10 einingar haust  2002 og 11 einingar vor 2003. 

Skv. 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingu barns).

Foreldrar í fullu námi eiga rétt á fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. Skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 telst fullt nám vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur auk þess sem heimilt er að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Lífeyristryggingasvið synjaði kæranda með bréfi dags. 10. febrúar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að af gögnum sem hún hefði lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hún uppfyllti ekki skilyrðið um samfellt starf síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns. Hún uppfylli heldur ekki skilyrðið um að hafa stundað 75-100% samfellt nám á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

19. febrúar 2003 barst annað vottorð frá skólanum þar sem fram kom að kærandi hefði stundað fullt nám haust 2002 og sé skráð í fullt nám vor 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 19. febrúar var á grundvelli þess að borist hafði nýtt vottorð frá skólanum óskað eftir nýju skólavottorði þar sem námsframvinda kæranda kæmi fram, þ.e. hvað hún hefði lokið mörgum einingum/prófum annars vegar haustönn 2002 og hvað hún sé skráð í margar einingar á vorönn 2003.

20. febrúar barst þriðja vottorðið frá skólanum þar sem fram kom að kærandi hefði lokið fullu námi á 1. misseri haust 2002 og sé skráð í 11 einingar vor 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 21. febrúar var á grundvelli þess að borist hafði nýtt vottorð frá skólanum kæranda tilkynnt að í fyrirliggjandi gögnum komi ekki fram upplýsingar um námsframvindu og að það breyti þar af leiðandi ekki fyrri úrskurði.

Kæranda var synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að í vottorði skólans kom fram að hún væri skráð í 10 einingar á haustönn 2002 sem nær ekki 75% námi miðað við upplýsingar sem hafa áður borist um að 100% nám í B-háskólanum sé 15  einingar á hverri önn. Í síðari vottorðum skólans komu ekki fram upplýsingar um að meira nám hefði verið stundað en kom fram í fyrsta vottorðinu. Lífeyristryggingasvið telur að það hafi ekki áhrif á niðurstöðuna að um fjarnám hafi verið að ræða.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30.apríl 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá D, hdl., f.h. kæranda, með bréfi dags. 1. júní, þar segir m.a.:

„Í 19. gr. ffl. segir að foreldrar í fullu námi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að 3 mánuði hvort um sig vegna fæðingar o.fl. Í 14. gr. rg. Nr. 909/2000 segir að fullt nám í skilningi ffl. sé 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfi á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi. Í 2. mgr. 14. gr. rg. segir ennfremur að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla varðandi nám.

Lífeyristryggingasvið Tryggingastofnunar ríkisins synjar umbj. mínum um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði með þeim rökum að hún var skráð í 10 eininga nám á haustönn 2002 sem Tr telur að fullnægi ekki kröfu um 75% nám.

Umbj. minn stundaði fjarnám í B-háskólanum. B-háskólinn hefur þegar sent TR upplýsingar um að umbj. minn hafi stundað fullt fjarnám sem er skráð 75% nám hjá B-háskólanum. Engu breytir hvort námið er skráð vera 10 eða 11 einingar eða hvort fullt nám teljist vera 15 einingar. Höfuðatriðið er að viðurkennd menntastofnun telur fjarnám vera 75% nám og óumdeilt er að umbj. minn var skráð í slíkt nám á umræddu tímabili (sjá bréf lögfræðings TR, dags. 23.04.s.l.) Það er enda ekki TR að meta hvort ákveðið nám teljist fullnægja tilteknum skilyrðum heldur hlýtur slíkt mat að vera á hendi viðurkenndrar menntastofnunar, í þessu tilfelli B-háskólinn, sem metur nám umbj. míns sem fullgilt fjarnám, sem er 75% nám eins og fyrr greinir. Í þessu sambandi skal og bent á að ekkert kemur fram í rg. 909/2000 um skilgreiningu á því hvað sé fullt nám, að skilyrði sé tekið um tiltekinn einingafjölda heldur er eingöngu tiltekið ákveðið prósentuhlutfall og það prósentuhlutfall hefur umbj. minn fullnægt eins og staðfesting B-háskólinn greinir. Það færi einnig gegn eðli og tilgangi laganna að útiloka fjarnámsnemendur frá greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði út af tæknilegri útfærslu (einingafjölda) en slíkt myndi útiloka fjölmarga fjarnámsnemendur frá rétti til greiðslu úr sjóðnum, einkum landsbyggðarfólk.“

Þann 21. nóvember 2003 óskaði úrskurðarnefndin eftir því við B-háskólann að fá svör við því hvað hvert misseri í fjarnámi teldist mörg prósent, einnig var óskað eftir upplýsingum um hvenær taka sjúkraprófa færi fram. Svar barst með bréfi dags. 25. nóvember 2003. Þar segir m.a. að sjúkra- og endurtökupróf séu eingöngu haldin í ágúst og að E-nám í fjarnámi sé 90 eininga nám sem dreifist á fjögur námsár. Síðan segir: “Að öllu jöfnu er talað um 75% nám þegar um 90 eininga fjarnám er að ræða. Þess má þó geta að einingafjöldi á misseri getur verið frá 10-13 einingar samkvæmt núgildandi skipan námsins.”

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75 -100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. framangreindrar reglugerðar er heimilt að greiða námsmanni fæðingarstyrk þrátt fyrir að skilyrði um nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Kærandi ól barn 22. janúar 2003. Samkvæmt gögnum málsins var hún skráð í 10 eininga fjarnám við B-háskólann á haustmisseri 2002, á vormisseri 2003 var kærandi skráð í 11 eininga áframhaldandi fjarnám við skólann. Kærandi lauk prófum vegna haustmisseris 2002. Vegna veikinda hennar sem staðfest voru með læknisvottorði tók hún eitt sjúkrapróf.

Fjarnám það er kærandi stundaði er byggt þannig upp að B-háskólinn ákveður fyrirfram hvaða greinar skuli teknar á hvaða misseri fyrir sig. Með hliðsjón af upplýsingum sem óskað var eftir frá skólanum kemur fram að einingafjöldi á misseri geti verið frá 10-13 einingum samkvæmt núgildandi skipan námsins. Að öllu jöfnu sé talað um 75% nám þegar um 90 eininga fjarnám sé að ræða. Um er að ræða reglubundið skólanám sem skólinn metur sem 75% nám. Nemendur hafa engin tök á því að auka eða minnka við sig nám á einstöku misseri þar sem ákvörðunarvald er í höndum skólans hvernig náminu er háttað.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að líta beri á fullt fjarnám við B-háskólann sem fullt nám í skilningi 19. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um að hafa verið í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns í samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun. Hún uppfyllir hins vegar skilyrði 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar um að hafa verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta