Mál nr. 23/2003
Þriðjudaginn, 16. september 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.
Þann 27. mars 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. mars 2003. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sem tilkynnt var með bréfi dags. 27. janúar 2003.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„.Sonur minn, B, fæddist 6. janúar 2003. Þegar kona mín, D, sótti um sitt mæðra orlof sótti ég um mitt feðra orlof sem mundi taka við af henni eða frá og með júní-ágúst 2003. Þegar við fáum svo úrskurð frá Tryggingastofnun kemur í ljós að þeir hafa reiknað út feðraorlof mitt frá og með þeim degi sem ég sótti um. Ég starfa óreglulega og hef því mis háar tekjur. Síðustu mánuði hef ég starfað hjá E og hef því hærri tekjur en venjuleg. Ég bjóst við þeirri málsmeðferð að laun mín sem notuð væru til grundvallar á útreikningi á feðraorlofi mínu væri frá og með maí 2003 til apríl 2002 en ekki frá þeim degi sem ég sæki um. Þennan útreikning vil ég kæra og óska eftir að það verði tekið tillit til tekna minna síðustu mánuði áður en feðraorlof hefst til að minka þá röskun sem verður á okkar högum.
Ástæður þess að við hjónin ákváðum að ég tæki mitt feðraorlof í kjölfarið á hennar er sá að ég hef haft hærri tekjur undanfarið og því er mögulegt fyrir fjárhag fjölskyldunnar að hafa þetta samfellt. Það kemur hvergi fram á umsóknar- eyðublaðinu að útreikningar muni fara strax fram Þar sem ég hef óreglulegar tekjur hefði ég ekki sótt um fyrr en í vor ef ég hefði vitað að hlutirnir væru framkvæmdir svona. Þetta skiptir hinn venjulega launþega minna máli heldur en okkur sem erum með óreglulegar tekjur. Á þeim forsendum vil ég óska eftir því að það verði tekið tillit til þessara aðstæðna sem ég og mín fjölskylda erum í.“
Með bréfi, dags. 2. apríl 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:
„Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveim mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði og að heimilt sé að reikna með færri mánuðum ef foreldri hefur verið á vinnumarkaði í skemmri tíma ef um samfellt starf (a.m.k. 25% starfshlutfall) hefur verið að ræða í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Afgreiðsla lífeyristryggingasviðs miðaðist við 80% meðaltekna kæranda á tímabilinu frá 1. nóvember 2001 til og með október 2002, en barn hans er fætt í janúar 2002.
Úrskurðanefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laganna. Er þar miðað við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skuli útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við þau tímamörk, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs á síðara tímabili.
Lífeyristryggingasvið telur að ágreiningsefni máls þessa sé sambærilegt því sem um ræddi í máli nr. 42/2001 og vísar til niðurstöðu þess máls og rökstuðnings fyrir þeirri niðurstöðu.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi.
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs.
Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 6. janúar 2003.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna til kæranda í fæðingarorlofi er samkvæmt því frá nóvember 2001 til og með október 2002.
Í 2. mgr. 13. gr. ffl. er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Jóhanna Jónasdóttir