Hoppa yfir valmynd

Nr. 522/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 522/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100017

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. október 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi í fyrsta sinn þann 28. október 2014. Þann 19. desember 2014 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að umsókn kæranda skyldi ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi. Þann 24. júní 2015 felldi kærunefnd útlendingamála síðastnefnda ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og lagði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. september 2015 var kæranda synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þann 14. janúar 2016 kvað kærunefnd upp úrskurð sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. september 2015. Með úrskurði, dags. 28. júní 2016, afturkallaði kærunefnd úrskurð nefndarinnar frá 14. janúar 2016 og kvað þess í stað upp nýjan úrskurð samdægurs þess efnis að ákvörðun Útlendingastofnunar skyldi felld úr gildi og að mál kæranda skyldi tekið til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. september 2016, sem sætti ekki kæru til kærunefndar útlendingamála, var ákveðið að umsókn kæranda skyldi ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi, honum skyldi synjað um dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla, og vísað frá landinu.

Kærandi lagði öðru sinni fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. júní 2018. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 16. ágúst 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 18. september 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 25. september 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 9. október 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd þann 16. október 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Svíþjóð og dvalarleyfi með gildistíma til 23. janúar 2019.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Svíþjóðar. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var einnig mat stofnunarinnar að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í máli kæranda. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá kom fram að kærandi skyldi fluttur til Svíþjóðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er m.a. rakið að kærandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. október 2014 en verið fluttur til Svíþjóðar þann 22. mars 2016. Kærandi mótmæli því að vera sendur aftur til Svíþjóðar. Þar í landi hafi kæranda verið synjað um húsnæði og framfærslu, líkt og sjá megi af gögnum sem hann hafi lagt fram. Kærandi telur að í sínu tilviki hafi íslensk stjórnvöld heimild til að beita meginreglu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í stað undantekningarreglu a-liðar sömu málsgreinar. Þá sé íslenskum stjórnvöldum heimilt að taka mál hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Kærandi fjallar almennt um sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Er í því samhengi m.a. vísað til 2. máls. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og inntak þess ákvæðis útskýrt. Enn fremur vísar kærandi til lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar. Nýleg reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð nr. 540/2017, brjóti gegn lögmætisreglunni, sérstaklega í ljósi þröngra skorða lagaáskilnaðarreglunnar. Í reglugerðarbreytingunni sé að finna skilyrði vegna sérstakra ástæðna sem ekki hafi stoð í settum lögum og önnur sem beinlínis gangi gegn ákvæðum laga um útlendinga. Telur kærandi að litið skuli framhjá umræddri reglugerð við vinnslu málsins.

Þá tekur kærandi m.a. fram að túlkun íslenskra stjórnvalda á sérstökum ástæðum hafi ekki ávallt átt sér stoð í settum lögum og hafi í sumum tilvikum beinlínis gengið gegn ákvæðum laga. Kærandi vísar til lögskýringargagna máli sínu til stuðnings og bendir jafnframt á að íslensk stjórnvöld hafi í of ríkum mæli horft til mannréttindasáttmála Evrópu og notað dómafordæmi alþjóðlegra dómstóla til að skerða réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd til að fá mál sín tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna. Gangi þetta m.a. í berhögg við 17. gr. mannréttindasáttmálans. Samkvæmt lögskýringargögnum hafi íslenskum stjórnvöldum með sérstökum ástæðum verið eftirlátið mat og þau haft heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiði af sérstökum reglum.

Í greinargerð kemur jafnframt fram sú afstaða kæranda að í lögskýringargögnum komi fram sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá sé þess einnig getið í lögskýringargögnum að í öllum málum er varði endursendingar útlendinga til þriðja ríkis skuli fara fram ítarlegt mat á aðstæðum viðkomandi útlendings og aðstæðum og ástandi í móttökuríki. Í ljósi markmiðs laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, beri að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi sem og almennra sjónarmiða um að við mat á persónulegri stöðu einstaklinga hafi mannréttindi aukið vægi. Því sé alfarið hafnað að við mat á sérstökum ástæðum hafi sjónarmið um skilvirkni og mikilvægi samvinnu Dyflinnarsamstarfsins nokkurt vægi.

Þá telji kærandi m.a. ljóst af lögskýringargögnum að við mat á sérstökum ástæðum skuli litið til viðkvæmrar stöðu umsækjanda sem og til þess hvort viðkomandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Hvergi sé t.d. að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika eða alvarlega mismunun. Hvað varðar sérstakar ástæður kæranda er í greinargerð tekið fram að hann hafi orðið fyrir mismunun í Svíþjóð en þar hafi honum verið neitað um húsnæði og fjárhagsaðstoð, sbr. meðfylgjandi gögn. Kærandi eigi erfitt uppdráttar í Svíþjóð vegna mismununar. Af þeirri ástæðu sé íslenskum stjórnvöldum heimilt að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt viðbótarvernd í Svíþjóð þann 21. desember 2010, sem að mati kærunefndar felur í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari sænskra stjórnvalda til íslenskra yfirvalda, dags. 25. júlí 2018, kemur þá og m.a. fram að kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi í Svíþjóð sem gildi í ótakmarkaðan tíma. Í málinu liggur jafnframt fyrir afrit af dvalarleyfisskírteini kæranda, útgefnu af sænskum yfirvöldum, með gildistíma til 23. janúar 2019. Eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi einstakling sem nýtur alþjóðlegrar verndar aftur til ríkisins sem hefur veitt honum slíka vernd, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar. Þá þarf að líta til stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi […] árs gamall karlmaður, […] og á […]. Aðspurður um heilsufar sitt í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. ágúst sl. greindi kærandi frá því að hann glími við stoðkerfisvandamál og geri léttar æfingar til að halda sér í formi. Andleg heilsa hans væri í lagi. Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.Aðstæður og málsmeðferð í SvíþjóðKærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
  • Sweden 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Sweden (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Sweden (Freedom House, 28. maí 2018) og
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Að lokinni málsmeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd getur einstaklingur með stöðu flóttamanns eða sá sem fengið hefur viðbótarvernd dvalið í allt að tvo mánuði í móttökumiðstöð. Að þeim tíma loknum getur viðkomandi fengið úthlutað húsnæði í tilteknu sveitarfélagi í samræmi við tilmæli sænsku útlendingastofnunarinnar. Þá er er einstaklingum frjálst að finna sér sitt eigið húsnæði. Sveitarfélögum ber að bjóða viðkomandi einstaklingi húsnæði innan tveggja mánaða frá tilnefningu sænsku útlendingastofnunarinnar. Sveitarfélög bera ábyrgð á húsnæðismálefnum viðkomandi einstaklings í tvö ár en að þeim tíma loknum draga mörg sveitarfélög úr veittri aðstoð og gera einstaklingum að finna sitt eigið húsnæði. Takist einstaklingum það ekki geta þeir óskað eftir félagslegu húsnæði sem tímabundnu úrræði. Sá sem hefur fengið útgefið dvalarleyfi fær afhenta svokallaða kynningaráætlun til að skipuleggja menntun sína, þjálfun, tungumálakennslu, atvinnu og fleira. Hlutfall atvinnulausra í Svíþjóð er almennt lágt en þó hærra meðal innflytjenda, einkum þeirra sem eru nýfluttir til landsins. Einstaklingar með dvalarleyfi fá einnig aðgang að menntun og heilsugæslu á við aðra íbúa landsins. Þá er þess m.a. getið í framangreindum gögnum að einstaklingar með stöðu flóttamanns og þeir sem hlotið hafa viðbótarvernd njóti sama réttar til félagslegrar aðstoðar og sænskir ríkisborgarar.

Í ofangreindum gögnum er þess m.a. getið að árið 2016 hafi tímabundin lög tekið gildi í Svíþjóð um takmarkanir á útgáfu dvalarleyfa (s. Lag om tillfälliga begränsningar av möjlighetet att fä uppehållstillstand i Sverige). Lögunum sé afmarkaður gildistími til og með 19. júlí 2019. Fyrir setningu laganna hafi mikill hluti veittra dvalarleyfa til einstaklinga í Svíþjóð með þörf fyrir alþjóðlega vernd eða vernd vegna mannúðarsjónarmiða verið varanleg. Í samræmi við áðurnefnda löggjöf frá árinu 2016 séu dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanna nú hins vegar gefin út tímabundið, þ.e. til þriggja ára í senn, og þá séu dvalarleyfi vegna viðbótarverndar fyrst um sinn gefin út til 13 mánaða. Hvað síðastnefnd dvalarleyfi varðar, þ.e. leyfi vegna viðbótarverndar, kemur fram að hægt sé að endurnýja slík leyfi sé grundvöllur verndar enn til staðar. Dvalarleyfi veiti handhafa þess rétt til að dvelja og vinna í Svíþjóð á þeim tíma sem leyfið sé í gildi. Þá feli þau í sér aðgang að heilbrigðisþjónustu. Einstaklingar með viðbótarvernd geti hlotið varanlegt dvalarleyfi þegar gildistími tímabundins leyfis sé runninn út, að því gefnu að þeir uppfylli tiltekin skilyrði, svo sem að hafa nægjanlegar tekjur til að framfleyta sér.

Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er bann við meðferð sem fer gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fortakslaust en meðferð verður þó að fullnægja lágmarkskröfu um alvarleika til að teljast brot gegn 3. gr. sáttmálans. Í ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 fjallaði dómstóllinn um endursendingar einstaklinga til ríkja þar sem þeir hafa hlotið alþjóðlega vernd. Í ákvörðuninni kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við slíka endursendingu nái ekki alvarleikastigi 3. gr. sáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Svíþjóð er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Svíþjóð telur kærunefnd að tryggt sé að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst, en kæranda hefur verið veitt viðbótarvernd og dvalarleyfi í Svíþjóð. Kærandi kveðst ekki vilja snúa aftur til Svíþjóðar en þar hafi hann hvorki fengið fjárhagsaðstoð né húsnæði. Kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem kærandi lagði fram með kæru sinni, þ.e. ákvörðun umdæmisstjórnar Kungsholmen, dags. […], og ódagsetta yfirlýsingu […]. Í þessum gögnum kemur m.a. fram að kærandi hafi ekki uppfyllt sænskar reglur um félagslega aðstoð og fái því ekki fjárhagsaðstoð. Þá standi kæranda ekki til boða húsnæði en hann beri sjálfur ábyrgð á að finna sér dvalarstað.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Svíþjóð njóta handhafar viðbótarverndar með dvalarleyfi, líkt og kærandi, aðgangs að sænska vinnumarkaðnum, heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu og öðrum mikilvægum innviðum opinberrar þjónustu, með sambærilegum hætti og sænskir ríkisborgarar. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá bera gögn málsins með sér að kærandi geti leitað til viðeigandi yfirvalda í Svíþjóð telji hann sig verða fyrir mismunun.

Líkt og að framan er rakið greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann glímdi við stoðkerfisvandamál. Það er mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá áréttar kærunefnd að kærandi hefur aðgang að heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. ágúst 2018 hafa dvalið á Íslandi í eitt og hálft ár, árin 2015 til 2016, og ætti vini hér á landi. Ljóst er af gögnum máls að kærandi dvaldi hér á landi á þeim tíma í tengslum við fyrri umsókn sína um alþjóðlega vernd. Að mati kærunefndar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 4. júní 2018.

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018, voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Af greinargerð kæranda verður m.a. ráðið að hann telji ákvæði reglugerðar nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 276/2018, ekki eiga sér viðhlítandi stoð í lögum og ganga gegn lögmætisreglunni.

Tilvitnuð ákvæði reglugerðar nr. 276/2018 eru sett með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem segir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um framkvæmd 36. gr. laganna. Löggjafinn hefur því framselt ráðherra vald til að útfæra framangreind ákvæði nánar og ljóst að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg eins og að framan hefur verið lýst. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessar athugasemdir kæranda.

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 4. júní 2018. Hann sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess.   Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                      Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta